Litið í eigin barm

Litið í eigin barm

Aðeins með trúnni á upprisuna getum við sýnt þá góðvild sem hefur engan tilgang nema sjálfa sig. Í þeirri og þess konar góðvild eru rætur mannúðarinnar. Jesús opinberar þennan veruleika: Guð er sú ást sem aldrei deyr.

Gunnar Kristjánsson Í verðlaunaskáldsögunni Leiðréttingar segir frá bandarískri fjölskyldu sem vekur lesandann til alvarlegrar umhugsunar. Þarna tvinnast saman fyndni og alvara í litríkri frásögn þar sem höfundurinn, Jonathan Frantzen, bregður upp eftirminnilegum svipmyndum.

Augljóst er að hann hefur lagt allt að veði til að rekja þá leyndu þræði sem halda saman einni fjölskyldu í nútímasamfélagi og þó ekki síður að leita þráða sem hvergi virðast lengur til staðar.

Gagnrýnendur töldu sig greina eitt og annað í sögu Lambertfjölskyldunnar, sem minnti á fjölskyldu höfundarins, og túlkuðu söguna sem tilraun til að semja bandaríska Buddenbrook-ættarsögu. Enn þyngra vegur að þeir töldu söguna veita trúverðuga innsýn inn í fjölskyldulíf samtímans, hún væri hvorki meira né minna en afhjúpun nútímafjölskyldunnar.

Það sem mér virðist vaka fyrir höfundi eru djúpar vangaveltur um hlutverk hins ósýnilega veruleika ástarinnar í samskiptum Lamberthjónanna, þriggja barna þeirra og fjölskyldna þeirra. Þótt allt virðist benda til annars vilja þau svo sannarlega elska hvert annað, leiðin þangað er samt ófær að því er virðist, hvaðeina fer í handaskolum, ást og umhyggja er yfirborðið eitt og þó varla það, bæði í daglega lífinu og á hátíðum, þá fyrst tekur nú steininn úr og allt fer úrskeiðis. Börnin þrjú hafa öll flúið slóðir bernskunnar og flust eins langt og komist varð frá foreldrum sínum. Enid Lambert hefur tamið sér þann sið að viðhafa athugasemdir um framkomu og atferli eiginmannsins í tíma og ótíma, það var kannski hennar leið til að elska hann, það er partur af þeim „leiðréttingum“ sem titill bókarinnar vísar til. En nú er Alfreð farinn að eldast og taugakerfið hætt að verka eðlilega, heilinn bilaður og leiðréttingarnar skila sér ekki lengur, hann er einn í eigin heimi.

Þegar hann hefur svo kvatt þennan heim vaknar eiginkonan af vondum draumi: kannski hefði hún átt að horfa oftar í eigin barm og hugsa um að leiðrétta sjálfa sig. Það er vonarneistinn sem kviknar í lok sögunnar.

Skilaboðin sem liggja í loftinu eru þessi: Kunnum við að elska aðra? Eða kunnum við kannski ekki að elska okkur sjálf, liggur vandinn í því? Glugganum er svipt upp og við sjáum okkur sjálf, sögðu gagnrýnendur. Er sjálfhverf sjálfselskan, sem sagan afhjúpar svo miskunnarlaust, ekki öllu heldur sjálfstortíming þegar allt kemur til alls, er hún nokkur sjálfselska er hún ekki hið gagnstæða, sjálfsfirring: skortur á að elska sitt eigið líf, vanmáttur til að taka sjálfan sig gildan, uppgjöf frammi fyrir stærsta verkefni lífsins: að vera sáttur við sjálfan sig og eigin tilvist?

Sagan hefur samfélagstúlkandi gildi og á að spegla vestrænt samfélag í upphafi tuttugustu og fyrstu aldar. Þess vegna hlaut hún ein virtustu bókmenntaverðlaun vestanhafs og varð metsölubók um víða veröld. Samfélagslýsingin þótti trúverðug. Reyndar hvorki út frá sjónarhorni einstaklingsins né samfélagsins heldur fjölskyldunnar. Hún er aftur á dagskrá. Hvorki menntakerfið, heilbrigðiskerfið, bankakerfið né félagsmálapakkinn eru til skoðunar; ekki samskipti þjóðfélagshópa, glíma við fordóma, mannréttindi eða jafnrétti – heldur einstaklingurinn í fjölskyldu sinni. Er honum borgið þar, nýtur hann ástúðar og umhyggju, er hann sjálfur hæfur og fús til að gefa eitthvað af sjálfum sér?

