Átökin um hið heilaga

Átökin um hið heilaga

En ef við teljum að þeir eigi að virða það frelsi sem okkur eru heilagt, gerir það þá ekki sjálfkrafa kröfu til okkar um að virða það sem þeim er heiilagt? Enginn misskilji mig svo að við eigum að fórna tjáningarfrelsinu að kröfu múslima, hverju sem þeir hóta. Fjarri því. En fylgir tjáningarfrelsinu engin ábyrgð?

Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes, bróður hans og fer með þá upp á hátt fjall, að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra, ásjóna hans skein sem sól, og klæði hans urðu björt eins og ljós. Og Móse og Elía birtust þeim, og voru þeir á tali við hann. Pétur tók til máls og sagði við Jesú: Herra, gott er, að vér erum hér. Ef þú vilt, skal ég gjöra hér þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.

Meðan hann var enn að tala, skyggði yfir þá bjart ský, og rödd úr skýinu sagði: Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!

Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta, féllu þeir fram á ásjónur sínar og hræddust mjög. Jesús gekk til þeirra, snart þá og mælti: Rísið upp, og óttist ekki. En er þeir hófu upp augu sín, sáu þeir engan nema Jesú einan.

Á leiðinni ofan fjallið bauð Jesús þeim og mælti: Segið engum frá sýninni, fyrr en Mannssonurinn er risinn upp frá dauðum.

Mt 17.1–9

Ég tók við kvittuninni úr hendi kassadömunnar á föstudagssíðdegi og hún kvaddi mig með orðunum: Góða helgi!

Ég kvaddi lækninn minn á föstudaginn og hann sagði: Góða helgi! Ég hef ekki hugsað neitt sérstaklega um þessa kveðju áður. Fyrir mér hefur hún aðeins verið einhver kurteisisfrasi sem fólk hefur lært á námskeiðum um góða framkomu við viðskiptavininn, svo hann komi aftur. Góða helgi! Er kveðjan sögð jafn hugsunarlaust og ég hef tekið við henni? Vita dömurnar og allir hinir sem hafa tamið sér þessa kveðju hvers þau eru að óska? Góða helgi! Hvað er helgi? Er þess óskað að fólk gangi til fundar við hið heilaga dagana sem í hönd fara; að það upplifi hið heilaga, njóti návistar við hið heilaga? Ég efa það. Kannski þýðir þetta í raun: skemmtu þér vel um helgina, hvíldu þig vel, njóttu samvistanna við fjölskylduna.

Hvar er hið heilaga í samtímanum? Hvað er nútímamanninum á Vesturlöndum heilagt? Hverju lýtur hann af virðingu og í lotningu.? Vitsmuna- og vísindatrú liðinnar aldar hefur dyggilega reynt að losa manninn við allt sem er ofan- og utanvið hann. Hinn trúarlegi heimur er ekki til. Þeir sem hafa þörf fyrir hið heilaga hafa flúið í felur með það eða jafnvel reynt að vitsmunavæða helgihald sitt til að styggja ekki „homo academikus,“ hinn menntaða mann. Trúarlegur heilagleiki er hugarburður og þeir sem nálgast hann eða þarfnast hans eru vinglar sem hafa tekið tilfinningarnar fram yfir vitsmunina.

Ég hef verið að glugga í bók eftir sænskan trúarlífssálfræðing, hún heitir: Hið heilaga og þrjóska þess við að hverfa. Þar er hann að velta fyrir sér þessari þróun, þ.e. hvernig hið heilaga sem tengt er túnni virðist í æ ríkari mæli vera að hverfa af vettvangi. Og hann spyr: Getur maðurinn verið án hins heilaga, einhvers til að líta til með andakt? Hann svarar þeirri spurningu neitandi. Hann telur einnig að hið heilaga sé þess vegna ekki horfið af vettvangi heldur hafi fært sig til. Hvað er dýrkað og nánast ósnertanlegt í samtímanum. Getur verið að Séð og heyrt og Hér og nú séu helgimyndabækur nútímans þar sem myndir birtast af hinum upphöfnu á ýmsum sviðum, fyrirmyndunum hinbum ósnertanlegu? Er hugsanlegt að íþróttasíður blaðanna séu sífellt að birta myndir af dýrlingum? Getur verið að þeir sem grípa svitastorkna boli íþróttahetjanna sem kastað er til þeirra, eða kaupa þá fyrir morð fjár, séu að verða sér úti um helgigripi? Er hugsanlegt að troðningurinn í kringum stjörnurnar í þeim tilgangi að snerta þær sé þrá eftir að fá hlutdeild í heilagri upphafningu þeirra?

