Fábrotið og stórbrotið

Fábrotið og stórbrotið

Aðventan er óvenjulegur tími á árinu og þessi aðventa sem við erum nýstigin inn í er sjálf óvenjuleg fyrir margra hluta sakir. Umhverfi okkar ber þess merki að þjóðin stendur á krossgötum – já og heimsbyggðin öll ef því er að skipta. Umfjöllunarefn
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
06. desember 2009

Aðventan er óvenjulegur tími á árinu og þessi aðventa sem við erum nýstigin inn í er sjálf óvenjuleg fyrir margra hluta sakir. Umhverfi okkar ber þess merki að þjóðin stendur á krossgötum – já og heimsbyggðin öll ef því er að skipta. Umfjöllunarefni liðinna ára, deilur og agg virðast harla fánýt miðað við þau stóru úrlausnarefni sem við stöndum frammi fyrir nú. Skyndilega eru þessi grundvallaratriði sem við höfum gengið að sem vísum ekki lengur sjálfsögð. Hvers virði er annars sjálfstæði okkar? Hvernig munum við framfleyta okkur á komandi árum? Hvernig gátu undirstöðurnar riðað svo til falls, já og hrunið eins og raun ber vitni?

Púlsinn tekinn

Enn merkilegra er að leiða hugann að þeirri staðreynd – já það virðist vera staðreynd – að þrátt fyrir þá sýn, sem viðurkennd hefur verið hingað til, um að hagvöxtur og auðlegð geti sjálfkrafa af sér farsæld og velfarnað, þá bendir margt til þess að tengslin þarna á milli séu ekki svo náin. Þau eru jafnvel þveröfug ef því er að skipta.

Félagsvísindamenn sem styðja fingri á púls þjóðarinnar og hafa gert í áratugi með reglulegum könnunum furða sig á þeim niðurstöðum sem nú birtast. Þótt efnahagslífið sé komið í bakkgírinn og spilaborgirnar séu fallnar, virðist líðan Íslendinga merkilega góð. Fólk svarar því til að því vegni betur nú en áður á mikilvægum sviðum tilverunnar. Börn og unglingar virðast finna meiri ró í sálu sinni og kyrrð í huganum en árin á undan enda njóti þau meiri samvista með foreldrum sínum. Fólk upplifir á margan hátt hvíld frá því kapphlaupi sem svo margir tóku þátt í án þess að markið væri í sjónmáli.

Þetta blasir við í könnunum og er ekki á neinn hátt gert lítið úr erfiðleikum þeim sem margir eiga við að stríða nú um þessar mundir.

Aðventan á því herrans ári 2009 er því óvenjuleg. Ekki aðeins fyrir samdrátt og mótbyr heldur líka vegna þess að þjóðin virðist hafa fundið eitthvað sem vegur upp á móti hinum efnahagslegu erfiðleikum. Og slíkt er mótvægið að líðanin er að sögn betri nú en oftast áður. Merkilegt, er það. Við þekkjum öll beint eða óbeint sögur af erfiðleikum og óréttlátum byrðum sem fólk hefur þurft að taka á sig. Einnig er þetta áhugavert ef við hugleiðum það hversu sjálfsagt og eðlilegt okkur finnst það að tengja hagvöxt við árangur og tekjur við almenna velsæld. Eru tengslin ekki eins skýr og við höfum gert ráð fyrir?

Fábrotið og stórbrotið

Af hverju að deila þessum hugsunum með ykkur? Tvær ástæður eru fyrir því. Ein er vitaskuld sú að jólahátíðin miðlar okkur þeim boðskap að hið fábrotna sé á einhvern hátt stórbrotið. Rétt eins og þjóðin virðist hafa uppgötvað mitt í mótlæti sínu. Á fyrsta degi aðventu er sagt frá því þegar frelsarinn ríður inn í borgina helgu „hógvær á asna“ fremur en gæðingi sem hefði verið meir í anda hefðbundinna leiðtoga. Og jólaguðspjallið er að sama skapi óður til þeirrar tignar og fegurðar sem býr í hinu smáa. Fæðingarfrásögnin í Lúkasarguðspjalli dregur upp mynd af fátæku fólki sem undir öllum öðrum kringumstæðum hefði fallið í hóp nafnlausra einstaklinga sem fæðst hafa og dáið án þess að örlaga þeirra sé minnst í sögunni.

En einmitt slík er umgjörðin þar sem sögusviðið er kynnt í byrjun en svo þrengist sjónarhornið þar til athygli beinist öll að þeim Jósef og Maríu sem birtast okkur gangandi um í auðninni. Eftir að greint er frá fæðingu Krists færist athyglin út í haga þar sem saman voru komnir nokkrir fulltrúar lægstu stétta samfélagsins – hirðarnir sem sátu úti í haga. Fregnin af komu frelsarans breytir umhverfi þeirra sem ljómar upp og þeir verða þátttakendur í merkustu sögu sem sögð hefur verið.