Sögunni er ætlað að afhjúpa áhættusamfélag samtímans sem hvílir yfir einstaklingum og þeirri þjóðfélagsgerð, sem hefur þróast til róttækrar einstaklingshyggju og hefur losað sig við öryggisnet fyrri tíma sem birtust einstaklingnum í stórfjölskyldunni, nágrönnum, vinum, vinnufélögum og í samfélagi sem var einfalt í sniðum um leið og það stóð vörð um einstaklinginn. En jafnframt þjóðfélag undir hvolfþaki áhættunnar sem verður sífellt sýnilegri og áþreifanlegri. Þó veldur ekki minni ugg það sem ekki sést en er til staðar í andrúmslofti menguðu díoxíni eða öðrum efnum sem sýna sig skyndilega á mælitækjum sérfræðinganna.

Það er aldarfjórðungur síðan þýski þjóðfélagsfræðingurinn Ulrich Beck skilgreindi tæknisamfélag samtímans sem áhættusamfélag. Árið 1986, skömmu eftir Chernobylslysið, kom bók hans um efnið út. Hugtakið sló í gegn og er iðulega notað í samfélagsumræðunni. Ekki síst einmitt núna þegar heimsbyggðin er eina ferðina enn minnt á það með óþyrmilegum hætti að samfélagi mannsins er ógnað úr ákveðinni átt: úr átt mannsins sjálfs, frá tækniheimi hans sem hefur orðið alvarlegasta ógnun samtímans.

Fukushima og Chernobyl eru meðal stikkorðanna, og benda til hörmunga sem gengið hafa yfir í sögu mannsins, af hans eigin völdum, stikkorðin um hinn brothætta tæknivædda heim sem er manninum samt vaxandi ráðgáta. Nú er spurt um víða veröld: hvert verður framhaldið í heimi sem nær ekki samstöðu á alþjóðlegum vettvangi um brýn málefni framtíðarinnar; til þess að skapa betri heim?

Það er því ekki út í hött að tveir þekktir vísindasagnfræðingar hafi líkt tækniheimi samtímans við sögupersónuna Gólem úr þjóðsagnaforða Gyðinga. Risinn Gólem var skapaður af mönnum úr leiri jarðar líkt og Adam, hann var gæddur anda mannsins og hlýddi skipunum þeirra sem höfðu skapað hann. En fyrirvaralaust greip hann til eigin ráða og þá gat enginn vitað hvað hann ætlaðist fyrir og allra síst hann sjálfur. Hann var í senn nytsamlegur af því að hann gat varið mennina og gert þeim lífið auðveldara svo lengi sem honum þóknaðist að hlýða skipunum þeirra. En þar sem hann hafði hvorki sál né skynsemi var hann hættulegur þegar hann tók upp á því að brjóta og bramla hvaðeina sem fyrir honum varð þegar svo bar undir.

Tækniheimi nútímans má líkja við Gólem segja þessir menn, hann byggir upp með glæsibrag en eyðingin fylgir í fótspor hans eins og skugginn. Hann er ímynd áhættusamfélagsins sem gerir manninn óvissan og óttasleginn og hvort tveggja kallar fram úr djúpi hugans freistingu til uppgjafar og afneitunar í heimi þar sem maðurinn er líkist æ meir framandi gesti: og tilfinnnig höfundar Davíðssálmanna kemur upp í hugann (103): 15Dagar mannsins eru sem grasið, / hann blómgast sem blómið á mörkinni, / 16þegar vindur blæs á hann er hann horfinn / og staður hans þekkir hann ekki framar...

En samt beinist afhjúpun skáldsögunnar Leiðréttingar ekki að þjóðfélaginu einu heldur að einstaklingnum í fjölskyldunni þar sem hann reynir að fóta sig í heimi ofurseldum óljósri vitund um áhættu sem vekur með honum ugg og tortryggni. Hinn óljósi uggur brýtur niður mannleg samskipti, hver treður á öðrum og allt sem heitir samfélag fýkur út í veður og vind. Hin eftirsóttu gildi ástar og umhyggju virðast ekki ná inn fyrir dyr hússins, í staðinn fitnar lygin eins og púkinn á fjósbitanum og blekkingin situr í hásæti, yfirborðsumhyggja og sýndarmennska hafa leyst öll mannúðleg gildi af hólmi. Í skáldsögunni Leiðréttingar er stutt lokasetning á þá leið að Enid Lambert, sem þá var orðin ekkja, ætlaði að horfa í eigin barm og skoða líf sitt í nýju ljósi, þá var hún orðin 75 ára. Kannski voru það skilaboð fjölskyldusögunnar: að horfa í eigin barm, heiminum verður ekki breytt með því að breyta kerfunum, hvorki hagkerfum, skólakerfum né öðrum.

