Blóm kærleikans í kulda heimsins

Blóm kærleikans í kulda heimsins

fullname - andlitsmynd Sighvatur Karlsson
13. apríl 2003
Flokkar

Guðspjall: Mark. 14: 3-9 Lexia: Jes. 49.13-16a Pistill: Heb. 12.1-3

Flestir guðspjallstextar pálmasunnudags fjalla um Jesú þar sem hann ríður hógvær á asna inn um hlið Jerúsalemborgar haldandi á vit örlaga sinna og fólkið fagnar honum sem konungi veifandi pálmagreinum án þess að gera sér grein fyrir því hvers eðlis ríki hans sé. Að þessu sinni íhugum við hins vegar frásögu Markúsar guðspjallamanns af því þegar kona ein tók sig til og braut fulla leirflösku af dýrum smyrslum og hellti ekki nokkrum dropum heldur öllu innihaldinu yfir höfuð Jesú. Þegar gest var að garði þá var til siðs að hella nokkrum ilmdropum á hann áður en hann settist til borðs. Það kunna að vera ýmsar ástæður fyrir því að konan braut leirflöskuna og hellti öllu innihaldinu yfir höfuð Jesú.. E.t.v. gerði hún það til tákns um að allt innihaldið skyldi nota til þess arna. Það var til siðs þar austur frá á þessum tíma að ef gestur sem naut mikillar virðingar bar að garði þá var ilmflaskan brotin til þess að enginn sem naut minni virðingar myndi nota hana. E.t.v var konan að hugsa um þetta. En eitt var það í huga hennar sem hún hugsaði ekki út í heldur Jesús. Það tengist smurningu smurningu látinna. Fyrst voru líkin böðuð og síðan smurð með ilmefnum til þess að fresta rotnunarferlinu. Síðan voru ilmflöskurnar brotnar og brotin lögð við hlið líkunum þar sem þau voru lögð fyrir í gröfunum. Enda þótt konan hafi ekki haft þetta í huga þá gerði Jesús sér grein fyrir því að hún var vissulega að smyrja sig hinni hinnstu smurningu. .

Jesús var staddur í húsi Símonar holdsveika í Betaníu og liggur til borðs eins og þá var til siðs. Þannig að konan hefur komið gangandi að baki honum og haft töluvert ráðrúm til athafna. Margir hneyksluðust á gjörðum hennar en talið var að innihald flöskunnar hafi verið 300 denara virði en einn denar samsvaraði daglaunum verkamanns á þeim tíma. Þannig hefði tekið verkamann um eitt ár að vinna fyrir innihaldi flöskunnar. Sumir sögðu sem á horfðu að nær hefði verið að gefa fátækum peningana en að spilla smyrsllnu með þessu móti. En Jesús skildi hvað konan var að gjöra með þessu atferli sínu. Hann svaraði þeim með því að vitna í þeirra eigin ritningu er hann sagði. “Látið hana í friði. Hvað eruð þér að angra hana? Gott verk gjörði hún mér. Fátæka hafið þér jafnan hjá yður og getið gjört þeim gott, nær þér viljið en mig hafið þér ekki ávallt. Hún gjörði það sem í hennar valdi stóð. Hún hefur fyrirfram smurt líkama minn til greftrunar”.

Þessi saga segir frá innilegu kærleiksverki þar sem einskis endurgjalds er krafist. Jesús sagði að konan hefði auðsýnt sér góðverk. Í grísku eru tvö orð yfir góðverk. Um er að ræða orðið agathos sem lýsir einhverju sem er siðferðilega gott. Hins vegar er um að ræða orðið kalos sem nær yfir nokkuð sem er ekki bara gott heldur innilegt, ástúðlegt, kærleiksríkt. Atferli gæti vissulega verið gott en á sama tíma verið erfitt, miskunnarlaust, hryssingslegt, En eitthvað sem er kalos er ljúfmannlegt og indælt, töfrandi. Atferli konunnar leiddi nákvæmlega þetta af sér þegar hún gerði það sem í hennar valdi stóð til þess að auðsýna Jesú kærleika.. Kærleikur leiðir ekki einungis af sér góð verk heldur einnig ljúfa hluti sem sitja eftir í minningunni. Þessi kærleikur krefst einskis í staðinn, reiknar ekki kosnaðinn sem af verkinu leiðir áður en til hans kemur heldur hrindir honum í framkvæmd. Tækifærin til kærleiksverka eru mörg í þessum heimi. Stundum koma þau þó aðeins einu sinni upp í hendurnar á okkur og þá er um að gera að grípa tækifærið og láta gott af okkur leiða. Það er hörmulegt til þess að vita að stundum finnum við til mikiillar löngunar til þess að auðsýna kærleiksverk en samt gerum við það ekki. E.t.v. veldur feimni því að við gerum það ekki eða að við höldum að góðverk okkar virki kjánalegt í augum annarra. Það kann að vera fyrir það að við erum viðkvæm fyrir umtali. Þegar við hins vegar gefum okkur meiri tíma til að hugsa um það sem okkur langar til að gera þá gerum við það með varfærnum hætti. Slíkt kemur í ljós með ýmsum hætti. T.d. þegar við finnum hjá okkur hvöt til þess að senda frá okkur þakkarbréf, þegar við viljum segja einhverjum frá því hversu þakklát við erum í hans eða hennar garð eða hversu vænt okkur þykir um hann eða hana. Það sem er svo leiðinlegt er hversu oft þessi hvöt okkar kafnar í fæðingu. Vissulega myndi þessi heimur sem við lifum í vera kærleiksríkari ef til væri fleira fólk sem væri líkt og þessi kona sem lét engar annarlegar hugsanir koma í veg fyrir að hún gæti auðsýnt Jesú kærleiksverk. Hún vissi í hjarta sínu að ef hún gerði þetta ekki núna þá myndi hún aldrei gera það. Þessi hvatvísa kærleiksríka kona vakti athygli Jesú og kærleiksverk hennar snerti við hjarta hans.