Getur verið að túristar sæki í kirkjur á ferðalögum sínum til að nálgast hið heilaga af því að það tekur enginn til þess að túristar heimsæki fallegar kirkjur? Þannig spyr trúarlífssálfræðingurinn sænski.

Jesús tók þá með sér upp á fjall, Pétur, Jakob og Jóhannes. Það var enginn sem kallaði á eftir þeim: Góða helgi! En á fjallinu upplifðu þeir návist hins heilaga. Þeir Móse og Elía komu til fundar við Jesú og ský umlukti þá og rödd heyrðist úr skýinu sem sagði: Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hefi velþóknun á. Hlýðið á hann. Og þeir féllu fram í ótta og lotningu. Þeir stóðu frammi fyrir hinu heilaga og lutu því sem veruleika.

„Heilagur, heilagur, ert þú, Drottinn Guð allsherjar. Öll jörðin er full af dýrð hans. “

Heimspressan hefur að undanförnu verið full af fréttum af viðbrögðum múslima, bæði öfgafullra og hófsamra, vegna skopmynda sem Jyllandsposten birti í haust, og þessar myndir hafa nú farið sem eldur í sinu um alla Evrópu. Svo langt hefur gengið að veraldleg stjórnvöld hafa verið krafin um afsökunarbeiðni og hryðjuverkum hótað, auk þess sem þjóðfánar með tákni krossins, helgasta tákni kristinna manna, hafa verið brenndir og smánaðir. Hvers vegna? Vegna þess að það sem múslimar líta heilagt hefur verið lítilsvirt. Viðbrögð fjölmiðlamanna og stjórnmálamanna hafa yfirleitt verið á einn veg. Einn af hornsteinum Vestrænna ríkja er tjáningarfrelsið og við látum enga segja okkur hvað við megum birta eða hvernig. Fjölmiðlar eru sjálfir ábyrgir fyrir því. Múslimanir verða að skilja að við lifum í öðrum heimi en þeir, og það verða þeir að virða.

Vissulega lifa þeir í menningarheimi sem er frábrugðinn okkar. Þar ríkir yfirleitt guðveldi. Hið trúarlega og hið samfélagslega er ekki aðskilið eins og hjá okkur, guðslög eru samfélagslög. Sé hið trúarlega vanvirt er samfélagið vanvirt. En ef við teljum að þeir eigi að virða það frelsi sem okkur eru heilagt, gerir það þá ekki sjálfkrafa kröfu til okkar um að virða það sem þeim er heiilagt? Enginn misskilji mig svo að við eigum að fórna tjáningarfrelsinu að kröfu múslima, hverju sem þeir hóta. Fjarri því. En fylgir tjáningarfrelsinu engin ábyrgð? Gerir það engar kröfur um dómgreind. Gerir það engar kröfur um tillitssemi og virðingu fyrir öðrum? Gerir það enga kröfu um að menn geri sér grein fyrir hvað ögranir af þessu tagi geta komið til leiðar í þeirri spennu sem ríkir milli hins múslimska heims og Vesturlanda? Ekkert frelsi er án ábyrgðar. Að taka þá ábyrgð alvarlega er ekki undirlægjuháttur heldur óbrjáluð dómgreind.