Sagan sýnir að ákveðin kaldhæðni getur gripið þá sem hafa lengi tekið þátt í hinni pólitísku baráttu, á hvaða vettvangi sem það kann að vera. Ein kynslóðin tekur við af annarri, en samt er eins og taflið sé alltaf á byrjunarreit. Þeir sem töldu sér trú um að unnt væri að breyta heiminum með því að breyta kerfunum verða oft að beygja sig fyrir visku hinna klassísku heimspekinga og höfunda trúarbragðanna: heiminum verður aðeins breytt með því að maðurinn líti í eigin barm. Það voru ekki kenningar Gandhis eða Martin Luther Kings eða Mandela sem breyttu heiminum heldur mennirnir sjálfir, menn sem gerðu mannúðlegar hugsjónir að veruleika með eigin breytni. Þeir litu í eigin barm. Við Íslendingar gætum einnig litið í eigin barm þegar við erum að vakna eftir siðferðislegt og menningarlegt hrun þjóðarinnar: Hvernig verður okkar heimur betri? Nú er spurt líkt og í skáldsögunni: hvernig verður fjölskyldan einlægara samfélag, hvernig verður heimurinn – undir hvolfþaki áhættunnar – lífvænlegri, og hvernig verðum við sem einstaklingar betri manneskjur.

Í því efni horfa margir vonsviknir til opinberrar umræðu. Alþingi hefur í tímans rás átt glæsilega fulltrúa hinnar pólitísku rökræðu, málefnalegra átaka þar sem tekist er á með orðsins brandi af list og heilbrigðum metnaði þeirra sem eru í miklum ábyrgðarstöðum. Engu að síður vegur hitt oft þyngra í hugum hins almenna borgara: lágkúruleg stóryrði, sleggjudómar úr heiðskíru lofti, virðingarleysi fyrir skoðunum og baráttumálum annarra, skortur á því sem einkennir allt lýðræði öðru fremur: að hafa vilja og hugrekki til að leita málamiðlana, til þess er rökræðan, til þess er samtalið, til þess eru þing, tilgangurinn er að brúa bil milli skoðana. Orðræða samfélagsins er lúmskur áhrifavaldur sem skapar andrúmsloft og hlúir að ákveðnu hugarfari, að lífsgildum, að lífsstíl. Þar skulum við vanda okkur og þurrka rykið af þeim dyggðum sem eiga að prýða hina pólitísku umræðu. Sagan þekkir dæmi um að lýðræðið hafi brugðist og rauði dregillinn hafi verið lagður fyrir öfgastefnur með skelfilegum afleiðingum. Orð eru til alls fyrst, einnig í þessu samhengi. Á pálmasunnudag beinum við sjónum að eintali okkar hvers um sig við okkur sjálf, að innri skoðun sálarinnar, að hugleiðslu um innstu trú okkar og breytni.

Í sjónvarpsþætti erlendis nýlega sá ég þátt sem fjallar um raunverulegar harmsögur um fólk sem hefur horfið. Eitt atvik kemur oft upp í hugann síða. Tvítug stúlka hafði ekki komið heim af lokahátíð stúdentanna í háskólanum mörgum árum áður. Hún hafði horfið um nóttina og ekkert til hennar spurst. Vinsæl og glæsileg stúlka, framúrskarandi nemandi, einkabarn foreldra sinna.

Móðir hennar var í sjónvarpssal og sagðist hafa ekið dóttur sinni á skemmtunina og kvatt hana í bílnum; milli þeirra var afar náið samband. Svo sagði móðirin eitthvað á þessa leið: „Þetta var í síðasta skipti sem ég sá hana og mig langaði til að faðma hana að mér en ég gerði það ekki, ég sé ekki eftir neinu eins og þessu.“

Markús guðspjallamaður segir frá atviki sem dýpkar skilning okkar á þessum grundvallarþáttum í mannlegri tilvist og setur það sem hér er til umfjöllunar í brennipunkt.

Þá kom þar kona, segir hann í guðspjalli dagsins. Þá kom þar kona og hafði alabastursbuðk með ómenguðum, dýrum nardussmyrslum. Hún braut buðkinn og hellti yfir höfuð honum.

Þessi nafnlausa kona, sem kemur svo óvænt inn í myndina, brýtur samskiptareglur samfélagsins með því að setjast hjá körlunum að matborði og setur á svið atburðarás sem við gætum kallað spámannlegan tákngjörning. Í alvarlegum umræðum hópsins kringum Jesúm er nú slegið á aðra strengi. Konan brýtur bauk með dýrum Nardussmyrslum, og byrjar að smyrja höfuð Jesú.

