Er ég trúarleiðtogi?

Er ég trúarleiðtogi?

Tilefni þessara vangaveltna minna er skoðanakönnun sem gerð var nú í vikunni um það hvaða starfstéttum fólk segist treysta.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
20. janúar 2008
Flokkar

Þessi spurning hefur sótt á mig síðustu dagana! Ég get vissulega fallið undir þá skilgreiingu enda ber ég ábyrgð og hef áhrif á það hvernig málum er háttað í þessu samfélagi hér sem er grundvallað á trú. Samstarfsfólk mitt hefur sömu stöðu. Þar er leiðtogi á hverju strái. Þeir tryggja að hér sé góð aðstaða til starfseminnar og að hér sé auðugt tónlistarlíf svo eitthvað sé nefnt. Hér er leiðtogi á sviði æskulýðsstarfs og við kirkjuna starfa margvíslegir hópar sem eiga sína forsvarsmenn. Þá höfum við leiðtoga á sviði bygginga og framkvæmda að kirkjugörðunum ónefndum. Í sóknarnefnd situr hópur fólks sem markar stefnu safnaðarins til framtíðar. Þar eru líka leiðtogar að störfum.

Hvernig trúarleiðtogar?

Hér starfar augljóslega hópur af leiðtogum, trúarleiðtogum. Já, ég lít svo á að ég sé einn þeirra. Samt vil ég ekki kannast við mig í þessu hlutverki í allri merkingu þess orðs. Því þegar trúarleiðtogar eru nefndir í fjölmiðlum er það gjarnan forsmekkurinn að einhverju slæmu. Þeir eru með puttana í alls konar pólitík. Þeir bera ábyrgð á sundrungu og óskiljanlegri afstöðu til margra málefna eins og fóstureyðinga, getnaðarvarna, minnihlutahópa eða þeirra sem ekki falla inn í þrönga umgjörð hins ásættanlega í huga þeirra.

Sérstaklega eru trúarleiðtogar í umræðunni í deilunum fyrir botni Miðjarðarhafsins og víðar í Mið-Austurlöndum. Menn með slíka titla predika yfir ungmennum sem fórna svo lífi sínu í tilgangslausri baráttu. Vestanhafs sjáum við líka afskaplega öfgafull dæmi þar sem fólk flykkist um einstaklinga og lætur þá draga sig út í tóma vitleysu. Þeir leiðtogar eru réttnefndir einræðisherrar sem skapa ótta og tortryggni og nýta þær kenndir til að stjórna fólki. Þeir einfalda málin umfram það sem eðlilegt er og telja sig sjálfa hafa sannleikann á reiðum höndum. Það er því ekki nema von þótt meinlaus prestur í hófsamri þjóðkirkju hér í sjálfu velferðarbeltinu skuli spyrja sig að því hvort hann fylli þann flokk sem hefur slíkt nokkuð á samviskunni.

4% traust

Tilefni þessara vangaveltna minna er skoðanakönnun sem gerð var nú í vikunni um það hvaða starfstéttum fólk segist treysta. Þarna voru nokkrir hópar sem við getum vel kannast við. Kennarar njóta samkvæmt henni mests trausts en þingmenn og lögfræðingar eiga á brattann að sækja miðað við þetta. Þarna var hins vegar hópur sem kallaður var trúarleiðtogar. Og það er skemmst frá því að segja að sá hópur vermdi botninn þegar fólk svaraði því til hverjum það treystir best. Aðeins 4% aðspurðra segjast treysta þeim – eða okkur, hvernig sem á málið er litið! Fólk hefur greinilega ekki mikið álit á því fólki.

Trúarleiðtogar á akrinum

Guðspjall dagsins fjallar einmitt um afstöðu þeirra sem vinna að framgangi trúarinnar. Það hefst á orðunum: „Líkt er um himnaríki og ...“ Svo birtir Kristur okkur mynd af þeim sem starfa á akri Guðs. Þá getum við að sönnu kallað trúarleiðtoga, ekki satt? En það svo er annað mál hvort þetta sé einmitt sú mynd sem kemur í kollinn á okkur þegar fólk með slíka eiginleika er nefnt. Sjáum við þá fyrir okkur bogna verkamenn puðandi í sólinni? Er það ekki frekar sperrtur og valdsmannslegur einstaklingur með brjóstið þanið og hökuna upp í loft? Þannig eru þeir sannarlega ekki, verkamennirnir í víngarðinum.

En sumir þeirra hafa þó háleitar hugmyndir um hlutverk sitt og stöðu.  Þeim finnst þeir vera yfir aðra hafnir. Guðspjallið fjallar um þá sem horfa ekki á eigin fjársjóð – sem er meiri en metinn verður til fjár, hvort heldur það eru krónur, evrur eða denarar – heldur líta í örvæntingu á þá sem eru að þeirra mati ekki verðugir þess að höndla hnossið. Það er freistingin stóra sem mætir öllum þeim sem helgað hafa líf sitt hinum æðri tilgangi: að starfa ekki í auðmýkt og af innri köllun – heldur að láta þveröfugar kenndir stjórna sér. Hrokinn og fordómarnir eru líklega sú gryfja sem trúuðu fólki hættir svo oft til þess að lenda í.

