Loftslag og hrakningafólk

Loftslag og hrakningafólk

Trúin hefur þann möguleika að beina kærleikanum, þessu sammannlega fyrirbæri, út fyrir okkur sjálf, til þeirra sem þarfnast meðlíðunar okkar og hjálpar, og til náttúrunnar sjálfrar, sem er líka náungi okkar sem við eigum að elska eins og okkur sjálf.
fullname - andlitsmynd Kristín Þórunn Tómasdóttir
21. september 2014
Flokkar

Alla jafna leiðum við hugann ekkert sérstaklega að andrúmsloftinu okkar og því sem við öndum að okkur. Austfirðingar, og við hér á höfuðborgarsvæðinu allra síðustu daga, hafa samt að undanförnu orðið varir við að loftið er ekki eins hreint og tært og við eigum að venjast. Gosgufur úr Holuhraunseldum setja mark sitt á andrúmsloft og sjást eins og mistur sem leggst yfir fjöll og voga. Þá förum við að taka eftir.

Það er heilmikið í gangi í andrúmsloftinu án þess að við tökum eftir því. Breytingarnar á loftslaginu okkar sem svo mikið er rætt um þessa dagana felast í því að ólík efni samlagast og taka sér bólfestu í lofthjúpnum sem umlykur jörðina okkar. Og þessi breytta samsetning leiðir meðal annars til hærra hitastigs. Það leiðir aftur á móti til þess að jöklar bráðna, veðurkerfi ruglast og yfirborð sjávar hækkar. Og land fer á kaf.

* * *

Umhverfismál eru mál dagsins með fleirum en einum hætti. Við heyrðum hér áðan í ávarpi Árna Finnssonar um aðstæður sem skapast vegna loftslagsbreytinga og hlýnun jarðar, og viðleitni til að þrýsta á stjórnvöld og fyrirtæki til að snúa þróuninni við.

Kannski er það sem rennur sífellt skýrar upp fyrir okkur, að umhverfismál eins og loftslagsbreytingar, eyðing skóganna og súrnun hafsins snertir okkur öll, sama hvar við búum og sama hvaða menningu við tilheyrum. Athygli okkar hefur verið vakin á því að lífstíll okkar og hegðun hér á norðurhveli og vesturhelmingi jarðarkortsins, hefur bein áhrif á manneskjur sem búa langt í burtu, og stuðla að erfiðari lífsafkomu eyjaskeggja og frumbyggja í öðrum heimsálfum.

Hlýnun loftslagsins og hækkun sjávarborðsins hrekur fólk frá heimkynnum sínum og rænir það lífsafkomu sinni. Þetta leggst á sveif með ranglátu hagkerfi sem ógnar lífinu vegna þess að það er ekki sjálfbært og nýtir sér þau sem minna mega sín til að mylja undir neyslu - og ofneyslu lítils hluta mannkyns.

* * *

Fólk í hrakningum er allt í kring um okkur. Sumir fara á hrakning vegna stríðsátaka, sumir vegna fátæktar, sumir vegna þess að þeir eru útskúfaðir félagslega, sumir vegna vonar um að betra líf bíði annars staðar.

Líkþráu mennirnir tíu sem við heyrum um í guðspjalli dagsins eru dæmi um hrakingafólk sem fær ekki að búa í samfélagi mannanna af því að þeir bera sjúkdóm sem umhverfið hræðist og reynir að einangra. Við heyrðum hvernig Jesús mætti þeim og gaf þeim aftur aðgang að því að tilheyra og vera ekki á vergangi.

Kvikmyndin París norðursins sem sýnd er þessar vikurnar við góðan orðstýr, sýnir okkur líka fólk í hrakningum, í aðstæðum sem okkur eru ef til vill kunnugri heldur en aðstæður líkþráu mannanna á landamærum Samaríu og Galíleu. Hugi er á flótta undan líðan sinni eftir skilnað og hefur ílengst í litlu þorpi veturlangt, Veigar er á stöðugu flandri í kynlífs- og áfengisvímu, Erna er á tilfinningalegum vergangi í leit að ást og öryggi. Leiðir þeirra liggja saman og kannski skiljum við við þau á örlítið betri stað en þau voru í upphafi.

Átakið gegn loftslagsbreytingum og losun gróðurhúsalofttegunda sem við erum minnt á með alþjóðlegu átaki í dag, tengist hrakningafólkinu vegna þess að hlýnun jarðar og hækkun sjávarborðs bitnar á fólki, fólki sem býr við strendur og á eyjum, sem verða fyrir barðinu á breyttu veðurkerfi og hverfa jafnvel í hafið sem hækkar og hækkar af því að ísinn og jöklarnir á jörðinni bráðna meir og meir.

* * *

Í norskdagblaðinu Vårt land var í vikunni viðtal við Davi Kopenawa Yanomami, sem er frumbyggi í regnskógum Brasilíu. Hann er í heimsókn í Noregi til að vekja athygli á eyðingu regnskóganna og baráttunni gegn henni. Fyrir honum er það óskiljanlegt að manneskjan geti gengið fram og notað náttúruna í hagnaðarskyni án tillits til afleiðinganna sem hagnaðurinn hefur.

