Glugginn

Glugginn

Kirkjunni er ætlað að vera gluggi. Helgidómurinn á að vera gluggi sem hleypir inn birtunni frá Guði. Eins og glugginn fagri sem hér blasir við sjónum.

Á fimmtánda stjórnarári Tíberíusar keisara, þegar Pontíus Pílatus var landstjóri í Júdeu en Heródes fjórðungsstjóri í Galíleu, Filippus, bróðir hans, í Ítúreu og Trakónítishéraði og Lýsanías í Abílene, í æðstapreststíð Annasar og Kaífasar, kom orð Guðs til Jóhannesar Sakaríasonar í óbyggðinni. Og hann fór um alla Jórdanbyggð og boðaði mönnum að taka sinnaskiptum og láta skírast til fyrirgefningar synda, eins og ritað er í bók Jesaja spámanns: Rödd hrópanda í eyðimörk: Greiðið veg Drottins, gerið beinar brautir hans. Öll gil skulu fyllast, öll fell og hálsar jafnast, bugður verða beinar og óvegir sléttar götur. Og allir munu sjá hjálpræði Guðs. Við mannfjöldann, sem fór út til að láta hann skíra sig, sagði hann: „Þið nöðrukyn, hver kenndi ykkur að flýja komandi reiði? Sýnið í verki að þið hafið tekið sinnaskiptum og farið ekki að segja með sjálfum ykkur: Við eigum Abraham að föður. Ég segi ykkur að Guð getur vakið Abraham börn af steinum þessum. Öxin er þegar lögð að rótum trjánna og hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og því í eld kastað.“ Lúk 3.1-9

Hjartanlega til hamingju með daginn, tuttugu og fimm ára vígsluafmæli Áskirkju, sem fagnað er með því að nýr kórgluggi er helgaður. Til hamingju með það. Ég man fyrir 25 árum þegar kirkjan var vígð. Ég minnist þess að koma hér í kirkjuna daginn fyrir, og hér var allt undir brot og slit, sóknarnefnd, safnaðarfélagsfólkið, konurnar, sjálfboðaliðarnir innan um iðnaðarmennina að leggja síðustu hönd á og búa helgidóminn til hátíðarinnar. Það er ógleymanleg sjón. Guð blessi minningu forgöngumannanna, sóknarprestanna, sóknarnefndafólks, kvennanna, sem alltaf stóðu í fararbroddi, Guð blessi allar minningarnar sem þessi dagur vitnar um.

Glugginn fagri blasir við allra augum. Guð blessi listakonuna og þau sem hér hafa komið að góðu verki. Guð blessi þær góðu minningar og kærleika sem þessi gluggi er kostaður af og hann vitnar um. Glugganum er ætlað að benda upp hærra og til Guðs, já og beina líkams og sálar sjónum til hans, hans sem kemur ofan af hæðum og býður okkur að borði með sér, þar sem hann brýtur brauðið til að næra, styrkja, blessa börn sín öll, hann sem gaf sitt líf heiminum til lífs.

Það er þriðji sunnudagur í aðventu og í guðspjalli dagsins heyrum við um Jóhannes skírara. Hann er reiður, spámannlegri, heilagri reiði. Jóhannes sýnir með öllu framferði sínu að hann væntir sér einskis góðs. Reiðin og skammirnar dundu á þeim sem vitjuðu hans. Og þeir voru margir, vegna þess að á erfiðum tímum þá vilja menn gjarna hlusta á þau sem segja til syndanna og gefa innbyrgðri reiði fólks orð og útrás. Og það gerði Jóhannes svo sannarlega. Hann vandar þeim ekki kveðjurnar! „Öxin er reidd að rótum.“ „Þið nöðrukyn, hver kenndi ykkur að flýja komandi reiði!“ Vá! Komandi reiði, en ekki jól, birta, gleði og nægtir, heldur dómur og refsing, hefnd. Ef þið bregðist ekki skjótt við og snúið við blaðinu þá fer illa - segir Jóhannes.

Það má nú segja að hafi farið illa fyrir honum. Á tímum óróleika í pólitíkinni, eins og við lifum núna, þá er oft kallað eftir því að fá höfuð einhvers á silfurfati. Þar er vitnað til örlaga Jóhannesar. Hann galt með lífi sínu vitnisburðinn við sannleikann og lífið, hinn síðasti í röð spámanna Gamlatestamentisins. Jóhannes lifði þó það að sjá þann koma sem kominn var, ekki til að dæma heldur til að bera synd heimsins. Um hann sagði Jóhannes: „Mitt á meðal ykkar er sá sem þið þekkið ekki... Hann á að vaxa, en ég að minnka.“ Hann sem kom, ekki til að dæma, heldur til að fyrirgefa. Jesús lagði ekki öxi reiðinnar að rótum trésins, heldur bar synd heimsins allt til dauða á krossins tré.