En hvernig eiga menn í afhelguðum þjóðfélögum Vesturlanda að skilja virðinguna fyrir hinu heilaga. Hér á meðal okar er ástandið eins á þessu sviði sem og mörgum öðrum. Menn telja sig mega vanvirða aðra í nafni frelsisins. Mörgum er enn í minni þegar Ríkisútvarpið sendi út Spaugstofuþátt þar sem hæðst var að hinu helgasta í guðsdýrkun kristinna manna, atburðum kyruviku og þar með kvöldmáltíðarsakramentinu. Á mig virkaði þessi þáttur eins og þer spaugstofumenn hefðu vaðið hérna upp á altarið á forugum satígvélum. Vissulega létu einhverjir í sér heyra og biskup Ólafur Skúlason skrifaði útvarpsráði og lét í ljós vanþóknun sína. Hann fékk þau svör að flytjendur væru ábyrgir fyrir því sem þeir flyttu. Enginn krafði þá um afsökunarbeiðni, enginn heimtaði af útvarpsráði að biðja kirkjuna og kristið fólk í landinu afsökunar, hvað þá að menn færu niður í stjórnarráð til að krefjast hins sama. Og ríkissaksóknari hélt að sér höndum, þrátt fyrir lögin um bann við guðlasti. Hvernig geta þeir sem ekki skynja mikilvægi hins heilaga í trú þeirra sem næstir þeim standa að skilið þá sem fjær eru.

Við lifum við sívaxandi fjölmenningu í samfélagi okkar, þar sem fólk frá ólíkum menningarheimum kemur saman. Það krefst tillitsemi og virðingar. Það krefst umburðarlyndis. En við megum ekki misskilja hugtakið umburðarlyndi og hvað í því er fólgið. Það merkir ekki að draga sig í hlé, láta af sínu til að rýma fyrir viðhorfum annarra. Það felur miklu fremur í sér réttinn til að halda fast í það sem okkur er mikils virði, en gerir jafnframt þá kröfu að við leitumst við að skilja og virða þau sem hafa önnur lífsviðhorf, aðra trú. Mér finnst oft gæta misskilnings á umburðrlyndishugtakinu í umræðunni hér á landi, einkum að því er varðar skólastarf. Til þess að styggj ekki hina aðkomnu, er gjarnan hopað þegar um trúarbragðafræðslu er að ræða, þegar um venjur er að ræða sem þótt hafa sjálfsagðar, eins og til dæmis heimsóknir í kirkjur eða þáttöku í jólhelgistundum. Þetta er ekki umburðarlyndi heldur undirlægjuhátur. Það hlýtur að vera hægt að sinna þeim börnum með viðeigandi hætti sem mælst er til að þau séu ekki þátttakendur. Umburðarlyndi felst ekki í því að þurrka mismuninn út, heldur að læra að lifa með honum í friði og af virðingu.

Piltarnir þvír á fjallinu, þeir Pétur, Jakob og Jóhannes lutu hinu heilaga. Í námunda við hið heilaga fengu þeir fyrirmæli frá hinum heilaga: Þessi er minn elskaði sonur sem ég hefi velþóknun á. Hlýðið á hann. Hlýðið á hann. Hvað sagði hann? Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skuluð þér og þeim gera. Þið sem gerið kröfu um að hið heilaga tjáningarfrelsi sé virt, virðið það sem er öðrum heilagt. Það er ekki krafa um að handjárna menn og hefta tjáningarfrelsið. En ögrun er ekki framlag til friðsamlegrar sambúðar. Ætli maður að fá einhvern til tals við sig um viðkvæm málefni til að leita sátta, byrjar maður ekki á því að gefa honum á hann.

Þessi er minn elskaði sonur. Hlýðið hann. Þetta voru skilaboð hins heilaga. Í veraldarvæddu og afhelguðu þjóðfélagi þar sem mörk frelsisins eru gjarnan teygð fram á ystu nöf, hefur kirkjan mikilvægu hlutverki að gegna í uppeldisviðleitni sinni meðal barna, í fullorðinsfræðslu og í helgihaldi, að greiða fyrir því að fólk fái tækifæri til að upplifa hið heilaga. Helgisiðirnir verða að taka mið af því. Barnastarfið verður að taka mið af því. Þar er ekki mikilvægast að vera skemmtilegur, þótt því skuli síður en svo hafnað. Hið mikilvægasta er að fræða og gefa börnunum tækifæri til að nálgast hið heilaga, lúta hinu heilaga, virða hið heilaga, upplifa nálægð Guðs í helgisiðum sem hæfa þeim, og kernna þeiim hlusta á hinn elskaða son guðs, Jesú Krist. Til þess þurfum við sjálf að hlusta. Til þess þurfum við sjálf að lúta himun heilaga. Amen.