Af hverju er æskulýðsdagur Þjóðkirkjunnar mikilvægur?

Af hverju er æskulýðsdagur Þjóðkirkjunnar mikilvægur?

Skilaboð kirkjunnar til ungs fólks eru þessi: Þú ert velkomin eins og þú ert. Við erum til staðar fyrir þig, hlustum á þig og viljum að þér líði vel. Það er bæn okkar að þú fáir að dafna og þroskast sem sú dýrmæta sköpun sem þú ert.
fullname - andlitsmynd Sunna Dóra Möller
01. mars 2013
Meðhöfundar:

Æskulýðsdagur Þjóðkirkjunnar er haldinn hátíðlegur ár hvert fyrsta sunnudaginn í mars. Þannig hefur þetta verið samfellt frá árinu 1959. Það að sérstakur dagur sé tekinn frá á kirkjuárinu og tileinkaður ungu fólki sendir út þau mikilvægu skilaboð að ungt fólki skipti máli innan kirkjunnar. Dagurinn sendir út þau skilaboð að á ungt fólk sé hlustað, að kirkjan hafi rými fyrir ungt fólk og þeirra sköpun og það sem er enn mikilvægara, að ungt fólk hafi hlutverki að gegna í kirkjulegu samhengi.

Um allt land er unnið gríðarlega gott starf á vettvangi æskulýðsmála. Margar kirkjur hafa eytt miklum tíma og peningum í að hlúa að æskulýðsstarfinu og gert það að forgangsatriði að efla þann vettvang. Uppbygging á öflugu æskulýðsstarfi tekur tíma en það er tíma sem er vel varið vegna þess að þegar þetta starf fer að bera ávöxt er uppskeran margföld. Það er hverri stofnun nauðsynlegt að setja sér langtíma markmið með uppbyggingu til framtíðar í huga. Það að láta það hjá líða að setja sér slík framtíðarmarkmið getur haft þau skelfilegu áhrif að einn góðan veðurdag er setið uppi með þann veruleika að endurnýjun hefur ekki átt sér stað og færri tilheyra stofnuninni en vonir stóðu til um. Það að láta það hjá líða að fjárfesta í framtíðinni getur haft afdrifaríkar afleiðingar.

Í dag er vinsælt að tala um peninga og í hvað þeim er varið. Það er staðreynd að margir söfnuðir berjast í bökkum, fólki hefur verið sagt upp störfum, sérstaklega á æskulýðsvettvanginum. Það er staðreynd sem margoft hefur verið vakin athygli á. Það góða starf sem miklum tíma hefur verið varið í að byggja upp er farið að láta á sjá og sums staðar er uppbyggingin hreinlega í hættu. Það hefur verið kallað eftir því hjá yfirstjórn kirkjunnar að hún setji fram heildstæða sýn á æskulýðsmálin og komi með raunhæf markmið þegar kemur að uppbyggingu kirkju framtíðarinnar og æskulýðsmálum. Það er við hæfi á æskulýðsdegi Þjóðkirkjunnar að ítreka þá kröfu. Við getum ekki látið það gerast, að við stöndum undrandi uppi eftir einhver ár, þegar við horfum fram á þann veruleika að sóknarbörnum hefur fækkað og sóknargjöld minnkað, vegna þess að við létum það hjá líða að hlúa að barna- og unglingastarfi kirkjunnar. Við brugðumst ekki við þegar við höfðum tækifæri til. Peningar sem fara í þetta starf skila sér margfalt til baka og við höfum ekki efni á að glata þeirri uppbyggingu sem hefur átt sér stað í æskulýðsstarfinu. Skaðinn af slíkum afglöpum er meiri en sem nemur því fé sem sparað er við uppbyggingu á starfinu í dag.

Við sem vinnum daglega á þessum vettvangi, höfum séð það og upplifað hversu dýrmætt og mikilvægt þetta starf er. Það er stórkostlegt að fylgjast með ungu fólki vaxa upp til ábyrgðar og hlutverka í kirkjunni. Börn eiga samleið með kirkjunni. Þau eru boðin velkomin með foreldrum sínum í sunnudagaskóla, sækja kirkjustarf á barnaskólaaldri, þiggja uppbyggingu og þjálfun í unglingastarfi og leiðtogaþjálfun kirkjunnar og láta sig kirkjuna varða sem fullorðið fólk. Það er stórkostlegt að upplifa samstarfsvettvang æskulýðssamtaka út um allt land, þar sem fólk sameinast um að láta sig æskulýðsmálin varða og hlúa að því sem mestu máli skiptir. Það er stórkostlegt að upplifa Landsmót ÆSKÞ, sem er orðinn einn stærsti sjálfstæði viðburður kirkjunnar í dag, en þar koma saman um 600 ungmenni og leiðtogar í trú og gleði yfir að vera til og tilheyra jafn stóru samfélagi og kirkjan er. Það er stórkostlegt að upplifa TTT-mótin, sunnudagaskólana, æskulýðsmessurnar og samverustundirnar með ungu fólki sem lætur sig kirkjuna varða af því að hún hefur opnað sínar dyr fyrir þeim án þess að gera kröfu um ákveðið útlit, háttarlag eða nokkuð annað sem íþyngir ungu fólki í nútímasamfélagi.

Skilaboð kirkjunnar til ungs fólks eru þessi:

Þú ert velkomin eins og þú ert. Við erum til staðar fyrir þig, hlustum á þig og viljum að þér líði vel. Það er bæn okkar að þú fáir að dafna og þroskast sem sú dýrmæta sköpun sem þú ert.

Allt þetta æskulýðsstarf er mikið til unnið í hljóði. Fólkið sem sinnir því er ekki alltaf að vekja athygli á því sem það er að gera. Flestir sem vinna að æskulýðsmálum gera það vegna þess að hjartað brennur fyrir barna- og unglingastarfinu og sönn ástríða er til staðar fyrir því sem það er að gera á hverjum degi. Þannig vex starfið og þannig dafnar það, v.þ.a. fólk er tilbúið til að gefa af tíma sínum og lífi til að kirkjan okkar dafni. Það er ósk okkar að yfirstjórn kirkjunnar sjái þann auð sem felst í þessu mikilvæga starfi, að hún sjái hvað það skiptir okkur miklu máli að leggja rækt við þennan vettvang og að hún sé tilbúin til að koma með raunhæfar lausnir til eflingar starfsins.

Af hverju er æskulýðsdagurinn mikilvægur? Af því að á þessum degi gleðjumst við með öllum þeim sem vinna að æskulýðsmálum af hjarta og hug.

Við erum að lyfta upp því óeigingjarna starfi sem unnið er á hverjum degi, allan ársins hring, í kirkjunni um land allt. Við erum að gera þetta starf sýnilegt, þannig fólk geti séð og upplifað í kirkjunni sinni að hún iðar af lífi og starfsgleði. Við erum að gleðjast yfir æskunni okkar sem er svo full af krafti og sköpunargáfu. Við erum að senda þau skilaboð að börn, unglingar og barnafjölskyldur eiga stað í kirkjunni, eru alltaf velkomin. Við höfum kjark og þor til að horfa til framtíðar björtum vonaraugum.

Jesús sagði ,,Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi því að slíkra er Guðs ríki. (Mk 10.14)” Öflugt barna- og unglingastarf tryggir að kirkjan eigi framtíð á vegferð hennar í þágu Guðsríkisins og börnin glæða kirkjuna lífi með þeirri innsýn sem þau veita í leyndardóma Guðs.

Sunna Dóra Möller og Sigurvin Jónsson eru æskulýðsprestar í Akureyrarkirkju og Neskirkju.