101010 – Hvernig menn?

101010 – Hvernig menn?

Hvað verður um börn, sem læra að henda grjóti og eggjum í Dómkirkjuna og Alþingishúsið? Tjáningarfrelsið er höfuðgildi. En rök eru mikilvægari en köst, samræður skila meiru en hróp. Skírnir og mennska til íhugunar á 101010.

Atburðir í lífinu opna augu og vekja huga. Við, kona mín og strákar – þá fjögurra ára - vorum á Tenerife í vor og kynntumst dreng sem ég hugsa oft um. Líf hans og atferli einn dagpart hefur orðið mér til íhugunar.

Strandardrengur Hann kom til okkar á ströndinni og vildi ná dótinu, sem mínir karlar léku sér að. Við svipuðumst um eftir forsjáraðila, en enginn virtist gæta drengsins. Við sáum fljótt, að sá stutti var vanur að bjarga sér. Hann varði sig fimlega í öllum átökum, sótti með slægð það sem hann vildi og beitti sér af harðfylgi. Spurningarnar þyrluðust upp: Var þetta flækingsdrengur, sem bjargaði sér sjálfur? Hvað áttum við að gera með þennan aðkomudreng, sem tók yfir alla leiki, vildi allan mat, sótti stíft og ákveðið í gæðin. Þegar drengurinn hafði herjað á okkur og aðra á ströndinni í nokkurn tíma var ljóst, að við yrðum að gera meira en sinna honum. Hann talaði ofurlitla spænsku og í ljós kom, að hann var þriggja ára og hét Adriano. Hann virtist ekki skilja spurningar um foreldra og gat ekki bent á neinn, sem ætti hann. Höfðu foreldrar hans týnt honum? Var hann nútíma-Móses? Ein spænskumælandi mamman tók að sér að kalla eftir aðstandendum. Á meðan sótti Adriano í allan mat fólks á ströndinni og leikföng barnanna og olli hvarvetna uppnámi. Öryggisgæslan og lögreglan voru virkjuð. Seint og síðarmeir kom svo maður sem sagði lögreglunni að hann ætti drenginn, en Adriano virtist ótengdur honum, en fór þó með honum. Þessi reynsla af smádreng á ströndinni sat í mér. Drengurinn virtist vanhirtur og vannærður. Hann kunni að verja sig, sækja í fæðu og bjarga sér. En hann hló ekki, talaði ekki, gaf bara frá sér frumhljóð. Engin falleg tengsl - bara frumþarfir. Hver er réttur barna? Er rétt að leyfa fólki að vanrækja börnin sín? Hver er skylda okkar gagnvart börnum? Hvernig verður mennskan til og hvaða kröfur verður að gera til þjóðfélags varðandi uppeldi? Er Adriano kannski víða, jafnvel líka í okkar menningu og meðal okkar?

Textarnir í kirkjunni Flestir textar, sem lesnir eru í messum á sunnudögum þessa hluta kirkjuársins varða trú og siðferði, minna á að máli skiptir hvernig við lifum, hvað við veljum, hvað við gerum, hvaða markmið við setjum okkur fyrir líf einstaklings, samfélags og náttúru. Þetta eru textar um hvernig menn verða til, um ábyrgð okkar, um hvernig ég og þú búum til fólk, okkur sjálf, höfum áhrif á aðra og samfélag okkar. Í þessum textum eru uppskriftir að fólki og velferðarsamfélagi. Já, í þessum textum eru m.a.s. grunnar að velferðarríkjum veraldar.

Síðasta sunndag voru boðorðin úr 2. bók Móse til skoðunar og boð Jesú um að við ættum að elska Guð og náunga okkar eins og sjálf okkur. Græna tímabilið í kirkjuárinu er sumar og haust og græni liturinn er – eins og þið sjáið - ríkjandi í messuskrúðanum. Tíminn er tími vaxtar. Hverra? Mannabarna.

Í dag fjallar guðspjallstextinn um, að Jesús aðstoðaði mann til að rísa upp úr veikindum sínum. Biblían er bók raunsæis og afar hjálparmiðuð. Þegar Jesús Kristur sá sjúka, dapra eða fórnarlömb stoppaði hann. Hann var vörður lífsins, landsbjörg, hjálpaði niðurlægðum og reisti upp. Allt þetta varðar bæði börn, ykkur sem fólk og þjóðfélag. Hvernig eigum við að lifa vel?

