Höldum áfram – gefumst ekki upp

Höldum áfram – gefumst ekki upp

Stundum lít ég út eins og eitt stórt spurningarmerki. Og hvað er ég með í huga þegar ég segi þetta: Jú, einkum þrennt. Áður óþekktur niðurskurður í heilbrigðiskerfinu, aðstæður skuldugra fjölskyldna og undarlegar tafir á atvinnuuppbyggingu hér á Suðurnesjum.

“Statt upp, tak rekkju þína og far heim til þín”. Þessi skipandi orð mætli Jesús við lamaða manninn og hvað gerðist? Kraftaverkið átti sér stað. Hann stóð upp í augsýn allra og fór heim til sín. Jesús gerði honum kleift að gera hið ótrúlega, hið ómögulega enda ráku allir upp stór augu, urðu óttaslegnir en lofuðu jafnframt Guð.

Þetta getur Jesús ennþá gert. Hann getur hjálpað okkur að gera hið ómögulega, hið ótrúlega. Hann mælir til okkar hvetjandi og styrkjandi orð sem blása eldmóð í brotna sál og hleypa kjarki í kúgaðan anda.

Síðasta vika hefur verið þjóðinni erfið. Við höfum upplifað mikla reiði og sársauka og líka mikið vonleysi. Og það er skiljanlegt því mörgum er illilega misboðið. Ég hef nú reyndar alltaf alið þá von í brjósti að stjórnmálamenn vilji vel, reyni sitt besta og geri á hverjum tíma það sem þeir telja best fyrir þjóðina. En stundum lít ég út eins og eitt stórt spurningarmerki. Og hvað er ég með í huga þegar ég segi þetta: Jú, einkum þrennt. Áður óþekktur niðurskurður í heilbrigðiskerfinu, aðstæður skuldugra fjölskyldna og undarlegar tafir á atvinnuuppbyggingu hér á Suðurnesjum.

Hvernig í ósköpunum telja menn það mögulegt að skera niður fjárveitingar til tiltekinna heilbrigðisstofnana um tugi prósenta? Halda menn virkilega að bruðlið hafi verið slíkt að borð sé fyrir báru? Hvernig reikna menn þetta út? Er búið að taka með í sparnaðaráformin allan þann kostnað sem hlýst af því að flytja sjúklinga til Reykjavíkur, kostnað við rýmin þar, kostnað við atvinnuleysisbætur jafnvel flestra þeirra sem missa vinnuna, áhrifin á bæjarfélögin á hverjum stað. Þessar hugmyndir eru víða með svo miklum ólíkindum að þó menn myndu draga þær að hálfu til baka væri þetta samt allt of mikið. Íslenskt þjóðfélag er ekki samansafn rúmlega 300 þúsund einstaklinga heldur safn margra misstórra samfélaga sem ná allan hringin kringum landið. Sum samfélög eru smá en önnur stór. Þar býr fólk sem leggur fram krafta sína til viðhalds og uppbyggingar samfélagsins og þannig þjóðarinnar í heild. Það sem ég þekki til smárra heilbrigðisstofnana er að mínu mati um fyrirmynd annarra stofnana að ræða. Ég þekki til stofnunarinnar hér á Suðurnesjum en ekki síður til lítillar heilbrigðisstofnunar á Hvammstanga þar sem ég þjónaði í 11 ár. Þar er húsnæði vel nýtt, þar er hægt að flétta saman fólki sem hefur mjög mismunandi þjónustuþörf. Dvalar og hjúkrunarheimilisþjónusta, innlögn þeirra sem jafna sig eftir aðgerðir, deild fyrir heilabilaða og líknandi meðferð. Allt á einum stað. En það sem mestu skiptir er sú virðing og reisn sem sjúklingar og heimilismenn njóta. Og þetta er ekki eitthvað dekur við fáa útvalda heldur hluti af vel skipulögðu kerfi um allt land. Enginn hefur á móti því að hagræða, margir hafa lagt mikið á sig til þess með góðum árangri víða.

Öfgafullar og óraunhæfar aðgerðir eru ekki til þess fallnar að þjappa fólki saman. Nei, slíkar aðgerðir splundra upp heilu samfélögunum þannig að óhug sækir að fólki. Það fyllist óöryggi og vonleysi sem gæti leitt til þess að við misstum fjölda menntaðs fólks úr landi. Það er þegar farið að gerast meðal lækna. Þetta er grafalvarlegt mál sem þolir enga óvissu.

