Þjóðarskútan

Þjóðarskútan

Já, við njótum öryggis á þjóðarskútunni. Hvers konar varnaviðbúnaður er öflugri og útbreiddari en nokkru sinni. Tilkynningarskylda, staðsetningartæki, allir reyndar gjörtengdir og staðsettir. Eftirlitsmyndavélar á hverju horni. Svo er velferðarnet samfélagsins betra hér á landi en víðast annars staðar. En hvers vegna er þá ekki allt í lagi á þjóðarskútunni?
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
03. júní 2007
Flokkar

Nú fór hann í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum. Þá gjörði svo mikið veður á vatninu, að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf.

Þeir fara til, vekja hann og segja: Herra, bjarga þú, vér förumst.

Hann sagði við þá: Hví eruð þér hræddir, þér trúlitlir? Síðan reis hann upp og hastaði á vindinn og vatnið, og varð stillilogn.

Mennirnir undruðust og sögðu: Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða honum. Mt 8. 23-27

Gleðilega hátíð, til hamingju með Sjómannadaginn. Guð blessi þennan dag og allt sem hann stendur fyrir í vitund og minningu þjóðarinnar. Sjómannadagsráði árna ég heilla á tímamótum og þakka í nafni Þjóðkirkjunnar öflugt starf og ötula forystu í þágu sjómanna í sjötíu ár. Guð launi það og blessi allt.

Sjómannadagurinn er þakkargjörð og heilög minning. Í helgidómum umhverfis landið eru þakkir færðar góðum Guði fyrir hafið og gæði þess, og jafnframt er minnst og þakkað fyrir vaska sveit sjómannanna okkar og þeim vottuð virðing sem týnt hafa lífi á sjó.

Þeir fornu textar sem tilheyra sjómannadeginum tengjast allir með einum eða öðrum hætti sjóferðum og sjávarháska. Þar er eitt stef gegnum gangandi. Það sem segir í þeim elsta þeirra, Davíðssálminum: „(Guð) leiddi þá til þeirrar hafnar er þeir þráðu.“ Þetta eru allt reynslusögur af tvísýnni glímu við náttúruöflin, reynsla sem verður líka mynd af reynsluheimi mannsins á lífsins leið í viðsjálum heimi, og boðskapur um öryggi sem þrátt fyrir allt er að finna og markmið sem lífi manns er sett.

Þjóðarskútan

Við líkjum íslensku samfélagi gjarna við skip, „þjóðarskútan“ ber oft á góma. Út af fyrir sig merkilegt og séríslenskt, að því ég best veit - nágrannar okkar á Norðurlöndum tala fremur um „þjóðarheimilið“– Þetta sýnir þau djúpu áhrif sem sambúð okkar við hafið hefur haft á samfélag okkar og menningu. Við erum öll á sama báti og á sama sjó, og með sama mark og mið. Við eigum sameiginlega minningu, reynslu og sögu, og þar leikur hafið lykilhlutverk og fangbrögð forfeðra og mæðra við reginöfl þess. Á sjó er áreiðanlega augljósara en annars staðar hve samheldni og traust skiptir miklu máli um farsæld og fararheill. Ég fullyrði reyndar að þessi samvitund um söguna, samstaða um siðinn, og gagnkvæmt traust hefur hingað til skipt sköpum varðandi farsæld og hagsæld íslenskrar þjóðar. Þar byggjum við á traustri arfleifð sem við megum ekki glata. Í okkar samtíð er öryggi fyrirrúmi. Við höfum sannarlega séð árangur stóraukins eftirlits og slysavarna á sjó og á landi. Þökk sé þeim vökumönnum sem að því hafa stuðlað, og þeim mörgu sem leggja krafta sína að björgunarstörfum og slysavörnum. Þjóðin á þeim ómetanlega þakkarskuld að gjalda. Og það er víst að í þeim efnum verðum við að halda vöku okkar. Slysatíðni hefur lækkað, forvarnir gegn alls kyns sjúkdómum skilar sér í betri heilsu og hækkandi meðalaldri og auknum lífsgæðum. Við ættum að vera svo örugg sem hugsast getur.

