Biðjum og styðjum. Bersynduga og þurfandi, illa lyktandi sem spariklædda

Biðjum og styðjum. Bersynduga og þurfandi, illa lyktandi sem spariklædda

Gagnrýnendur íslensku þjóðkirkjunnar eru fjölmargir en þeir eru fáir sem telja hana bera sök á þeim efnahagsþrengingum sem þjóðin hefur nú ratað í. Viðbrögð kirkjunnar nú munu hinsvegar án efa skilgreina það hlutverk sem að Þjóðkirkjan mun gegna á komandi árum.

Á þessum sunnudegi og þeim næsta stendur íslenska þjóðkirkjan fyrir söfnun í messum landsins til styrktar innanlandsaðstoðar Hjálparstarfs kirkjunnar undir yfirskriftinni biðjum og styðjum. Tilefni söfnunarinnar er það að ár er nú liðið frá því að efnahagskreppan skall yfir þjóðina með hruni bankanna í október í fyrra en verkefni innanlandsaðstoðarinnar hafa aldrei fyrr verið viðameiri. Sem dæmi má nefna að í septembermánuði á síðasta ári varði Hjálparstarf kirkjunnar 900.000 krónum til aðstoðar íslenskum fjölskyldum með fjárstyrkjum, mat, lyfjum, skólagjöldum, skólavörum, tómstundagjöldum og fleira. Í ár hefur þessi tala tífaldast og ekkert lát er á beiðnum eftir aðstoð.

Í góðærinu svokallaða veitti hjálparstarf kirkjunnar þeim hópum aðstoð sem minnst máttu sín í samfélaginu. Foreldrum sem stóðu ein með börn sín, þeim sem ekki gátu sinnt atvinnu vegna veikinda eða örorku, öldruðum sem nutu ekki nægilegs stuðnings frá fjölskyldu þegar lífeyrir dugði ekki til og þeim fjölmörgu sem orðið hafa áfengis- og vímuefnanotkun að bráð.

Nú ári seinna er sá hópur sem leitar til hjálparstarfsins mun stærri. Hópur þeirra sem geta og vilja vinna en fá ekki atvinnu er nú um 15.000 manns og margar fjölskyldur sem enn hafa vinnu sjá ekki fram úr reikningum um hver mánaðarmót. Í fjárlögum Ríkisjóðs sem kynntar voru í síðustu viku er fátt sem vekur von hjá heimilum þessa lands. Auknar skattbyrðar á næsta ári kunna að nema hátt í sextíu-þúsund krónum á mánuði fyrir hjón með tvö börn ef marka má fréttastofu Ríkissjónvarpsins, álögur sem kunna að reiða náðarhöggið hjá fjölmörgum.

Sú viðleitni kirkjunnar að taka upp samskot í messum til styrktar þeim sem þurfa stuðnings við er í senn eðlileg og sannkristin viðbrögð við því breytta þjóðfélagi sem nú blasir við. Í raun má segja að það sé afleiðing og einkenni þess hversu hratt þjóð okkar reis úr sárri fátækt til velmegunar að slík samskot skuli ekki almennt tíðkast í íslensku þjóðkirkjunni, því sá siður að safna fé handa bágstöddum í messum og kristnum samkomum er iðkaður í yfirgnæfandi meirihluta kirkna og kirkjudeilda. Frá fyrstu tíð hefur kristin kirkja litið á það sem eitt af grunnhlutverkum sínum að veita samhjálp og stuðning til allra þeirra sem til hennar leita. Allra.

Guðspjall dagsins, sem í raun er efniviður margra prédikana, geymir í upphafi frásögnina af því hvernig Jesús kallar tollheimtumanninn Leví Alfeusson. Leví þessum er einnig lýst í guðspjöllum Matteusar og Lúkasar en höfundur Matteusarguðspjalls gefur þessari persónu nafnið Matteus og tengdu kirkjufeður annarar og þriðju aldar Leví þennan við höfund Matteusarguðspjalls.

Frásögnin hefst á því að Jesús sér Leví að störfum við tollbúð þar sem hann innheimtir skatt fyrir rómverska heimsveldið.

Og er hann gekk þar sá hann Leví Alfeusson sitja hjá tollbúðinni og Jesús segir við hann: „Fylg þú mér!“ Og hann stóð upp og fylgdi honum.

