Við verðum að bæta okkur

Við verðum að bæta okkur

Þessi viska hafnar ego-inu og öllu sem er sjálflægt en vill að við opnum augun og eyrun og önnur skilningarvit fyrir því sem verðmætast er í lífinu.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
22. september 2017

Ríkisstjórnin er fallin og kosningar eru boðaðar. Að baki þeirri atburðarrás er svívirðilegt ofbeldi gegn börnum. Það er löngu orðið tímabært að við umbyltum meðferð okkar á kynferðisofbeldismálum í takt við það sem er satt og rétt, þ.e. þannig að kerfið rúmi enga þolinmæði gagnvart þeim sem brjóta gegn börnum. Á líkan máta og þjóðir heims hafa sameinast um þá afstöðu að efnavopn eru óheimil í stríði, þá verðum við að sameinast um þá grundvallarafstöðu að ofbeldi gegn börnum sé aldrei liðið.

Umgengni um leifar forfeðranna

Víkurkirkjugarður var grafreitur Reykvíkinga í aldir, á horni Aðalstrætis og Kirkjustrætis.
Enginn veit með vissu hve langt aftur í aldir forfeður okkar hafa lagt sína látnu þar til hinstu hvílu, en vísbendingar eru um að staðurinn hafi verið notaður sem slíkur allt frá landnámi.

Ýmsar framkvæmdir hafa þrengt að helgi reitsins á umliðinni öld. Þegar bakhús Landsímastöðvarinnar var reist og jafnframt lagður vegur inn í portið fundust við framkvæmdirnar járnhellur með grafskriftum. Síðar er Síminn lagði símakapal þvert yfir garðinn kom upp fjöldi mannabeina.
Lengi hefur mér fundist skorta reisn og virðingu yfir umgengni okkar um þennan stað, leifar forfeðranna.

Nú eru uppi hugmyndir hjá borgaryfirvöldum að heimila byggingu hótels í þessum aldna kirkjugarði. Ég hef litla skoðun á skipulagsmálum almennt, eða hvort fjölbýli skulu byggð þar eða hótel hér. En þegar um er að ræða jarðneskar leifar genginn kynslóða, þá hrís mér hugur við því að hús eigi að rísa ofan á þeim.

Hin djúpa viska

Að setja ramma í samfélaginu um okkar sameiginlegu mál er sístætt verkefni og oft ekki öfundsvert. Við þurfum að biðja fyrir þeim einstaklingum sem takast á herðar þau verkefni en um leið veita gagnrýnið aðhald, spyrja spurninga og krefjast svara.

Djúp viska býr í ritum Biblíunnar, sem hefur uppbyggileg áhrif á líf þess sem les þau í trú. Rit Gamla testamentisins eru þrenns konar, lögmálsrit, rit kennd við spámenn og spekirit. Í lögmálinu eru boðorðin tíu og aðrar grunnreglur sem veita forsendur til að skapa réttlátt og farsælt samfélag. Spámannaritin vísuðu ekki eingöngu til fæðingar Jesú Krists, heldur fyrst og fremst stóðu spámennirnir fyrir gagnrýni á ríkjandi valdhafa og meðferð þeirra á lögum og reglum. Hin spámannalega rödd þráir bætt samfélag, réttlæti, sannleika og frið. Hún þarf að heyrast skýrar í samfélagi okkar í dag. Spekiritin vísa síðan til hinnar djúpu visku sem höfundur þeirra hvetur okkur til að leitast eftir. Viskan vekur nýjar spurningar og veitir lærdóm sem stuðlar að því að við lærum af reynslunni og gerum síður sömu mistökin aftur og aftur.

Í einu spekiritanna sem grundvallar kristna menningu er sagt frá því er spekin tekur til máls. Þar segir:

Heyr, spekin kallar.
Viskan hefur upp raust sína.
Uppi á hæðunum, við veginn
og við krossgöturnar stendur hún,
við hliðin út úr borginni, þar sem gengið er inn,
kallar hún hástöfum:
Til yðar tala ég, menn,
og rödd minni er beint til mannanna barna.(Orðskv. 8:1-4)

Í myndlíkingunni er spekin staðsett við krossgöturnar og á lífsveginum, hæðunum og við borgarhliðin, í þessum texta hefur hefur hún hátt, á öðrum stöðum hvíslar hún. Hún vill ná til okkar með öllum ráðum og vekja spurningar og svör og veita lærdóm sem haldreipi er í við hverja úrlausn og ákvarðanatöku. Hér er um að ræða visku sem ekki fæst með háskólaprófum eða fjölda IQ stiga, þessi viska hafnar ego-inu og öllu sem er sjálflægt en vill að við opnum augun og eyrun og önnur skilningarvit fyrir því sem verðmætast er í lífinu.

Þegar málefni barnanna okkar eru annars vegar finnum við að viskan krefur samfélagið um svör og nýja forgangsröðun, þar sem börnin njóta vafans, þar sem á þau skal hlustað og ofbeldi gagnvart þeim upprætt með öllu.

Spurningar vakna varðandi hugmyndir borgaryfirvalda um skipulag hins forna Víkurkirkjugarðs. Hvernig kemur það við þig að hús eigi að rísa ofan á gröfum genginna kynslóða? Ég tel þær fyrirætlanir ekki gefa verðmætamati samfélagsins háa einkunn. Ætli sömu örlög bíði Fossvogskirkjugarðs eða Kópavogskirkjugarðs eftir einhverja áratugi eða hundruð?

Nýjar spurningar

Með kosningar við sjóndeildarhring og málefni á hverjum degi sem krefjast úrlausnar og visku, leitum þá þess sem er rétt, gagnrýnum til uppbyggingar og spyrjum nýrra spurninga og krefjumst nýrra svara, til að við lærum, þroskumst og eflum kærleikann í samfélagi okkar.

Greinin var fyrst birt í Morgunblaðinu 21. september 2017