Textar þessir minna okkur á það að farsældin og tilgangurinn leynast víða í tilverunni. Þeir sem eiga sér ríkulega köllun og skynja hlutverk sitt í lífinu eru miklu líklegri til þess að njóta þeirra sönnu gæða sem tilveran bíður upp á. Þetta hafa menn uppgötvað á öllum tíma, oft við erfiðustu aðstæðu og þetta er boðskapur jólanna og það er eins og litla Ísland sem hefur ekki verið smærra í mannsaldur sé farið að átta sig á þessu.

Næmt auga kærleikans

Seinna tilefni þess að ég deili með ykkur þessum vangaveltum er, að mig grunar að tilgangur samfélags eins og þess sem þið myndið tengist mjög þeim skýringum sem hér hafa verið raktar. Hópar á borð við þá sem þið myndið gegna stóru hlutverki í samfélaginu og hlutverk það fer stækkandi eftir því sem aðstæðurnar breytast.

Þeir mynda ómetanlegt mótvægi við það fyrirkomulag sem er á opinberri þjónustu. Þar gilda önnur lögmál en hér ráða. Þau má kenna við hið blinda réttlæti þar sem ekki er horft á hvern einstakling fyrir sig heldur eru settar fram tilteknar reglur sem gilda, að mestu leyti óháð aðstæðum. Reglur sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð gera ráð fyrir hámarkstekjum upp á kr. 115 þúsund á mánuði eða 185 þúsund fyrir hjón. Við getum ímyndað okkur hversu stór sá hópur er sem þarf að snúa frá ráðgjöfum vegna þess að laun þeirra eru hærri. 1729 einstaklingar eru nú atvinnulausir á Suðurnesjum og má gera sér það í hugarlund hversu mikil þörfin er orðin.

Hvað er þá til ráða?

Jú, þá kemur mótvægið til sögunnar – hið næma auga kærleikans, eins og Vilhjálmur Árnason siðfræðingur kallar það. Hér er blind réttlætisgyðjan ekki að störfum heldur vakandi auga sem fylgist með aðstæðum hvers og eins og leitast við að rétta hlut hans og bæta hag.

Nú reynir sem aldrei fyrr á þetta næma auga. Samtök eins og ykkar hjálpa til við að halda því opnu og vakandi. Í liðnum mánuði leituðu á sjötta tug einstaklinga til Keflvíkurkirkju að aðstoð og þurfti enginn að snúa tómhentur heim. Kemur þar til bæði stuðningur Hjálparstarfs kirkjunnar sem reynst hefur ómetanlegur og hið sérstaka úrræði sem beitt hefur verið hér á svæðinu þar sem Velferðarsjóður á Suðurnesjum hefur komið til viðbótar stuðningi Hjálparstarfsins og greitt götu margra þeirra sem að öðrum kosti hefðu að öllum líkindum komið að luktum dyrum. Alls hefur verið veitt fimm milljónum úr sjóðnum nú þegar og í ljósi þess að upphæðirnar eru á bilinu 10-40 þúsund eru þeir einstaklingar fjölmargir sem notið hafa liðsstyrks sjóðsins.

Að þola eða gera?

Það er að sönnu gleðiefni, að mitt í þeim ósköpum sem hér að framan er lýst hafa fjölmargir skynjað sig í öðru hlutverki en aðstæðurnar leyfa. Þeir eru ekki í hlutverki þess sem tekur á móti erfiðum tíðindum, þolir óréttlæti sem þeir hafa fæstir yfir sig kallað eða fallast hendur yfir aðstæðum. Þarna gefst fólki hins vegar kostur á að vera gerendur, leggja sitt af mörkum til þess að hjálpa og styðja fólk sem á í erfiðleikum. Á því rúma ári sem sjóðurinn hefur starfað hafa safnast yfir 13 milljónir. Það gerir að jafnaði rúm milljón á mánuði. Sú dreifing er þó ekki jöfn – því þegar við héldum upp á ársafmæli sjóðsins 8. nóvember höfðu safnast í hann tæpar 9 milljónir. Þessi tæpi mánuður hefur því verið árangursríkur fyrir okkur.

Óvenjuleg aðventa

Já, þessi aðventa er óvenjuleg hér uppi á fróni og tíminn er óvenjulegur yfir árið. En hún á þó eitt sameiginlegt með öðrum tímabilum þar sem við undirbúum okkur fyrir jólahátíðina. Á aðventunni og jólum lesum við frásagnirnar af tign hins smáa sem nær hámarki í sögunni af fólkinu sem ferðaðist um í Galíleu í þeim tilgangi að skrásetja sig í ættborginni, Bethlehem. Auga frásagnarinnar þrengist frá því að fjalla um hið víða landsvæði í sögunni og niður í hið einstaka – rétt eins og næmt auga kærleikans nemur þörf hvers einstaklings og leitast við að bregðast við henni.

Það á að vera hlutverk okkar sem hér lifum og stefnum að háleitu marki hér í þessu lífi – í þeirri sannfæringu að æðsta köllun okkar beinist að því að bæta hag náungans. Það er hlutverk samtaka eins og ykkar og gleði sú sem fylgir því að vera hluti slíks samfélags er ósvikin og einlæg. Hún færir okkur í nánari tengsl við uppruna okkar og okkur sjálf.

Flutt á Oddfellowfundi 3/12/09 þar sem félagar í stúkunni Steinunni afhentu framlag til Velferðarsjóðs á Suðurnesjum.