Frá Betaníu er skammt til Golgata sem þokast æ nær í atburðum sögunnar, tveimur sólarhringum síðar hangir Jesús á krossinum. Stund og staður leiða hugann að þeim harmsögulegu atburðum sem voru yfirvofandi og loftið er þrungið af. Lærisveinarnir kunnu greinilega að reikna því að þeir gerðu ráð fyrir að verðgildi smyrslanna væri meira en ein árslaun verkamanns. Hefði ekki verið nær að nota andvirðið í þágu fátækra, sem nóg var af í arðrændu landi í heljargreipum rómverska heimsveldisins? Umræða um eitt heitasta pólitíska málið í Betaníu á þeim tímum er komin á dagskrá, fátækt fólk er í hverju húsi eins og fornleifarannsóknir undanfarinna ára og ártuga hafa staðfest. Menn bíða eftir afstöðu Jesú, skyldi hann hefja spámannlega ræðu um eyðslu í fánýta hluti? Skyldi hann taka undir með fólkinu, skyldi hann hrekja konuna út í horn, skyldi hún hrökklast út úr húsinu vegna afstöðu sem var hvorki í anda trúarlegs né pólitísks rétttrúnaðar þess tíma?

Nei, Jesús ver þennan spámannlega tákngjörning og stendur við hlið konunnar. Kannski sér hann dýpra en sumir, að undirstraumurinn í þjóðfélaginu skiptir meira máli en yfirborðið. Peningar handa fátækum: gott og vel, en þurfum við ekki líka að huga að því sem er meira virði en öll kerfi þessa heims: hvernig þjóðfélag búum við til, eru grunngildin til staðar?

Málið snýst um atferli þessarar konu. Hún skynjar stund og stað. Hún veldur hinu rétta tungumáli, hún tekur áhættu í nafni ástarinnar, án útreikninga, án umhugsunar, beint frá hjartanu. Það hefði getað misheppnast, raddirnar um að gefa fátækum hefðu getað orðið öllu yfirsterkari, einnig á þessari stundu. En það misheppnaðist ekki. Ástin þekkir stund og stað, hún talar úr hjarta þessarar nafnlausu konu.

Ástin, líkt og listin, þjónar engu markmiði nema því sem hún þekkir ein og veit af innsæi hjartans að er rétt. Hér er sú takmarkalausa umhyggja sem kann ekki að reikna. Hér er allt lagt að veði og mikið lagt í sölurnar, en er það ekki eina ástin? Er til önnur ást? Er maðurinn þá ekki allur og heill?

Andstæðurnar geta ekki verið skýrari: annars vegar horfum við á mjúkar hendur konunnar strjúka höfuð Jesú í allri mildi en hins vegar blasir við hinn harði og hrjúfi veruleiki valdsins, þar sem líkami hans verður afskræmdur af þeim sem hafa unun af niðurlægingu, þjáningum og kvölum hins saklausa.

Annars vegar er umhyggjan sem þekkir engin takmörk í örlæti sínu, í henni speglast hið góða, fagra og sanna. En á hinn bóginn er grímulaus grimmdin og hamslaust hatrið afhjúpað í öllum ljótleika sínum. Það munar hársbreidd að allt verði fótum troðið sem konan hefur sýnt í blindri ást sinni en í staðinn nái það vald yfirhöndinni sem sviptir allt og alla öllu sem gefur merkingu og gildi. Ekkert hefur neitt gildi í augum óseðjandi eyðingarviljans, þar er engin mannúð og engin mildi.

Það eru stundir og andartök þar sem ekkert er eins mikilvægt og ástin, þar sem engin orð skiljast, engar setningar eða hugsanir, þar sem ekkert vísar út yfir gröf og dauða nema eitt: ástin, sem þekkir guðlegan uppruna sinn. Í henni finnur maðurinn lífi sínu borgið. Konan kunni hennar þögla mál. Jesús skildi gjörninginn, sem var ávöxtur þess sem hann hafði sjálfur sáð til og varð nú að greiða fyrir með lífi sínu. Í skjóli hans verður konan það sem hún er. Í skjóli hans verðum við það sem við erum.

Á þessari stundu og á þessum stað er Jesús í hlutverki hins þurfandi. Hann er skotspónn og fórnarlamb andlegra og veraldlegra yfirvalda – og nafnlauss múgsins sem bíður þess að horfa á hann tekinn af lífi og taka þátt í grimmd heimsins sem áhorfandi álengdar, í skjóli rökkursins sem leggst yfir Golgata skömmu síðar.

Eyðingin hefur ekki síðasta orðið, grimmdin ekki heldur, sá einn getur trúað á eilífðina sem trúir á eilífð ástarinnar. Með þannig hugmyndir um hið góða í huga getum við trúað á upprisuna.

Aðeins með trúnni á upprisuna getum við sýnt þá góðvild sem hefur engan tilgang nema sjálfa sig. Í þeirri og þess konar góðvild eru rætur mannúðarinnar. Jesús opinberar þennan veruleika: Guð er sú ást sem aldrei deyr, heimur sögunnar um nafnlausu konuna er umvafinn umhyggju hans, sem einn gefur lífi mannsins tilgang og merkingu sem aldrei deyr.