Myrkur

Myrkur

Kross og Upprisa Jesú Krists eru grundvöllur og inntak kristindómsins. Án þeirra er boðunin ónýt og sýn kristinna manna á veruleikann blekking ein. Því án Krists er veröldin á valdi dauða og myrkurs, sem svipta lífið allri merkingu og gera allt tilgangslaust. Þetta hafa Kristnir menn á öllum tímum vitað, því í guðspjallinu segir: „En frá hádegi varð myrkur um allt land til nóns.“ (Mt 27.45).

En frá hádegi varð myrkur um allt land til nóns. Mt 27.45

„Frá hádegi varð myrkur ...“

Kross og Upprisa Jesú Krists eru grundvöllur og inntak kristindómsins. Án þeirra er boðunin ónýt og sýn kristinna manna á veruleikann blekking ein. Því án Krists er veröldin á valdi dauða og myrkurs, sem svipta lífið allri merkingu og gera allt tilgangslaust. Þetta hafa Kristnir menn á öllum tímum vitað, því í guðspjallinu segir: „En frá hádegi varð myrkur um allt land til nóns.“ (Mt 27.45). Við vitum að hér er ekki verið að fjalla um kvöldskugga eða næturmyrkur, né heldur að skýi bregði fyrir sólu. Hér er heldur ekki á ferðinni enn ein frásagan úr fornöld, þar sem er greint frá því að þegar eitthvert stórmennið gefur upp andann verði landið um tíma myrkvað.

Enginn neitar því að heimurinn sé mótaður af dauða og myrkri.(1) Í öllum fjölmiðlum er daglega greint frá þessu. Þrátt fyrir það viljum við ekki ganga svo langt að segja að heimurinn sé myrkrið eitt, því lífið hefur margar bjartar hliðar. Það er því ljóst að myrkrið sem vísað er til í guðspjallinu er annars eðlis en það sem er hægt að mæla eða höndla með ljósmyndum. Það liggur sem sé dýpra og er handan veruleikans. Og við spyrjum: Við hvað er nákvæmlega átt? Svarið er: Í guðspjallinu er um að ræða frummyrkrið sem brýst fram í krossdauða Jesú Krists og þekur allt.(2)

„Og myrkur grúfði yfir djúpinu“

Hugmyndir um frummyrkrið eða tómið mætir okkur bæði í goðsögum trúarbragða og í ritningunni. Í henni er vísað til þess m.a. í frásögunni af Nóaflóðinu, en sérstaklega í sköpunarsögunni. Þar er dregið fram hverskonar óskapnaður frummyrkvið er: „Jörðin var þá auð og tóm, og myrkur grúfði yfir djúpinu, og andi Guðs sveif yfir vötnunum. Guð sagði: Verði ljós! Og það varð ljós.“ (1M 1.2). Guð kallar hér fram himinn og jörð – allt sem er – úr djúpi auðnar og tóms. Og í beinu framhaldi af því er sagt „Guð sá, að ljósið var gott, og Guð greindi ljósið frá myrkrinu.“ (1M 1.4). Guð einn getur greint að ljós og myrkur eða líf frá tómi. Manninum er sem sé ekki gefið að skilja á milli ljóss og myrkurs. Það er Guð sem skilgreinir sköpun sína sem góða, það er því mannsins að leggja endanlegt mat á hana eða sjálfan sig.

Annað merkilegt við þessa frásögn er, að fyrir það fyrsta er sagt, að án Guðs hverfi veruleikinn – heimur og maðurinn –aftur inni í tómið. Í guðspjallinu dagsins er þessi áhersla í forgrunni. Í annan stað er vísað til þess að myrkrið geti hvenær sem er komið upp á yfirborðið veruleikans og náð tökum á manninum. Það er eins það blundi djúpt í undirmeðvitundinni og vakni þegar maðurinn reynir að vera sjálfum sér allt eða þegar hann skilgreina sjálfan sig alfarið í ljósi verka sinna. Afleiðingar þess minnumst við hér í dag, en við finnum einnig dæmi um afleiðingar þessa ferlis í lífi einstaklingsins í sögunni um Kain.

„Andlit hans myrkvaðist“

Í fyrstu Mósebók segir: „Og Drottinn leit með velþóknun til Abels og fórnar hans, en til Kains og fórnar hans leit hann ekki með velþóknun. Þá reiddist Kain ákaflega og varð niðurlútur.“ (1M 4.5). Í stað þess að sína þakklæti með fórn sinni fyrir það sem Kain var gefið vildi hann upphefja sjálfan sig, þess vegna missti fórnin marks. Kain reiddist og varð niðurlútur, eða í réttari þýðingu „andlit hans myrkvaðist.“(3) Óskapnaðurinn sem heimurinn er kallaður fram úr ryðst nú inn í líf akuryrkjumannsins og afleiðingarnar eru hrikalegar: „Og er þeir voru á akrinum, réðst Kain á Abel bróður sinn og drap hann.“ (1M 4.8) og jörðin „opnaði munn sinn til að taka á móti blóði“ bróður hans. (1M 4.11). Samkvæmt úrskurði Kains sjálfs er synd hans meiri en svo að hægt sé að fyrirgefa hana. Veröldin verður dauði og myrkur eitt fyrir Kain og allir menn verða að andstæðingum. Því segir Kain: „...ég verð að felast fyrir augliti þínu og vera landflótta og flakkandi á jörðinni, og hver, sem hittir mig, mun drepa mig.“ (1M 4.14).

