Dögun

Dögun

Aðventan og jólin boða því hvorki heimsflótta né kærulausa forlagatrú. Aðventan og jólin kalla okkur til að vinna að framgangi sannleika og fegurðar. Hugsjónir okkar um frið og frelsi eru endurómur af því sem er undirstaða veraldar og er vilji skaparans sem hann klæddi holdi í Jesú Kristi.
fullname - andlitsmynd Einar Sigurbjörnsson
07. desember 2009

Stjarna - mynd: Árni Svanur Daníelsson

Einn uppáhaldsaðventusálmurinn minn er sálmur nr. 68 í Sálmabókinni, Skaparinn stjarna, Herra hreinn. Sálmurinn er latneskur og var lengi eignaður Ambrósíusi biskupi í Mílano (um 340-397). Hann er hins vegar yngri og ekki eldri en frá því á 7. öld. Höfundur hans er er óþekktur.

Sálmurinn var á miðöldum fastur hluti helgihalds kristinna manna um aðventu enda boðar hann í hnitmiðuðum setningum erindi aðventunnar. Hann hefur verið sunginn á Íslandi bæði í klaustrunum og við helstu kirkjur út allar miðaldir. Marteinn biskup Einarsson þýddi sálminn og tók upp í sálmabók sína 1555. Guðbrandur Þorláksson lét þýða hann að nýju fyrir sína sálmabók 1589 ásamt mörgum miðaldasálmum. Sigurbjörn Einarsson endurorti sálminn fyrir Sálmabók 1972 og studdist þá bæði við latneska frumgerð sálmsins og þýðinguna í Sálmabók Guðbrands. Í samræmi við latnesku frumgerðina er sálmurinn bæn í endurgerð Sigurbjörns þar sem Kristur er ávarpaður sem skapari og lausnari:

1 Skaparinn stjarna, Herra hreinn, sem hverri sálu lýsir einn, Kristur, sem allan leystir lýð, líknsamur vorum bænum hlýð.

2 Mæddi þinn hug vor mikla neyð, með oss þín heilög elska leið, þú vildir frelsa veröld þá, er villt og sek í myrkri lá.

3 Þú komst með dögun, Drottinn hár. Sem dimman flýr við morgunsár, eins breiddist ljós þitt bjart um heim, brosir allt líf í geisla þeim.

4 Þú ert það orð, sem allt er frá og öllu ráða og stjórna má, það föður orð, sem flutt þá var, er fæddist ljós og stjörnurnar.

5 Eins muntu síðast, Drottinn dýr, dæma það allt, sem með oss býr, og skapa nýjan, hreinan heim. Hjálpa þú oss á degi þeim.

6 Himnar og jörðin hneigi þér, helja og allt, sem skapað er. Viljinn þinn góði, valdið þitt, veki og lífgi hjartað mitt.

Í upphafi er skapari stjarnanna ávarpaður, sá er upplýsir sálir mannanna. Þessi skapari stjarnanna er Jesús frelsari mannanna og við biðjum hann hlýða bænum barna sinna í líkn og miskunn.

En Jesús er einnig maður. Hann er ekki aðeins skapari heldur einnig frelsari sem af einskærri elsku gerðist maður okkur til líknar og lausnar. Það ítrekar annað erindið með skírskotun til Litlu Biblíunnar, Jóhannesarguðspjall 3.16.

Við það tók að elda af degi í myrkri veröld. Myrkur syndar og dauða á ekki síðasta orðið. Með því að Guðs sonur gerðist maður tók myrkrið að hopa en ljósið að skína og lífið eignaðist von: „Þú komst með dögun, Drottinn hár.“ Fyrir þeim Drottni hlýtur allt myrkur að víkja því að Jesús er Guðs eilífa orð sem hann mælti þegar hann skapaði heiminn og mælir enn þegar hann verndar og frelsar sköpun sína. Það er boðskapurinn í fjórða erindinu með beinni skírskotun til Jóhannesarguðspjalls 1.1-14.

Og fimmta erindið vísar til þeirrar vonar sem jólin boða um framtíð manns og heims. Sá skapari stjarnanna sem gerðist maður á jólum og er frelsari okkar mannanna mun aftur koma og skapa nýjan, hreinan heim. Þá mun hann dæma úr leik það sem ógnar lífinu. Sú von sem kristin jól vekja er þannig von um fullnaðar sigur ljóssins. Kristin jól birta þar með róttækari boðskap en „náttúrunnar jól“ sem aðeins taka til þeirra umskipta sem nú eru að verða í náttúrunni. Kristin von tekur til eilífðar. Orð Guðs mun eiga síðasta orðið, ekki hávaðinn sem þó er mest áberandi og elur á öfund, græðgi og hatri.

Lokavers sálmsins dregur saman efni hans með lofgjörð sem skírskotar til lofsöngsins sem Páll postuli vitnar til í öðrum kapitula Filippíbréfsins versunum 6-11. Lofgjörðinni lýkur með bænarorðunum: „Viljnn þinn góði, valdið þitt, veki og lífgi hjartað mitt.“

Aðventan og jólin boða því hvorki heimsflótta né kærulausa forlagatrú.

Aðventan og jólin kalla okkur til að vinna að framgangi sannleika og fegurðar. Hugsjónir okkar um frið og frelsi eru endurómur af því sem er undirstaða veraldar og er vilji skaparans sem hann klæddi holdi í Jesú Kristi. Aðventan og jólin kunngera okkur að það er þess virði að vinna að hugsjónum friðar, einingar og frelsis því að þær munu sigra þegar Drottinn bindur endi á allt böl og alla þjáningu.

Því skulum við á aðventunni gera bænarorð sálmsins góða að okkar bæn:

Viljinn þinn góði, valdið þitt, veki og lífgi hjartað mitt.