Þjónandi forysta í félagasamtökum

Þjónandi forysta í félagasamtökum

Starfsemi frjálsra félagasamtaka byggir mjög á þeim liðsanda sem þar ríkir. Oft er ánægjan og gleðin sem því fylgir að starfa á slíkum vettvangi hið eina sem heldur fólkinu við verkið.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
12. febrúar 2010

Leiðtogar mæta ýmsum áskorunum og þær eru margbreytilegar, m.a. eftir umhverfi og aðstæðum. Viðfangsefni þeirra sem leiða fyrirtæki eru, til dæmis að einhverju leyti frábrugðin þeim sem mæta forstöðumönnum opinberra stofnana. Reynslan sýnir að forysta í félögum, þar sem unnið er að áhugamálum og hugðarefnum þeirra sem þau mynda, getur að sama skapi gert miklar kröfur til þeirra sem henni sinna. Þær aðstæður hafa margvíslega sérstöðu og má þar nefna:

  • Umgjörð slíkra samfélaga er oft lauslega skipulögð svo torvelt er að leita formlegra leiða þegar leysa á ágreiningsefni.
  • Þátttakendur í slíku starfi eru flestir sjálfboðaliðar, sem gerir miklar kröfur til leiðtogans, að hvetja og þá og efla.
  • Markmið starfseminnar eru gjarnan þess eðlis að erfitt er að mæla þau eða að skilgreina hvað er ásættanlegur afrakstur.

Í ljósi þessa má segja að félagasamtök geti lent í tvenns konar ógöngum. Annars vegar þeim að félagið stendur ekki undir væntingum félagsmanna. Slíkt getur leitt til átaka. Ef leiðtoginn breytir ekki þjónustu sinni og vill ekki víkja, geta slíkar deilur orðið langvarandi og jafnvel leitt til klofnings og sundrungar. Dæmi um slíkt eru mörg. Söfnuðir innan þjókirkjunnar hafa til dæmis margir átt í erfiðum deilum, sem vekja gjarnan mikla athygli. Hins vegar má tala um það þegar innviðir félaganna dala og væntingarnar sem samfélagið hefur eru svo litlar að kröfurnar til leiðtogans verða að sama skapi hverfandi. Afleiðing þessa verður sú að afköstin minnka og þar sem erfitt er að leggja á þau hlutlægan mælikvarða verður málefnaleg gagnrýni á forystuna af skornum skammti. Slík vandamál eru ekki sýnileg vegna þess að allt virðist með felldu á yfirborðinu en reyndin er sú að starfsemi félagsins í algeru lágmarki.

Oft er ekki „við leiðtogann að sakast“ í þessum efnum. Aðstæður í þessum málum eru stundum þess eðlis að sá sem veitir forystuna missir stjórnina og verður í hlutverki þolanda fremur en geranda – öfugt við það sem eðlilegt er að krefjast af þeim sem hefur slíku hlutverki að gegna. Engu að síður hvílir ábyrgðin á hans herðum og hegðun hans skiptir á endanum grundvallarmáli. Á það jafnt við um það að leggja grunn að öflugri starfsemi, sem viðbrögð við erfiðu ástandi og til þess að fyrirbyggja það að aðstæðurnar þróist til verri vegar. Flokka má eðli og afstöðu leiðtogans í fjóra þætti:

  • Einvaldur leiðtogi: Hann beitir þvingandi aðferðum, handstýrir samfélaginu sem hann veitir forystu. Hann vill hafa fulla stjórn á þeim sem undir hann eru settir en hann lítur ekki svo á að hann gegni þjónustuhlutverki. Markmið hans er það að efla eigin hag, fremur en hagsmuni samfélagsins.
  • Afskiptur leiðtogi: Hann er fjarlægur, veikur og áhugalaus um starfsemina. Hann hefur litla stjórn á þeim sem hann starfar með en þjónustulundin er að sama skapi lítil. Hann er hvorki með hugann við eigin hag né hagsmuni félagsins.
  • Föðurlegur leiðtogi: Hann hefur mikinn áhuga á því að efla og bæta félagið sem hann þjónar, en er í ríkri varnarstöðu. Hann beitir handstýringu og æskir mikillar hollustu og hlýðni af þeim sem með honum starfa. Hann ber því ríka umhyggju fyrir félaginu sem hann veitir forystu fyrir en er að sama skapi mjög upptekinn af því að bæta eigin hag.
  • Þjónandi leiðtogi: Hann starfar í krafti umhyggju og leggur mikla áherslu á valddreifingu og því að taka mið af aðstæðum. Hann hefur einlægan vilja til þess að þjóna öðrum, samfélagið er honum efst í huga. Eigin hagsmunir eru ekki andlag starfa hans og víkja ætíð þegar þeir stangast á við hagsmuni heildarinnar.

