Bartímeus, Askja og pælingar

Bartímeus, Askja og pælingar

“Ástæða skeytingarleysis gagnvart náttúrunni og skorts fólks á heildarsýn hennar á sér líklega dýpstar rætur í að trúin á Guð, skaparann, er óljós og í uppnámi. Mér hefur sýnst að þau séu öflugir náttúruverndarmenn, sem trúa á Guð sem elskar fjölbreytni, elskar litadýrð, elskar mismunandi form og ferli, elskar þróun og breytingar...” segir m.a. í prédikun Sigurðar Árna Þórðarsonar í Neskirkju 20 febrúar 2005.

Öskjureynsla

Það er konudagur í dag og við fjöllum lítillega um kvenkenndan veruleika í lífi okkar allra, móður náttúru. En guðspjallstexti dagsins er um Bartímeus blinda, en við byrjum þó við eldfjallið Öskju, eða kannski öllu heldur í Lesbók Morgunblaðsins. Fyrir viku birtist þar viðtal við Pál Skúlason, heimspeking og rektor HÍ, undir fyrirsögninni “Þurfum að kenna börnum okkar að skynja og hugsa.”

Þetta er góð grein og að venju kafar Páll í djúp menningar og lífs. Tilefni viðtalsins er bók hans, sem er gefin út á fjórum tungumálum og fjallar um tengsl manna við náttúru og merkingu hennar. Höfundur varð fyrir reynslu við eða jafnvel í Öskju og hugleiðingar hans spruttu þar af. Páll segir: “Askja kemur manni fyrir sjónir sem sjálfstæð veröld og opnar þar með nýjar leiðir í skynjun okkar á veruleikanum. ... Þegar maður kynnist slíkri veröld er maður kominn á leiðarenda. Kominn í snertingu við veruleikann sjálfan. Hugurinn opnast fyrir fullkominni fegurð og maður sér loksins um hvað lífið snýst.”[i]

Í greininni lýsir Páll síðan hvernig brestir hafa orðið í sambandi manna við náttúruna og veruleikann. Með tækni og menningarskilgreiningum okkar höfum við smækkað náttúruna með því að halda, að við höfum náð tökum á henni, skilið hana og kortlagt og höfum þróað tækni til að bregðast við ógnum hennar og hamförum.

Páll veltir fyrir sér hvort höfuðvandi nútímamanna sé, að trúnaðarsamband manna við náttúruna sé brostið vegna þess að menn hafi brugðist henni með því að hætta að skynja eða nema hana, sem sjálfstæða og merkingarbæra heild? Ferðalögin okkar út í hina óspilltu náttúru beri vott um þrá fólks eftir skynjun náttúrunnar án milliliða.

Hvaða augum lítur þú náttúruna?

Lýsing Páls á sterkri náttúrureynslu er hrífandi og þyrlar vísast upp minningum í hugum margra okkar. Hefur þú staðið við Dettifoss, skynjað samtímis úðann, titring bjargsins og heyrt hinn frumhráa og hása fallóm? Hefur þú lagst í mosadyngju í Skaftáreldahrauni og horft upp í endalausan himininn? Hefur þú séð Herðubreið í lygnri sumarnótt og hlustað á orðlausa sögu elda, gróðurs og leyft angistarbaráttu útlaga að ná til þín? Hefur þú einhvern tíma hnigið á hnén frammi fyrir eldrauðu háfjallablómi í gróðurlausum fjallageymi í þúsund metra hæð? Hefur þú lifað sumarstillu aftureldingar eða vaðandi síldartorfu á spegilsléttum sjó eða öskrandi eldgos í návígi?

Þá er kvikan snortin, hinn innri maður bregst við. Þá erum við núllstillt. Þá verðum við móttækileg fyrir reynslu, upplifun sem breytir. Við breytumst jafnvel algerlega.

Frásögn Páls er hrífandi og greining hans einnig. Ég get samsinnt, að við höfum um margt tapað trúnaðartrausti gagnvart náttúrunni og eiginlega tapað virðingunni. En ég held að ein aðalástæðan sé að baki þess missis.

Eleison og sjónin

Þá snúum við okkur að Bartíemeusi blinda, sem sat við veginn til Jeríkó. Á Jesútíma var fjörlegt helgihald í borginni og mikill fjöldi presta var að störfum. Þetta var trúarlegur höfuðstaður og því eðlilegt að Jesús kæmi þar við á Jersúsalemgöngu sinni.

