Vestmannsvatn í fimmtíu ár

Vestmannsvatn í fimmtíu ár

Þegar kirkjufólk á Norðurlandi réðst í að koma upp aðstöðunni hér til starfs á meðal barna og unglinga var það framtak birtingarmynd þess, að þetta sama kirkjufólk kynni að meta æsku landsins og gerði sér grein fyrir mikilvægi hennar.

Vestmannsvatn

Kæru vinir! Á fimmtíu ára afmæli er vel við hæfi að þakka afmælisbarninu fyrir að hafa verið til og rifja upp allt sem það hefur gefið þessum hvíta miðaldra karli, glatt hann og auðgað þannig að í dag er hann ekki önugur nöldurseggur á athugasemdakerfum netmiðla heldur þakklátt og brosandi Vestmannsvatnsbarn. Það er júlíkvöld árið 1984, fimmta kvöldið í þriðja dvalarhópnum og fimmtíu börn sitja hér í salnum af þeim hundruðum sem komu hingað á hverju sumri á þeim árum. Kvöldvakan er búin þar sem skærir barnshlátrar og gleðisöngvar fylltu salinn. Nú sit ég hér fyrir framan altarið með kettlinginn Eyvind á hnjánum og krakkahópinn á gólfinu fyrir framan mig. Ég strýk kisu og tala við börnin um mikilvægi þess að ganga vel um náttúruna og vera góð við dýrin. Ég horfi í á annað hundrað glaðvakandi barnsaugu og tala inn í jafnmörg galopin barnseyru. Börnin eru móttækileg fyrir því sem ég er að segja á stað þar sem þau geta þreifað á umræðuefnunum, náttúrunni og kisu. Það er heilög stund.

Skömmu síðar er ég kominn upp í svefnskála ásamt hinu starfsfólkinu og stend inni á einu herbergjanna á annarri helgistund. Við erum að fara með kvöldversin með börnunum sem eru komin upp í kojurnar sínar, þreytt og sæl eftir skemmtilegan dag. Ég býð góða nótt og fæ sömu kveðju fjórraddaða til baka en áður en ég fer fram á gang þarf ég að strjúka tár af einni kinn; hugur eigandans hafði leitað heim rétt áður en lagt var af stað inn í draumalandið.

Og ég man eftir einum af þessum einstöku blíðviðrisdögum hér þegar jörðin dunaði undan hlaupandi barnsfótum, áraglamur barst utan af spegilsléttu vatninu, bolta var sparkað úti á velli og erfiðlega gekk að ná börnunum inn í miðdegishressinguna. Dásemdir Vestmannsvatns voru slíkar að meira að segja nýbökuð ilmandi skúffukakan og ísköld húsavíkurmjólkin voru börnunum ekki nógu tælandi freistingar. Þvílík blessun að hafa fengið að upplifa þennan stað, náttúruna, samfélagið við börnin og starfsfólkið og fengið að reyna kirkjuna að starfi á Vestmannsvatni. Svo sannarleg á ég þessum stað ótalmargt að þakka. Og ef við förum enn lengra aftur í tímann og rifjum upp tildrög þess að starfið á Vestmannsvatni hófst mætir okkur sama fyrirbærið; þakklætið.

Þakklæti er ekki bara kurteisistilfinning þótt það séu góðir mannasiðir að muna eftir að þakka fyrir sig. Sé ég þakklátur fyrir eitthvað sýnir það að ég hafi kunnað að meta það. Þegar kirkjufólk á Norðurlandi réðst í að koma upp aðstöðunni hér til starfs á meðal barna og unglinga var það framtak birtingarmynd þess, að þetta sama kirkjufólk kynni að meta æsku landsins og gerði sér grein fyrir mikilvægi hennar. Högg hamranna og söngur viðarsaganna í byggingarframkvæmdunum voru þakkarsöngvar kirkju, sem vissi að börnin og unglingarnir eru það dýrmætasta sem við eigum. Stórhugurinn sem birtist við tilurð þessa staðar sýndi kirkju sem var þakklát fyrir ungu kynslóðina. Kirkja sem lætur þennan stað drabbast niður gæti á hinn bóginn verið að senda skilaboð um hið gagnstæða. Ein hugmyndin að baki starfinu á Vestmannsvatni var sú, að þar gæfist einstakt tækifæri til að kenna börnunum að vera í samfélagi hvert við annað, taka tillit hvert til annars, leysa deiluefni og misklíð og hjálpast að. Fátt er manninum mikilvægara en að kunna slíkt og þörfin fyrir að kenna ungu fólki grundvallaratriðin í mannlegum samskiptum er síst minni nú en þegar starfið hér hófst fyrir hálfri öld.

