Á öfugu nótunum

Á öfugu nótunum

Þessir valkostir senda okkur beint inn í kviku kristinnar trúar. Það er þetta sem Kristur vill sýna okkur þegar hann mætir þessu ólíka fólki. Og allt verður einhvern veginn öfugt í höndum hans. Hinni bersyndugu er tekið opnum örmum en hinn réttláti fær áminningu.

„Tímarnir breytast“. Lagið hans Bob Dylans leitar oft á hugann þessa dagana. Aldrei áður hafa breytingar verið eins örar og á okkar tímum. Aldrei meira fólk, aldrei meiri upplýsingar, meiri flutningar, fleiri hugmyndir, fleiri nýjungar. Dylan söng þetta á sjöunda áratugnum en breytingarnar eru enn örari nú á okkar tímum en var þegar hann var upp á sitt besta.

Það sést meðal annars á því hvað kynslóðirnar hugsa á ólíkan hátt á okkar dögum.

Foreldrar eru leið til vinnu árla morguns en fyrst þarf að fara með litla snáðann á leikskóla. Illt er í efni – vettlingarnir finnst ekki þrátt fyrir örvæntingarfulla leit í kapp við klukkuna. En sá stutti er hinn rólegasti og spyr hina fullorðnu: „Getið þið ekki bara gúglað þeim?“– fæddur inn í menningu þar sem svar fæst við öllum spurningum og lausn á sérhverju vandamáli á leitarvélum veraldarvefsins. Já, hvernig verður þessi kynslóð? Ársgömul börn renna fingri eftir gleri spjaldtölvunnar og opna forritin eins og ekkert sé eðlilegra. Við höfum þegar fengið svör við þessum spurningum. Kynslóðir sem alast upp á víðáttum upplýsinganna hafa aðra sýn á umhverfi sitt en þær sem á undan voru.

Gleðiganga dagsins

Tímarnir breytast og maður minn hvað umskiptin geta verið snögg. Hvern hefði grunað það fyrir fáeinum árum að Jón Gnarr ætti eftir að verða borgarstjóri Reykjavíkur og að hann ætti eftir að skrýðast peysufötum í fylkingarbrjósti á gleðigöngu samkynhneigðra? Flestir láta sér vel líka enda nýtist kímnin vel til þess að brjóta niður múrana.

Hvað er hægt að segja um þessa gleðigöngu? Ég verð að játa að mér hefur stundum þótt nóg um sjatteringarnar koma þegar þeir mæta hommarnir, leðurklæddir og ögrandi og svo stendur fólk með börnin sín og allir brosa í sólinni. Það er eins og samfélagið sé að hampa því sem áður var hulið. En sú er einmitt raunin og sjálfsagt er auðvelt að koma miðaldra prestum í opna skjöldu. Lífsmáti og eðli sem eitt sinn dró fólk inn í myrka afkima er komið upp á yfirborðið – og svona lítur það út. Gjörið svo vel! Slakaðu á og áttaðu þig á því að tímarnir breytast. Gleðin er ekki síst í hinu öfuga og hinsegin, er það ekki þá sem við brosum og hlægjum? Eins og þegar karlkyns borgarstjóri stendur í peysufötum á bílpalli.

Gleðiganga ljóssins

Gleðigangan er ganga ljóssins og í pistli dagsins talar postulinn um eina slíka göngu:

Ef við segjum: „Við höfum samfélag við Jesú,“ og göngum þó í myrkrinu, þá ljúgum við og iðkum ekki sannleikann. En ef við göngum í ljósinu, eins og hann sjálfur er í ljósinu, þá höfum við samfélag hvert við annað og blóð Jesú, sonar hans, hreinsar okkur af allri synd.

Göngum í ljósinu? Eigum samfélag hvert við annað? Er þetta ekki gleðiganga í orðum postulans? Það er gleðiganga ljóssins. En hann talar einnig um aðra göngu sem er gangan í myrkrinu.

Við sjáum þær andstæður á okkar tímum einnig. Mitt í þeirri byltingu frjálslyndis sem okkur finnst einkenna samtímann, skynjum við óm breytinga úr allt annarri átt. Nú knýja múslímar dyra og vilja fá að byggja sér helgidóm, mosku, á Íslandi. Umræðan verður nokkuð snörp en úrtölumenn eru óðara kvaddir í kútinn. Það nær jú auðvitað engri átt að meina þeim að eiga sína helgidóma. Enda snýst umræðan ekki um það.

Trúarkerfi islam er ólíkt því sem við eigum að venjast héðan úr hinum kristna menningarheimi. Þar varð ekki upplýsing, eins og á Vesturlöndum á 18. öld heldur þvert á móti færðist samfélag íslamskra ríkja í fjötra bókastafstrúar og lögmálsfestu. Kennir vissulega margra grasa í litrófi þeirra sem fylgja Múhameð og sjálfur hef ég átt frábær kynni við múslíma sem eru bæði jafnréttissinnaðir og víðsýnir. Full ástæða er hins vegar til þess að vera á varðbergi þegar prestar þeirra hefja sín störf því þeir eru þurfa ekki að vera talsmenn hins opna og nútímalega. Slíkt kann jafnvel að vera þeim þyrnir í augum.

Hraðlest tímans

Og auðvitað finnum við svipaðan tón í dimmu hugskoti margra sem kenna sig við Krist. Það hefur og komið fram í umræðu daganna. Við viljum ekki lengur hlusta á þessa flokkadrætti: góðir og slæmir, réttlátir og ranglátir og kristnir menn eiga ekki að draga systkini sín í slíka dilka.

