Heimsljós

Heimsljós

Hvað segir maður þegar maður gerir krossmerki framan á sig? Spurningunni var beint til barnahóps í kirkjunni. Ég átti von á, að hið hefðbundna kæmi: “Í nafni Guðs föður, sonar og heilags anda.” Einn drengurinn rétti snarlega upp hendi og vildi fá að svara og sagði fullviss og ákveðinn: Maður segir: “Ég er ljós heimsins!”
fullname - andlitsmynd Sigurður Árni Þórðarson
19. desember 2008

LJósatréHvað segir maður þegar maður gerir krossmerki framan á sig? Spurningunni var beint til barnahóps í kirkjunni. Ég átti von á, að hið hefðbundna kæmi: “Í nafni Guðs föður, sonar og heilags anda.” Einn drengurinn rétti snarlega upp hendi og vildi fá að svara og sagði fullviss og ákveðinn: Maður segir: “Ég er ljós heimsins!”

Þetta var auðvitað óvænt en flott svar!

Við ræddum svo um signingu, föður, son og heilagan anda og hvernig Guð skapar allt, ljósið og lífið. Svo var komið að lokum samverunnar. Öll vorum við sammála um, að þegar einhver færi úr húsi væri vaninn að kveðja, segja bless. Og þannig væri það líka í lokin á öllum messum. Þá lyfti presturinn höndum, talaði sem boðberi Guðs og segði bless við fólkið í kirkjunni. En hvaða orð notaði presturinn þá? Aftur lyfti strákur hendi. Eftir fyrra svar var spennandi að heyra hvaða útgáfa af Guðsblessuninni kæmi frá þeim birtusækna. Hvað segir presturinn?

Aftur svaraði hann fullviss: “Presturinn segir: Ég er ljós heimsins.”

Ljós heimsins. Þetta lifði í mér. Drengurinn var sannfærður um, að þetta væri aðalatriðið og þessa lykilsetningu mætti fara með í öllum aðstæðum og alls staðar. “Ég er ljós heimsins.” Já, Guð er heimsljósið.

Stuðið hjá og frá Guði

Oft hefur verið spurt: Ef Guð er ljós heimsins er ekki rafmagnsreikningurinn dálítið hár á þeim bæ? Jú, himinstuðið væri dýrt ef Guð þyfti að kaupa það. En þannig er ekki skipulagið. Guð fær ekki orkuna framleidda fyrir sig, Guð er ekki orkuþegi eða stuðkaupandi. Guð er orkubú veraldar. Guð skapar þá orku, eða jafnvel er sú orka, sem heldur efninu gangandi svo það falli ekki saman og stirðni. Líf okkar er frá Guði. Við fáum alla gleði og alla von frá honum. Nánd Guðs er alger.

En hins vegar, ef við reynum að stela orku frá einhverri annarri uppsprettu verður reikningurinn hár. Orkan úr aðalveitunni, Guðsveitunni, er okkur ókeypis, því við erum börn Guðs. Straumstuldur annars staðar frá er kölluð synd. Það framhjáhald í hinum innri heimi leiðir til áfalls og rofs. Kerfið fer í kleinu og allt hrynur.

Endurvarp ljóssins

Jesús segir: Ég er ljós heimsins. Svo segir hann líka: Þér eruð ljós heimsins. Það merkir, að við eigum að láta ljós okkar skína. En hver konar ljós er það? Hvað í okkur megnar að glansa? Við erum kannski heldur litlir ljósgjafar. Við erum stundum ekkert góð, heldur ill, döpur og eiginlega í mínus.

Þessa dagana brosir máninn á himni, stór, áberandi og skínandi. Við megum gjarnan íhuga hæfni tunglsins og eðli skins þess. Tunglið er kalt og dimmt en lýsir samt. Hvernig má það vera? Það þiggur ljós af sólinni. Eins er í lífinu. Ef við þiggjum ljós okkar frá Guði, þá getum við orðið öðrum ljós, endurvarað ljósi Guðs.

“Ég er ljós heimsins” minnti drengurinn á svo eftirminnilega. Sú lykilsetning getur opnað dyr að heimsljósinu. Allir mega og geta verið í stuði hjá Guði. Kveiktu á perunni. Leyfðu þér að vera endurvarp birtunnar og þar með til góðs fyrir aðra.