Hvað viltu gera eftir fermingu?

Hvað viltu gera eftir fermingu?

Hvað viltu gera eftir fermingu? Ha, hvað meinarðu? Jú, hvað er það í kirkjustarfinu, sem þú vilt taka þátt í, eftir fermingu? Viltu verða starfsmaður í barnastarfi? Ertu til í að vera í hjálparstarfshóp kirkjunnar?

Hvað viltu gera eftir fermingu? Ha, hvað meinarðu? Jú, hvað er það í kirkjustarfinu, sem þú vilt taka þátt í, eftir fermingu? Viltu verða starfsmaður í barnastarfi? Ertu til í að vera í hjálparstarfshóp kirkjunnar? Viltu ganga í einhvern af kórum kirkjunnar? Það er til heimsóknarhópur í söfnuðinum, sem hefur það verkefni að líta til gamals fólks og þeirra sem eru sjúkir heima. Viltu kannski vera með í því starfi? Eða hefur þú löngun til að starfa með messuhópnum, taka á móti fólki og útdeila sálmabókum á sunnudögum?

Hvað viltu gera í kirkjustarfinu eftir fermingu? Þetta er mikilvæg, kirkjuleg spurning. Við ættum að spyrja fermingarbörnin. Við ættum líka að skipa málum svo í safnaðarstarfinu að þau geti öll valið og fengið hlutverk sem þau njóta og þroskast í.

Prestar í Tallinn í Eistlandi sögðu frá því, að þeir spyrðu alltaf fermingarbörnin um kirkjulegar langanir þeirra. Krakkarnir gætu valið um fjölmargt. Þau eru alin upp í þeim anda, að kirkjan þarfnaðist þeirra og þau þurfi að leggja af mörkum til hins kirkjulega starfs. Aukagetan er svo auðvitað, að þau þroskast sem einstaklingar í ramma kristninnar og anda kirkjunnar.

Við Karlskirkjuna í Tallinn eru 26 kórar af því svo margir krakkann vilja syngja. Prestarnir sögðu að það væri í ágætu lagi að reka 26 kóra í einum söfnuði því kórstarfið væri Guði til dýrðar! Það væri mikil tilbeiðsla, trúarleg fræðsla og góð guðfræði í kirkjusöngnum. Með þetta í huga er hægt að skilja hvers vegna Eistlendingar sungu sig til pólitísks frelsis. Þeir áttu sér öfluga tilbeiðslusönghefð sem spírar og teygir síðan andlega frjóanga út í samfélagið.

Þegar við skoðum hverjir verða leiðtogar í kirkjulegu starfi á Íslandi kemur í ljós, að það eru ekki síst þau sem hafa fengið verkefni á kirkjulegum vettvangi þegar á unglingsárum. Mestum þroska og hæfni hafa þau náð, sem hafa notið trausts og fengið að spreyta sig en jafnframt starfað í skjóli þroskaðs umsjónarfólks. Börn eiga ekki að uppala börn, og unglingar ekki heldur. Leiðsögn fyrir ungt fólk er að linast í samfélaginu og kirkjan á ekki að apa eftir. Ungt fólk á að fá að reyna á sig en þroskinn verður mestur ef leiðsögnin er góð, ramminn er skýr og gagnrýnin er ákveðin.

Hvað viltu gera eftir fermingu? Við þurfum að spyrja svo í okkar íslenska kirkjusamhengi. Safnaðarstarf þarf að skipuleggja í því ljósi. Hvar myndu fermingarbörnin eflast mest kirkjulega og starfa best eftir fermingu? Það er ekki ásættanlegt svar, að þau eigi að bíða með sín kirkjulegu afskipti þar til þau giftast og koma með börnin til skírnarlaugar og í barnastarf. Hvað viltu gera eftir fermingu? Það er spurning fyrir fermingarbörn en ekki síður fyrir okkur sem eldri eru. Hvað ætlum við að gera til að kostir þeirra verði raunhæfir.