Hjálpið okkur að hjálpa öðrum

Hjálpið okkur að hjálpa öðrum

Fyrir ofan baukinn stóð: Hjálpið okkur að hjálpa öðrum. Er það ekki dásamlegur boðskapur aðventunnar að muna eftir öðrum? Muna eftir þeim sem okkur þykir vænt um.

Jesús kom til Nasaret, þar sem hann var alinn upp, og fór að vanda sínum á hvíldardegi í samkunduna og stóð upp til að lesa. Var honum fengin bók Jesaja spámanns. Hann lauk upp bókinni og fann staðinn þar sem ritað er:

Andi Drottins er yfir mér af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins.

Síðan lukti Jesús aftur bókinni, fékk hana þjóninum og settist niður en augu allra í samkundunni hvíldu á honum. Hann tók þá að tala til þeirra: „Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar.“ Lúk 4.16-21

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen. Gleðilega hátíð og til hamingju með 25 ára afmæli kirkjunnar ykkar. Það er gott að minnast vígslu kirkjunnar í dag þegar nýtt kirkjuár hefst. Minnast alls þess er þau lögðu á sig sóknarbörnin mörg hver til að gera drauminn um kirkjubygginguna að veruleika. Fyrir um 40 árum þegar Árbæjarsókn varð til var hér engin kirkja og mörg sporin voru farin til að afla fjár til byggingarinnar. Það voru seld jólakort og happdrættismiðar og ýmislegt fleira lagði fólk á sig til að koma byggingunni upp. Þá var ekki heimabanki eða gíróseðlar og því síður kort, svo banka varð upp á í hverju húsi. Það var því stór stund þegar kirkjuskipið sjálft var vígt og þökk sé þeim öllum er að komu. Fyrsti sunnudagur í aðventu hefur fengið sérstakan sess í hugum margra. Þá hefst hinn formlegi undirbúningur jólanna, hið ytra sem innra. Í dag kveikja margir á fyrsta kertinu á aðventukransinum, sem nefnt er spádómakertið. Það minnir á spádóma Gamla testamentisins um komu frelsarans í heiminn. En hver er þessi frelsari, sem talað er um? Kristið fólk er þess fullvíst að frelsarinn er Jesús sjálfur, barnið í jötunni, maðurinn á krossinum, upprisinn Drottinn. Við erum saman komin hér í húsi hans, kirkjuhúsinu, sem vígt var fyrir 25 árum. Guðshúsin eru víða og þangað leita margir. Guðspjall dagsins greinir frá því að Jesús kom í samkunduhúsið í heimabæ sínum. Þar las hann úr Gamla-testamentinu, mörg hundruð ára gamlan texta úr spádómsbók Jesaja: „Andi Drottins er yfir mér af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins.“ Og í lok guðspjallstextans segir Jesús: „Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar.“ Jesús boðar nýja og betri tíma. Það er því ljóst að Jesús lítur á sig sem þann er andinn vitjar. Og þann er flytur fagnaðarboðskapinn. Hann er sá er spáð var um að fæðast myndi í Betlehem af ungri móður. Það fer því vel á því að kveikja í dag á fyrsta kertinu í aðventukransinum, sem minnir okkur á spádómana um fæðingu frelsarans. Lífið er fullt af andstæðum og oft á tíðum er það okkar val hvoru megin borðs við sitjum varðandi ýmis mál. Í aðventuljóði Ragnars Inga Aðalsteinssonar er þessu lýst þannig:

Við lifum í dimmum og hörðum heimi með hungur, fátækt og neyð Þar sem einn er að farast úr ofáti og drykkju en annar sveltur um leið. Þar sem einn er þjakaður andlegu böli en annar ber líkamleg sár. Og samt hefur lausnin frá þjáning og þraut verið þekkt í tvöþúsund ár.
Já, lausnin frá þjáning og þraut hefur verið þekkt í tvö þúsund ár. Samt er það svo að við leitum oft langt yfir skammt að lausnum og leiðum til að bæta líf okkar. Andi Drottins er yfir mér segir Jesús. Í hans nafni er hann sendur til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins. Hlutverk hans er því að bæta líf fólks. Kirkjan hefur alla tíð verið meðvituð um það að hennar hlutverk er að koma boðskapnum um Jesú Krist til fólks bæði í orði og í verki. Hjálparstarf Kirkjunnar var sett á laggirnar um það leyti er þessi sókn varð til. Hlutverk þess er að starfrækja mannúðar- og hjálparstarf í nafni íslensku þjóðkirkjunnar innanlands sem utan. Á hverri aðventu hefur Hjálparstarfið staðið fyrir jólasöfnun og í ár er yfirskrift söfnunarinnar „hreint vatn gerir kraftaverk“. Mörg fyrirtæki og margar stofnanir hafa merki sem minna á starfsemi þeirra. Merki Hjálparstarfs kirkjunnar er kross, fiskur og skál. Krossinn, hið kristna tákn, er þungamiðja merkisins. Fiskurinn minnir bæði á fæðu auk þess sem fiskurinn er eitt af elstu táknum kristinna manna. Skálin minnir einnig á það hlutverk að gefa hungruðum heimi fæðu. Þegar við styrkjum Hjálparstarfið erum við því að stuðla að betra lífi fólks bæði innanlands og utan. Í ár rennur söfnunarféð til verkefnis Hjálparstarfsins í þremur löndum Afríku, þar sem vatnsskortur er tilfinnanlegur og það vatn sem er til staðar er óhreint og heilsuspillandi. Hreint vatn getur því bjargað lífi og gefið betra líf ekki bara með því að drekka vatnið heldur eru ýmis önnur áhrif svo sem þau að minni tími fer í að nálgast það og þá gefst til dæmis tími til að afla sér menntunar. Jesús býður okkur betra líf. Aðventan er kjörinn tími til að líta inn á við. Við undirbúum jólin á aðventunni. Sá undirbúningur er ekki bara hið ytra. Sá undirbúningur á sér einnig stað innra með okkur. Á þessum dimmasta tíma ársins dimmir stundum einnig í sál okkar en við grillum alltaf í ljósið, það ljós er alltaf lýsir á lífsins leið, ljós heimsins, barnið í jötunni. Aðventu- og jólaljósin eru tákn þess að ljósið getur einnig skinið innra með okkur og í lífi okkar. Ef við getum ekki fundið það eða látið það ljós lifa eigum við að leita hjálpar og veita öðrum hjálp. Hjálparstarf Kirkjunnar minnir okkur líka á það. Hjálpar okkur að muna eftir þeim sem minna hafa eða óttast um framtíð sína. Ég sá það í kynningu á þessum degi hér í þessari kirkju að söfnuðurinn man eftir þeim sem erfitt eiga því í kaffinu á eftir verður líknarsjóðshappdrætti til styrktar bágstöddum í söfnuðinum eins og það er orðað.

Það er enda eitt af einkennum kirkju sem kennir sig við Krist að muna eftir þeim sem minna hafa eða eiga í erfiðleikum hvers konar. En það er líka eitt af einkennum kristinnar kirkju að vera þess fullviss að Jesús er sá sem kom til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins eins og hann las sjálfur úr spádómsbók Jesaja. Og við eigum að feta í fotsporin hans og leggja okkur fram um að boða trúnna í orði og verki. Við getum ekki gefið nema það sem við höfum. Trúin er Guðs gjöf, hún kemur ekki af sjálfu sér. Sumir geta nefnt daginn og stundina, þegar Drottinn snart við þeim og lét þá finna að nú væri veröldin sem ný. Aðrir hafa alist upp á heimili þar sem trúin hefur verið iðkuð og geta ekki sagt til um það nákvæmlega hvenær trúin hafði fyrst áhrif í lífi þeirra.

Á aðventunni gefst okkur tækifæri til að líta inn á við og skoða hug okkar. Í kirkjum landsins eru aðventukvöld, kyrrðarstundir, tónleikar til að hjálpa okkur að takast á við okkar innri mann. Hvíla okkur frá amstri dagsins og gleyma áhyggjunum sem geta verið fylginautar okkar.

Ein áhrifamesta mynd aðventunnar sem ég á í sjóði minninganna og kemur upp í hugann á aðventunni er frá hjálpræðishersfólkinu á Ísafirði þar sem þau stóðu niður við Bókhlöðu með bauk á trönum. Fyrir ofan baukinn stóð: Hjálpið okkur að hjálpa öðrum. Er það ekki dásamlegur boðskapur aðventunnar að muna eftir öðrum. Muna eftir þeim sem okkur þykir vænt um. Þeim sem hafa gert okkur lífið farsælla, en líka þeim sem eru hjálpar þurfi og vantar sárlega að vita um kærleikann og að einhverjum þyki vænt um þau.

Hér í þessum söfnuði hefur verið öflugt starf. Ég hef fylgst með trúarlegu uppeldi skírnarbarna minna sem hér búa þegar þau sækja barnastarfið hér. Barnastarfið kostar ekkert nema tíma. Þeim tíma er vel varið og eflir börnin og hjálpar þeim að vera heilar manneskjur með sterka sjálfsmynd. Vitandi það að hvað svo sem á dynur í lífinu þá gengur Jesús með okkur æviveginn, í blíðu sem og í stríðu. Á hversdögum jafnt sem hátíðisdögum, því hann er kominn til að gera okkur frjáls undan því sem engu máli skiptir til þess dýrmætasta sem lífið hefur upp á að bjóða.

Haldið áfram ykkar góða starfi hér í kirkjunni. Til hamingju með kirkjuna ykkar og starfið allt, því kirkjan er ekki bara hús, hún er líka fólk. Án ykkar væri þetta hús óþarft. Með ykkur er mikil þörf fyrir það.

Gleðilega hátíð, í Jesú nafni.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.