Ísland í deiglunni Mörgum hefur liðið illa síðustu vikur og daga. Margir eru reiðir og ástæðurnar eru ýmsar og ærnar. Hvernig líður börnum á þeim heimilum, sem eru undir hamrinum? Hvernig líður börnum, sem upplifa kvíða og skelfingu foreldra sinna og forsjárfólks? Hvernig líður þeim sem taka þátt í mótmælum? Verða þau Adrianó? Jafnvel börnin heima verða skelkuð að horfa á sjónvarpsmyndirnar frá Austurvelli. Hvernig reiðir kreppubörnunum af þegar til lengri tíma er litið? Hvað verður um börn, sem læra að henda grjóti og eggjum í Dómkirkjuna og Alþingishúsið? Tjáningarfrelsið er höfuðgildi og mótmæli eru mikilvæg í lýðræðisríki. En rök eru mikilvægari en köst og samræður skila meiru en hróp.

Fasistafáni og gnístandi reiði vekja margar spurningar um heilbrigði samfélags okkar: Erum við búin að týna okkur, týna athvarfi okkar, týna gildum, samheldni og stefnu? Hvað viljum við?

Skírn Dagurinn er 10-10-10. Dagsetningin er auðvitað hnittin og skemmtileg. Íslesnsk handboltahetja hefur notað daginn til að gefa út bók með þessum titli. Smáralind á meira að segja afmæli 10.10! Þetta er ágætur dagur til tímamótaviðburða – og fólk notar sér þennan dag til slíks. Um allan heim er fólk að gera eitthvað mikilvægt, t.d. ganga í hjónaband eða skírast. Eftir messu skíri ég 13 ára stúlku. Hún var ekki skírð sem barn, en tók þá ákvörðun að vera Guðs. Hún vill vera kristin, vill rækta trú sína og tekur því meðvitað og afgerandi skref. Það er merkilegt að tala við hana og hlusta á afstöðu hennar. Foreldrar Úlfs tóku ákvörðun um að koma með hann í kirkjuna, að strönd eilífðarinnar, að skírnarfontinum. Svo var hann ausinn vatni, umlukin bænum fjölskyldu og safnaðar og englar himinsins taka þátt í gleðisöng. Og þar sem tikki tikki ta er uppáhaldssöngur kútsins sungum við hann líka – og textinn rímar ágætlega við skírn: “Alla daga og allar nætur augu Jesú vaka yfir mér” og það er líka merking skírnar – við erum Guðs, Guð gætir okkar.

Margt í starfi prests er heillandi, en ekkert eins stórkostlegt og að skíra, biðja fyrir og blessa skírnarbarn, skírnarþega. 101010 er góður dagur og eftirminnilegur. Og þegar skírnarbörnin spyrja eftir einhver ár: “Hvaða dag var ég skírður eða skírð?” Þá munu foreldrar og fjölskyldur geta óhikað svarað: 101010.

Dagurinn er góður. Erlendir umhverfisverndarsinnar hafa gert þennan dag að umhverfisdegi, upphafsdegi umhverfisátaks. Skírn er upphafsdagur líka – gleðidagur – þegar eilífðin kyssir tímann og allt verður nýtt. Skírn varðar allar hverfingar lífsins, í krafti Guðstengingar eru hinir skírðu kölluð til góðs lífs.

Adríanó varð mér áminning um, að börn verða ekki menn af sjálfu sér. Maðurinn er nakin frumvera, sem ekkert verður án menningar, gilda og - að mínu viti - trausts og trúar. Börn eru vonarverur, sem þarfnast umhyggju og ástar. Úlfur verður ekki maður nema foreldrar og ástvinir sjái hann, reisi hann upp, hjálpi honum til gangs í siðferði, tengslum, samskiptum, kenni honum að fara vel með gæði lífsins og vera ábyrgur í lífinu – miðli honum gildum, afstöðu og viðmiðum til lífs.

Grunngildi Nú er komið að þeim menningarlegu krossgötum að ákvarða framtíð trúar, gilda og uppeldis á Íslandi. Hvort kirkjulífið verður með svipuðu sniði áfram og verið hefur eða ekki skiptir minna máli en hvað þjónar fólki til blessunar. Aðalmálið er hvernig samfélag við mótum – hvernig samfélag hentar best til að börn njóti hamingju og samfélag gegnsýrist ábyrgð og mannvirðingu - og þjóðfélag virði trú og gildi, en grisji og vísi burt illsku, yfirgangi, græðgi, einhæfri sjálfsmiðun og dólgskap gagnvart fólki, náttúru og hópum. Kreppan getur leitt til aukinnar aðgreiningar og mismununar og það merkir að börnum farnast ekki vel, þau fá ekki notið sín og réttinda sinna. En kreppa er líka tækifæri til að skoða og skilgreina allt að nýju og það er köllun okkar og verkefni. Hver eru grunngildin, sem við viljum byggja á?

