Sköpunargleði

Sköpunargleði

Þar sem kristin hugsun sér Jesú Krist sem upphaf hinnar nýju sköpunar hlaut hans jarðneska koma að hefjast á sama tíma og sköpunarverkið í árdaga. Hann sem „var og er og kemur“ dafnaði í lífi móður í 9 mánuði til að fæðast mannkyni til lífs og gleði.

„Og Guð leit allt sem hann hafði gert, og sjá, það var harla gott“ (1Mós 1.31). Þannig segir fyrri sköpunarsaga Biblíunnar frá kvöldi hins sjötta dags, þegar Guð var við það að ljúka verki sínu: „Sjá, það var harla gott“. Gleði Guðs yfir sköpunarverkinu er í fyrirrúmi. Veröldin var góð og allt með henni. Svo varð sundrung hinna góðu tengsla Guðs og manns og sköpunin – að mannkyni meðtöldu - hefur glímt við afleiðingar þess æ síðan (sbr. Róm 8.18-25).

Við kristið fólk trúum því að endurreisn þeirra gleðiríku tengsla sem Guð gaf sköpun sinni í vöggugjöf hafi orðið með fæðingu, lífi, dauða og upprisu Jesú Krists. Og til að fagna verki hans og veru höfum við raðað trúarlífi okkar niður eftir viðburðum í lífi Jesú. Við köllum þá niðurröðun kirkjuár.

Oft er spurt hvers vegna jólin séu 25. desember. Hvers vegna höldum við fæðingarhátíð frelsarans einmitt þá? Er það vegna þess að heiðin hátíð þurfti að fá kristið innihald? Nei, sagði prófessor Einar Sigurbjörnsson á námskeiði Starfs- og leikmannaskóla þjóðkirkjunnar sem haldið var í síðustu viku nýliðins kirkjuárs. Það var fjærri kristnum mönnum á 4. öld að vilja „kristna“ heiðar hátíðir. Þeim var mjög í mun að fjarlægja sig sem mest frá heiðindómi.

Fyrir tímasetningu jólanna liggja veigamikil rök sem sótt eru til sköpunarguðfræði Gyðingdóms. Sköpunin, er sagt, átti sér stað að vori. Við jafndægur að vori – sem um tíma voru sett 25. mars - varð heimurinn til. Og þar sem kristin hugsun sér Jesú Krist sem upphaf hinnar nýju sköpunar hlaut hans jarðneska koma að hefjast á sama tíma og sköpunarverkið í árdaga. Hann sem „var og er og kemur“ (OpJóh 4.8) dafnaði í lífi móður í 9 mánuði til að fæðast mannkyni til lífs og gleði. Á aðventu horfum við fram til þess tíma að sköpunin sjálf „fái frelsið í dýrðinni með börnum Guðs“ (Róm 8.21). Það er hin sanna sköpunargleði.