Prestvígðar konur gegn ofbeldi

Prestvígðar konur gegn ofbeldi

Í Þjóðkirkjunni eru nær engar konur (og engin prestvígð) í æðstu nefndum og embættum kirkjunnar. Þrjár prestvígðar konur af tólf fulltrúum presta sitja á kirkjuþingi. Engin prestvígð kona situr í kirkjuráði, engin prestvígð kona er biskup, engin prestvígð kona er prófastur á höfuðborgarsvæðinu og örfáar konur eru sóknarprestar á höfuðborgarsvæðinu.
fullname - andlitsmynd Guðrún Karls Helgudóttir
25. október 2011
Meðhöfundar:
Íris Kristjánsdóttir

Í tilefni af kvennafrídeginum 24. október 2011 stóð félag prestvígðra kvenna fyrir kvennamessu gegn ofbeldi. Í fyrra var kvennamessa af sama tilefni og var þá ákveðið að reyna að gera þetta að árlegum viðburði.

Barátta gegn kynbundnu ofbeldi og ofbeldi gegn börnum er einn liður jafnréttisbaráttunnar en flest bendir til að árangur á einu sviði jafnréttisbaráttunnar sé háður árangri á öðrum sviðum.

Öll eigum við að vera óhult í kirkjunni. Við vitum þó öll að raunveruleikinn hefur stundum verið annar. Menn sem beita ofbeldi sækja einmitt oft í störf þar sem þeir hafa greiðan aðgang að börnum og konum sem ekki eiga auðvelt með að verja sig. Þeir sækja oft í valdastöður.

Það er fullkomlega ólíðandi að ofbeldi af nokkrum toga geti átt sér stað innan kirkjunnar. Þjóðkirkjan þarf því að koma sér upp betri forvörnum og aðgerðaráætlunum svo öllum verði ljóst hvernig bregðast skuli við ef upp kemst um ofbeldi. Nú þegar hefur mikið verið gert og sú vinna mun halda áfram.

Til þess að sár geti gróið er nauðsynlegt að lagfæra alla verkferla Þjóðkirkjunnar varðandi ofbeldismál, fræða starfsfólk og skoða sakaskrá og feril allra er innan hennar starfa. Greiða þarf öllum þolendum bætur og biðjast fyrirgefningar fyrir hönd stofnunar sem tók afstöðu með gerandanum en sinnti ekki fórnarlömbunum. Í þessu er verið að vinna nú. En þar sem baráttan gegn kynbundnu ofbeldi og ofbeldi gegn börnum er einn hluti jafnréttisbaráttunnar teljum við að forsenda þess að þetta takist vel er að farið verði af alvöru í að auka áhrif kvenna innan kirkjunnar.

Í Þjóðkirkjunni eru nær engar konur (og engin prestvígð) í æðstu nefndum og embættum kirkjunnar. Þrjár prestvígðar konur af tólf fulltrúum presta sitja á kirkjuþingi. Engin prestvígð kona situr í kirkjuráði, engin prestvígð kona er biskup, engin prestvígð kona er prófastur á höfuðborgarsvæðinu og örfáar konur eru sóknarprestar á höfuðborgarsvæðinu.

Við höfum trú á því að réttlæti og árangur muni nást og að kirkjan okkar standi sterkari á eftir. Við höfum trú á því að næsta kirkjuþing, sem hefst 12. nóvember, muni vekja von um bjarta framtíð.