Hefur þú fyllst Heilögum Anda?

Hefur þú fyllst Heilögum Anda?

Drengur spurði mömmu sína: “Mamma, hefur þú fyllst Heilögum Anda?” Hún svaraði: “Já, einu sinni, í kirkju í Frakklandi. Ég varð fyrir svo sterkri reynslu, að það hlýtur að hafa verið Andi Guðs.“ Hvað er að fyllast Heilögum Anda?

Erindi Guðs á Þingvöllum Þegar kristnitökuhátíðin var haldin á Þingvöllum árið 2000 kom framkvæmdastjóri Lúterska heimssambandsins til Íslands. Hann er frá Zimbabve og heitir Ishmael Noko. Ég man eftir honum í sólskininu á hátíðadeginum. Hann stóð við sáluhlið Þingvallakirkjugarðs og horfði stóreygur á undur þessa helgistaðar Íslendinga. Það var eftirminnilegt hve lengi hann stóð grafkyrr og var bersýnilega heillaður af náttúrufegurðinni og svo kom líka í ljós að þúsund ára kristnisaga varð honum íhugunarefni. Hann tók svo þátt í messunni og las pistil á eigin móðurmáli.

Þennan dag voru margir hópar ferðamanna á Þingvöllum, fylgdust með og heyrðu söng, lestra og prédikun messunnar. Annar afrískur maður var í einum hópnum. Hann horfði á umhverfið og hlustaði á hljóð náttúru og heyrði óminn frá messunni. Þessi maður átti eflaust fyrr á dauða sínum von en að heyra talað til sín á eigin máli og það úr hljóðkerfinu á Þingvöllum. En þegar Ishmael Noko, hinn lútherski, byrjaði að lesa boðskap úr Biblíunni var hinn ferðamaðurinn nærri og skildi hvert orð því þeir voru landar, báðir frá Zimbabve, og töluðu sömu tunguna. Það var ekki einkennilegt að manninum yrði bylt við og fyndist sem hann hefði orðið fyrir undri. Hann varð beinlínis fyrir opinberun. Til hans var talað á hans eigin tungu og það var boðskapur Guðs, erindi Guðs, skilaboð himinsins. Sagan er frá kristnihátíð og er eiginlega hvítasunnuundur. En er ekki kristni ein samfelld hvítasunna?

Andi Guðs í heimi Hvítasunna er ein þriggja stórhátíða kirkjunnar. Hvert er tilefni þessarar hátíðar? Á hvítasunnu fagnar kirkja Jesú Krists Anda Guðs. Við segjum, að á þessum degi hafi kirkjan verið stofnsett. Hún fæddist þegar sá sérstæði atburður varð, sem sagt er frá í öðrum kafla Postulasögunnar, að lærisveinarnir opnuðu hug og munn fyrir fréttinni um komu Guðs í veröldina, að Jesús væri ekki liðinn heldur lífs, að öllum mönnum væri boðið að vera hans börn og fylgjendur.

Á þessum degi héldu og halda Gyðingar hátíð til að kveðja páska og minna á gjöf boðorðanna tíu á Sínaífjalli. Af því að kirkjan er uppteknari af anda en bókstaf breytti hún þessari boðorðahátíð og lagði áherslu á framhald Guðsstarfsins. Boðorðin voru ekki og eru ekki hinsta og eina birting Guðsviljans, heldur umvefur Guð heiminn elsku sinni, Guð heldur áfram að ala lífið, bjarga lífi og spýta elsku sinni í allar lífsæðar veraldar.

Á fyrsta hvítasunnudegi fyllti Andi Guðs hóp lærisveina Jesú. Ein afleiðing þeirrar fyllingar voru ræðuhöld á tungum, sem hinir óskólagengnu og fákunnandi ræðumenn höfðu hvorki lært eða heyrt. Afleiðingin var að margir undruðust, heyrðu til sín talað eins og grandalaus Afríkumaður á Þingvöllum, heyrðu boðskap um Guðskomuna í heiminum, um tilgang mannlífs og trúarlífið. Atburðurinn breytti sögu fólks og þessarar veraldar. Kirkjan hóf starf í heiminum. Andi Guðs starfaði með nýjum hætti.

Upplifunaráhersla? En hvað varðar okkur um þessa hátíð? Hvernig skiljum við Guðskomuna og komu Andans? Er þetta táknhátíð um eitthvað sérstakt, svo exótískt að það varðar ekki venjulegt fólk?

Ungur drengur spurði mömmu sína: “Mamma hefur þú fyllst Heilögum Anda?” Mamman hugsaði sig um og sagði svo. “Já, einu sinni. Þá var ég í kirkju í Frakklandi og ég varð fyrir svo sterkri reynslu, að það hlýtur að hafa verið Andi Guðs.“ Svo hugsaði mamman sig um og spurði son sinn. “En hvað um þig. Hefur þú fyllst Heilögum Anda?” Og hann svaraði með svipuðu móti og móðir hans: “Já einu sinni þegar við vorum í Barcelona.”

