Íþróttir og launabarátta!

Íþróttir og launabarátta!

Nú varð allt vitlaust, trúnaðarmaður starfsfólksins kom og kvartaði, - glætan að þetta standist, þú gjörir þá, þessa sem varla eru búnir að lifta litla fingri jafna okkur, sem erum búnir að þræla allan daginn.

Mt. 20.1-16.

Textar dagsins eru athyglisverðir, eins og reyndar ávallt,  en í dag passa þeir ótrúlega vel við umræðuna í þjóðfélaginu. 

Pistillinn talar um íþróttir, kappleiki,  þetta að sigra og fá verðlaun,  leika líkama sinn hart til að ná árangri...    Strákarnir okkar í handboltanum hafa verið í “kastljósin” í orðisins fyllstu merkinu.  Þeir hafa leikið líkama sinn hart,  sumir sárir, haltir og skakkir eftir átökin, eins og gengur....

Og guðspjallið er aftur á móti á töluvert alvarlegri nótum,  en þar er það vinnumarkaðurinn,  launataxtarnir,  þetta með hin réttlátu laun,  að passa upp á réttindin... Launasamningar landsmanna eru meira og minna lausir á þessu ári, og mikið er skrafað og unnið í þeim málum, eins og gengur.

En tökum eftir því, að bæði postulinn og Jesús nota þessi atriði,  íþróttirnar og launabaráttuna til að útskýra hinn kristna boðskap og þá kemur ýmislegt skemmtilegt í ljós.

Páll sá fyrir sér kappleik, já,  hann nefnir sérstaklega hnefaleika,  íþrótt sem ég hef aldrei kunnað að meta, en alla vega gat postulinn lært af hnefaleikunum,  -   þetta með að slá ekki vindhökk.  M.ö.o  við erum hvött til þess að slá ekki vindhökk í lífinu, við erum hvött til að hlaupa ekki stefnulaust,  heldur hafa markið ljóst fyrir sér. Sá sem t.d.  hleypur í spretthlaupi, veit nákvæmlega hvar markið er og hvert hann stefnir. Við eigum að læra af íþróttunum,  læra að setja okkur markmið,  hafa klára stefnuna í lífinu.

Kæru fermingarbörn,  þið hafið gert ákveðna áæltun, þegar þið með foreldrum ykkar  ákváðuð að láta fermast, - þetta er ákvörðun,  það að fermast er skýr ákvörðun,  þú ert spurður eða spurð fyrir framan hið háa altari kirkjunnar,  viltu hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins?,   og sá sem fermist,  er kominn að altarinu til að segja já,  -  hann er að taka stefnumótandi afstöðu,  hann eða hún er að lýsa því yfir að Jesús skifti öllu máli.

Dæmisaga Jesú í dag er ekkert léttmeti,  hún fjallar um mig og þig,  hún fjallar um lífið,  hvernig við verjum lífinu,  hvað við tökum okkur fyrir hendur.

Við setjum okkar reglur,  við höfum reglur í íþróttum,  á heimilum, vinnustöðum o.s.frv.  Alþingismennirnir okkar sitja heilu og hálfu dagana til þess að smíða reglur og lög til þess að við getum lifað réttlátu og góðu lífi í þessu landi.  Mjög mikilvægt.

En tökum eftir dæmisögunni.  Jesús segir sögu um húsbónda,  sem átti eflaust stóran víngarð,  heilu ekrurnar af vínberjarunnum, sem þurfti að tína, hreinsa og meðhöndla á margsluginn hátt.  Eigandinn þurfti marga í vinnu,  og hann gekk út á torgið til að ráða fólk,  og hann fékk góðan hóp, samdi um launin,  -  tökum eftir því,  hann samdi um launin áður en fólkið tók til starfa,  réttlát laun,  1 denar skyldi það verða,  en þeir sem kunna að reikna til baka segja að 1 denar á þessum tíma hafi verið mjög réttlát og góð laun,  laun sem dugðu vel fyrir lífsnauðsynjum. En svo þurfti húsbóndinn fleiri,  og hann réði fleira fólk,  já reyndar fór hann oft út á torgið alveg fram á 11 stundu, eins og sagt er. Þegar dagur var að kveldi skyldi borga út og þá fengu allir sömu laun,  þeir sem komu fyrstir og þeir sem komu síðastir.