Dómur Kains yfir sjálfum sér er skýr: Hann gerði það sem illt var, hann myrti bróður sinn og verðskuldar því dauða sjálfur. Hann hefur misst rétt sinn til lífs. Rök hans eru: Líf skal bæta með lífi. Líf Kains er samkvæmt eigin skilgreiningu tilgangslaust.

Guð hafnar sjálfskilningi og dómi Kain með afdráttarlausri neitun (1M 4.15) því það er hann – Guð - sem skilur að ljós og myrkur. Í þessari frásögu er sagt frá hvernig Guð réttlætir okkur synduga menn. Hún sýnir hvernig réttlæti Guðs gerir líf myrkurs og dauða að veruleika fyrirgefningar og lífs. Dómsúrskurður Guðs veitir lífi Kains aftur merkingu og gefur því nýjan grundvöll. „Drottinn setti Kain merki þess, að enginn, sem hitti hann, skyldi drepa hann.“ (1M 4.15). Afbrotið hverfur ekki, Kain gengst við því og hann áfram lifir í skugga afbrotsins, en nú sem réttlættur og syndari. Og Kain axlar ábyrgð sína: „Þá gekk Kain burt frá augliti Drottins og settist að í landinu Nód fyrir austan Eden. Kain kenndi konu sinnar, og hún varð þunguð og fæddi Henok. En hann var að byggja borg og nefndi borgina eftir nafni sonar síns Henok.“ (1M 4.16-17). Það er vart hægt að tjá betur afleiðingar réttlætingarinnar. Kain, sá sem drap náunga sinn og missti þar með rétt sinn til að eiga samfélag við aðra menn, þessi andfélagslegi maður reisir borg. Í borg þrífst fólk ekki án hvors annars heldur verður það að reynast hvort öðru sem náungi ef hún á að standa. Þannig er hér dregið fram í ritningunni að það er Guð sem dæmir manninn og reisir hann við í dómi sínum.

„Ég er ljós heimsins“

Við áttum okkur nú ef til vill betur á því hvers eðlis myrkrið er sem guðspjallið vísar til og um leið hvers eðlis sköpunarstarf Guðs er. Hann kallar okkur stöðugt fram út úr myrkri til lífs með sér. Á krossi Krists og í upprisu hans er endanlega tekist á við frummyrkrið og dauðann eða tómið og tilgangleysið sem við köllum stöðugt yfir okkur.

Andstæða þess er Jesús Kristur sem segir um sjálfan sig: „Ég er ljós heimsins“. Í honum er lífið að finna og það er óaðskiljanlegt frá náð og fyrirgefningu, ást og umhyggju Guðs. Það er algjör andstæða þess sem frummyrkrið stendur fyrir.

Í krossdauða Krists opinberast bæði höfnum mannsins á Guði, og það hvernig veruleikinn verður myrkri og tilgangsleysi að bráð ef Guð yfirgefur sköpun sína. Í krossdauða Jesú er eins og sköpunin hverfi aftur inn í frummyrkrið. Í guðspjallinu er afleiðingum Guðsafneituninnar lýst sem tómhyggju og tilgangsleysi. Dómur Kains yfir sjálfu sér er færður yfir á allan veruleikann.

Orðin: „En frá hádegi varð myrkur um allt land til nóns.“ (Mt 27.45) tjá það þegar frummyrkrið stígur fram á svið tilverunnar í greinilegri mynd, til þess að svelgja í sig lífið í krossdauða Krists. Einmitt þar er öllu snúið við, dauði Krists er dauði dauðans og frummyrkrið hverfur fyrir ljós lífsins.

Í sköpunarsögunni sveif andi Guðs yfir vötnun og kallaði heiminn fram með orði sínu. Á Krossi Krists gekk Guð í Kristi inn í djúp frummyrkursins og tók á sig allan dauða og allt tilgangsleysi og skapar nýtt. Hann endurleysir og reisir við menn og heim. Þetta er opinberað í upprisunni og þess vegna er ekki hægt að fjalla um krossinn án hennar. Í ljósi upprisunnar sjáum við að krossinn opinberar sigur lífsins yfir dauðanum, sem gerir tilgangsleysið tilgangslaust. Alveg eins og Guð sagði Nei! við dómi Kains yfir sjálfum sér og ruddi lífi hans nýja leið, þá segir Guð í Kristi Nei! við dauðanum og öllu myrkri. Hann opinberar að heimurinn er hans góða sköpun og við menn börn hans. Ljós Krists lýsir nú upp alla tilveruna eða eins og Páll orðar það:

„Kristur Jesús er sá, sem dáinn er. Og meira en það: Hann er upprisinn, hann er við hægri hönd Guðs og hann biður fyrir oss. Hver mun gjöra oss viðskila við kærleika Krists? Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð? [...] Nei, í öllu þessu vinnum vér fullan sigur fyrir fulltingi hans, sem elskaði oss. Því að ég er þess fullviss, að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt, né nokkuð annað skapað muni geta gjört oss viðskila við kærleika Guðs, sem birtist í Kristi Jesú Drottni vorum“. (Rm 8.34-39).

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Aftanmálsgreinar

1. Martin Buber Gottesfinsternis. í Martin Buber Werke 1 bindi, 1962, 503–603. 2. Sjá Eberhard Jüngel, Das Evangelium von der Rechtfertigung des Gotteslosen als Zentrum des christlichen Glaubens, Tübingen 1998, 7 – 11. 3. Lúther nær betur merkingu frumtextans. „und senkte finster seinen Blik.“

Sigurjón Árni Eyjólfsson er héraðsprestur í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra. Flutt í Grafarvogskirkju á föstudaginn langa, 25. mars 2005.