Vorið kom hlæjandi, hlaupandi...

Vorið kom hlæjandi, hlaupandi...

Það er ekki víða talað um sumar í Biblíunni, en á einum stað minnir Jesús á sumarið og bendir okkur á að huga að fíkjutrénu og gæta að því að það vaxi og dafni. Þannig er það líka með eigin trú og trúarvitund. Trúna þarf að rækta og það þarf að hlúa að henni alveg eins og að huga þarf að fíkjutrénu.
fullname - andlitsmynd Lára G Oddsdóttir
15. maí 2008

Vorið kom hlæjandi hlaupandi niður hlíðina vestan megin. Engri sjón hef ég orðið jafn bundinn og alls hugar feginn.

Ég tók það í fang og festi mér það sem fegurst og best ég þekki. Mánuður leið, mannsaldur leið, og ég missti það ekki.

Þannig minnir Guðmundur Ingi Kristjánsson frá Kirkjubóli í Önundarfirði á vorkomuna í einu kvæða sinna. Ljóðið kom upp í huga minn fyrir skemmstu þegar ég leit út um gluggann minn og við mér blasti vorið allt í einu.

Það var komin græn sklikja á lerkið í hlíðunum í kringum mig, Maríuerlan var önnum kafin við að búa sér hreiður einhvers staðar nálægt mér, sennilega í þakskegginu fyrir ofan gluggann minn. Þrestirnir hafa líka verið á fullu í garðinum og gæsirnar vappa virðulega tvö og tvö um túnið.

Og svo hinn hefðbundni vorboði í sveitinni sauðburðurinn er hafinn á fullu og lömbin meira að segja farin að vappa um og leika sér á heimatúninu.

Það er yndislegt að fá að njóta vorkomunnar, fá að setjast út og draga að sér vorloftið, hlusta á lækina spretta fram úr fjallshlíðinni og heyra þá hljómkviðu blandast saman við kvak fuglanna. Og svo spranga hreindýrin um túnið og skógræktina og leita sér að grængresi og bíða þess að snjórinn hverfi úr sumarheimkynnum þeirra.

Já, vorið er sannarlega komið og það kom hlæjandi, hlaupandi.

Vorkoman minnir líka á að nú hefst brátt nýtt tímabil í kirkjuárinu – við köllum það stundum græna tímabilið. Þá er messuskrúðinn og altarisklæðin græn að lit og er hugsað til þess að minna okkur á að þetta tímabil er tími vaxtar og þroska í trúnni.

Textar þessa tímabils í kirkjuárinu draga gjarnan athygli okkar að þvi að efla okkar eigin trú – að standa stöðug með Kristi og hlusta eftir því þegar andinn heilagi, hjálparinn, talar til okkar og leiðbeinir um veginn sem Jesú Kristur beinir okkur.

Það er ekki víða talað um sumar í Biblíunni, en á einum stað minnir Jesús á sumarið og bendir okkur á að huga að fíkjutrénu og gæta að því að það vaxi og dafni.

Þannig er það líka með eigin trú og trúarvitund.

Trúna þarf að rækta og það þarf að hlúa að henni alveg eins og að huga þarf að fíkjutrénu.

Já, það er yndislegt að fá að upplifa vorkomuna.