Sögur og fyrirgefning

Sögur og fyrirgefning

Urður vísaði í þessa gömlu klisju að orðspor gerenda væri eyðilagt og þolendum kennt um og refsað. Hún sagði að: Þolendur væri ekki að eyðileggja orðspor geranda. Gerandinn eyðilegði sjálfur sitt orðspor þegar kynferðisbrotið væri framið. Skömmin liggi alltaf hjá gerendum

Ég fylgdist með í vikunni því sem hefur verið kallað klósettbyltingin í framhaldsskólum þegar nemendur í nokkrum skólum gengu út og mótmæltu aðgerðaleysi í kynferðisbrotamálum innan veggja framhaldsskólanna.

Ég verð að viðurkenna að miðaldra ég varð örlítið meyr að fylgjast með þessu kraftmikla unga fólki stíga fram og krefjast breytinga, orkan þeirra og baráttuandinn fyllti mig von um það að þessi kynslóð sem er að vaxa upp muni ná fram breyttu og öruggara umhverfi fyrir okkur öll þar sem markaleysi og ofbeldi í samskiptum verða tekin föstum tökum og löngu tímbærar kerfisbreytingar muni eiga sér stað.

Ég hlustaði á ræðu ungrar stúlku, Urðar Bartels úr MH sem mælti meðal annars þessi orð í ræðu sinni: “Það verður ekki þaggað niður í okkar. Loksins læt ég rödd mina heyrast; við stöndum til að sýna þolendum stuðning, okkur er ekki sama, við gefumst ekki upp fyrr en við fáum einhverju breytt.

Við ætlum að vera kynslóðin sem fær breytingar; við erum mörg og við erum reið og saman erum við sterk. Við ætlum að berjast svo á endanum verður þjóðin að hlusta.

Við erum að mótmæla kerfinu sem slíku, kerfinu sem býður upp á að þolendur þurfi að umgangast gerendur sína.

Réttarkerfið er svo brotið, gallað og gjörsamlega ónýtt. Kærur varðandi kynferðisbrot taka mörg ár að fara í gegn og oftar en ekki er málið fellt niður. Kæruferlið er oft annað áfall fyrir þolanda.

Það þarf að hlusta á sögur þolenda og trúa þeim. Við krefjumst breytinga á kerfinu. Fyrst og fremst að finna bestu leiðir fyrir þolanda.”

Urður vísaði í þessa gömlu klisju að orðspor gerenda væri eyðilagt og þolendum kennt um og refsað. Hún sagði að þolendur væri ekki að eyðileggja orðspor geranda. Gerandinn eyðilegði sjálfur sitt orðspor þegar kynferðisbrotið væri framið. Skömmin liggi alltaf hjá gerendum.

Ég segi enn og aftur að þetta fyllti mig trú og von en um leið fór ég að hugsa um þetta orð sem notað er bæði gegn og með þolendum kynferðisofbeldis: Sögur.

Þess vegna langar mig að ræða um þetta hugtak *sögur” yfir reynslu af ofbeldi annars vegar og fyrirgefningar hugtakið hins vegar.

Byrjum á sögunum.

Ég hef heyrt því fleygt opinberlega á ljósvakamiðlum að þolendur safni sögum til að koma meintum gerendum frá og beiti svokallaðri hunsun og frystingu gagnvart geranda sínum. Að þetta sé allt gert eftir svokallaðri “Me too” hugmyndafræði og kynjaðri valdabaráttu. Það er gefið í skyn að búið sé að móta ákveðinn strúktúr sem konur vinni eftir og til sé orðin ákveðin kynjuð hugmyndafræði til að klekkja á gerendum ofbeldis sem “lenda í” að orðsporið þeirra skaðast.

Ég sagði það sjálf í viðtali um daginn þegar krafist var að skýrsla teymis þjóðkirkjunnar yrði gerð opinber í máli presta og starfsfólks hér í Digranes- og Hjallaprestakalli, svo að fólk sæi atvikalýsingarnar til að geta metið og tekið sjálft afstöðu varðandi málsatvik.

