Kirkjubekkir í kórnum

Kirkjubekkir í kórnum

Full þörf er á því að losa um nokkra kirkjubekki í hinu almenna rými, draga þá austur að altarinu og snúa þeim til móts við hina bekkina! Þar ættu þeir sem bera ábyrgð á starfi kirkjunnar að setjast niður og horfa í augu safnaðarins. Kirkjudyrnar þurfa svo að vera opnar upp á gátt því þar fyrir utan bíða miklar áskoranir.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
10. júní 2010

Afmælissýning Þjóðleikhússins, Íslandsklukkan hefst með eftirminnilegum hætti. Þegar tjaldið hefur verið dregið frá, sitja leikararnir á sviðinu í leikhússætum, sömu gerðar og leikhúsgestirnir sitja í, og horfa út í salinn. Þetta er áhrifaríkt upphaf á góðri sýningu og felur í sér skilaboð um hlutverk þjóðleikhúss.

Jú, vitaskuld horfir þjóðin á leikhúsið. Fólk klæðir sig upp og mætir á sýningarnar. Sumar fá lofsamlega dóma, aðrar þykja misheppnaðar og flestar eru þarna á milli. Þessi gjörningur á leiksviðinu, minnir okkur hins vegar á það að til þess að þjóðleikhús standi undir nafni, nægir ekki að þjóðin horfi á leikhúsið. Leikhúsið þarf líka að horfa á þjóðina. Það þarf að fylgjast með því hvað þjóðin vill. Það þarf að spyrja þjóðina, hlusta á hana og horfa. Það þarf að læra af henni og nema, því að öðrum kosti er það ekki þjóðleikhús. Öll sú gagnrýni sem leikhúsið kann að setja fram á það hvernig þjóðinni er stjórnað og hvernig hún hegðar sér missir marks ef slíkur skilningur býr þar ekki að baki. Túlkun þess á sögu þjóðarinnar, menningu og minningum stendur og fellur með því að það geti sett sig í spor þeirrar þjóðar sem það starfar fyrir og með. 

Forskeytið þjóð- 

Þjóðkirkja hefur að þessu leyti sama hlutverki að gegna og þjóðleikhús. Sú íslenska þarf hins vegar að taka sig í þessum efnum. Þekking okkar sem þjónum í kirkjunni á þörfum þjóðarinnar, óskum hennar og afstöðu er brotakennd. Þegar söfnuðir skipuleggja starfsemi sína, búa þeir við litlar upplýsingar sér til leiðsagnar. Gildir ekki hið sama með aðrar einingar kirkjunnar, s.s. stiftin, prófastsdæmin, kirkjuþing, kirkjuráð og allar hinar nefndirnar? Taka menn nægilega mikið mið af þörfum þjóðarinnar? 

Miðast helgihaldið og þjónustan við þennan litla minnihluta sem er á heimavelli í kirkjununum? Hversu margir þekkja ritúalið – kunna sögu þess og geta hummað messutónið með sjálfum sér eftir að heim er komið úr messunni? Hvernig tilfinning er það fyrir efasemdarfólk að sitja á kirkjubekk? Hvaða aðdráttarafl hafa viðburðir í kirkjunni? Hvers vegna segir fólk sig úr kirkjunni og væri einhver leið að bjóða því að ganga í hana að nýju? Þetta eru áhugaverðar spurningar og svörin við þeim eru þeim mun verðmætari eftir því sem aðstæðurnar verða meira krefjandi. 

Vits er þörf 

Fyrst blasir það við hversu fákunnandi kirkjan er um lífsafstöðu fólks. Trúarlífskannanir voru gerðar á 9. og 10. áratugnum og miðla þær mikilvægum upplýsingum. Slíkar kannanir þarf að endurtaka. Á þeim á að byggja þegar horft er til fræðslu, helgihalds og kærleiksþjónustu kirkjunnar. Margt hefur breyst frá því síðustu kannanir voru gerðar. Þar má nefna vakningu í umhverfismálum. Eru þar ný tækifæri fyrir kirkjuna? Tónlistin og menningin hafa líka breyst að ógleymdu því að heil fjölmiðlabylting hefur átt sér stað síðan með tilkomu internetsins. 

Hugmyndaveitur hafa rutt sér til rúms og má þar nefna þá nýjustu, Skuggaborg, sem væntanleg borgaryfirvöld hafa hleypt af stokkunum. Þvílíkur fengur sem slík síða væri fyrir þá sem skipuleggja kirkjulegt starf! 

Mikil gróska hefur verið á sviði leiðtogafræða undanfarin ár. Kirkjan gæti gert þjónustusamninga við háskólana um að gerð verði úttekt á starfseiningum hennar þar sem m.a. væri spurt hversu vel þær koma til móts við samfélagið sem þær þjóna. Þar sem víðar fálma menn áfram í myrkrinu þegar kemur að því að stefnumótun, starfslýsingum, áætlunargerð og tengslum við samfélagið. Slíkt samstarf myndi á nokkrum árum koma miklu til leiðar og auka fagmennskuna á þessum sviðum. 

Þjóðkirkja 

Kirkja sem kennir sig við heila þjóð, hlýtur að vera forvitin um þarfir þessarar þjóðar. Í sálgæslu læra prestar og djáknar virka hlustun enda liggur hún til grundvallar allri aðstoð. Þekkt eru orð Kierkegaards um „leyndardóminn að baki allri hjálparlist“ þar sem segir að, „til að geta hjálpað öðrum þá verð ég að skilja meira en hann, en þó fyrst og fremst að skilja það sem hann skilur.“ Þetta á ekki bara við um samtal og stuðning við einstaklinga, heldur öll samskipti sem miða til farsældar. 

Kirkja og þjóð geta tekið þátt í spennandi samræðum en þar eru líka vítin til að varast. Ef kirkjan leggur sig of mikið fram um að setja sig í spor samfélagsins – vill verða eins og það, glatar hún sérkennum sínum. Þá hefur hún í raun ekkert fram að færa og verður vita gagnslaus. Með sama hætti blasir það við að kirkja sem ekki hlustar á umhverfi sitt og leitast ekki við að tala því máli sem það skilur verður framandleg og hversu mikilvægur sem boðskapur hennar, þá ratar hann ekki rétta leið. 

Til þess að unnt sé feta veg hófseminnar í þessum efnum þarf að horfa, hlusta, spyrja og skynja hvernig kirkjan getur mætt kröfum þjóðarinnar. Full þörf er á því að losa um nokkra kirkjubekki í hinu almenna rými, draga þá austur að altarinu og snúa þeim til móts við hina bekkina! Þar ættu þeir sem bera ábyrgð á starfi kirkjunnar að setjast niður og horfa í augu safnaðarins. Kirkjudyrnar þurfa svo að vera opnar upp á gátt því þar fyrir utan bíða miklar áskoranir.