Leiðarstjarnan

Leiðarstjarnan

Það sem gerðist fyrir tvöþúsund árum í Betlehem eða árið 1966 í Leningrad er að gerast hjá þér á þessum jólum. Leitaðu eftir leiðarstjörnunni, sem vísar þér inn í rökkvaða herbergið, þar sem er logandi kerti á stjaka.
fullname - andlitsmynd Örnólfur Jóhannes Ólafsson
27. desember 2014

Fyrir rúmum tvö þúsund árum fylgdu þrír vitringar frá austurlöndum leiðarstjörnu. Þeir komu eftir langa för að litlu útihúsi í borginni Betlehem, gengu inn og sáu þar nýfætt barn vafið reifum og liggjandi í jötu. Í kring voru foreldrarnir og dýr. Vitringarnir krupu niður hjá barninu, veittu því lotningu og gáfu því gjafir gull reykelsi og myrru.

Árið 1966 voru breska tónskáldið Benjamin Britten og lífsförunautur hans söngvarinn Peter Pears staddir á jólum í borginni Leningrad, sem í dag heitir aftur sínu gamla nafni Sankti Pétursborg. Þeir báðu um að fá að sjá Hermitagesafnið þar í borg og fyrir töfra sovétsins var það opnað fyrir þeim og þeim fenginn leiðsögumaður. Safnið er á stærð við Louvresafnið í París og British Museum í London. Það var byggt af Katrínu miklu keisaraynju í Rússlandi árið 1764 og síðar marg stækkað. Safnið hýsir um þrjár milljónir listgripa í um 1300 herbergjum. Britten og Pears komu inn í rökkvað herbergi, þar sem voru Rembrandtmálverk.

Á einum veggnum var málverk Rembrandt af föðurnum að taka á móti týnda syninum, túlkun hans á dæmisögunni frægu úr Biblíunni. Við þessa mynd staðnæmdust Britten og Pears og horfðu lengi á hana. Á myndinni kraup týndi sonurinn fyrir framan föður sinn. Hann var boginn í baki, nauðrakaður og í slitnum skóm. Faðirinn var eitt bros og tók syninum með opnum faðmi. Til hliðar mátti sjá þrjár persónur, horfa á með vandlætingarsvip, óvild og undrun. Af öllum fjölda listgripa safnisns átti þessi mynd hug tónskáldsins allan.

Á heimleiðinni frá safninu var tekin að mótast í huga Britten hugmynd að óperu. Myndin í rökkvaða herberginu var kveikjan. Þegar heim til Englands var komið fékk Britten enska ljóðskáldið William Plommer til að semja texta óperunnar og tveimur árum seinna, árið 1968 var óperan The prodigal son eða „glataði sonurinn“ ópus 81, frumflutt.

Á vissan hátt eru þessar tvær sögur sambærilegar, sem við fyrstu sýn virðast fátt eða ekkert eiga sameiginlegt, hvað þá að verða efni í jólahugleiðingu. Við nánari skoðun má þó sjá Hermitagesafnið með öllum sínum herbergjum sem tákngerfingu fyrir heiminn eins og við þekkjum hann í dag með öllu sínu glysi. En mitt í öllu óhófinu er bara eitt lítið, sem fangar athyglina. Allt hitt, fellur í skuggann.

Það sem gerðist fyrir tvöþúsund árum í Betlehem eða árið 1966 í Leningrad er að gerast hjá þér á þessum jólum. Leitaðu eftir leiðarstjörnunni, sem vísar þér inn í rökkvaða herbergið, þar sem er logandi kerti á stjaka. Vitringarnir gengu út í lífið með birtu í hjarta. Benjamin Britten samdi óperu. Þú gefur af þér á þessum jólum af hjarta þínu til þeirra sem þér þykir vænt um. Jólin byrja ekki í auglýsingunum. Þau byrja í þér.

Gleðileg jól!