Aðventan er svona eins og Jóhannes og hvetur okkur til að gefa gaum að forgangsröðuninni, hvað á að vaxa, hvað á að minnka? Minnki allt sem er sjálfhverft og sjálfselskt, vaxi allt sem ber birtu af Jesú, umhyggjan, kærleikurinn, og góðvildin. Minnki allt sem er óttanum merkt, vaxi allt sem ber vott um miskunnsemi, gjafmildi, örlæti. Minnki allt sem er græðginni, oflæti og ágirnd markað, vaxi það sem ber sannleika og réttlæti vitni. Minnki allt sem ber vott um hatur og hörku og óbilgirni, vaxi það sem greiðir friði og fyrirgefningu veg, allt það sem læknar og frelsar. Minnki tortryggni, vaxi trú, von og kærleikur. Minnki myrkrið í mannheimi, vaxi birtan eilífðar. Þetta segir aðventan þegar ljós henna tendrast eitt af öðru og vitna um birtuna eilífu sem kemur og er Jesús Kristur.

Kirkjunni er ætlað að vera gluggi. Helgidómurinn á að vera gluggi sem hleypir inn birtunni frá Guði. Eins og glugginn fagri sem hér blasir við sjónum. Á honum er sjóferðarbæn. Hún var fyrrum ófrávíkjanleg venja, sjómennirnir bændu sig og báðu bænar í Jesú nafni ýtt var úr vör. Það var föst venja, að þegar skipshöfnin tók á og ýtti bátnum á flot sögðu menn: Í Jesú nafni. Og áður en lagst var á árar tóku menn ofan höfuðföt sín og fóru með sjóferðarbænina. Hvenær lagðist sá siður af? Það er vitað upp á dag. Það var þegar mótorbátarnir komu. Þá hættu menn að fela sig Guði - upphátt. Fagnaðarerindi vélaraflsins, trúin á tæknina rýmdi bæninni út. Eða hvað? Skyldi það vera að við reiðum okkur enn á það fagnaðarerindi, að það sé máttur tækja og tækni, mannsins afl og auður sem bera muni mann heilan heim í höfn á friðarlandi? Ég held reyndar að bænin hafi ekki þagnað. Vélardynurinn kæfði hana, hinn nýi taktur hraðans ruddi hinum gömlu trúarháttum úr vegi. En trúarþörfin er samt til staðar. Hún fær bara ekki þá framrás í samfélagi sem hún þarfnast. Og í stað þess að móta líf og breytni verður hún einatt eins og gömul bók í snjáðu bandi sem geymir minningu um eitthvað sem einu sinni var og hreif, en snertir ekki lífið, veginn, né daginn. Eða eins og byrgður gluggi, hann er þarna á veggnum, gerekti, gler og allt, en hann hleypir engu ljósi í gegn. Að biðja er að taka frá glugganum og hleypa birtunni inn. Þótt vélaaflið sé mikið og máttur tækni og þekkingar undraverður, þá er hjarta mannsins jafn veilt og valt sem fyrr og mannanna stoð og styrkur bregst. En eitt er það sem aldrei bregst og bera mun gegnum hættur, gegnum neyð: Jesús Kristur. Hann snýr ekki baki við þeim sem ákalla hann og yfirgefur aldrei þann sem á hann vonar.

Helgisögn segir frá því, að þegar Jóhannes hafði verið tekinn af lífi, að tilstuðlan hins grimma Heródesar, þá var lík hans brennt. Vinir hans fóru að leita beina hans til að veita honum verðuga greftran. En þeir fundu ekkert í öskuhrúgunni nema einn fingur. Vísifingur, fingurinn sem Jóhannes benti með á frelsarann er hann sá hann koma. Aðventan er svona fingur sem bendir á þann sem kemur, frelsarann Krist. Áskirkja er helguð og vígð þeim sama frelsara. Allar línur hússins benda til himins. Og með þjónustu sinni, helgum athöfnum, bæn, boðun og þjónustu, bendir hún á frelsarann Jesú.

Horfðu til hans og fel honum vegu þína og treystu honum og hann mun vel fyrir sjá. Því hann er sá sem læknar þennan heim og líf þitt allt. Guð gefi okkur öllum það að finna og sjá og blessi okkur og landslýð öllum aðventu og jólatíð.