“Við berum djúpa virðingu fyrir skapara okkar, þar með talið náttúrunni í kringum okkur, og við höfum það hlutverk að vernda ekki bara skóginn, heldur vatnið, dýrin og gróðurinn” segir Yanomami. Hann gagnrýnir líka hvernig kristið fólk hefur tekið þátt í ofnýtingunni og skorar á kirkjurnar að tala fyrir verndun regnskóganna, því það séu sammannlegir hagsmunir að þeir lifi. Hann segir að kirkjan eigi að standa fyrir verndun náttúrunnar, því að hún sé ekki eitt af því sem manneskjan hafi rétt á að ráðstafa eftir eigin höfði.

“Íbúar Amazon líta á sig sem verndara þeirrar heildar sem sköpunarverkið er” segir Yanomami. “Hvort sem það er ykkar kristni Guð eða okkar Omai sem stendur á bak við það, þá höfum við það bara að láni og eigum að leggja okkar af mörkum til að vernda náttúruna.”

Yanomami lifir sjálfur eftir þessari sannfæringu og raunin er sú að frumbyggjar á Amazonsvæðinu sinna mjög mikilvægri landvörslu, gegn hópum sem fara hreinlega ránshendi um svæðið. Svæðið sem Yanomami og fólkið hans býr er á stærð við Portúgal og í það er m.a. ásókn af gullleitarmönnum sem valda miklum skaða á lífríkinu.

* * *

Við stöndum frammi fyrir sammannlegum vanda og til að finna lausn á loftslagsmálinu þurfa vísindamenn, hagfræðingar og stjórnmálamenn að taka höndum saman. Og til að fá fram nauðsynlegar breytingar til að snúa málunum við, þarf hvert og eitt okkar að vilja breyta okkur sjálfum, og vilja vinna í sameiningu að því að finna lausnir.

Við töluðum svolítið um umbreytinguna síðasta sunnudag sem verður þegar manneskjur mæta Jesú. Aftur getum við litið til guðspjallsins, þar sem hin líkþráu fengu að umbreytast og þiggja lykilinn að því að verða heil, eftir að hafa þegið náð Guðs í gegnum Jesú. Mig langar að varpa því upp til umhugsunar hvort það sé einmitt þessi umbreyting sem við þurfum að ganga í gegnum, til að rétta hlut náttúrunnar og snúa við breytingum á loftslaginu sem leiða til hörmunga og hrakninga.

Hver er þá sterkasti hvatinn til umbreytingar, hvað er nógu kröftugt til að fá okkur til að snúa við á þeirri braut sem við erum? Ég held að það sé ekki fyrst og fremst vond samviska eða sannfærandi rök um að við séum að gera rangt. Ég held að það sé kærleikurinn, ástin, sem sé sterkasti hvatinn sem er til. Það sem við elskum, er okkur ekki sama um.

Og trúin hefur þann möguleika að beina kærleikanum, þessu sammannlega fyrirbæri, út fyrir okkur sjálf, til þeirra sem þarfnast meðlíðunar okkar og hjálpar, og til náttúrunnar sjálfrar, sem er líka náungi okkar sem við eigum að elska eins og sjálf okkur.

* * *

Hvatningin er til staðar í lexíu dagsins, 146. Davíðssálmi, sem talar eins og beint inn í aðstæður dagsins, þar sem ráðamenn hafa misst sjónar á því sem skiptir máli og látið skammýni og sjálfhygli stjórna gerðum sínum:

Treystið eigi tignarmönnum, mönnum sem enga hjálp geta veitt. Þegar öndin skilur við þá verða þeir aftur að moldu og áform þeirra verða að engu.

Þegar við getum ekki lengur neitað því að hagkerfið sem við höfum skapað og er rekið áfram með harðri hendi og miklum tilkostnaði, ógnar lífríkinu sjálfu og lífsafkomu fólks um allan heim, er hughreystandi að virða fyrir sér lífssýn sálmaskáldsins sem fyrir þrjúþúsund árum hefur augu sín til þess sem heldur himni og jörð í hendi sinni, hafinu og öllu sem í því er.

Hvatningin sem mætir okkur í Davíðssálminum er ekki síst í því fólgin hvað það er mikil aksjón í textanum. Spáum í öll sagnorðin sem koma fyrir og hverju þau miðla. Drottinn Guð REKUR réttar kúgaðra, GEFUR hungruðum brauð, LEYSIR bandingja, REISIR UPP niðurbeygða, ELSKAR réttláta, VERNDAR útlendinga, ANNAST ekkjur og munaðarlausa.… Látum þennan ævaforna texta blása okkur hugrekki og dug í brjóst, þegar við stöndum frammi fyrir því risavaxna verkefni að stöðva hlýnun loftslagsins sem annars myndi hafa ógnvænlegar afleiðingar, ekki síst fyrir þau sem minnst mega sín. Leggjumst á eitt með að skapa heim þar sem enginn þarf að vera á hrakningi af manna völdum, leggjum traust okkar ekki á tignarmenn heimsins heldur á Guð sem elskar, verndar, annast, leysir og reisir upp!

Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.