Já, við njótum öryggis á þjóðarskútunni. Hvers konar varnaviðbúnaður er öflugri og útbreiddari en nokkru sinni. Tilkynningarskylda, staðsetningartæki, allir reyndar gjörtengdir og staðsettir. Eftirlitsmyndavélar á hverju horni. Svo er velferðarnet samfélagsins betra hér á landi en víðast annars staðar. En hvers vegna er þá ekki allt í lagi á þjóðarskútunni? Hvers vegna eru menn svo öryggislausir sem raun ber vitni undir brynjunni og beltunum, vökulum augum eftirlitsins, pottþéttu og póleruðu yfirborðinu? Hvers vegna er þunglyndi og fælni svo útbreidd sem raun ber vitni, vímufíkn sívaxandi vandi, sem og annar lífsflótti? Hvers vegna velja ungar manneskjur að hafna lífinu? Hvað veldur hörkunni og óbilgirninni sem hvarvetna virðist fara í vöxt, sem við sjáum til dæmis í sífellt grófari líkamsárásum hér á götum borgarinnar og sífellt grófara heimilisofbeldi og misbeiting? Hvað veldur? Þar ber vafalaust margt til. Sökudólgarnir eru ótal margir og þeir eru aldeilis yfir og allt um kring. Tölvuheimurinn og netveröldin geymir meiri hættur og lævíslegri áhrifavalda en við getum ímyndað okkur. Og sölumenn dauðans sitja um unga fólkið okkar og leggja snörur sínar og svífast einskis. Þar er alveg áreiðanlegt. Hvað er til varnar? Móðir eins fórnarlambs tilefnislausrar líkamsárásar kom fram í fréttum í vikunni sem leið með þung og áhrifarík viðvörunarorð, og talaði um uppeldi og siðferðisþrek. Það er áreiðanlega kjarni málsins. Ómar Ragnarsson ritar umhugsunarverðan pistil á netið um þetta og fullyrðir að mest sé „um að kenna uppeldinu eða kannski frekar í uppeldisleysinu, agaleysinu, taumleysinu, firringunni og óþolinu sem einkennir okkar tíma. Þetta brýst fram í þeirri fíkn valda sem ... birtist í peningum, dýrum hlutum, hnefum, bareflum og vopnum, - öllu því sem færir ofstopamanninum ótakmarkað andlegt og líkamlegt vald yfir öðrum. Þetta felst í þeim lífsstíl nútímans sem á sér engin takmörk í valdafíkn á öllum sviðum, - allt til þess valds sem menn taka sér til að hafa líf og limi annarra í hendi sér. “ Svo mörg voru þau orð.

Skyldi vera að ofstopinn og yfirgangurinn í samskiptum á götunni og á skuggalendum næturlífsins eigi sér samsvörun í orðbragði, grófyrðum, ruddatali og sóðaskap sem sífellt verður algengari í daglegri umgengni og orðræðu hinna ungu? Jafnvel ungra barna. Hvaðan sprettur það? Það eru gömul sannindi og ný að það mæla börnin sem fyrir þeim er haft.

Hvers vegna er svona erfitt að lifa hinu góða lífi á þjóðarskútunni okkar, þar sem við höfum allt til alls? Það er ekkert einfalt svar við því. Svo virðist sem okkur sé örðugra en fyrri kynslóðum að lifa við óvissu og öryggisleysi. En hið örugga líf, vakúmpökkuð, dauðhreinsuð tilvera er ekki til. Að telja sér trú um það er ekkert nema lífsflótti, draumurinn um vandkvæðalaust líf, án núnings og árekstra, er tál þeirrar samtíðar sem reiðir sig á tæknilausnir. Engin tækni, engar varnaraðgerðir og engin lyf geta vakið lífsþrótt og lífsgleði sem veitir innra öryggi og æðruleysi í voða, vanda og þrautum daglegs lífs, þegar öll kunnátta okkar er á þrotum. Það gerir vonin ein, von sem sprettur af góðvild og umhyggju og er gjöf himinsins, gjöf Guðs þeim sem þiggja vill. Og er miðlað með bæn sem snýr vitund og vilja til birtunnar og lífgandi, mildandi, bætandi áhrifa hennar.

