Hin sönnu verðmæti

Hin sönnu verðmæti

Hver eru hin sönnu verðmæti þessa lífs? Gull, silfur eða brons? Viska, hyggindi, hreinskilni, það að gæta breytni sinnar, lítillæti, hógværð, þolinmæði, langlyndi, kærleiki, von, virðing eða trú?

Hvíldardag nokkurn kom Jesús í hús eins af höfðingjum farísea til máltíðar, og höfðu þeir gætur á honum. Þá var þar frammi fyrir honum maður einn vatnssjúkur. Jesús tók þá til máls og sagði við lögvitringana og faríseana: "Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi eða ekki?" Þeir þögðu við. En hann tók á honum, læknaði hann og lét hann fara. Og Jesús mælti við þá: "Nú á einhver yðar asna eða naut, sem fellur í brunn, mun hann ekki óðara draga það upp, þótt hvíldardagur sé?" Þeir gátu engu svarað þessu. Jesús gaf því gætur, hvernig þeir, sem boðnir voru, völdu sér hefðarsætin, tók dæmi og sagði við þá: "Þegar einhver býður þér til brúðkaups, þá set þig ekki í hefðarsæti. Svo getur farið, að manni þér fremri að virðingu sé boðið, og sá komi, er ykkur bauð, og segi við þig: ,Þoka fyrir manni þessum.' Þá verður þú með kinnroða að taka ysta sæti. Far þú heldur, er þér er boðið, og set þig í ysta sæti, svo að sá sem bauð þér segi við þig, þegar hann kemur: ,Vinur, flyt þig hærra upp!' Mun þér þá virðing veitast frammi fyrir öllum, er sitja til borðs með þér. Því að hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða." Lúk. 14.1-11

Um hádegisbilið á föstudeginum 22. ágúst voru ekki margir á ferli í Reykjavík. Upp úr klukkan eitt fóru fleiri að sjást á ferli og ekki laust við að margir brostu hringinn.

Ástæðan?

Íslenska landsliðið í handbolta hafði lagt það sænska að velli og ljóst var að það myndi keppa um gull eða silfurverðlaun á Olympíuleikunum í Peking.

Meirihluti þjóðarinnar fagnaði og ýmsir sem lítið höfðu fylgst með handbolta voru orðnir spenntir yfir þessum glæsilega árangri landsliðsins.

Lítið var um annað talað manna á meðal og fjölmiðlarnir gerðu þessum árangri rækilega skil.

Tveimur dögum síðar tapaði landsliðið fyrir Frökkum í úrslitaleik og fékk silfurverðlaun og til varð málshátturinn:

“Gott silfur er gulli betra.”.

Það voru vonbrigði hjá einhverjum að ná í ekki fyrsta sætinu, það er gullinu en engu að síður er þessi árángur liðsins sá besti sem kapplið frá smáþjóð hefur náð á Ólympíuleikum.

Það var svo mögnuð sjón á miðvikudeginum þegar þotan sem flutti landsliðið til Íslands flaug lágflug yfir Reykjavík í fylgd tveggja þyrla frá Landhelgisgæslunni og DC 3 flugvélarinnar Páls Sveinssonar.

Þúsundir manna tóku á móti liðinu við Hallgrímskirkju og fylgdu því eftir að Arnarhóli þar sem liðið var hyllt af fjöldanum.

Forseti Íslands veitti svo liðinu hina Íslensku fálkaorðu fyrir árangurinn.

Um er að ræða besta árangur íslenskra íþróttamanna í Ólympíuleikunum til þessa.

Þrotlausar æfingar, ögun, blóð, sviti, tár og andleg uppbygging og hvatning erru meðal annars ástæðurnar fyrir þessum árangri.

Handboltamennirnir í liðinu sögðu að það sem hefði fært þeim sigur hefði verið liðsheildin, það að þeir stóðu saman og gáfu hvor öðrum svigrúm.

Þeir gerðu sitt besta og það hafa þeir svo sannarlega gert áður þó svo það hafi ekki gefið þeim silfur eins og í þetta skiptið.

Vonbrigði, sár og ósigrar sett til hliðar og stefnt áfram líkt og Páll postuli segir í þriðja kafla Filippibréfsins: “En eitt gjöri ég.

Ég gleymi því, sem að baki er, en seilist eftir því sem framundan er, og keppi þannig að markinu”.

* * *

Íþróttum hefur stundum verið líkt við trúarbrögð.

Það er ekki laust við að maður smitist af af ákafa og innlifun þegar maður fylgist með góðum kappleik eða einstökum árangri á íþróttasviðinu.

Milljónir fylgdust með kappleikjunum, sem fram fóru í gær hvort sem það var í fótbolta eða öðrum íþróttagreinum.

Milljónir fylgjast með kappleikjum í dag og mörgum hleypur efalaust kapp í kinn við æsingnum. Áhuginn og kappið geta líka leitt fólk í ógöngur.

Í síðasta Reykjavíkurmaraþon blaðinu var viðtal við guðfræðinema og einn afkastamesta maraþon hlaupara Íslands, Bryndísi Svavarsdóttur.