Þannig verður frásögnin að merkilegri ádeilu á vissan hóp sem starfar fyrir söfnuð Krists. Það er sá sem telur sig eiga meira skilið en aðrir því hann hafi svo margt fram að færa umfram hina. Mörg önnur dæmi má nefna hliðstæð úr boðskap Krists. Í sögunni um glataða soninn var eldri bróðirinn í þessu hlutverki. Hann hafði allt á hornum sér þegar sá yngri kom heim og slegið var upp fyrir hann mikilli veislu. Farísearnir, þeir frómu menn, fá á sig mikla gagnrýni – ekki fyrir það að fylgja ekki lögmálinu nógu vel eftir, lið fyrir lið, heldur hitt hversu dómharðir þeir eru á breyska samferðamenn sína. Og himnaríkislíkingarnar snúast svo oft um það sem virðist óverðugt en reynist svo búa yfir einhverjum mögnuðum frjókrafti. Mustarðskornið sem minnst er allra frjókorna verður að stóru tréi og sauðurinn sem týndist eða perlan sem hvarf verða eigandanum hugstæðust.

Blint réttlæti?

En þetta stangast á margan hátt á við hugmyndir okkar um rétt og rangt. Við getum auðvitað svo vel séð okkur fyrir í hlutverki þeirra sem töldu sig eiga eitthvað betra skilið. Eigandi víngarðsins í sögunni svarar þeim líka með miklum skilningi og umburðarlyndi. Í henni eru slíkar kröfur leiðréttar með góðlátlegum og föðurlegum hætti: „Vinur, ekki gerði ég þér rangt til, sömdum við ekki um einn denar?“

Takið eftir því hversu næmur Kristur er fyrir þeirri vá sem býður þeirra sem öðlast hafa þá köllun að breiða út ríki Guðs. Hann spáir fyrir um það þegar menn missa sjónar á markmiðinu. Þeir gleyma sér í einhverjum samanburði við þá sem eru að þeirra mati þess óverðugir. Sjálfir eiga þeir sannarlega meira skilið að eigin mati og þykjast sannarlega geta fellt dóma gagnvart því hvað aðrir eiga skilið. En Kristur leiðréttir þá og bendir þeim á að Guð starfar ekki samkvæmt hinu blinda auga réttlætisins.

Næmur kærleikur

Launin sem eigandi víngarðsins veitir spretta af rótum kærleikans. Og hann er ekki alltaf kórréttur miðað við allar forsendur skynsemi og réttlætis. Það þarf heldur ekki að leita langt yfir skammt að hliðstæðum fyrir slíku. Hópar á borð við Rótarýmenn, sem hér heiðra okkur með nærveru sinni ásamt félögum í Málfundafélaginu Faxa, vinna á sömu forsendum. Þeir leita þá uppi sem þeir telja vera hjálparþurfi. Þeir finna ákveðin verkefni til að styðja. En þar er ekki hið blinda auga réttlætisins að verki heldur það afl sem vinnur með því og horfir til þeirra sem í mestri þörf eru. Við getum kallað það hið næma auga kærleikans. Himnaríki er eins og hópur að störfum og allir fá ríkuleg laun. Ekki nauðsynlega í anda vinnuframlagsins – heldur er það góðvild eigandans sem þar leggur línurnar.

En jafnvel á þeim vettvangi nöldra menn og tuða. Jafnvel á þeim bænum miklast menn og þykjast hafa öll svörin á reiðum höndum. Og, þjóðin hefur lítið álit á trúarleiðtogum samkvæmt könnuninni og eiga þeir hvergi eins mikið undir högg að sækja og hér á Íslandi. Það er hörð áminning til okkar allra sem getum fallið undir þá skilgreiningu. Ekki bara presta, heldur líka þeirra annarra sem taka þátt í kirkjulegu starfi. Já, ekki síður þeirra sem hafa borið barn til skírnar og taka að sér það verðuga verkefni að miðla því kærleiksboðskap Krists. Þeir eru líka trúarleiðtogar.

Þeim boðskap miðlum við ekki bara með munninum. Við boðum hann einnig með hjartanu og höndunum því verk okkar eru besti vitnisburðurinn um þá afstöðu sem við höfum í lífinu.

Þjónandi leiðtogi

Guðspjall þessa dags er áminning til okkar allra sem erum trúarleiðtogar. Það minnir okkur á það hvert hlutverk leiðtoganna er. Sannur leiðtogi er ekki sá sem hefur öll svörin á reiðum höndum. Hann eignar sér ekki heiðurinn af öllu því góða sem gert er. Hann tranar sér ekki alltaf fram heldur gefur þeim sem í kringum sig eru svigrúm og hvetur þá til frumkvæðis. Hann er það sem við getum kallað þjónandi leiðtogi. Hann starfar með innri sannfæringu að markmiðið og hún er háleitari en svo að hans eigin sérhagsmunir spilli fyrir farmgangi hennar. Því er það keppikefli hans að allir þeir fái notið sín sem starfa að sama marki.

Þjónandi leiðtogi er því ekki hafinn upp yfir samstarfsfólk sitt og leitast ekki við að reisa múra á milli sín og annarra. Því einkennist andrúmsloftið í kringum hann ekki af samkeppni og tortryggni – heldur trúnaður og traust. Hver sá sem vill standa undir nafni sem trúarleiðtogi verður að hafa þessa þætti í huga. Og ef hann gerir það nýtur hann þess trausts sem hann sannarlega verðskuldar. Sú hugsjón á að einkenna störf allra þeirra sem vinna á víngarði Drottins.  

Textar: Jer. 9.22-23; 1Kor. 9.24-27 og Matt. 20.1-16