Nú varð allt vitlaust,  trúnaðarmaður starfsfólksins kom og kvartaði,  -  glætan að þetta standist,  þú gjörir þá, þessa sem varla eru búnir að lifta litla fingri jafna okkur, sem erum búnir að þræla allan daginn.  Sjáið þið fyrir ykkur hvað hefði gerst hér á landi,  Kastljósið, Ísland í dag, DV, Fréttablaði,  já hvað sem þetta heitir allt saman,  allt hefði logað...

Og svo fylgir þetta dásamlega samtal,   -   Húsbóndinn réttlætir gjörðir sínar á mjög sannfærandi hátt og stendur á þessum samningum,   allir fengu jafnt,  allir fengu “denar”.  Og hann spyr sérðu ofsjónum fyri því að ég er góðgjarn...

Okkar launasamningar væru ekki svona,  nei,  við gerum okkar samninga og reglur og það er passað upp á lífeyri, sjúkragjald, tryggingagjald,  álag, bónus og hvað sem þetta heitir allt saman.    En samkvæmt þessari dæmisögu Jesú og reyndar fleiri vísbendingum í ræðum hans og dæmum,  þá eru reglur guðsríkisins ekki þær sömu,  þar gildir annarskonar réttlæti,  réttlæti náðarinnar,  réttlæti kærleikans.

Einn denar voru sanngjörn daglaun,  laun sem dugðu fyrir því sem nauðsynlegt var. Spurningin er,  -   hvað þýðir þessi “denar”  í mínu og þínu lífi.  Hvað dugar í dag,  hvernig förum við með það sem við berum úr bítum?,  - hvernig förum við með þá sem koma síðastir,  þá sem hafa glutrað öllu niður,  eiga ekki neitt,  hafa ekki tekið til hendinni,  -   þá sem nú hafa tapað öllum hlutabréfununm sínum,  eiga ekkert nema skuldir...

Hvernig mundi Jesús deila út í dag? Kæri söfnuður,  ég trúi því að hann mundi deila eins út og í dæmisögunni,  “denar” á máli guðsríkisins,  “denar” í réttlætishugsun frelsarans er það sem nægir til samfélags við Guð og menn.  Frami fyrir Guði eru allir jafnir  og til að undirstrika það segir Jesus,” þannig verða hinir síðsutu fyrstir og hinir fyrstu síðastir”.

Það er ekki okkar að dæma,  Guði sé lof,  það er Guð sem dæmir,  það er Guð sem útdeilir sigurlaununum,  sem er ekki gullpeningur úr forgengilegu efni,  nei óforgengileg sigurlaun,  sem duga að eilífu.

Svo við notum okkur táknmálið áfram,  þá getum við sagt að í hinni helgu skírn,  sem Jesús stofnaði og gaf okkur,  þar sé þessi “denar” fólginn,  gjöf guðsríkisins,  sem er jafn dýrmæt í hjarta hvers einasta sem hana þiggur. Í “denarnum” eru allir fjársjóiðir himnanna fólgnir.

Spurningin er því, hvernig förum við með gjöfina dýru,  hvernig leyfum við henni að nýtast í lífi okkar,   lokum við hana inni, svo enginn sjái hana, eða setjum við hana fram,  lyftum við henni upp, könnumst við við hana játum við hana í daglegu lífi.

Jesús notaði margar líkingar um sjálfan sig og gjafir Guðs.  Hann sagði:  Ég er hið lifandi brauð sem kom niður af himni til að gefa heiminum líf.   Þetta er í rauninni ein útskýringin á dæmisögu dagsins.

Kæri söfnuður,  hlaupum ekki stefnulaust gegnum þetta líf,   sláum ekki vindhögg,  missum ekki marks,  -   “Fel Drottni vegu þína, treyst honum, hann mun vel fyrir sjá.”

Dýrð sé Guði föður syni og heil. anda, svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.   (Messa sem fermingarbörn undirbjuggu og þjónuðu í með lestri ritningarlestra og bæna.)