Ég hef einu sinni komið til Jeríkó, sem kúrir niðri í dalnum við Jórdaná. Dagur var að kvöldi kominn og yfir fjöllunum í vestri, yfir Jerúsalem, skáru dökka skýjabakka hinir stórkostlegustu sólstafir, sem ég nokkurn tíma séð.

Bartímeus sat þarna, en aldrei hefur hann orðið vitni að sjónarspili sólstafa, bara heyrt af þeim. Aldrei hefur hann heldur séð hina djúpu liti þríburablómsins, Bougainvillea, sem teygir sig um alla veggi borgarinnar, né heldur græna og brúna liti pálmanna, sem hneigðu sig með þokka í golunni og grámann sem rammaði inn ljósstafi himins. Hann hafði bara upplifað ljósaganginn innan í sér, þekkti þrá sína um lausn úr myrkri prísundinni. En svo var þessi lækningamaður í borginni, líklega vegna trúarhátíðarinnar í Jeríkó.

Nafn hins blinda beiningamanns í biblíusögunni er dularfullt. Við vitum reyndar að fyrri hlutinn þýðir einfaldlega son og nafnið merkir því sonur Tímeusar, sem er svo endurtekið.[ii] Við vitum því ekki hvaða nafn hinn blindi bar, kannski var hann eins og mörg, sem eru neðst í metastiga samfélgsins, aðeins kenndur til samhengis síns, en nafnlaus og virðingarlaus sjálfur. Hann vissi, að enginn myndi beina meistaranum til hans, sem átti ekki einu sinni nafn. Hann var ráðinn í að láta ekki þennan undramann fara hjá án þess að alla vega reyna að vekja athygli hans. Bartímeus linnti því ekki látum og lét sig engu varða þótt fólk reyndi að þagga niður í honum. Vegna ákveðni og þrjósku til lífs og heilsu náði hann athygli Jesú, sem heyrir köll þeirra sem biðja. Þegar Jesús spurði hvað hann vildi stóð ekki á svarinu: “...að ég fái aftur sjón.” Svo féll dómurinn, “...far þú, trú þín hefur bjargað þér.” Sjónin kom og svo bæði möguleiki og vilji líka til að fylgja eftir þeim sem á vald á sýn til heims, náttúru og fólks.

Bartímeus æpti: “...miskunna þú mér.” Þetta er ein frægasta bæn kristninnar, því þessa bæn, sem kennd er við miskunn biðjum við í öllum guðsþjónustum hér á landi og í flestum messum stóru kirkjudeilda heimsins. Allir kórar, sem syngja einhver kirkjuleg stórverk læra að syngja Kyrie eleison, Drottinn, miskunna þú mér. Bartímeus æpti þessa frumbón, einnig áhyggjufullur faðir, samversk kona, allir sem þörfnuðust hjálpar.

Náttúrublinda, skert heildarsýn

Þá aftur að Öskju og upplifun af móður náttúru. Erindi Páls Skúlasonar er ekki það, að hvetja okkur að upplifa náttúruna. Honum er fremur í mun að við vinnum með skynjun okkar, kennum ungviðinu listina líka og hugsum um hvað náttúran merkir. Hann vill, að við sjáum að náttúran er ekki tæki, sem við höfum algert vald á eða stjórnum. Náttúran er ekki aðeins náma eða auðlind, sem bíður þess að maðurinn noti sér til hagsbóta. Náttúran hefur sjálfstæði og við eigum að umgangast hana sem sjálfstæð gæði. Náttúran er annað og meira en skipulagður og vinalegur garður.

Af hverju hafa tengsl við náttúruna rofnað og af hverju erum við hætt að skilja heild hennar og meðhöndla hana eins og stórkostlegt dýrmæti, undurfagran veruleika sem jafnframt getur verið hræðilegur í æði náttúruhamfara? Auðvitað vitum við að borgarmenning rýfur tengslin. Þægileg og örugg smáveröld okkar fækkar beinum átökum við náttúruöflin. Við bara höldum okkur heima þegar veðrið er vont! Síðan er neysluáherslan nánast orðin eins og guðlega fyrirskipað gullið viðmið, sem ákvarðar samfélag og líf einstaklinganna, frumforsenda ágangs á auðlindir náttúru.

Páll bendir á ýmsar ástæður þeirrar einhæfu og einfeldningslegu náttúrusýnar, sem við höfum komið okkur upp. Þróun vísinda og heimsfræði hafa stuðlað að henni. En ég held að grunnástæða sé, að náttúran hefur tapað mikilvægustu réttlætingu og vörn sinni sem hún hefur notið um aldir í vestrænu samfélagi. Hvað skyldi það nú vera? Hvað skyldi hafa gefið náttúrunni gildi og heild? Það er Guð, skaparinn.