Hefur þú fyllst Heilögum Anda? Er það reynsla í útlöndum? Hvað merkir svona spurning? Sumir telja, að hún sé merkingarleysa og ekki sé hægt að svara henni með neinu inntaki. Mæðginin skildu greinilega fyllingu Heilags Anda, sem djúpa reynslu, sem væri öðru vísi en allt þetta venjulega, sem þau upplifðu á Íslandi. Reynslan af anda Guðs væri þá sérstæð og framandi dýparskynjun, kannski fagurfræðileg reynsla, hrifningarreynsla, þegar tilfinningar fara á flug, lífið verður dásamlegt og kvikan er snortin með einhverju yfirskilvitlegu og undursamlegu.

Hvað segir þú um svona skilning á Anda Guðs og nærveru þess anda? Ef þú trúir á þríeinan Guð er þetta sú túlkun, sem nálgast helst þína skoðun eða skynjun á Heilögum Anda, sá kraftur sem veitir þér sérstaka upplifun á vitjunarstund hins einstaka og stórkostlega? Það er kannski ekkert skrítið, að margir hafa svona andaskilning, því á honum hefur verið alið af mörgum, sem eru fulltrúar þeirrar kristni, sem hefur verið kennd við karismatík og hvítasunnu og tala gjarnan um sérstakar og stórkostlegar gjafir Anda Guðs og að það sé markmið hins trúaða og kristinn maður eigi að leita eftir framar öðru.

Í Biblíunni er talað um, að menn eigi að leita eftir gjöfum Andans, en þar er ekki sagt menn eigi að vera í sérstöku leiðslu- og hrifningar-ástandi. Það er ekkert talað um sérstaka stemmingu Jesú, þegar hann gerði kraftaverk. Það er ekkert talað um einverja fílingu lærisveinanna þegar þeir töluðu í tungum. En allir, sem hafa orðið fyrir sérstæðri trúarreynslu, vita að reynslan er sterk. Gildir einu hvort, sem það er í Barcelona, Jerúsalem, Vesturbænum, á Hvannadalshnjúki eða í djúpri hugleiðslu bænar. Ég get vottað, að mannleg reynsla verður ekki öllu sterkari.

Hvað er upphaf og afleiðing? Er það reynsla manna sem er skilgreinandi aðalariði eða er reynsla manna innlifun í ákveðinn þátt hins heilaga anda? Hvað er upphaf og samhengi og hvað afleiðing? Og það er svo sem alltaf sem við þurfum að spyrja okkur hænueggsspurningarinnar. Hvað er forsenda og hvað afleiðing? Mikil reynsla er mikilvæg, djúp reynsla setur spor í sálina og breytir okkur. Ofurreynsla (peak experience) hefur löngum verið fólki, sem reynt hefur, mikilvæg og breytt lífi þess. En hvað verður þá um hversdagsreynsluna, er hún ómerkilegri? Nei, hún er jafn andleg og hin sérstaka. Guð hefur áhuga á öllu lífi og er ekki aðeins í tilfinningaflóðinu heldur líka tilfinninga-grámanum og stíflunum.

Hvað er þá inntak hvítasunnunnar ef ekki sérstæð reynsla? Í texta dagsins er sagt frá, að Jesús hafi verið við brunn og talað við konu, sem átti erindi þangað. Þau ræddu um aðferðir við guðsdýrkun, hvar menn tilbæðu Guð, hvar Guð væri að finna og hvernig trúarlífið ætti að vera. Erum við ekki öll í glímu hinnar samversku konu? Veltum við ekki vöngum yfir hvernig lífið verði best, hvernig við getum öðlast gott og hamingjusamt líf, hvernig tengslin við Guð verði fengin, hvaða leið við eigum að fara í hamingjugöngunni?

Ekki atburður heldur merking Konan sagði við Jesú, að hún vissi að þegar Messías kæmi myndi hann kunngjöra fólki allt. Atburðir hvítasunnunnar eru sérstæðir og yfirbragð þeirra er með goðsögulegu yfirbragði. Ef menn lifa í opnu lífkerfi og trúa að kraftaverk geti gerst þá geta menn numið dýpri merkingu í Þingvallalestri Ishmael Noko. Allt ferli hvítasunnunnar, sem sagt er frá í Postulasögunni, hefur goðsögulegt yfirbragð. Þetta er stíliseruð frásögn, sem segir hlutina út frá ákveðnu sjónarhorni.

Ég var að lesa merkilegt bókarkorn Karen Armstrong um goðsögur, gerð þeirra, skipan og hlutverk. Þetta er góð bók og heitir Short history of Myth og ég mæli með henni. Armstrong bendir réttilega á, að hlutverk goðsagna hafi aldrei verið að lýsa sérstæðum viðburðum eins og fréttamaður væri að störfum. Hlutverk goðsögunnar er ekki að lýsa staðreyndum einhvers atburðar, heldur greina og miðla merkingu. Þetta er mikilvægt og vert fyrir alla lesendur klassískra bókmennta og Biblíunnar þar með að muna vel og nota sem lykil við upplúkningu textanna.

