Um skírnina

Um skírnina

Skírn Jesú er fyrirmyndin að skírn kristinna manna. Frásagan af skírn Jesú veitir okkur upplýsingar um merkingu þessarar athafnar.
fullname - andlitsmynd Magnús Erlingsson
15. febrúar 2010
Flokkar

I.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

“Til mín skal börnin bera”, sungum við hér áðan. Þetta er ákaflega fallegur skírnarsálmur, - bæði lag og ljóð, en textann gerði Helgi Hálfdánarson. Í gær var einmitt skírt barn hér í Hnífsdalskapellu. Það er mikil hátíðisstund í hverri fjölskyldu þegar barn er skírt. Maður skynjar að fólkið er í raun að þakka Guði fyrir nýtt líf, þakka fyrir að nýr einstaklingur sé kominn inn í fjölskylduna.

En hver er merking skírnarinnar? Af hverju er teiknaður kross á enni og brjóst barnsins? Af hverju er vatni ausið yfir höfuð barnsins? Skýringanna er meðal annars að leita í guðspjallstexta þessa sunnudags en þar er sagt frá skírn Jesú og hún er auðvitað fyrirmyndin að hinni kristnu skírn. Að vísu skírum við ekki í Hnífsdalsánni líkt og Jóhannes skírði í ánni Jórdan, enda ólíkt kaldara hér heldur en í Miðausturlöndum. Okkar skírnarbað er svona táknrænt; vatn er sett á höfuð barnsins til að minna á vatnið, sem umlykti höfuð frelsarans, enda er það ekki vatnsmagnið, sem skiptir máli heldur innihald athafnarinnar. Og þetta innihald kemur svo vel fram í texta dagsins. Þegar Jesús hafði verið skírður þá hljómaði rödd Guðs af himnum: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“

Og þetta er einmitt það, sem gerist í hverri skírnarathöfn. Skírnin er sýnilegt tákn þess að þetta barn sé barn Guðs, það sé hluti af fjölskyldu Guðs. Skírninni mætti þannig líkja við andlega ættleiðingarathöfn. Við, sem erum skírð, erum öll ein stór fjölskylda Guðs. Söfnuðurinn er birtingarmynd þessarar fjölskyldu og bræðralags. Og þessi hugsun kemur líka vel fram í hinu sakramenti kirkjunnar. Í altarisgöngunni krjúpum við saman við borð Guðs og neytum saman heilagrar kvöldmáltíðar líkt og kærleiksrík fjölskylda, sem kemur saman við kvöldverðarborðið.

Skírnin er það að vera tekinn inn í fjölskyldu Guðs, það er inntökuathöfn í kirkjuna. Á kristnum mönnum hvílir því sú skylda að sýna hver öðrum bróðurkærleika og systraþel.

II.

“En þegar Jesús hafði verið skírður sté hann jafnskjótt upp úr vatninu. Og þá opnuðust himnarnir og hann sá anda Guðs stíga niður eins og dúfu og koma yfir sig.” Í þessum tilvitnuðum orðum birtist önnur gjöf skírnarinnar. Heilögum anda er úthellt við skírnina. Í einni af fyrirbænum skírnarinnar er þetta orðað svo: “Veit barninu fyrirheit skírnarinnar, gef því heilagan anda, að hann veki og glæði allt gott, sem þú hefur fólgið í sálu þess.”

Skírnin felur þannig í sér áframhald; að heilagur andi, náð Guðs og máttur verði barninu nálægur, verndi það og blessi öll sín uppvaxtarár. Og andi Guðs laði fram allt það besta, sem býr í sálu barnsins og hjarta. Þetta er ekki lítið.

Krossmarkið á enni og brjóst skírnarbarnsins er til marks um að hugur þess og hjarta á að helgast af trú á Jesú Krist. Trúin er auðvitað Guðs gjöf. Enginn getur játað trúna og beðið nema heilagur andi sé með honum og í honum.

Þessa gjöf eigum við alla ævi. Allt okkar líf er heilagur andi að verki innra með okkur. Stundum áminnir hann okkur með því að hreyfa við samviskunni. Á öðrum stundum tendrar hann í okkur bál ástar og umhyggju gagnvart öðrum mönnum. Það er heilagur andi, sem hjálpar okkur til að lifa eins og guðsbörnum sæmir.

III.

Við höfum nú rætt um tvær af gjöfum skírnarinnar. Fyrst var það rétturinn til að verða guðsbarn. Síðan var það gjöf heilags anda. Og nú erum við komin að þriðju og mestu gjöfinni.

Þegar Jesús kom til Jóhannesar til að láta skírast þá hikaði Jóhannes því hann vissi hver Jesús var. Var það ekki óþarfi að sjálfur sonur Guðs færi að taka skírn! Það, sem skírnin færir okkur, var honum runnið í merg og blóð. Það var eðli hans að vera sonur Guðs frá upphafi. En samt vildi hann skírast. Og það er vegna þess að Jesús vildi taka sér stöðu við hlið mannsins, hann vildi deila kjörum, deila lífinu með okkur mönnunum. Allt líf Jesú vitnar um það hvernig hann samsamar sig algjörlega tilveru okkar mannanna og lífsbaráttu. Jesús er fæddur í fátækt. Hann kemur nakinn inn í þeim heim líkt og öll önnur börn. Í lífi sínu mætir hann hættum og sjúkdómum, vinur hans svíkur hann og að lokum deyr hann á krossi. Guðssonurinn gerðist maður og lifði okkar lífi. Og það gerði hann til að færa okkur sitt líf, til að færa okkur ríki himnanna. Þetta sjáum við í kraftaverkum Jesú en fyrst og fremst verður okkur þetta ljóst í upprisu hans.

Stærsta gjöf skírnarinnar er sú að Jesús deilir með okkur ríki himnanna. Við eignumst hlutdeild í öllu því sem hann á. Skírnin veitir okkur þannig aðgang að eilífa lífinu hjá Guði. Hún er eins og endurfæðing til nýs lífs, lífsins með Guði.

Í skírninni verður Jesús okkar besti bróðir. Og allt hans verður okkar hlutskipti. Rétturinn til að kalla Guð föður, lífið í andanum og heimvon himnanna, allt þetta verður okkar.

IV.

Skírn Jesú markaði upphafið á starfi hans sem frelsarinn Kristur. Þaðan í frá fór hann að ferðast um og safna í kringum sig lærisveinum, sem hann uppfræddi og sagði frá ríki himnanna. Á líkan hátt afmarkar skírnin upphafið á göngu okkar með Guði. Þaðan í frá erum við Guðs börn, fullgildir meðlimir í krkju hans, húsfólk í ríki himnanna. Fyrir allt þetta stendur skírnin. Og fáar athafnir eru jafn fallegar og gefandi og skírn lítil barns.

Þegar maður horfir á lítið barn þá sjáum við framtíðina. Hún er þarna komin. Nýtt líf með nýja von og nýja framtíð. Sannarlega er lífið dásemlegt.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.