Guðsmynd, trú og siðferðisgrunnur

Guðstrú einstaklings gefur siðferðisgildi og leikreglur fyrir lífið. En þegar trúin verður einhæf eða fellur ruglast reitir og gildin fara á flot. Mín skoðun er sú, að þegar Guðsmynd fjöldans er óljós verði gildagrunnur samfélagsins líka óljós. Ég held ekki, að trúin sé horfin hjá fólki, en hún er óþroskuð hjá mörgum. Auðvitað er barnatrúin falleg, en fyrst og fremst meðal barna. Staut og bis við að standa á fætur er fallegt, en fyrst og fremst meðal barna. Við viljum helst að fólk nái færni í að lesa, og færni við að hreyfa sig. Barnalæti meðal fullorðinna eru dapurleg. Eins er með trúna, hún þarf að þroskast með fólki þegar það vex og mannast.

Ástæða skeytingarleysis gagnvart náttúrunni og skorts fólks á heildarsýn hennar á sér líklega dýpstar rætur í að trúin á Guð, skaparann, er óljós og í uppnámi. Mér hefur sýnst að þau séu öflugir náttúruverndarmenn, sem trúa á Guð sem elskar fjölbreytni, elskar litadýrð, elskar mismunandi form og ferli, elskar þróun og breytingar, elskar samspil festu og nýjungar, elskar að skapa.

Guðsmyndin skiptir máli. Guð sem aðeins hefur áhuga á búa til náttúrulögmál og fer svo í frí, eins og deistarnir trúðu í gamla daga, er ekki sérlega öflug vörn fyrir náttúru og ávirka skynjun. Þegar ekkert hefur gildi í náttúrunni nema það sem við getum virkjað eða grætt á dýrkum við gullkálfinn. Hernaði okkar nútímafólks gegn móður jörð linnir ekki fyrr en við gerum okkur grein fyrir, að við erum í stríði við Guð þegar við vanvirðum sköpun Guðs.

Miskunna mér

“Miskunna mér.” Bartímeus æpti og var heyrður. Móðir náttúra æpir bæði á okkur og Guð. En hinn blindi erum við nútímafólk sem þurfum bæði að sjá hver við erum, hvað náttúran er og hver Guð er. Helen Keller (1880-1968) sem var bæði blind og heyrnarlaus skrifaði einu sinni grein um fötlun sína. Undir yfirskriftinni Þrír sjónardagar lýsir hún hvað hún myndi gera ef henni væru gefnir þrír dagar með fullri sjón. Á fyrsta degi segist hún vilja sjá vini sína. Á öðrum degi myndi hún horfa á náttúruna. Og þriðja daginn sagðist hún vilja horfa á iðandi mannlíf New York. Svo segir hún: “Ég er blind en ég get ráðlagt öllum sem sjá: Notaðu augun og sjáðu eins og sjónin verði af þér tekinn á morgun og þú verðir slegin(n) blindu.”

Bartímeus fékk sjón og gat séð þann sem máli skipti. Horfum stíft á náttúruna sem æpir. Horfum stíft á vinina okkar og elskur því þau tjá gildi lífsins sem Guð gefur. Horfum jú líka á borgina sem er svo skemmtileg og yndisleg, líka á þessari vetrarhátíð. Horfum á Litla kórinn, hvert annað og gleðjumst. En horfum á þennan sem stikar til okkar, spyr okkur hvað við viljum. Höfum þá bæði þá einbeitni og vit Bartímesuar til að biðja um sjónina svo við getum séð hann sem gefur sjón. Þá gætum við farið að sjá eins og vert er og gott. Miskunna þú mér. Þá opnast hugurinn fyrir fullkominni fegurð og maður sér loksins um hvað lífið snýst.

[i] Viðtal við Pál Skúlason í Lesbók Morgunblaðsins 12.2. 2005 s. 4-5.

[ii] Við getum jafvel ímyndað okkur að Markús vísi hér líka til rits Platons, Timeus, sem fjallar um skipan veraldar. Skarpskyggni er vissulega þörf í þeirri náttúruskoðun. Prestarnir Kristín Þórunn Tómasdóttir og Kristinn Jens Sigurþórsson (eftir Gordon Lathrop) hafa bent á þetta. Þökk sé þeim.