Ég svaraði því þannig að þetta væru ekki bara orð á blaði heldur opin sár.

Að baki hverri sögu er lifandi reynsla, áfall, sársauki, vanmáttur, vonleysi og stöðugar efasemdir um eigin dómgreind og upplifun á þeim ofbeldisaðstæðum sem þolendur hafa verið í.

Þegar einstaklingur verður fyrir ofbeldi af hvaða toga sem er, er það fyrsta sem hann gerir er að líta í eigin barm. Hvað var það í mínu fari sem gerði það að verkum að ég varð fyrir ofbeldi. Var ég ekki með nógu skýr mörk, hefði ég átt að stoppa þetta, af hverju var ég ekki nógu sterk eða sterkur til að stíga út úr aðstæðum. Af hverju leyfði ég ofbeldismanninum að komast upp með þetta.

Það þarf gríðarlegt hugrekki að stíga fram og segja frá ofbeldi. Það þarf líka hugrekki að gangast við því innra með sjálfum sér og segja við sig og aðra

“Ég er þolandi ofbeldis”.

Það er sárt og vont og þess vegna er þetta ekki bara saga, heldur sár áfallareynsla sem þolandi þarf langan tíma til að vinna sig út úr. Sagan er sem sagt ekki bara saga heldur lífssaga, en það merkir að hún er alltaf lifandi, aldrei dauður bókstafur og markar þann sem verður fyrir ofbeldi alla hans eða hennar tíð.

Persóna þess sem verður fyrir ofbeldi breytist, þú verður aldrei söm eða samur aftur. Hvernig þér reiðir af veltur á hvernig þú vinnur úr reynslunni og lærir að lifa með og skerpa á mörkunum þínum sem eru brengluð eftir ofbeldið. Það er lífsverkefni að vinna með slíka reynslu og verða heil á ný og læra að treysta fólki fyrir þér og þeirri dýrmætu manneskju sem þú ert.  

Hér skiptir svo miklu máli að þolanda sé trúað og tekið sé mark á reynslunni, sögunni trúað og þolandi fái stuðning en þurfi ekki stöðugt að vera að verja sig og veru sína í þessum heimi.

Þegar kemur að ofbeldi og þolendum erum við afar fljót að grípa til fyrirgefningarinnar. Við heyrum því fleygt hvort ekki sé bara hægt fyrirgefa og halda áfram og oftar en ekki er fyrirgefningunna beint að þolandanum. Hvort hann eða hún geti ekki bara fundið það í hjartanu sínu að fyrirgefa og ná sátt. Þetta er til dæmis miðlægt í kristinni kirkju að við veifum fyrirgefningunni eins og skiptimiða fyrir hamingju allra án raunverulegra aðgerða í átt að því að geta fyrirgefið ofbeldi.

Það sem mig langar til að segja um það er þetta:

Getur verið að með þessu séum við að smætta þessi brot og nota fyrirgefninguna sem vopn í aðstæðunum, sætta okkur við, jú þetta verður alltaf hluti af menningunni, á hverjum tíma sé bara til fólk sem beiti ofbeldi, ræðst á líkama og líf annarra. Samfélagslega líður okkur öllum betur þegar ekkert er óþægilegt og vont.

En við skulum jafnframt átta okkur á því að fyrirgefning á sér alltaf stað úr valdastöðu, frá valdaaðila í garð þess sem valdaminni en ekki á grundvelli jafningjasamskipta. Þolandi er aldrei í valdastöðu gagnvart geranda sínum. Gerandi hefur með því að beita ofbeldi sett sig þannig í valdastöðu gagnvart þolandanum að staðan verði aldrei jöfn.

Hvar kemst þá fyrirgefningin fyrir og hvernig læknum við það sem hefur verið brotið?

Í fyrsta lagi þá verðum við sem samfélag að hætta að hlífa okkur sjálfum við þjáningunni sem kynbundin ofbeldisbrot fela í sér og gera samfélgssáttmála þess efnis að standa ávallt með þeim sem brotið er á og við verðum að þola umræðuna um þessi mál, sem verða að vera rædd á yfirvegaðan og faglegan hátt.

