SAM - málin tvö. Rúmar þjóðkirkjan þau bæði?

SAM - málin tvö. Rúmar þjóðkirkjan þau bæði?

Þegar við höfum mismunandi skoðanir á málefnum og eigum erfitt með að finna leið til að sætta ólík sjónarmið þá gætum við spurt; hvað myndi Jesús gera? SAM-málin tvö hafa verið, eru og verða á dagskrá þjóðkirkjunnar.
fullname - andlitsmynd Þorvaldur Víðisson
17. ágúst 2013

Málefni samkynhneigðra hefur þjóðkirkjan afgreitt með jákvæðum hætti. Þjóðkirkjan stendur við þær ákvarðanir sínar. Þjóðkirkjan styður samkynhneigða í réttindabaráttu sinni, viðurkennir hjónabönd samkynhneigðra og veitir samkynhneigðum alla þá kirkjulegu þjónustu sem lög okkar Íslendinga kveða á um, þ.m.t. hjúskaparlög. Samkirkjumál eru gríðarlega mikilvæg. Þau fjalla um það sem sameinar kristna einstaklinga og hópa, eins og hugtakið ber með sér. Þjóðkirkjan hefur verið leiðandi í umræðu kirkjudeildanna á Íslandi og tekur það hlutverk alvarlega. Samstarfsvettvangur kristinna trúfélaga hefur verið starfræktur til áratuga þar sem efnt hefur verið til sameiginlegra bænastunda, funda og hátíða, með opinni þátttöku leikra og lærðra úr ólíkum kirkjudeildum. Starfið eflir samkennd, víkkar sýn og eykur virðingu milli trúarhópa og einstaklinga. Þjóðkirkjan stendur við bakið á öllum fulltrúum sínum á þeim vettvangi. Sumar kirkjudeildir viðurkenna ekki vígslu kvenna, sem þýðir að konur geta ekki tekið að sér vígða þjónustu í þeim kirkjum. Þjóðkirkjan vígði fyrstu konuna prestsvígslu árið 1974. Fyrsta konan tók biskupsvígslu í fyrra, árið 2012. Að þjóðkirkjan hafi stigið þessi skref þýðir ekki að hún útiloki þátttöku í hátíðum, bænasamfélagi eða samtali við einstaklinga eða hópa sem ekki hafa stigið sömu skref. Eins hafa aðrar kirkjudeildir haldið áfram samstarfi við þjóðkirkjuna þótt vígsla kvenna sé ekki á dagskrá hjá þeim. Eins er það með önnur þjóðfélags- og réttindamál í samfélaginu, þ.m.t. samkynhneigð. Já, þjóðkirkjan rúmar SAM- málin tvö því innan hennar rúmast fólk með ólíkar skoðanir. Trúin á Jesú Krist, krossfestan og upprisinn, og það hjálpræði og sú von sem trúin á hann veitir er það sem sameinar kristna menn. Þegar við höfum mismunandi skoðanir á málefnum og eigum erfitt með að finna leið til að sætta ólík sjónarmið þá gætum við spurt; hvað myndi Jesús gera? SAM-málin tvö hafa verið, eru og verða á dagskrá þjóðkirkjunnar.