Óvenjugóð jól

Óvenjugóð jól

“Ég hugsa að þessi jól muni verða okkur óvenjugóð,” sagði þessi fangi og hélt áfram: “Sú staðreynd ein að allar ytri kringumstæður koma í veg fyrir að við getum undirbúið jólin á nokkurn hátt, mun leiða í ljós hvort við getum verið ánægð með það sem í raun er kjarni málsins."

I. Náð sé með yður og friður frá Guði, föður vorum, og Drottni Jesú Kristi. Amen. “Ég hugsa að þessi jól muni verða okkur óvenjugóð.” Hver ætli horfi til jólanna með þessum orðum? Sú eða sá sem býr við frelsi og öryggi, gleðst með ástvinum sínum og nýtur kræsinga og gjafa af allsnægtaborði? Eflaust hlýtur það að reynast rétt. En þó að það kunni að virðast þversögn, voru þessi orð rituð af manni, sem horfði á sínum tíma fram til jólanna úr fangaklefa. “Ég hugsa að þessi jól muni verða okkur óvenjugóð,” sagði þessi fangi og hélt áfram: “Sú staðreynd ein að allar ytri kringumstæður koma í veg fyrir að við getum undirbúið jólin á nokkurn hátt, mun leiða í ljós hvort við getum verið ánægð með það sem í raun er kjarni málsins. Ég var yfirleitt mjög hrifinn af því að hugsa um og kaupa jólagjafir, en nú, þegar við höfum ekkert að gefa, mun gjöfin sem Guð gaf okkur í fæðingu Krists virðast enn dýrlegri.” Þetta skrifaði þýski guðfræðingurinn Dietrich Bonhoeffer í bréfi til unnustu sinnar, Mariu von Wedemeyer, á aðventunni árið 1943. Bréfið var ritað úr fangaklefa, vegna þess að Bonhoeffer hafði barist árum saman gegn nasismanum í heimalandi sínu og hafði, þegar hér var komið sögu, verið handtekinn og sat í fangelsi fyrir þátttöku sína í andspyrnunni gegn Adolfi Hitler og stefnu hans.

II. Sjálfur er ég mikið jólabarn og er, eins og vonandi við flest, þakklátur fyrir að fá að fagna hátíðinni, gefa og þiggja jólagjafir og gera mér dagamun með fjölskyldu minni í öryggi og friði. Frammi fyrir orðum Bonhoeffers úr fangelsinu vaknar þó spurningin um það, hvernig jólin yrðu ef allt það sem við þekkjum og þráum við hátíðina væri frá okkur tekið. Við könnumst sennilega flest við að hafa einhvern tíma hugsað: Jólin verða alveg ónýt ef... þetta eða hitt vantar. Og kannski munið þið eftir gamla slagaranum “Jólainnkaupin” þar sem upptalningu á miklu kaupæði og gjafaflóði lauk með orðunum: “Annars verða bara engin jól!” Þegar við hjónin fórum fyrir nokkrum árum að halda “okkar eigin” jól, í stað þess að verja aðfangadagskvöldi til skiptis á heimilum foreldra okkar, þurftum við vitaskuld að semja um hvað yrði í jólamatinn og hvað væri alveg ómissandi að borða til að jólin kæmu nú örugglega. Konunni minni fannst til dæmis ósk mín um að aspassúpa yrði á borðum yfir hátíðina frekar skrýtin. Henni var ég vanur sem forrétti í bernsku á aðfangadagskvöld en er nú svona hægt og rólega farinn að taka rækjurnar í sátt! En hvað ef allur dagamunurinn yrði nú frá okkur tekinn og tilverunni snúið á hvolf vegna fangelsisvistar, veikinda eða annarra aðstæðna? Trúlega þykir okkur sú tilhugsun ekki sérlega þægileg nú í miðjum hátíðahöldunum, að minnsta kosti kæri ég mig lítt um hana. Það er þó hollt að láta orð þýska andspyrnumannsins Bonhoeffers minna sig á, hver er hin sanna jólagjöf. “Ég hygg að þessi jól muni verða okkur óvenjugóð... Nú, þegar við höfum ekkert að gefa,” skrifar hann úr fangaklefanum, “mun gjöfin sem Guð gaf okkur í fæðingu Krists virðast enn dýrlegri.”