En víkjum að heimilunum. Fjöldi fasteigna hefur farið undir hamarinn á síðustu dögum, mest hér á Suðurnesjunum. Það er sárara en tárum taki að reyna að setja sig í spor þeirra fjölskyldna sem standa frammi fyrir þessu. Við heyrum kannski ekki mjög hátt í þeim. Mér var tjáð af lögfræðingi nokkrum sem komið hefur að þessum sársaukafullu málum að í mörgum tilfellum væru íbúðirnar tómar. Fólkið væri farið, það væri flutt í burtu, jafnvel úr landi. Það er skelfileg staða að vera svo fastur í skuldasúpu vegna algjörs forsendubrests að menn geti ekki einu sinni skilað eignum sínum og fengið tækifæri til að byrja uppá nýtt, byrja á núlli. Það verður að vera hægt. Það gæfi þó a.m.k. von. Flestir eiga auðvelt með að aðlagast breyttum kjörum, þar er ekkert val. Það er jafnmikilvægt að kunna að búa við skort eins og að kunna að búa við alsnægtir. En ef það er ekki einu sinni hægt að byrja frá núlli þá verður baráttan svo tilgangslaus.

Það er “in” í dag að nýta hlutina, að versla í Góða hirðinum eða á nytjamörkuðum Kristniboðsins eða Hjálpræðishersins svo eitthvað sé nefnt.

En skoðum nú tækifærin. Alþjóð veit að atvinnuleysi er mest hér á Suðurnesjum og ekki batnar það ef niðurskurður á heilbrigðisstofnuninni kemur til framkvæmda. Hins vegar eru hér nokkur risaverkefni sem öll eru hafin. Ég er ekki að tala um neinar skýjaborgir, hugmyndir á blaði eða flottar powerpoint sýningar. Nei, raunveruleg verkefni sem eru handan við hornið og skipta sköpum fyrir íslenskt þjóðarbú. Má þar nefna verkefni á borð við Kísilverksmiðju, gagnaver og síðast en ekki síst álverið í Helguvík. Álverið er langstærsta verkefnið af þessum og þar eru sko engar skýjaborgir á ferð. Þar er áætlað að um 2000 varanleg störf skapist við álverið sjálft og tengda þjónustu. Þau störf eru að stærstum hluta hér á Suðurnesjum en teygja sig einnig til höfuðborgarsvæðisins. Þessar tölur eru byggðar á reynslu Norðuráls og því ekki skot út í loftið. Það er sorglegt að horfa uppá slík verkefni liggja nánast í salti vegna, að því er virðist, skorts á pólitískri samstöðu og stefnu. Í Jesú nafni, bið ég alla sem áhrif hafa, ákvarðanir taka og greitt geta götu að leggjast á eitt um að opna þær dyr sem þarf að opna til þess að þessi gríðarlega stóru, metnaðarfullu og raunhæfu verkefni komist í gagnið og okkur takist þannig að snúa vörn í sókn og hjól atvinnulífsins komist aftur af stað. Þetta eru hagsmunir allrar þjóðarinnar og myndu hratt og örugglega draga úr niðurskurðarþörf í velferðarþjónustu.

Í öllu þessu er svo óendanlega mikilvægt að eiga vonina. Kristin kirkja verður að standa saman. Kristin kirkja er jú fyrst og síðast það fólk sem henni tilheyir. Kirkjan ert þú, þú ert kirkjan. Yfir 90% þjóðarinnar er skráð í kristið trúfélag. Þess vegna sjáum við allsstaðar hina kristnu kirkju að störfum. Hvaðan ætli hugmyndir hins vestræna samfélags komi um öfluga heilbrigðisþjónustu? Jú, frá kristnu gildismati. Sagan um miskunnsama samverjan og boðskapur Jesú um að elska náungann. Þess vegna er heilbrigðisþjónusta vítt og breitt um landið ekki gæluverkefni á góðæristímum heldur siðferðileg skylda kristins samfélags sem viðheldur mannlegri reisn og virðingu. Í starfi mínu heyri ég æ ofan í æ fallegar sögur af starfsfólki í heilbrigðisgeiranum sem gerði miklu meira heldur en að vinna vinnuna sína. Það gaf af sjálfu sér, miðlaði kærleika, umhyggju og von inn í vonlausar aðstæður, linaði þjáningar og mildaði kvöl.