Hlutverk kirkjunnar er ekki að varðveita stöðu sína eða stofnanir, heldur líf og fólk. Ekki frekar en stofnanir og stjórnvöld er kirkja ekki til sjálfrar sín vegna, heldur vegna þjónustu sinnar. Arfur kristninnar, erindi kristninnar er að efla lífið, vera erindi til fagnaðar, verja og efla börn og reisa sjúka, fallna, sorgmædda, fátæka og fórnarlömb. Trú, kirkja og allur hinn kristni siður tjáir, að manneskjur eru algildi. Við erum eilífðardjásn.

Engu máli skiptir hvort kirkja er þjóðkirkja eða öðru vísi kirkja. Öllu máli skiptir að samfélag og kirkja miðli þeirri mannvirðingu, sem Jesús Kristur ræddi og rækti, að mennirnir og tilveran eru ekki aðeins tæki í þágu fárra og sterkra heldur gildi í sjálfu sér. Á máli kristninnar getum við sagt: Allt er heilagt - vegna þess að Guð elskar. Við erum ekki yfirgefin á strönd eilífðar, heldur eigum að vökult auga, hlýjan faðm og öryggi. Við þurfum ekki að olnboga okkur áfram í lífinu, við erum ekki og eigum ekki að vera Adríanó í veröldinni. Guð horfir á alla ástaraugum og það sama eigum við að gera. Guð elskar fólk, náttúruna, sköpun sína svo mikið að Guð er tilbúinn að fórna öllu fyrir lífið.

101010 er dagur til lífs, upphafsdagur, dagur til að endurmeta til góðs – að búa til góða menn og gott líf.

Amen

Hugleiðing í skírnarmessu í Neskirkju 101010

Lexían Es. 18.29-32 Og þegar Ísraelsmenn segja: ,Atferli Drottins er ekki rétt!' - ætli það sé atferli mitt, sem ekki er rétt, þér Ísraelsmenn? Ætli það sé ekki fremur atferli yðar, sem ekki er rétt? Fyrir því mun ég dæma sérhvern yðar eftir breytni hans, þér Ísraelsmenn, segir Drottinn Guð. Snúið yður og látið af öllum syndum yðar, til þess að þær verði yður ekki fótakefli til hrösunar. Varpið frá yður öllum syndum yðar, er þér hafið drýgt í gegn mér, og fáið yður nýtt hjarta og nýjan anda. Því að hvers vegna viljið þér deyja, Ísraelsmenn? Því að ég hefi eigi velþóknun á dauða nokkurs manns, - segir Drottinn Guð. Látið því af, svo að þér megið lifa."

Pistillinn Ef. 4.22-32 Þér eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni, sem er spilltur af tælandi girndum, en endurnýjast í anda og hugsun og íklæðast hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans. Leggið nú af lygina og talið sannleika hver við sinn náunga, því að vér erum hver annars limir. Ef þér reiðist, þá syndgið ekki. Sólin má ekki setjast yfir reiði yðar. Gefið djöflinum ekkert færi. Hinn stelvísi hætti að stela, en leggi hart að sér og gjöri það sem gagnlegt er með höndum sínum, svo að hann hafi eitthvað að miðla þeim, sem þurfandi er. Látið ekkert skaðlegt orð líða yður af munni, heldur það eitt, sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gjörist, til þess að það verði til góðs þeim, sem heyra. Hryggið ekki Guðs heilaga anda, sem þér eruð innsiglaðir með til endurlausnardagsins. Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt yður og alla mannvonsku yfirleitt. Verið góðviljaðir hver við annan, miskunnsamir, fúsir til að fyrirgefa hver öðrum, eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið yður.

Guðspjallið Matt. 9.1-8 Þá sté Jesús í bát og hélt yfir um og kom til borgar sinnar. Þar færa menn honum lama mann, sem lá í rekkju. Þegar Jesús sá trú þeirra, sagði hann við lama manninn: "Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar." Nokkrir fræðimenn sögðu þá með sjálfum sér: "Hann guðlastar!" En Jesús þekkti hugsanir þeirra og sagði: "Hví hugsið þér illt í hjörtum yðar? Hvort er auðveldara að segja: “Syndir þínar eru fyrirgefnar” eða: “Statt upp og gakk”? En til þess að þér vitið, að Mannssonurinn hefur vald á jörðu að fyrirgefa syndir, þá segi ég þér" - og nú talar hann við lama manninn: "Statt upp, tak rekkju þína, og far heim til þín!" Og hann stóð upp og fór heim til sín. En fólkið, sem horfði á þetta, varð ótta slegið og lofaði Guð, sem gefið hafði mönnum slíkt vald.