III. Í einum af ritningarlestrunum, sem við heyrðum hér áðan, er þessari gjöf Guðs í Jesú lýst með áhrifaríkum hætti. Þar, í upphafi Hebreabréfsins (1.1-3), fáum við að heyra, að þó að Guð hafi talað til mannanna með ýmsu móti í gegnum tíðina, hafi hann valið að tala með sérstökum hætti til okkar í Jesú Kristi. Jesús er gjöf Guðs til okkar og birtir okkur dýrð Guðs. Jesús er ímyndin eða innsiglið af veru Guðs, sá sem sýnir okkur hvernig Guð er. Hann kom til að leiða okkur í kærleikanum, til að deyja fyrir syndirnar okkar - og til að rísa upp svo að við gætum öll átt vonina um eilífa lífið hjá honum. Orðin úr Hebreabréfinu minna okkur líka á vald og mátt Jesú. Honum er gefin hátignin á hæðum. Honum ber leiðtogahlutverkið í lífi okkar. Það hlutverk eru þó margir tilbúnir að taka að sér.

IV. Í upphafi jólaguðspjallsins er einmitt vikið að þekktum leiðtoga á tíma Jesú: En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara... Ágústus var greinilega stórtækur leiðtogi því að hann er sagður hafa ætlað sér að skrásetja “alla heimsbyggðina.” Vitaskuld ber að hafa í huga varðandi þetta orðalag, að bæði var heimsmynd samtíðarmanna Jesú takmörkum sett og Rómaveldi orðið mikið að vöxtum við upphaf okkar tímatals. Það læðist þó að manni sá grunur að í gegnum orð guðspjallamannsins skíni lymskuleg hæðni, þar sem hinum veraldlega valdsmanni er stillt upp andspænis barninu í jötunni. Ágústus var vissulega einn farsælasti keisarinn í sögu rómverska ríkisins. Hann ríkti í yfir 40 ár og nafn hans er tengt miklum friðar- og velmegunartíma í heimsveldinu. En einveldi hans batt líka enda á lýðveldistímann í ríkinu. Hann naut gífurlegrar lotningar og stuðlaði sjálfur óspart að henni, til dæmis með útbreiðslu staðlaðra brjóstmynda af sér. Og svo bar hann kórónu á höfði sem tákn um mátt sinn og megin, en áður hafði aðeins mátt halda kórónu uppi fyrir ofan höfuð rómverskra herforingja í sigurgöngu um leið og kórónuberinn hvíslaði stöðugt að honum: “Mundu að þú ert dauðlegur.” En ef til vill hefur Ágústus ekki talið sig þurfa á þeirri áminningu að halda. Þrátt fyrir allt þetta skynjum við í guðspjallinu, að hreyfing og vald Ágústusar er léttvægt í samanburði við þá hreyfingu og þann mátt, sem barnið í jötunni ber með sér. Hinn jarðneski keisari og ríki hans mun líða undir lok. Hinn sanni leiðtogi, Jesús Kristur, er kominn hljóðlega og í hógværð. Sannur friður innra með okkur og manna á milli er hans gjöf. Hans ríki er eilíft og hátign hans er á hæðum.

V. Þetta vissi Dietrich Bonhoeffer, andófsmaðurinn þýski. Hann var sannfærður um að Kristur, jólagjöf Guðs til okkar, væri einn verður lotningar. Aðeins tveimur dögum eftir að Hitler tók við völdum í Þýskalandi, árið 1933, flutti hann merka útvarpspredikun þar sem hann gagnrýndi nasismann harðlega og sagði hugmyndafræði hans um “Foringjann” vera bæði ranga og hættulega. Predikuninni lauk á orðunum: “Leiðtogar, sem stilla sér upp sem guðir, hæðast að Guði.” Þessi lokaorð fengu Þjóðverjar þó ekki að heyra, þar sem útsending ræðunnar var rofin í miðju kafi. Hjá predikaranum tók við áralöng andspyrna og síðar fangavist, en líka samfélag við Drottin í þrengingunum. Bonhoeffer átti ekki afturkvæmt úr fangaklefanum. Snemma vors árið 1945 fyrirskipaði Hitler að hann skyldi tekinn af lífi, aðeins 39 ára gamall, ásamt fleiri andófsmönnum. Það er dapurlegt að aftakan skyldi hafa farið fram aðeins nokkrum dögum áður en undanhald Þjóðverja í stríðinu hófst og Hitler sjálfur svipti sig lífi. En í fangelsinu, líkt og áður, sótti Bonhoeffer styrk sinn í faðm Guðs og miðlaði úr djúpi hans í fjölda bréfa og rita. Þess vegna gat jólaboðskapur hans til unnustunnar úr hinum ömurlegu aðstæðum í fangelsinu verið þessi: “Nú, þegar við höfum ekkert að gefa, mun gjöfin sem Guð gaf okkur í fæðingu Krists virðast enn dýrlegri.” Þrátt fyrir fjarveru frá ástvinum og angist yfir því sem verða vill, skynjar trúmaðurinn, að gjöfin sem Guð gefur okkur í Kristi er sannarlega dýrleg. Það er gjöfin, sem jólin vitna um. Það er gjöfin, sem við megum opna hjörtu okkar fyrir. Og þá verða jólin óvenjugóð. Í Jesú nafni. Amen.