Guð veit

Sagt var um bandaríska rithöfundinn og háðfuglinn Mark Twain að eitt sinn er hann átti stórafmæli vildi hann vera að heiman og forðast athygli. Vinir hans vildu samt senda honum kveðju og ákváðu að treysta á að póstþjónustan hefði upp á honum. Þeir sendu því kveðju með þessari utanáskrift: „Mark Twain, Guð veit hvar.“ Og póstþjónustan brást ekki og kom kveðjunni í réttar hendur. Einhverju síðar barst þeim vinunum þakkarkveðja frá rithöfundinum svohljóðandi: „Já, hann vissi það!“ „Guð veit“ það er fullvissa kristinnar trúar. Guð veit hvar þú ert og hvað þér hagar. Hann veit og skilur það sem í huga þínum og hjarta býr. Hag þinn og ráð, þrá þína og þörf þekkir hann. Hann veit og hann skilur og hann metur allt rétt. Það er mikil huggun í því fólgin, huggun og von, sem þó er enginn svæfill heldur hvatning til dáða. Því sá Guð sem veit og skilur, er Guð sem tekst á við það sem ógnar og deyðir. Það sýnir kross frelsarans. Hann snýr böli til blessunar, sorg í gleði. Við megum vita og treysta að í innsta grunni tilverunnar er ekki hið illa og óttalega, ekki ógnin, eyðingin, heldur hið góða, fagra og bjarta. Það blasir ekki við, af því að hitt gnæfir iðulega yfir. En við erum hvött til að reiða okkur á það. Að trúa.

„Trú er að trúa því sem við sjáum ekki. Umbun trúarinnar er að sjá það sem við trúum,“ sagði Ágústínus kirkjufaðir forðum. Svo staðfestir öll reynsla að það sem fyllir hugsun, vonir, drauma, væntingar, það mótar mann. Af þessum sökum er hin innri sjón, hin innri sjónsvið og viðmið, svo mikilvæg. Og svo mikilvægt að hin unga sál og vaknandi vitund fari ekki á mis við það sem veitir þá innri sjón og viðmið, yfir áreitin og áhyggjurnar til birtunnar og friðarins sem Guð er og gefur.

Guð hjálpar

Vitur maður sagði að í raun og veru væri aðeins tvennt í tilverunni sem væri óskýranlegt. Annað er hið illa, illskan, hitt er hið góða, góðvildin.

Frásagnirnar af kraftaverkum Jesú eru vitnisburður um góðan Guð, um skapandi, læknandi, lífgandi mátt sem er að verki í heiminum. Við erum menn, manneskjur sem skelfumst storma og stórsjói lífs og tilveru, við þráum hið örugga líf, laust við allan vanda, ógn og vá. Það fæst seint í þessum heimi. En Drottinn vill gefa okkur trú, sem er traust. Hvað er það? Hlustaðu á barnið sem grætur og sefast við móðurbrjóst! Það er traust. Sjáðu barnið á leikvellinum sem stekkur úr rólunni í fang föður síns. Það er traust. „Hví eruð þér hræddir, þér trúlitlir?“ spyr Jesús, lausnarinn, og breiðir út faðm sinn. Það eru eilífir armar sem aldrei bregðast, það er eilíf náð sem umvefur sérhvert barn, eilíf líkn og návist í hverri raun. Hann breytir stormviðrinu í blíðan blæ svo bylgjur hafsins hljóðna, og bylgjurnar og stormarnir sem inni fyrir búa. Það muntu líka fá að reyna og sjá.

Minning

Hér í Dómkirkjunni er að venju á sjómannadegi fáni með stjörnum. Að þessu sinni eru þær fimm, þær tákna fimm einstaklinga sem fórust á sjó á umliðnu ári. Stjörnurnar eru inni í krossi. Taktu eftir því. Þær tákna hver fyrir sig einstakling, að baki hverrar stjörnu er nafn, saga, örlög, sorg, söknuður ástvina og samferðarmanna. Stjörnurnar eru inni í krossinum. Það minnir á að þau hvíla í faðmi frelsarans og nöfn þeirra og líf er geymt í föðurhjarta Drottins. Við sameinumst í bæn fyrir þeim og ástvinum þeirra og sendum hugheilar samúðarkveðjur þeim og öllum sem syrgja og sakna.

Á þessari stundu verður lagður blómsveigur að minnisvarða óþekkta sjómannsins í Fossvogskirkjugarði í virðingu, þökk og samúð. Rísið úr sætum og við lútum höfðum í þögn.

+ Friður Guðs sem er æðri öllum skilningi varðveiti hjörtu yðar og hugsanir í Kristi Jesú, Drottni vorum. Amen Í Jesú náðar nafni. Amen.