Aflimun sálarinnar

Aflimun sálarinnar

Fréttir af kynferðislegu ofbeldi gagnvart börnum verða æ algengari og fagna ég mjög aukinni meðvitund um þetta hræðilega samfélagsmein. En um leið sest að mér einhvers konar mixtúra tilfinninga, þar sem saman fara reiði, ótti, sorg og umkomuleysi. Hvað get ég gert? Hvað getum við gert til að koma í veg fyrir að blessuð börnin séu misnotuð af þeim sem þau treysta?

Drottinn, ég ákalla þig, skunda þú til mín, ljá eyra bæn minni þegar ég ákalla þig. Bæn mín berist sem reykelsi fyrir auglit þitt og upplifting handa minna sem kvöldfórn. Lát hjarta mitt eigi hneigjast að neinu illu svo að ég fremji ekki óguðleg verk með illvirkjum. Ég vil ekki bragða krásir þeirra. Sl.141: 1-4

Ég las hér á vefnum hugleiðingu Gunnars Einars Steingrímssonar, Umkomuleysi barnsins sem birt var þann 12. maí sl. Mér þótti mikið til koma og fann til samkenndar með Gunnari þar sem hann tjáir upplifun sína af því að taka á móti barni inn í þennan heim. Tilfinningin er ólýsanleg og ábyrgðin allt að því ógnvekjandi. En flest göngumst við þó hugsunarlaust við þeirri ábyrgð. Við göngum til nýrrar tilveru, þar sem fullkomin andakt ríkir. Þar hvílir barnið í fangi okkar, óttalaust og öruggt.

Einhvern veginn blessast flestum þetta mikla hlutverk, og hvort sem við upplifum okkur gott eða slæmt foreldri, þá reynum við alltaf að gera okkar besta. Engum heilvita manni dytti í hug að sleppa litla hvítvoðungnum í gólfið. Aðeins hugsunin ein, fær okkur til að kippast við og óþægileg tilfinning sest að okkur. Nei, við föðmum barnið ofur varlega og lagfærum það í fanginu, líkt og væri það brothætt. Við sussum á allt og alla og vefjum það hlýju okkar og einlægri alúð. Úr augum barnsis streymir óhindrað kærleiksblik, við tökum á móti og sú ást er umsvifalaust endurgoldin. Barnið vex og dafnar ... og það gerir ástin líka.

En hvernig förum við með þessa ást? Við tökum á móti henni og gefum hana til baka um leið og við reynum að vera traustins verð. En veröldin er stundum eins og villtur lundur þar sem illgresi þrífst milli fegurstu blóma. Sum blómin teygja sig tígulleg móti sólu, önnur eiga sér litla von og liggja við köfnun undan frekjulegum ágangi illgresisins. Það er þá sem ástin breytist í ófreskju. Illgresið elur ekki önn fyrir rýmisþörf annarra. Það nærist á öllu(m) sem í kring er(u) og gefur ekkert til baka.

Fréttir af kynferðislegu ofbeldi gagnvart börnum verða æ algengari og fagna ég mjög aukinni meðvitund um þetta hræðilega samfélagsmein. En um leið sest að mér einhvers konar mixtúra tilfinninga, þar sem saman fara reiði, ótti, sorg og umkomuleysi. Hvað get ég gert? Hvað getum við gert til að koma í veg fyrir að blessuð börnin séu misnotuð af þeim sem þau treysta? Það er svo mikið í húfi að ég hlýt að leggja mig alla fram. Tala um það, læra að greina breytta hegðun barns, styðja við baráttu Blátt áfram og biðja. Biðja fyrir börnunum sem finna sig vera að kafna, biðja þess að þau opni sig og stígi fram úr skömminni. Biðja fyrir þeim sem bragða á óguðlegum verkum, fremja illvirki gegn börnum, lifa í myrkri. Biðja þess að Guð opni augu þeirra, að þau sem fremja þessa glæpi megi snúa baki við því helvíti sem þau hafa kosið sér.

Sumir ganga svo langt að tala um sálarmorð og að barnið hafi verið rænt bernsku sinni. Mér finnst eins og það sé eitthvað til í því. Aflimun sálarinnar er eitthvað sem ég sé fyrir mér... svo er stundum gengið á sárið, aftur og aftur. Þá blæðir sálinni án afláts, kannski alla tíð. Og einmitt þess vegna eigum við að vera skjót til verka og gleyma aldrei að ákalla Drottinn upplyftum höndum. Biðjum að við megum halda vöku okkar og grípa inn í, vinna fyrirbyggjandi á öllum sviðum hins mannlega. En fremst af öllu að biðja: „Drottinn, skunda barninu til hjálpar!“