Við einfaldri og í senn kröftugri köllun Jesú segir að Leví hafi einfaldlega staðið upp frá vinnu sinni og fylgt honum. Frásögnin heldur síðan áfram þar sem Jesús hneykslar samborgara sína með því að dvelja á heimili Leví og eiga borðhald með hans líkum.

Svo bar við að Jesús sat að borði (Orðrétt: lá til borðs) í húsi hans. Margir tollheimtumenn og bersyndugir sátu þar með honum og lærisveinum hans en margir fylgdu honum. Fræðimenn af flokki farísea, sem sáu að hann samneytti tollheimtumönnum og bersyndugum, sögðu þá við lærisveina hans: „Hann etur með tollheimtumönnum og bersyndugum.“ Jesús heyrði þetta og svaraði þeim: „Ekki þurfa heilbrigðir læknis við heldur þeir sem sjúkir eru. Ég er ekki kominn til að kalla réttláta heldur syndara.“

Tollheimtumenn voru í huga samborgara sinna álitnir hinu verstu óþokkar. Svikarar við land og þjóð fyrir það að framfylgja skattpíningu rómverska heimsveldisins og arðræningjar fyrir það að misnota aðstöðu sínu til að auðgast á kostnað samborgara sinna undir verndarvæng rómverska hersins. Það hvort Leví þessi hafi verðskuldað fordæmingu fyrir starf sitt kemur ekki í ljós í textanum en Jesús tekur meðvitaða ákvörðun um að þjóna þessum hópi tollheimtumanna og bersyndugra og leiða þá til samfélags og trúar við lifandi Guð. Þegar Jesús heyrir af fordæmingu þeirra sem kenna sig við ríkjandi trúarstofnun síns tíma, faríseana og fræðimennina, svarar hann með þeim frægu frelsandi orðum að ekki þurfi heilbrigðir læknis við og að hann sé ekki kominn til að kalla réttláta heldur syndara.

Sé þessi texti lesinn inn í okkar aðstæður má spyrja annarsvegar hvert sé hlutverk okkar skattkerfis og hinsvegir hverjir séu hinir bersyndugu á okkar tímum. Andstaðan við skattheimtu rómverska heimsveldisins var skiljanleg á þeim forsendum að það fé sem innheimt var skilaði sér ekki til þegnanna sjálfra, nema að litlu leyti, heldur borgaði fyrir óhóflega lifnaðarhætti valdsmanna þess tíma. Þær auknu álögur sem fjölskyldur okkar lands eru nú kallaðar til að bera eru á sama hátt ekki innheimtar til að auka lífsgæði og velferð Íslendinga, heldur til að greiða óhóflegt líferni og áhættusækni þeirra sem stýrt hafa íslensku efnahagslífi undanfarin misseri. Sé það hlutverk skattkerfis okkar að veðtryggja fjárfestingar efnamanna, grundvallast það á óréttlæti. Valdníðslu sem ber að mótmæla.

Sá boðskapur sem guðspjallið ber með sér snýr hinsvegar að eðli kirkjunnar. Kirkjunni ber að vera athvarf öllum mönnum. Í þessu rými þurrkast út allt það sem aðgreinir fólk og hér ber að hlotnast skjól, bersyndugum mönnum jafnt þeim sem enga sök bera. Það er skylda kristinnar kirkju að veita slíkt skjól og þjóna þörfum allra þeirra sem til hennar leita. Bregðist kirkjan þeirri skyldu er framtíð hennar teflt í voða.

Í Frakklandi 18. aldar blöskraði borgurum svo það óréttlæti sem skattheimta franska konungsveldisins leiddi af sér að úr varð bylting sem sett hefur mark sitt á vestrænt samfélag allar götur síðan. Firringin sem endurspeglaðist í tilbúnum viðbrögðum hinnar ungu Marie Antoinette við hungursneið þegnanna er hún á að hafa sagt ,,gefum þeim kökur” er í mínum huga sambærileg þeirri staðhæfingu að launþegar þessa lands beri ábyrð á bankahruninu og afleiðingum þess á íslenskar fjöskyldur. En uppreisnarmenn frönsku byltingarinnar létu ekki við sitja að steypa konungsfjölskyldunni af stóli, heldur einnig kirkjunni sem hafði brugðist skyldum sínum. Kirkja þess tíma var ekki sú rödd réttlætis og það athvarf þurfandi sem henni bar að vera og því snérist franska þjóðin gegn henni og afleiðingar þess vara í Frakklandi til þessa dags. Einkunnarorð byltingarinnar um frelsi, jafnrétti og bræðralag voru ekki talin eiga samleið með þeirri stofnun sem kirkjan var orðin.

