Í þjónustu vonarinnar

Í þjónustu vonarinnar

Vorsólin hefur talað inn í hjartað síðustu daga. Tréin bruma og minna okkur á endurnýjun lífsins. Græn slikjan sem klæðir túnblettina gefur von um nýtt vor. Rétt eins og vorið er vonin lífsnæring í öllum sínum myndum. Vonin segir okkur frá nýju upphafi, fyrirgefningu, lífi sem öðlast tilgang á ný. Þetta hljómar notalega í eyrum í vopnaglamri fjölmiðlanna þar sem okkur er sagt frá tilgangslausum fórnum mannslífa.
fullname - andlitsmynd Irma Sjöfn Óskarsdóttir
14. apríl 2003

Hver sá meðal yðar, sem óttast Drottin, hlýði raustu þjóns hans. Sá sem í myrkrunum gengur og enga skímu sér, hann treysti á nafn Drottins og reiði sig á Guð sinn. Jes 50.10

Vorsólin hefur talað inn í hjartað síðustu daga. Tréin bruma og minna okkur á endurnýjun lífsins. Græn slikjan sem klæðir túnblettina gefur von um nýtt vor. Rétt eins og vorið er vonin lífsnæring í öllum sínum myndum. Vonin segir okkur frá nýju upphafi, fyrirgefningu, lífi sem öðlast tilgang á ný. Þetta hljómar notalega í eyrum í vopnaglamri fjölmiðlanna þar sem okkur er sagt frá tilgangslausum fórnum mannslífa. Það er betra en orð fá lýst að vita að í okkar broguðu veröld er Guð að hvísla nafn barna sinna, kalla til ábyrgðar manneskjur sem finna haldreipi sitt í voninni

Vonleysi

Það er dapurt að dvelja í myrkri hugans. Eiga aðeins skuggann að halla sér að, finna ekki yl, aðeins kulda tilgangslausrar tilveru þar sem öryggið er af skornum skammti. Haldreipið ekkert eða trosnað. Þetta er Guðlaus veröld, veröld sem á sér ekki von og horfir á sig sjálfa í ljósi misviturra ráðamanna. Veröld þar sem manneskjan treystir helst sjálfri sér og mætti sínum þar til allt þrýtur og við stöndum aðeins gagnvart mannvonskunni sem glottir framan í heiminn.

Von

Hvernig orðum við von okkar inn í snauðan heim, snauðan af andlegum verðmætum þar sem mannslíf er oft lítils metið ? Hvernig tölum við um von í heimi þar sem ungar konur í okkar næsta nágrenni ganga kaupum og sölum í kraftleysi fátæktarinnar. Þar sem þúsundir berast á banaspjótum en við verðum þess varla vör heyrum aðeins enduróminn af angist og kvölina. Fórnirnar eru stórar og vopnagnýrinn hávær. En að baki alls þessa hvíslar manneskja, karl eða kona, einstaklingar sem eiga líf og eru börn Guðs. Þrá að eiga von í heimi sem á margar skuggahliðar.

Þetta er heimur málaður dökku litum og hann viljum við ekki bjóða börnum okkar eða nokkurri manneskju yfirleitt. Hvað er til ráða?

Spámenn gamla testamentisins voru ekki menn orðhengilsháttar. Þeir töluðu stórum orðum inn í sinn samtíma, bentu á illgjörðir og vesöld, en að baki orða þeirra var þessi brennandi von. Þeir þorðu að hrópa út á meðal fólksins orðin sem sögðu að heimurinn yrði betri ef þau endurskoðið líf sitt og breyttu betur. Lykilorðið var einfalt sem veitti aðgang að betri heimi: Treystið Guði, ekki hégóma og heimshöfðingjum heldur Guði sem gefur von.

Í þjónustu vonarinnar

Að taka þessi orð alvarlega er að ganga í þjónustu vonarinnar þar sem leiðtoginn er Jesús Kristur. I voninni leiða saman hesta sína uppgjöf og lífsþróttur og lífið hefur sigur að lokum. Að trúa því er að ganga í þjónustu vonarinnar. Þessa þjónustu sem verður stundum ýkja vonlaus ef við treystum ekki að orðin eigi sér innihald og Guð gangi með okkur í leit að nýjum leiðum.

Það er leiðir að finna í veröld þar sem vonin verður ekki aðeins orð á milli manna heldur raunveruleiki sem gaf og gefur heiminum nýtt líf.