Spekinnar augu

Spekinnar augu

Trúin hefur ekkert að gera með gáfur, hæfileika eða möguleika í lífinu. Trúin kemur að innan, hún er systir spekinnar, samofin kærleikanum, útþanin af heilögum Anda og á sér uppsprettu í Skapara alls sem er, afli sem er stærra og meira en við höfum hugmyndaflug til að greina.
fullname - andlitsmynd Lena Rós Matthíasdóttir
07. desember 2009

Kerti - mynd: Árni Svanur Daníelsson

Ég horfði um stund á morgunroða lífsins og teigaði döggina af æskuljóma þínum, þegar ástin vaknaði og útsprunginn túnfífill kyssti lófa mína.

Svo reika ég um aftan í leit minni að festu með nafn þitt í brjóstinu og líf mitt í skónum, sem vonin rekur áfram en finn hvergi sporin sem mér voru ætluð.

Þá lýt ég til himins opineyg og dreymin með óreymda skóna og rautt sjal um axlir, ég sé hvar hún byrtist í kvennlegum ljóma og blæs í mig krafti.

Nú hvílist ég róleg í gleði þeirrar náðar sem baðar mig ljósið af himninum ofan þar yfir mér vaka tvö ástúðleg augu spekinnar augu.

Manstu þig standa á grunni bernsku þinnar í kæruleysislegum friði og sátt við Guð?

Manstu þig hafa gengið um andlega auðn, þar sem Guð var órafjarri eða ekki til?

Manstu þig brotna undan þunga og þig langaði að kýla Guð kaldann?

Manstu þig faðma sólina, kyssa túnfífla og syngja þig í svefn mjúkum bænarorðum?

Ef þú manst það allt, þá ertu á ferðalaginu með öllum hinum trúuðu. Trúin verður aldrei að uppskrift sem við getum sótt okkur í bækur, ekki einu sinni í Biblíuna. Hún verður heldur aldrei mæld. Trúin sprettur fram fyrir tilstilli heilags Anda, en við getum nært hana með því að leita í orð Guðs, tala við Guð og eiga samfélag með öðrum trúuðum. Trúnna þarf nefnilega að næra líkt og blóm, eigi hún að dafna og vaxa. En hún verður seint lærð af bókum. Hún er lífrænt fyrirbæri, í henni er fólgið hreyfiafl sem á sér engin takmörk.

Manneskjan á það hins vegar til að takmarka sig. Hengja rödd sína, tilfinningar, von og þrá, persónu og vilja í fyrirfram gefnar hugmyndir um það hvernig hún eigi að vera. Það er ekki gott! Við hlaupum í milli sérfræðinga sem eiga að segja okkur hvernig sé best að lifa og árangursríkast að vera. Við finnum okkur stór nöfn, Bryan Tracy, Dale Carnegy, Jim Rohn... já, við gerum jafnvel Oprah Winfrey að persónulegum ráðgjafa. Þannig takmörkum við okkur og tjóðrum andann innan fyrirfram gefinna veggja eða hugmynda annarra um það hvað sé betra.

Trúin sem bærist í brjósti okkar er partur af því hver við erum. Þar gerum við nákvæmlega eins, mælum okkur um of við aðra. Við ýmist berjum okkur á brjóst og viljum þannig láta hina vita að hjá okkur sé allt í lagi, að við fundum sannleikann, séum hólpin. Eða þegar við segjum: ,,Ég á bara mína barnatrú, hún kemur engum við, ég hef hana fyrir sjálfa/n mig.” Í báðum tilfellum erum við að mæla okkur við aðra menn, finnum okkur ýmist vera yfir þau hafin, eða skilin eftir og þorum ekki að opinbera minni mátt. Þannig takmörkum við okkur, lokum á möguleika Guðs með líf okkar og flöktum frá trúleysi til trúar eftir því hvernig andrúmsloftið í kringum okkur er.

Trúin hefur ekkert að gera með gáfur, hæfileika eða möguleika í lífinu. Trúin kemur að innan, hún er systir spekinnar, samofin kærleikanum, útþanin af heilögum Anda og á sér uppsprettu í Skapara alls sem er, afli sem er stærra og meira en við höfum hugmyndaflug til að greina. En þrátt fyrir allan mikilfengleika og þrátt fyrir alla þá óendanlegu möguleika sem samfélag Guðs og manns felur í sér, þá er þetta allt svo ótrúlega einfalt. Eða vorum við nokkuð búin að gleyma orðum Jesú þegar hann sagði: ,,Sannlega segi ég yður: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma.”

Lítum í okkar eigin barm, skoðum þar okkar eigið barn, lyftum því fram í dagsljósið, látum það bragða á, lifa, gleðjast og vera, eins og því var af Guði gefið að vera. Látum af að móta það fast í fyrirfram gefin form. Hjálpum okkur sjálfum að vaxa, til þess þurfum við ekki námskeið upp á fleiri tuga eða hundruða þúsunda króna. Þetta er svo miklu, miklu einfaldara. Þorum að stíga út fyrir slóðann, henda okkur í snjóinn og búa til fallegan engil! Stöndum svo hlægjandi upp, virðum hann fyrir okkur og sjáum með spekinnar augum að... ,,Það er harla gott!”