Gagnrýnendur íslensku þjóðkirkjunnar eru fjölmargir en þeir eru fáir sem telja hana bera sök á þeim efnahagsþrengingum sem þjóðin hefur nú ratað í. Viðbrögð kirkjunnar nú munu hinsvegar án efa skilgreina það hlutverk sem að Þjóðkirkjan mun gegna á komandi árum. Bregðist kirkjan því hlutverki að vera athvarf þeim sem til hennar leita og vettvangur stuðnings þeim sem hans þurfa mun þjóðin án efa ekki standa með kirkjunni.

Starf kirkjunnar í þessum söfnuði og í söfnuðum landsins er blómlegt og styður við lífið. Barna- og unglingastarf kirkjunnar veitir ungu fólki öruggan vettvang til vaxtar, þroska og trúar, foreldrum að kostnaðarlausu. Prestar kirkjunnar koma að tímamótum lífsins, frá vöggu til grafar, með stuðningi og þann boðskap um nærveru og blessun Guðs sem er í gildi á öllum tímum og í öllum aðstæðum og Hjálparstarf kirkjunnar styður fólk í brýnni þörf með framlögum sínum, sem byggja á framlögum okkar.

Líkt og allar stofnanir samfélagsins stendur kirkjan frammi fyrir erfiðum ákvörðunum um hvar beri að skeri niður í kostnaði til að mæta þeirri tekjuskerðingu sem söfnuðir eru að verða fyrir. Biskup Íslands hefur sett það á oddinn að síðast sé skorið niður í barna- og unglingastarfi kirkjunnar og er það til marks um framsýni hans og meðvitund um að unga fólkið er fjöregg og framtíð kirkjunnar. Í Neskirkju vinna nú nærri tuttugu unglingar, bæði launuð og ólaunuð störf eftir aldri og ábyrgð, og er sá stóri hópur ungra leiðtoga samtímis mikið þakkarefni og tilefni til að bera sterka von í brjósti fyrir söfnuð okkar. Reglulegir þátttakendur í barnastarfi, unglingastarfi og barnakórastarfi kirkjunnar eru á fimmta hundrað, ef fermingarbörn eru talin með, og má með sanni segja að Neskirkja sé sýnileg börnum og unglingum Vesturbæjar með áþrifalegum hætti.

Síðastliðið fimmtudagskvöld fengu fermingarungmennin það verkefni að fara út í hverfið og vinna að því að breyta heiminum til góðs. Þau hreinsuðu hverfið af rusli, gengu í hús og buðu fram aðstoð sína og skrifuðu blaðagreinar um málefni sem þau vildu beita sér fyrir en þær verða birtar á heimasíðu Neskirkju í vikunni. Viðvikin sem börnin fengu að gera í hverfinu voru fjölbreytt en íbúar húsanna áttu að skrifa á blöðin þeirra hvaða viðvik var unnið fyrir heimilið; þau klöppuðu hundi, fóru út með rusl, týndu saman lauf í görðum og löguðu hjólakeðju, svo eitthvað sé nefnt. Íbúi á Arnargötu 8 skrifar um börnin að þau hafi gert það sem mestu máli skiptir og má vera leiðarljós fyrir okkur sem söfnuð. Hópurinn sem samanstóð af sjö stelpum ,,Brostu og voru yndislegar” en það fallega og jákvæða viðmót er það sem kirkjunni, starfsfólki og söfnuði, ber að sýna öllu fólki sem hún mætir.

Okkur er mikil ábyrgð á hendur lögð. Það er köllun okkar sem kirkja að vera sterkt samfélag og söfnuður, athvarf sem bersyndugir og þurfandi, illa lyktandi sem spariklæddir, geta leitað til og nálgast nærveru lifandi Guðs. Guð gefi okkur náð til að reynast slík kirkja á komandi tímum.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Textar dagsins: Jes 1.16-17; Gl 5.1-6 & Mk 2.14-28