Var þetta draumur?

Var þetta draumur?

Var þetta draumur eða ekki? Ég er ekki viss… Þegar ég vaknaði í morgun var ég ekki viss um hvort mig hefði dreymt þetta allt saman. Kannski...En ég fann að eitthvað hafði breyst. Í dag er ég nýr maður. Og svo fann ég þetta fiskibein í vasanum… Jesús er upprisinn! Jesús ER upprisinn!
fullname - andlitsmynd Arna Ýrr Sigurðardóttir
12. apríl 2015
Flokkar

Það var svo skrýtið í gær... Ég var á veiðum með félögum mínum... Vatnið var dauðakyrrt, þokan sleikti andlitin á okkur eins og blautur sokkur þegar við lögðum frá bryggju, lyktin var meira að segja ekki ósvipuð... Við rerum í gegnum mistrið, það var eins og vindurinn hefði ákveðið að í dag væri honum ofaukið, Og hvergi var fiskur... Venjulega kraumaði vatnið en núna var engu líkara en að allur fiskur hefði hlaupið í felur...

Það er skrítið að vera úti á vatni í þokunni. Hljóðið berst öðru vísi og í gær virtust raddir félaga minna, sem voru með mér í bátnum vera langt í burtu. Þokan rann saman við vatnsdropana sem settust á andlit mitt og mér fannst eiginlega eins og ég rynni saman við þokuna... Nema þetta var ekki lengur þoka... heldur var ég umlukinn öllum hugsununum sem ég hafði reynt að forðast. Hvítt mistur hugsana umlukti mig, þakti húð mína eins kaldir vatnsdropar: “Jesús er í raun og veru dáinn. Þetta var ekki bara vondur draumur, martröð. Ég sá hvernig þeir leiddu hann inn í höllina til yfirheyrslu... Og heigullinn ég, ég lét mig hverfa. Renna saman við fólksfjöldann í hallargarðinum, svona eins og ég rann saman við þokuna. Og alveg eins og þokan umlukti mig, þá umlukti óttinn mig. Kaldur, blautur, lamandi. Og þegar Jesús dó á krossinum, þá vissi ég að ég hafði brugðist. Ég hefði átt að gera eitthvað. Ég hefði getað bjargað honum. Ég hefði getað dáið með honum. En ég gerði það ekki. Ég gerði ekki neitt...

Og nú er ég hér. Á veiðum. En það eina sem ég veiði eru fleiri minningar. Minningar um hvernig ég brást. Hvernig ég flúði. Hvernig ég faldi mig. Einhvern veginn tekst mér ekki að komast undan því. Hvorki í vöku né draumi.

Drengir: Hafið þið nokkurn fisk? Rödd mannsins á ströndinni hljómar eins og hann standi við hlið mér í bátnum. Einhver svarar: ,,Nei” “Prófið að kasta netinu hægra megin”. En ólógískt! Hvaða máli skiptir hvort maður kastar hægra eða vinstra megin. Hann hefði alveg eins getað sagt okkur að kasta netinu upp í loftið! En, - Því ekki? Og netið fyllist! Á augabragði kraumar allt af fiski. Og þegar ég lít í kringum mig sé ég að þokunni léttir og ég sé til himins. Og ég sé manninn á ströndinni. Hann stendur og snýr baki í mig. En þegar ég festi á hann augun, þá snýr hann sér við. Og allt í einu grípur mig kaldur, lamandi ótti. Köld þokan sogast öll inn í mig og sest í hverja frumeind líkamans og ég lamast. Hvað ef þetta er hann! Hvað mun hann segja við mig? Ég get ekki tekið augun af honum!

Þetta er Drottinn! Þetta er Drottinn! Hróp Jóhannesar hrifsar mig aftur til veruleikans... Og ég horfi í augu hans. Mannsins á ströndinni. Ég þekki þessi augu. Þau eru hlý, eiginlega glóandi heit. Svo heit að þokan inni í mér gufar upp í hvæsandi bólstrum... Þetta er Drottinn! Ég verð að komast til hans. Ég ætla ekki að missa hann aftur. Týna honum, yfirgefa hann. Ég stekk út í vatnið. En það er kalt og þungt og mér finnst eitt augnablik að þokan ætli að setjastaftur að í líkamanum. En nú veit ég! Nú skil ég! Og ég syndi eins og dauðinn sé á hælunum á mér. Ég óttast það mest að Jesús hverfi, gufi upp, eins og hilling og þá myndi ég sökkva eins og steinn. En svo er heitur mjúkur sandur undir fótum mér. Og Jesús er ennþá þarna. Hann er ekki horfinn. “Loksins ertu hérna, Pétur”, segir hann. “Sestu niður og yljaðu þér við eldinn. Og svo skulum við borða saman. Eins og hér áður fyrr”

Var þetta draumur eða ekki? Ég er ekki viss… Þegar ég vaknaði í morgun var ég ekki viss um hvort mig hefði dreymt þetta allt saman. Kannski...En ég fann að eitthvað hafði breyst. Í dag er ég nýr maður. Og svo fann ég þetta fiskibein í vasanum… Jesús er upprisinn! Jesús ER upprisinn!