Alltaf sama sagan

Alltaf sama sagan

Nú er hið heilaga kvöld liðið þetta árið. En hátíðin heldur áfram, því er dag er 5. dagur jóla af 13. Í ár voru hvít jól um land allt samkvæmt fréttum eins og okkur finnst tilheyra hér á norðurhveli jarðar. En lítið færi fyrir helgi jólanna ef bara væri hugsað um það hvort þau yrðu hvít eða rauð.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
29. desember 2011

Nú er hið heilaga kvöld liðið þetta árið. En hátíðin heldur áfram, því er dag er 5. dagur jóla af 13. Í ár voru hvít jól um land allt samkvæmt fréttum eins og okkur finnst tilheyra hér á norðurhveli jarðar. En lítið færi fyrir helgi jólanna ef bara væri hugsað um það hvort þau yrðu hvít eða rauð.

Fyrir mjög mörgum árum, þegar ég var æskulýðsfulltrúi Þjóðkirkjunnar var ég stödd á jólafundi eldri borgara í Reykjavík. Þetta var stór salur og fjöldinn eftir því. Á þessum árlega jólafundi hafði verið fluttur helgileikur út frá jólaguðspjalli Lúkasar og út frá guðspjalli Matteusar um vitringana, sem létu stjörnuna leiða sig að jötu Jesúbarnsins. Þessi sami helgileikur hafði verið fluttur þarna ár eftir ár. Það var vandað til. Búningar voru fallegir, englakórinn söng eins og englum er einum lagið og lesarinn vandaði lestur hinnar helgu sögu. Ég hafði það hlutverk að flytja hugvekju inn í miðjum helgileiknum. Þegar englaskarinn gekk inn með kertin sín, Jósef og María höfðu komið sér fyrir í fjárhúsinu og vitringar og hirðar biðu eftir því að komast á svið heyrðist hátt og snjallt frá einu borðinu í salnum. Alltaf sama sagan ár eftir ár.

Já, það er alltaf sama sagan ár eftir ár. Sama sagan sögð í kirkjum landsins og annars staðar í hinum kristna heimi. Á jólunum er sagan af fæðingu frelsarans rifjuð upp og við fáum að heyra hana aftur og aftur. Í mínu ungdæmi kunni maður þessa sögu. Vissi að hún stóð í Biblíunni. Vissi jafnvel að Lúkas læknir skráði hana í guðspjall sitt. Slík grundvallarþekking má ekki glatast hjá hinni kristnu þjóð, sem býr Ísland. Slík saga má ekki verða óþekkt því hún birtir upphaf þess lífs er í heiminn kom hina fyrstu jólanótt fyrir meira en 2000 árum. Hún segir fæðingarsögu Jesú.

Söguna af því er mærin unga, móðir hans fæddi hann í þennan heim við ömurlegar aðstæður á okkar mælikvarða. Og hún segir söguna af því er Jósef leiddi unnustu sína til ættborgar sinnar á þeim tíma er Ágústus var keisari í Róm og Kýreneus landstjóri á Sýrlandi. Hún segir söguna af því er sendiboðar Guðs fluttu fregnina miklu um fæðinguna og sögðu að hann væri fæddur mér og þér. Hann var ekki aðeins fæddur foreldrum sínum og fjölskyldu heldur okkur öllum. Hugleiðum það og meðtökum í huga og hjarta.