Ekki staðreyndir heldur merking.

Þetta getum við notað til að nálgast hvítasunnuna. Það er ekki aðalatriði að skilja hvernig málundrið varð á fyrsta hvítasunnudegi. Það er ekki heldur aðalatriði að endurtaka reynslu lærisveinanna eða að reyna að kópera kirkjustíl fyrstu aldar, heldur er það aðalatriði að leita merkingar atburðanna, merkingu ræðu Jesú, merkingu samtals hans við konuna. Hver var hún?

Andinn upplýsir um Jesú Krist Marteinn Lúther minnti á í kverinu, litla katekismanum, að maðurinn gæti ekki af eigin kröftum trúað á Jesú Krist, en það væri hinn heilagi Andi, sem kallaði menn, upplýsti, helgaði og héldi þeim við trúna. Lúther er í þessu, sem mörgu öðru, góður leiðsögumaður. Ef það er ekki sérstök reynsla, sem er aðalatriði í verkan Heilags Anda þá er hér komið gott svar. Heilagur andi upplýsir um hver Jesús er, hver Guðstengslin við veröldina eru - er sá andi sem tengir okkur við hinar gleðilegu fréttir, að Guð kom sjálfur, upplýsir okkur sjálfur, tengist okkur sjálfur, umvefur okkur og hvíslar að okkur huggun og leiðsögn sjálfur í öllum sporum lífsgöngunnar.

Í guðspjallinu segir konan við Jesú: “Ég veit, að Messías kemur - það er Kristur. Þegar hann kemur, mun hann kunngjöra oss allt. Jesús segir við hana: Ég er hann, ég sem við þig tala.”

Þetta er merkingin í sögunni allri, allri sögunni um Jesú og líka samtalinu við brunninn. Aðalatriði var ekki að lærisveinarnir opnuðu þýðingarmiðstöð og að þeir gátu þýtt á fleiri mál en allir túlkar og þýðendur Jerúsalemborgar, heldur að Andi Guðs hafði opnað algerlega nýja sýn á veröldina, merkingu hennar, tilgang mannlífs og þar með þeirra allra: “Ég er sá sem við þig tala.” Það er það, sem andinn hvíslar, það er merking hvítasunnuatburða allra alda og á öllum dögum. Þegar þú trúir þessu hefur þú fyllst heilögum anda, þá hefur þú orðið fyrir “afrískri reynslu” á Þingvöllum, franskri kirkjuupplifun eða Barcelonareynslu, þetta sem er inntak skírnarinnar. Ef merking reynslunnar er af Heilögum Anda þá upplifir þú, að sá sem við þig talar, sé Jesús Kristur, vinur þinn í lífi og dauða, tíma og eilífð, lífið í sjálfum þér, lífið í sjálfri þér, lífið sjálft. Það er sú frummerking, sem umbreytir öllum atburðum í reynslu. 

Amen.

Prédikun í Neskirkju 2. hvítasunnudag 2007.

Lexían; Esek. 11. 19-20 Og ég mun gefa þeim nýtt hjarta og leggja þeim nýjan anda í brjóst. Ég mun taka steinhjartað úr líkama þeirra og gefa þeim hjarta af holdi, til þess að þeir hlýði boðorðum mínum og varðveiti setninga mína og breyti eftir þeim. Og þá skulu þeir vera mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð.

Pistillinn: 1. Kor. 12. 12-13 Því að eins og líkaminn er einn og hefur marga limi, en allir limir líkamans, þótt margir séu, eru einn líkami, þannig er og Kristur. Í einum anda vorum vér allir skírðir til að vera einn líkami, hvort sem vér erum Gyðingar eða Grikkir, þrælar eða frjálsir, og allir fengum vér einn anda að drekka.

Guðspjallið: Jh. 4.19-26 Konan segir við hann: Herra, nú sé ég, að þú ert spámaður. Feður vorir hafa tilbeðið Guð á þessu fjalli, en þér segið, að í Jerúsalem sé sá staður, þar sem tilbiðja skuli.

Jesús segir við hana: Trú þú mér, kona. Sú stund kemur, að þér munuð hvorki tilbiðja föðurinn á þessu fjalli né í Jerúsalem. Þér tilbiðjið það, sem þér þekkið ekki. Vér tilbiðjum það, sem vér þekkjum, því hjálpræðið kemur frá Gyðingum. En sú stund kemur, já, hún er nú komin, er hinir sönnu tilbiðjendur munu tilbiðja föðurinn í anda og sannleika. Faðirinn leitar slíkra, er þannig tilbiðja hann. Guð er andi, og þeir, sem tilbiðja hann, eiga að tilbiðja í anda og sannleika.

Konan segir við hann: Ég veit, að Messías kemur - það er Kristur. Þegar hann kemur, mun hann kunngjöra oss allt.

Jesús segir við hana: Ég er hann, ég sem við þig tala.