Kirkja sem hugar að því að hvernig hún geti kennt börnum mannleg samskipti gerir sér grein fyrir gildi samfélagsins og er þakklát fyrir það. Kirkja sem ekki reynir að koma sér upp aðstöðu til að kenna ungu fólki slíkt gæti verið uppteknari af öðru en fólki og því hvernig okkur gengur að lifa saman. Við Íslendingar getum verið þakklátir fyrir margt. Eitt af því er falleg og óspillt náttúra. Kirkjan setti hér niður starfsstöð hér til að kenna ungu fólki að meta þessa gjöf, náttúruna, kenna því að umgangast hana af virðingu, njóta þeirrar blessunar sem hún getur gefið og þiggja gjafir hennar í auðmýkt. Ekki hefur þörfin fyrir þannig uppeldi minnkað á þeirri hálfu öld sem liðin er frá því að ævintýrið hér á Vestmannsvatni hófst. Kirkja sem fer vel með náttúruperluna Vestmannsvatn og umgengst hana af virðingu sýnir að hún vilji vinna gegn því rótgróna vanþakklæti og virðingarleysi sem of lengi hefur einkennt afstöðu okkar til náttúrunnar.

Kirkja sem ekki kann að njóta þeirrar blessunar sem náttúra Vestmannsvatns hefur upp á að bjóða gæti verið ónæm á þær gjafir. Síðast en ekki síst hafði Vestmannsvatn þann tilgang að þar ætti að segja ungu fólki frá þeim góða Guði sem elskar manneskjuna og vill heill hennar sem mesta. Þegar kirkjan kom sér upp starfsaðstöðu á Vestmannsvatni sýndi það einlægan áhuga kirkjufólks á því að börn og unglingar fengju að kynnast Jesú Kristi. Með því að byggja þennan stað var kirkjan að sýna að hún taldi fátt mikilvægara en að hafa hentuga aðstöðu til að sinna því verkefni. Með Vestmannsvatni var kirkjan að tjá þakklæti sitt fyrir fagnaðarerindið. Vestmannsvatn birtir kirkju sem vill efla trúna á það góða, fagra og rétta, ljósið sem skín í myrkrinu, ástina sem er sterkari en öll illskan og lífið sem sigrar dauðann. Þegar þessi staður með alla sína sögu er orðinn olnbogabarn og hornreka getur það sýnt stofnun sem er fyrst og fremst upptekin af sjálfri sér, er komin úr tengslum við hlutverk sitt og köllun en telur sig hafa það hlutverk fyrst og fremst að viðhalda sér sjálfri. Stundum verð ég verð var við pirring í garð þessa staðar. Hann getur átt sér allskonar skýringar. Nú í vikunni var heimspekikaffi í Gerðubergi fyrir sunnan þar sem heimspekingurinn Gunnar Hersveinn og rithöfundurinn Vilborg Davíðsdóttir fjölluðu um þakklætið. Í kynningu á samkomunni kemur m. a. fram að þakklætið sé forsenda velgengni í lífinu, lykill að hamingju í alls kyns aðstæðum og stysta leiðin frá reiði og vanlíðan. Það fer vel á því að guðspjall þessa dags fjalli um gildi þakklætisins. Það er stysta leiðin frá reiði og vanlíðan. Það er lykillinn að framtíðinni. Í dag skulum við líta til baka vera þakklát fyrir verk þeirra ótalmörgu sem hér hafa unnið mikið og fórnfúst starf. Og í dag skulum við líta fram á veginn í þeirri von og bæn að þessi staður megi sýna kirkju sem er þakklát fyrir börnin, samfélag mannanna, náttúru Íslands og fagnaðarerindið. Amen.

Þessi ræða var flutt í guðsþjónustu á Vestmannsvatni í dag þegar 50 ára afmælis starfsins þar var minnst.