Í fyrsta sinn

Í fyrsta sinn

Komandi jól verða þau 45. sem ég hef lifað. Ef ég verð langlífur þá næ ég kannski öðrum 45 en miklu fleiri verða þau nú vart. Þau er hins vegar númer tvö í lífi yngri sonar míns en hann fæddist vorið 2011.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
05. desember 2012

Englar tveirKomandi jól verða þau 45. sem ég hef lifað. Ef ég verð langlífur þá næ ég kannski öðrum 45 en miklu fleiri verða þau nú vart. Þau er hins vegar númer tvö í lífi yngri sonar míns en hann fæddist vorið 2011. Jamm, farið að styttast í tveggja ára afmælið og fjörið í kringum hann er mikið eins og vera ber. Þótt þau séu önnur í röðinni þá mun hann á þessum jólum, í fyrsta sinn bera skynbragð á hátíðina og það sem henni fylgir. Við hlökkum mikið til, ekki síst vegna hins stutta. Hann er á þessu skeiði ævinnar þar sem leikur og nám haldast svo náið í hendur að ekki verður enn greint þar á milli. Nýju orðin ber hann fram, ljómandi af stolti. Hið sama verður sagt um aðra færni, kubbastæðurnar sem hann hleður og púslin sem hann raðar saman – í fyrsta sinn eru tilefni mikillar ánægju. Þvílík gæfa að þekkja ekki muninn á því að skemmta sér og að læra! Foreldrarnir og systkinin hafa setið árum saman á skólabekk. Oft hefðum við viljað leggja frá okkur skræðurnar og gera eitthvað skemmtilegt í staðinn. Fyrir tveggja ára barni er þetta ekkert vandmál. Þá er það leikur að læra og lærdómur er leikur einn. Og gleðin smitar út frá sér. Mikið er það viðeigandi að hátíðin mesta skuli eiga sér upphaf í fæðingu lítils barns. Með því minnir Guð okkur á það sumt er það sem ekki vex, með árum og þroska. Stundum þurfum við að horfa til baka og líta inn í huga þess sem upplifir gjafir lífsins í fyrsta sinn. Þá skynjum við töfrana sem þar er að finna. Enda eins gott, því ævidagar okkar eru takmarkaðir og þvílík sóun að taka þeim sem sjálfsögðum hlut.