Í öðru lagi þá steinhættum við að beita fyrirgefningarhugtakinu sem lausn nema í þeim tilfellum að þolandi ofbeldisins sé kominn á þann stað að ræða fyrirgefninguna sjálfur. Það er ekki fyrr en þá fyrst sem við sem samfélag getum fyrirgefið líka.

Í þriðja lagi verðum við að búa þannig um hnútana að þolandi sjái réttarkerfið vinna með sér, samfélagsumræðuna hætta að vera gerendameðvirk og beita þolendaskömm og umræðan taki sér alltaf stöðu með þolandanum. Við sköpum umhverfi trausts og hluttekningar og öryggis sem auðveldar fólki að koma fram og lýsa ofbeldinu og hefja ferli í átt að bata og betra lífi.

Í fjórða lagi þarf raunverulega og algjöra iðrun af hendi gerenda. Við þurfum að skapa umhverfi og úrræði sem kalla gerendur til persónulegrar iðrunar og ábyrgðar þar sem við gerum þeim það ljóst að við líðum ekki þessi brot en viðurkennum iðrun og raunverulega viðleitni til betrunar.

Við gerum þeim kleift að lifa sem manneskjur með eins mikilli reisn og unnt er eftir brot sín en drögum samfélagsleg mörk við hið opinbera svið og embætti. Endurreisn gerandans er fólgin í aðstoð við að sjá afleiðingar ofbeldisins sem beitt hefur verið og brotanna því það er þar sem yfirbótin hefst og ný stefna er tekin.

Í fimmta og síðasta lagi, og kannski það sem er mikilvægast, þarf þolandinn að finna frið til að geta fyrirgefið sjálfum sér. Það er stærsta og mikilvægasta fyrirgefningin. Bataferli og stuðningur þarf að miðast við það að þolandinn finni og sjái að hann gerði ekkert með sinni veru til að verðskulda ofbeldið. Og að hann átti sig á því að það var ekkert í hans fari sem olli því að ofbeldi var beitt, ekki í klæðaburði, veru, uppeldi né neinu öðru.

Ákvörðun er alltaf gerandans að beita ofbeldi, meðvitað og af ásetningi. Það er gerandans að bera skömmina, hans er að átta sig á því að þegar slíku ofbeldi er beitt, þá fyrirgerir hann ákveðnum rétti, hann hefur farið yfir ákveðin samfélagsleg mörk sem eru og verða aldrei liðin.

Og jafnvel þegar þolandi er ekki kominn á þann stað að gefa fyrirgefið, getur hann engu að síður öðlast visst frelsi við það að losa sig við byrðina, skila skömminni og leyfa öðrum að bera byrðina með sér.

Við getum einnig lagt byrði okkar í hendur Guðs sem fyrirgefur fyrir okkur og fyrirgefur okkur þegar við getum það ekki sjálf. Jesús Kristur á krossinum bað Guð að fyrirgefa þeim sem vissu ekki hvað þeir gerðu, hann gerði það ekki sjálfur, heldur lagði þá byrði í hendur Guðs.

Þeim Guði sem gleymir ekki þolendum, gleymir ekki hinu smæsta og varnarlausa, viðurkennir ekki ofbeldi og stendur gegn valdi í öllum myndum þess. Guð hefur rist hvert og eitt okkar í lófa sína og reist sína múra í kringum okkur. Guð sem líður ekki hroka eða dramb og lyftir því upp sem hefur verið auðmýkt og niðurlægt af hendi annarra.

Guð sem grætur með sköpun sinni og yfir misgjörðum hennar en endurreisir okkur þegar við tökum samfélagslega ábyrgð byggða á trausti og trúverðugleika og stöndum gegn ofbeldi í öllum myndum þess.

Góður Guð gefi okkur kjark til að taka alltaf afstöðu gegn ofbeldi, skapa þolendum öruggt skjól og trúa lifandi sögum. Aðeins á þeim stað getum við byrjað að græða sárin og byrjað að byggja upp á ný.

Amen.