Þar segir hún meðal annars:

“Þrisvar sinnum hef ég hlaupið þar sem ungir menn hafa komist í mark á frábærum tímum en dáið þegar þeir komu yfir marklínuna. Mennirnir, sem um ræðir voru á aldrinum tuttugu og þriggja til þrjátíu ára og komust inn á þremur klukkustundum en létust því miður skömmu síðar.”

Bryndís segir að tíminn skipti ekki öllu máli heldur sé skynsamlegra að hlusta á líkamann og fara eftir því sem hann segir manni, það er að segja ef mann langar að komast heim til sín að hlaupi loknu.

Vissulega er gaman að vinna til verðlauna en skipta þau öllu máli?

Snýst lífið um þau og eða um það að vera betri en hinir?

Er aðalmálið að sigra og vera í fyrsta sæti?

Maður fær athygli, fjárfestarnir hafa þá meiri áhuga að láta fé rakna til viðkomandi, bónusinn er hærri, meiri miðar seldir næst, vissulega eru ýmsir hagsmunir í húfi.

Textinn úr Orðskviðnum, sem var lesinn hér á áðan hefst á orðunum:

“Hversu miklu betra er að afla sér visku en gulls og ákjósanlegra að afla sér hygginda en silfurs”.

Hver eru hin sönnu verðmæti þessa lífs?

Gull, silfur eða brons?

Viska, hyggindi, hreinskilni, það að gæta breytni sinnar, lítillæti, hógværð, þolinmæði, langlyndi, kærleiki, von, virðing eða trú?

Textar dagsins eru í engum vafa með svar við þessum spurningum.

Tvö orð eru svarið.

Jesús Kristur.

Jesús Kristur og boðskapur hans hefur oft þurft að vera í vörn eða sókn eða bæði.

Árásirnar hafa stundum ekki verið á opnum hóli, heldur hvíslingar, getsakir og rógsmál.

Öflugir liðsmenn Jesú Krists hafa tekið málefnin fyrir, dregið andstöðuna fram í dagsljósið og snúist þar við henni með rökum, sem erfitt er að andmæla.

* * *

Dr. Sigurbjörn Einarsson, biskup var borinn til grafar í Hallgrímskirkju laugardaginn 6. september síðastliðinn, þá 97. ára að aldri.

Þéttskipuð var kirkjan af ungum og öldum úr ýmsum áttum þjóðfélagsins og athöfninni var sjónvarpað og útvarpað beint.

Út af hverju?

Vegna þess að þegar dr. Sigurbjörn var einn af öflugustu liðsmönnum Jesú Krists.

Þegar hann talaði var hlustað, hvort sem það var um Jesú Krist, íslenska tungu, trúarbrögð, sigra eða ósigra eða eitthvað annað.

Dr. Sigurbjörn ræktaði líkama sinn, þótti fátt betra en soðin ýsa með soðnum kartöflum og fór daglega í langa göngutúra.

Var til dæmis hér á gangi um stræti Lundúna fyrir fimm árum síðan, kvikur á fæti og mátti maður hafa sig allan við til að halda í við hann.

Spurði reglulega um starf safnaðarins hér í Lundúnum.

Upphafsmaður þess að íslensk prestsþjónusta hófst erlendis, það er í Kaupmannahöfn vegna þess að honum þótti að íslenska kirkjan ætti að gera meira fyrir Íslendinga sem dveldust langdvölum á erlendri grund. Djúpvitur, áhugasamur, uppörvandi, skemmtilegur og svo margt marg annaðl.

Sannur, hann sjálfur.

Manneskja eins og þú.

Geymdi ekki sálinni og ræktun hennar með Guð almáttugan sér við hlið og yfir og allt um kring. Dr. Sigurbjörn sóttist ekki fyrsta eða fremsta sætinu þar sem hann fór.

Röðin var á hreinu, Jesús Kristur var leiðtogi hans og sá sem var í fyrsta sæti.

Svo notuð séu hans eigin orð:

“Við erum merkt og helguð honum í heilagri skírn.

Þú hefur sigurmerki hans á enni og brjósti, krossins heilaga sigurtákn.

Þú rifjar þetta upp, þegar þú signir þig.

Þú vottar með því hverju sýnilegu og ósýnlegu auga, að þú ert hans, sem allt hið illa flýr. Þú vitnar um þetta fyrir sjálfum þér og öðrum, þegar þú sækir kirkju, lýtur altari Drottins og hlýðir hans heilaga orði.

Þú ert þá að styrkja samband þitt við hinn sigrandi frelsara og biðja þess, að andinn hans verði yfirsterkari öllu því í þér og umhverfis þig, sem myrkrinu lýtur og þjónar.

Og þegar hann fær aukin ráð í lífi þínu, í hugsun, orðum og gjörðum, þá er Guðs ríki að færast yfir þig.

Þú sækir kirkju, iðkar bæn, rækir Guðs orð og Guðs borð af því , að þú vilt taka þér stöðu með Kristi og fylgja hans helga anda.

Og enginn er sú afstaða þín, að þú sért ekki sterkari með honum en allur máttur án hans.

Jesús hefur sigrað og mun sigra.

Þú þarft ekki að verja hann.

Hann er þín vörn.”

“Já, þinn vil ég vera vígja þér mitt hjarta, láta ljós þitt bjarta leiða, blessa mig.”