Biblíutextar dagsins hvetja okkur til að endurnýja hugarfarið, líta í spegil og endurmeta gildismat okkar. Í fyrri ritningarlestrinum úr Spádómsbók Esekíels segir Drottinn: “Snúið við, hverfið frá öllum afbrotum ykkar svo að þau verði ykkur ekki að falli. Varpið frá ykkur öllum þeim afbrotum sem þið hafið framið. Fáið ykkur nýtt hjarta og nýjan anda.”

Og í síðari ritningarlestrinum úr Efesusbréfinu skrifar Páll postuli: “Þið eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni sem er spilltur af tælandi girndum en endurnýjast í anda og hugsun og íklæðast hinum nýja manni sem skapaður er í Guðs mynd og breytir eins og Guð vill og lætur réttlæti og sannleika helga líf sitt.”

Þetta er verkefni okkar allra. Við höfum öll tækifæri til að endurskoða afstöðu okkar hvort sem við köllumst almenningur eða ráðmenn. Kristinn maður er kallaður til að endurmeta stöðu sína reglulega, það gerum við með bæn og beiðni og þakkargjörð. Ég ákalla hvern einasta kristinn mann til að biðjast fyrir. Biðja fyrir landi okkar og þjóð. Í hverri einustu messu er beðið fyrir landinu, atvinnuvegum, stjórnvöldum og heimilum. Þannig er almenna kirkjubænin byggð upp.

Við megum þó hafa tilfinningar og okkur ber að hlusta á þær. Páll postuli sagði í seinni ritningarlestrinum “Ef þið reiðist þá syngið ekki”. M.ö.o. þá er ekkert óeðlilegt við það að reiðast og tjá þá reiði en við megum ekki láta reiðina leiða okkur til slæmra verka. Þá snýst reiðin upp í andhverfu sína. Réttlát reiði getur komið mörgu góðu til leiðar en reiði sem verður hamslaus gerir oftast illt verra.

“Statt upp og gakk” sagði Jesús. Lækning hins lamaða var þó ekki aðalatriðið í augum Jesú þó fólkið í kringum hann hafi fyrst þá tekið mark á honum. Það var það sem Jesús sagði við lamaða manninn á undan. Syndir þínar eru fyrirgefnar. Og þetta er boðskapur sem okkur er sendur. Við fáum tilboð um fyrirgefningu syndanna. Fyrirgefningu á því sem við höfum gert rangt, hugsað eða sagt rangt. Og þetta tilboð er til allra, hárra sem lágra. Þetta tilboð stendur okkur til boða þegar við höfum e.t.v. tekið rangar ákvarðanir og viljum leita leiða til að bakka eða skipta um skoðun kinnroðalaust. Með sama hætti þurfum við að vera fús til að fyrirgefa hvert öðru og fyrirgefa sjálfum okkur. Þegar fólk í kringum okkur gerir mistök og vill snúa við þá verðum við að gefa tækifæri í formi fyrirgefningarinnar. Þegar við tökum rangar ákvarðanir eða gerum mistök þurfum við líka að geta fyrirgefið okkur sjálfum svo við séum ekki endalaust að refsa okkur.

Við þurfum að standa saman og við þurfum að tala saman. Það er ósanngjarnt að slengja risavöxnum áföllum yfir heilu byggðalögin og setja þau þannig í algjört uppnám. Það er lágmarkskrafa að öllum slíkum áformum fylgi raunhæfar aðgerðaráætlanir um lausnir til handa skjólstæðingum, starfsfólki og öðrum íbúum. Hægri höndin verður að vita hvað sú vinstri er að gera. Það er verið að fjalla um fólk og fjölskyldur, um börn og gamalmenni, um sjúka og heilbrigða. Þótt mörgum líði eins og áhorfendum að atburðarás sem þeir hafa ekkert um að segja þá er þó alltaf eitt sem við getum gert og það er að biðja. Við upplifum okkur kannski óþolinmóð í bæninni en við skulum ekki gefast upp. Ég bið ykkur sem heima sitjið að sameina alla heimilismenn við eldhúsborðið eða hvar sem útvarpstækið er og taka þátt í almennu kirkjubæninni hér á eftir. Við skulum halda áfram í trausti þess að Guð blessi Ísland eins og hann hefur gert um aldir.