Tími framkvæmdanna

Tími framkvæmdanna

Aðventan er tími framkvæmdanna. Tíminn til að hugleiða lífið og trúna. Tíminn til að láta gott af okkur leiða til að bæta líf þeirra sem þurfa stuðning og hjálp.

Jesús kom til Nasaret, þar sem hann var alinn upp, og fór að vanda sínum á hvíldardegi í samkunduna og stóð upp til að lesa. Var honum fengin bók Jesaja spámanns. Hann lauk upp bókinni og fann staðinn þar sem ritað er: Andi Drottins er yfir mér af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins. Síðan lukti Jesús aftur bókinni, fékk hana þjóninum og settist niður en augu allra í samkundunni hvíldu á honum. Hann tók þá að tala til þeirra: „Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar.“ Lúk 4.16-21

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Krist. Amen.

Nýtt ár er hafið í kirkjunni. Við þökkum fyrir það sem liðið er og biðjum Guð að blessa það sem í hönd fer. Á traustum grunni hefða og trúar höldum við á vit þess óþekkta fullviss um að frelsarinn gengur með okkur á lífsins vegi.

Fyrsti sunnudagur í aðventu er upphafsdagur nýs kirkjuárs. Víða er hann mikill hátíðisdagur sem markar upphaf jólaundirbúningsins. Við höldum gjarnan í gamlar hefðir á aðventunni og um jólin. Byggjum á því sem var en lifum í því sem er. Það átti við þegar Jesús kom inn í samkunduhúsið í Nasaret, en guðspjall dagsins greinir frá því. Hann las þar úr fimm til sjö hundruð ára gömlum texta úr spádómsbók Jesaja. „Andi Drottins er yfir mér af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins.“ Þennan boðskap hafði spámaðurinn Jesaja flutt og hann hafði Jesús oft heyrt og allir viðstaddir einnig.

Þessi texti er fullur af von. Hann á erindi til samtímans eins og hann gerði fyrir þúsundum ára. Hann kynnir breytingu til batnaðar. Kynnir það að nú hefur ritningin ræst eins og einnig kom fram í textanum. Með Jesú hefur þessi vonarboðskapur fundið farveg til okkar sem heyrum hann hér í dag. Farvegurinn er Jesús sjálfur, líf hans, starf og boðskapur. Hann minnir okkur á að við eigum að stuðla að betra lífi okkur og öðrum til handa. Það er Jesús „sem flytur fátækum fögnuð, frið á jörð, og kirkjuár kærleikans í krafti Guðs“ segir sr. Jakob Jónsson í hugvekju í bók sem kom út fyrir mörgum árum. (Kristnar hugvekjur 1).

Við heyrum boðskap vonarinnar hér í dag. Vonin er sterkt afl. Vonin er misofarlega í huga okkar á lífsins leið. Stundum er hún sterk, stundum ekki, en alltaf samt fyrir hendi.

* * *

Í dag er kveikt á fyrsta kertinu á aðventukransinum. Einn lítill logi lýsir ekki langt, en fyrsta ljósið á aðventukransinum minnir okkur á spádómana um komu frelsarans í heiminn. Spádómana sem lifðu með fólkinu, spádómana um betra líf þegar Jesús væri í heiminn borinn, Immanúel, Guð með okkur. Lítið ljós minnir á vonina sem því fylgir að eiga gott í vændum, betra líf, betri daga. Orðin, sem sögð voru fyrir mörg hundruð árum hafa ræst í dag, segir Jesús í guðspjalli dagsins. Þau eru ekki ætluð fáum útvöldum heldur öllum. Kærleikurinn hittir ekki fyrir fáa útvalda, heldur alla.

Fyrir nokkrum dögum hitti ég fólk sem hefur fengið köllun til að hjálpa heimilislausum og illa stöddum einstaklingum í þjóðfélagi okkar. Þau hafa ekki mikið milli handanna til að gefa en þau hafa nóg af kærleika til að miðla og trú til að boða í verki. Þau vita að hlýleg framkoma er dýrmæti í augum þeirra sem engrar hlýju njóta í daglegu lífi. Þannig kveikir kærleikurinn von og viðheldur von. Líf Jesú var ekki alltaf dans á rósum, en hvert lítið atvik í lífi hans bendir á annað og stærra og hver frásaga hans og gjörð gerir það einnig. Fyrsta ljósið á aðventukransinum er ljós vonarinnar, friðarins, lífsins. Eitt lítið ljós, fyrsta ljósið á aðventukransinum lýsir þrá okkar og leit að sönnu lífi, friði í hjarta. Boðskapur fyrsta sunnudags í aðventu hjálpar okkur að vera meðvituð um nærveru Guðs í lífi okkar, Guðs sem er ljós lífs okkar. Jesús sagðist vera ljós heimsins og hann sagði einnig að við ættum að vera ljós heimsins. Við eigum með lífi okkar að framganga þannig að við lýsum tilveruna, en gerum hana ekki dimma. Lífsvegur okkar er lýstur af ljósi heimsins, sem gefur okkur kraft og kjark og allt sem við þurfum til að feta gæfunnar veg.

