Að gefa líf sitt fyrir frið

Að gefa líf sitt fyrir frið

Kross Krists er okkur stöðug áminning ... Þessa dagana berast fregnir af því að margir trúbræður írösku hermannanna, sem nú berjast við innrásarlið undir stjórn Bandaríkjamanna og Breta, séu reiðubúnir að koma til Íraks, berjast við hlið heimamanna og leggja líf sitt í sölurnar sé þess þörf.

Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr verður það áfram eitt. En ef það deyr, ber það mikinn ávöxt". Jóh. 12.24

Kross Krists er okkur stöðug áminning ...Þessa dagana berast fregnir af því að margir trúbræður írösku hermannanna, sem nú berjast við innrásarlið undir stjórn Bandaríkjamanna og Breta, séu reiðubúnir að koma til Íraks, berjast við hlið heimamanna og leggja líf sitt í sölurnar sé þess þörf. Sjálfsmorðsárásir í stríðsátökum vekja sterk viðbrögð og við sem hlýðum á í fjarska eigum erfitt með að gera okkur í hugarlund hvers vegna fólk er tilbúið til að grípa til jafnafdrifaríkra aðgerða í baráttu sinni.

Við vitum að þeir sem nota sjálfsmorðsárásir eru oft knúnir áfram af trú sinni á að verknaður þeirra leiði til góðs fyrir þá sjálfa. Að með því að deyja sjálfir uppskeri þeir vel og beri mikinn ávöxt. En á sama hátt og vígtólum og vopnatækni er beitt í stríði og átökum, leiða sjálfsmorðsárásir eingöngu til þjáninga og illsku. Ofbeldi getur ofbeldi, sama hvað við köllum það.

Kristur sýnir okkur hvernig það að leggja líf sitt í sölurnar fyrir aðra getur af sér líf og frið - ekki meira ofbeldi. Fastan minnir okkur á hlutverk Krists í heiminum og sérstaklega fórn hans í þágu mannsbarnanna í heiminum. Fórn hans gefur okkur líf.

Það er mikilvægt að halda í lífið og friðinn og muna að Kristur situr núna hjá þeim sem hafa verið hraktir burt af heimilum sínum vegna stríðsins. Hann situr meðal barnanna í Írak sem gráta af skelfingu yfir því sem dynur yfir þau - alsaklaus. Hann er með konunum í Írak sem reyna að útvega eitthvað smá vatn til að gefa börnunum sínum að drekka. Og hann situr hjá ástvinum sem horfa á eftir unga fólkinu sem stjórnvöld senda í stríð, óvissir hvort það kemur nokkurn tíma til baka en alveg vissir um að það snýr aldrei óskemmt heim eftir hörmungar stríðsins.

Kross Krists er okkur stöðug áminning um að vonska mannanna vill sækja fram og tekur á sig ýmsar myndir. Krossinn er líka tákn um það að Kristur tekur sér stöðu með þeim sem líða og þjást vegna þessarar vonsku. Þess vegna er krossinn friðartákn - vegna hans sem gaf lífið sitt fyrir frið.