Munurinn á kristni og islam er engu að síður mikill. Við sjáum það hversu þau þjóðfélög hafa þróast til ólíkrar áttar sem spretta upp úr jarðvegi kristinnar kirkju en þau sem islam hefur mótað. Krossarnir í fánum Norðurlandanna sýna hvar rætur þeirra liggja enda eiga þau vart nokkurt sameiginlegt sérkenni en þá staðreynd að þar hefur ríkiskirkja þróast samhliða menningunni. Vart finnum við samfélög sem leggja jafn ríka rækt við jafnrétti og frelsi. Enginn vafi er á því að boðskapur lútherskrar kristni hefur mótað þau með kröfu sinni um félagslegan jöfnuð en um leið ábyrgð hvers manns á sjálfum sér og gjörðum sínum. Og yfir öllu vakir sú hugsun að menn séu jafnir frammi fyrir Guði.

Hvað um það, hraðlest tímans æðir áfram og kannske líka afturábak. Hún birtist okkur í sinni margbreytilegustu mynd. Allt frá litafjöld menningar sem vill opna skápa og leyndar kytrur og svo hið einsleita sem hylur jafnvel manneskjuna á bak við þykk klæði eða lokar úti einstaklinga og heilu hópana. Það eru þessar andstæður sem taka á móti okkur og krefja okkur um afstöðu.

Jesús og valkostirnir

Hverfum þá aftur á bak til daga Jesú Krists sem miðlar okkar boðskap sem er í senn byltingarkenndur og sígildur. Í guðspjalli dagsins sjáum við merki nýrra tíma. Eins og svo oft, já eins og á okkar dögum – blasa andstæðurnar við. Annars vegar var það faríseinn. Hann er talsmaður lögmálsins, hann er dómharður og fastur á sínu. Sannarlega var hann vandur að virðingu sinni og eins gott því menn af hans sauðahúsi lifðu í þeirri trú að Guð héldi á réttlætisvoginni og dæmdi þá hart sem misstíga sig í lífsins dansi.

Og svo var það konan, þessi sem sögð var vera bersyndug. Við sjáum hvernig þau mæta Kristi. Ansi er það frábrugðið. Hún hleypur til hans og sýnir á öllu hátterni sínu hversu hún rík hún er að kærleika og sem kallar fram iðrun og ósk um fyrirgefningu. Hann er ískaldur og yfirvegaður, maður sem þarf ekkert að þiggja.

Já, þessar tvær manneskjur mæta Kristi í guðspjalli dagsins. Önnur er bersyndug en kærleiksrík, hin er réttlát að eigin mati og finnur ekki hjá sér hvöt til þess að opna hjarta sitt í auðmýkt fyrir meistara sínum. Af hverju ratar þessi frásögn á síður ritningarinnar? Jú, vegna þess að viðbrögð Krists eru svo ólík því sem við hefðum mátt vænta af slíkum manni. Hvers vegna bandaði hann ekki frá sér hinni syndugu konu eins og siðir og reglur gerður ráð fyrir? Hvernig gat hún staðið uppi með sigurkransinn í höndunum en ekki hinni háttprúði farísei?

Og það er ekki síður eftirtektarvert að faríseinn er fulltrúi hinna trúuðu í sögunni – hann tilheyrir þeirri elítu sem leit á sig sem handhafa sannleika og réttrar háttu. Konan er fulltrúi þeirra sem ráfa um mörkina, bersyndug og útskúfuð.

Á öfugu nótunum

Það er ekki aðeins á Íslandi 21. aldarinnar þar sem við stöndum frammi fyrir afarkostunum – hið þrönga réttlæti nálaraugans og svo gleðigangan þar sem fólk hampar því sem er hinsegin – öfugt með jákvæðum formerkjum! og grínistinn er þar í broddi fylkingar, klæddur eins og virðuleg íslensk kona!

Þessir valkostir senda okkur beint inn í kviku kristinnar trúar. Það er þetta sem Kristur vill sýna okkur þegar hann mætir þessu ólíka fólki. Og allt verður einhvern veginn öfugt í höndum hans. Hinni bersyndugu er tekið opnum örmum en hinn réttláti fær áminningu. Áminninguna útskýrir hann í dæmisögunni þar sem við erum minnt á það að ekkert okkar er né verður fullkomið. Við nálgumst ekki Guð á jafnréttisgrunni heldur komum við fram fyrir hann með skuldir okkar og syndabagga.

Og við sjáum það í sögunni hversu syndin getur verið jákvætt fyrirbæri – já þið heyrðuð rétt. Hún er jákvæð þegar hún tekur okkur ofan af stallinum og fær okkur til þess að hætta að dæma og fordæma náungann sem ber ef til vill synd sína utan á sér eins og konan gerði. Þar kemur þó allt út á eitt í augum Guðs því við höfum hvert og eitt okkar skuld sem við ekki getum greitt. En þegar við opnum hjarta okkar fyrir Guði þá tekur hann við okkur.

Í þessu samhengi blasir það við að við erum öll jöfn frammi fyrir Guði. Játningin og fyrirgefningin haldast í hendur. Og af fyrirgefningunni spretta fagrir ávextir, já sú gleðiganga hefst þegar við göngum í ljósinu hvernig sem við veljum okkur búning. Kannske viljum við ögra og jafnvel hneyksla. E.t.v. viljum við vekja hlátur og glens. En við eigum að ganga fram fordómalaust hvert við annars hlið og minnast þess að Guð tekur okkur opnum örmum er við nálgumst hann í kærleika og auðmýkt.