Jesús hafði til að bera slíkt traust til Guðs föður síns að ekkert fékk hann til þess að trúa því að krossdauðinn sem vofði yfir honum myndi marka endalokin. Hann trúði þvi að góðu fréttirnar myndu fara um heimsbyggðina alla. Og að góðverks þessarar konu myndi þar minnst verða sem var knúin áfram af sínu góða hjartalagi.

Vélmennið er uppfinning okkar tíma. Það getur gert ýmislegt og með hinni mestu nákvæmni. Það á eflaust eftir að verða fullkomnara með tímanum. En það er óhugnanlegt tæki því að það hefur ekkert hjarta.

Vélmenni sem hefur ekki hjarta er hart og kalt. Ekki er til neitt ógeðfelldara en lifandi menn af holdi og blóði sem eru harðir í hjarta. Því miður eru slíkir menn ekki aðeins hugarburður. Þeir eru til í þessum heimi og þeim fjölgar sífellt.

Þeir hrundu heimsstyrjöldinni af stað og styrjöldin kallaði fram fleiri slíka menn. Og nú er heimurinn að farast vegna skorts á kærleika manna á milli en stríðandi fylkingar eigast nú við suður í Írak og mikil hætta er á því að átökin breiðist út vegna þess haturs sem ríkir í garð Bandaríkjamanna sem nefndir eru hinir nýju krossfarar um þessar mundir þar suður frá. Nú í hádegisfréttur var greint frá því að íslenskur ríkisborgari sem hefur ríkisborgararétt í Bandaríkjunum og hefur búið þar s.l. 16 ár hefði ákveðið að afsala sér ríkisborgararétti þar vegna þeirrar vitfirringar sem einkennir Bandaríkst þjóðfélag í dag og hefur búið um sig síðast liðin 20 ár, svo notuð séu hans eigin orð.

Aðeins eitt gott getur stríð fært okkur. Það getur fært okkur aukinn friðarvilja sem felur í sér aukna samkennd með hvert öðru, ekki síst með þeim mörgu saklausu sem þjást og líða. Fjölmðlar og netið færa okkur hörmungar stríðsátaka heim í stofu og því er ekki hægt að fela hörmungarnar eins og áður.

Í gær var haldinn alþjóðlegur baráttudagur gegn stríði. Í Svíþjóð greindi sænskur mannlegur skjöldur sem nýkominn var heim frá Írak frá því að 8 apríl voru mörg þúsund manns drepin í Bagdad, hermenn og óbreyttir borgarar. Markmiðið með því virtist óljóst nema að vekja skelfingu meðal óbreyttra borgara. Hann sagði jafnframt frá því að Bandaríkjamenn hafi skotið tvo verði við dómsmálaráðuneytið, sprengt upp hliðin að byggingunni og hvatt svo almenning sem stóð og horfði á til að halda inn í hana og ná í það sem fólkið vildi. Sama gerðist við Listasafn borgarinnar þar sem fjöldi listaverka var eyðilagður.

Þegar utanríkisráðherra Bandaríkjanna var spurður út í gripdeildirnar þá svaraði hann því til að frelsið væri strembið, Frjálst fólk hefði frelsi til að gera mistök, brjóta af sér og gera slæma hluti. Svo mörg voru þau orð. Við hin teljum frelsið vera takmarkað af lögum og reglum sem betur fer. Því spyr maður sig hvers vegna tvær milljónir bandaríkjamanna sitiji í fangelskum í dag í eigin landi vegna litarháttar og fátæktar ef afbrot eru hluti af frelsinu?

Jesús sagði að sannleikurinn myndi gjöra menn frjálsa. Þá fyrst yrðu menn frjálsir er þeir myndu gangast undir og tileinka sér kærleiksboðskap sinn. Nýtt boðorð gef ég yður sagði frelsarinn, að þér elskið hver annan.

Heimurinn getur ekki séð Guð nema lærisveinar Jesú láti hjartalag hans knýja sig áfram og auðsýni hver öðrum og öllum mönnum kærleika.

Heimurinn þarfnast manna sem hafa hjarta, heitt hjarta, vegna neyðar annarra. Ef til vill hittir þú einhvern í dag sem er orðinn bitur, einhvern sem álítur að blóm kærleikans sé dautt í kulda heimsins. Sýndu honum að Guð elskar hann eins og hann er og mun aldrei yfirgefa hann hvað sem á dynur.