* * *

Aðventan er tími framkvæmdanna. Tíminn til að hugleiða lífið og trúna. Tíminn til að láta gott af okkur leiða til að bæta líf þeirra sem þurfa stuðning og hjálp.

Hjálparstarf Kirkjunnar hefur um árabil staðið fyrir jólasöfnun á aðventunni. Landsmenn hafa tekið henni vel og í gær barst okkur kynningarblað um söfnunina með fréttablaði Hjálparstarfsins Margt smátt, sem var fylgiblað með Fréttablaðinu. Hjálparstarfið aðstoðar fólk bæði hér á landi og utanlands og að þessu sinni verður safnað fyrir vatnsverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar í Afríku, í Malaví, Eþíópíu og Úganda. Yfirskrift söfnunarinnar er: Hreint vatn gerir kraftaverk. Okkur er boðið að taka þátt í kraftaverki því með hreinu vatni kemur betri heilsa, menntun og björt framtíð. Enda er hreint vatn undirstaða alls lífs. Vatnsverkefni Hjálparstarfsins gengur út á það að byggja brunna sem hægt er að dæla upp úr hreinu vatni.

Það er auðvelt að skrúfa frá krananum og láta hreint vatnið renna í glas og drekka það. En þannig er það ekki í öllum löndum. Talið er að um 800 milljónir manna hafi ekki aðgang að hreinu vatni. Með því að taka þátt í söfnun Hjálparstarfsins getum við því bætt líf margra. Enginn getur hjálpað öllum, en allir geta hjálpað einhverjum er stundum sagt.

Vatnið er undirstaða lífsins. Það er hægt að drekka það en einnig að veita því á grænmetisakra og framleiða kjöt, mjólk og egg. „Hænur spígsporandi, geitur á vappi, grænmetisakur í blóma, börn á hlaupum og nægur matur, mjólk og vatn. Þetta er sú breyting sem við sjáum gerast þegar brunnur er kominn Þá er grundvöllur fyrir fólkið að sjá um sig sjálft, sem er það sem það vill allra helst, sinna akri, geitum og hænsnum sem svo fjölga sér og gefa enn meira af sér. Þá er hægt að selja umframafurðir og nota t.d. til að tryggja börnum menntun. Jákvæð keðjuverkun sem vonandi aldrei tekur enda. Hreint vatn gerir kraftaverk“ Þetta segir í jólablaði Hjálparstarfs kirkjunnar, sem barst með Fréttablaðinu í gær. Það eru mannréttindi að hafa aðgang að hreinu vatni.

* * *

Það er okkur eðlilegt að vilja sjálf vera stjórnendur lífs okkar. Oftar en ekki finnum við þó að það er ekki í okkar hendi að öllu leyti. Þegar við kveikjum á fyrsta ljósinu á aðventukransinum erum við minnt á spádómana um komu freslarans í heiminn. Immanúels, sem hann er nefndur í einum spádómanna um fæðingu hans. Í einum aðventusálminum, sem við syngjum hér í lok messunnar segir:

Kom þú, kom, vor Immanúel, Kom þú með dag á dimma jörð, þín væntir öll þín veika hjörð. Lækna þrautir og þerra tár, græð þú, Kristur, öll dauðans djúpu sár. Ó, fagnið nú!

Lát þú opnast þíns himins hlið, kom, Guðs sonur, með frelsi þitt og frið.

Okkur stendur alltaf til boða að fylgja Kristi. Á aðventunni er okkar andlega meðganga þegar við bíðum komu hans, fæðingar frelsarans á jólum. Á okkar andlegu meðgöngu skoðum við líf okkar og finnum þörf okkar á tengingu við skapara okkar og annað fólk. „Andi Drottins er yfir mér“ las Jesús úr spádómsbók Jesaja. Jesús talaði ekki í eigin mætti. Við getum heldur ekki lifað í eigin mætti. Við þurfum á æðri mætti að halda. Sá máttur er ekki óskilgreindur veruleiki heldur Jesús sjálfur, sem gekk fram í kærleika, benti á hið smáa til að við sæjum hið háa. Benti á þorsta okkar eftir lífsins vatni og sagði: „....en hvern sem drekkur af vatninu er ég gef honum mun aldrei þyrsta að eilífu.“

Það eyðist allt sem af er tekið er sagt, en kærleikur hans eyðist ekki þó af honum sé tekið og vatnið sem hann gefur þrýtur aldrei. Hann gefur okkur kraftinn til daglegra verka og til að feta í sporin hans. Vinna gegn böli og hörmum og að því að eignast betra og innihaldsríkara líf. Jesús las: „Andi Drottins er yfir mér af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins.“

Andinn sendir okkur til að vinna að betri heimi og betra lífi. Sendir okkur til að tryggja öllum mönnum sjálfsögð réttindi, svo sem eins og að hafa hreint vatn og öruggt skjól. Í þeirri trú, í þeirri von og með kærleika Krists í farangri göngum til inn í aðventuna, jólaföstuna, tilbúin til að taka á móti barninu Jesú á jólum.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.