Starfsemi frjálsra félagasamtaka byggir mjög á þeim liðsanda sem þar ríkir. Oft er ánægjan og gleðin sem því fylgir að starfa á slíkum vettvangi hið eina sem heldur fólkinu við verkið.

Sé horft til ofangreindra eiginleika leiðtoga má draga þá ályktun að andrúmsloftið sé verst undir stjórn einvaldsins, þar er frumkvæði fólks drepið niður og heiðurinn af því sem unnið er er allur leiðtogans. Orka þeirra sem starfa undir slíkum leiðtoga fer líklega fremur í það að þóknast honum, heldur en þeim sem félagið á að þjóna. Sá sem er afskiptur kallar fram litlu skárra andrúmsloft hjá starfshópnum, en dapurt er það engu að síður þar sem umhyggjan er lítil og hvatningin að sama skapi. Föðurlegur leiðtogi er líklegri til þess að skapa gott samfélag í kringum sig en hann takmarkar hins vegar vöxt þess með því að vera sjálfur í miðju athyglinnar og í langflestum tilvikum hlotnast heiðurinn honum sjálfum.

Hugmyndafræði þjónandi forystu er best fallin til þess að gefa leiðtogum í félagsstörfum sýn á það hvernig þeir eiga að starfa. Forysta hins þjónandi leiðtoga byggir á þeirri sannfæringu að hann hafi þá frumskyldu að þjóna samfélaginu sem hann leiðir. Hlutverk leiðtogans er því það að styrkja þá og efla sem í kringum hann starfa í eigin leiðtogahlutverki. Þjónandi leiðtogi hefur sinnt hlutverki sínu best þegar samstarfsfólk hans lítur svo á að það eigi sjálft heiðurinn af þeim árangri sem unnist hefur. Hann sækist ekki eftir völdum og áhrifum, þjónustan við samfélagið skiptir höfuðmáli í hverju því verkefni sem ráðist er í.

Leiðtogar í félagasamtökum hafa vandasömu hlutverki að gegna og oft er erfitt að mæla árangurinn af starfseminni. Besta leiðin er þó vitaskuld sú að setja markmið, gera áætlanir og skoða svo hvernig tekist hefur til með að hrinda þeim í framkvæmd. Fjölgun eða fækkun þátttakenda segir að sama skapi mikið um árangurinn en gleði þátttakenda og áhugi er jafnvel enn betri mælikvarði. Fátt veitir meiri ánægju og lífsfyllingu en það að upplifa það að erfiði okkar skilar árangri. Að horfa í kringum sig og líta á það hversu miklu hefur tekist að koma í verk er einstök tilfinning! Sá leiðtogi sem getur laðað hana fram í þeim sem með honum starfa skilar að sönnu hlutverki sínu með sóma. Gróskan í kringum hann getur ekki annað en vaxið og orka samfélagsins er virkjuð í þágu þeirra hugsjóna sem starfað er eftir.

Áskoranirnar sem mæta leiðtogum eru margvíslegar eftir umhverfi og aðstæðum. Eitt eiga leiðtogar þó sameiginlegt, hvort sem þeir eru stýra hlutafélagi, opinberri stofnun, frjálsum félagasamtökum – eða einhverju sem stendur þar á milli. Allir leiðtogar vinna með fólki og sú staðreynd gefur störfum þeirra siðferðilegt gildi. Þjónandi forysta er í senn árangursrík aðferð til forystu og óaðskiljanleg þeim gildum sem eiga að ráða í samskiptum okkar hvert við annað.