Náðin Guðs nægir þér!

Náðin Guðs nægir þér!

Náð + eilíft líf = blessun. Þetta er að mínu mati formúla þess himnaríkis sem Jesús talar um, eða himnaríkis sem við finnum hér og nú. Þar er eilífa lífið ekki endalaus tími, heldur tímalaus návist Guðs. Ástand eða verund þar sem varðveisla Guðs umlykur okkur, ásjóna Guðs lýsir okkur, náðin Guðs nægir okkur og friður Guðs fyllir okkur.
fullname - andlitsmynd Lena Rós Matthíasdóttir
08. október 2010

Í Gt. Kemur orðið náð margsinnis fyrir og oft um það rætt að maðurinn þurfi að ,,finna" náðina fyrir augum Guðs. Sb. Exodus, 33.17 - ,,...þú hefur fundið náð fyrir augum mínum og ég þekki þig með nafni".  Sá sem hefur fundið náð fyrir augum Guðs hefur því með sérstökum hætti hlotið viðurkennningu Guðs, líkt og Móse sem Guð treysti fyrir hinu mikla leiðtogahlutverki.  Móse hafði fundið náð fyrir augum Guðs og hann hélt áfram að fylgja eða uppfylla boð eða fyrirmæli Guðs, þrátt fyrir eigin efasemdir.  Móse uppskar blessun Drottins. 

Hvað græði ég á náðinni? Róm. 6.23a - ,,...en náðargjöf Guðs er eilíft líf í Kristi Jesú, Drottni vorum."  Það er sumsé til mikils að vinna, því sá sem finnur náðina hlýtur náðargjöf Guðs, sem er eilíft líf í Jesú Kristi. Sá hinn sami má samt aldrei hætta að leita, enda hefur maðurinn einungis möguleika á að vera undir náðinni í andartakinu, eða ,,núinu".  Guð er hvergi annars staðar að finna en núna, eilífa lífið eða himnaríkið er einnig aðeins hægt að finna núna.  Í þessu samhengi eru orðin í 1. Þess. 5. 25 svo undurfalleg áminning, en þar stendur:  ,,Biðjið án afláts!” 

En hvernig ,,finnur" maður náðina? Í Jakobsbréfi 4:6b-8 segir: „Þess vegna segir Ritningin: Guð stendur í gegn dramblátum en auðmjúkum veitir hann náð. Gefið ykkur því Guði á vald, standið gegn djöflinum og þá mun hann flýja ykkur. Nálægið ykkur Guði og þá mun hann nálgast ykkur. Hreinsið hendur ykkar, þið syndarar, og gerið hjörtun flekklaus, þið tvílyndu”.  - Hljómar kunnuglega... leitið og þér munuð finna!

En ekkert af framansögðu ávinnst þó í eigin mætti.  Líkt og í tilfelli Móse, þá vísar Guð okkur veginn.  Mörg eru dæmin í Ritningunni um það með hvaða hætti Guð vísar okkur veginn.  Í Davíðssálmi 25:8-10, segir: „Góður og réttlátur er Drottinn, þess vegna vísar hann syndurum veginn. Hann leiðir hógværa á vegi réttlætisins og vísar auðmjúkum veg sinn. Allir vegir Drottins eru elska og trúfesti fyrir þá sem halda sáttmála hans og boð.”   Uppskeran er svo ótrúlega nærri, hún er nú þegar hér.  Við þurfum aðeins að safna henni saman og njóta hennar.  Flest höfum við upplifað að vera í náðinni, stundum bara eitt einasta augnablik, sumir í lengri tíma.  Upplifunin er e.k. uppljómun, það er þessi stórkostlega tilfinning að finna sig standa á öndinni gagnvart hinu guðlega/gjöfum Guðs/Guði. Sumir eru opnari fyrir náðinni en aðrir.  Sumir ná að tileinka sér líf í náð Guðs á meðan aðrir kynnast því aldrei eða taka einfaldlega ekki eftir náð Guðs (eru of uppteknir af yfirborðinu).  Þó held ég að flestir leiti með einum eða öðrum hætti og jafnvel án þess að gera sér grein fyrir því hvers þeir leita.   Náð + eilíft líf = blessun.  Þetta er að mínu mati formúla þess himnaríkis sem Jesús talar um, eða himnaríkis sem við finnum hér og nú.  Þar er eilífa lífið ekki endalaus tími, heldur tímalaust návist Guðs.  Ástand eða verund þar sem varðveisla Guðs umlykur okkur, ásjóna Guðs lýsir okkur, náðin Guðs nægir okkur og friður Guðs fyllir okkur.  Hversu erfitt reynist okkur ekki að opna augun fyrir því?  Tökum sinnaskiptum, himnaríki er í nánd.  Mt. 4.17.