Þegar páskaeggið opnast

Þegar páskaeggið opnast

fullname - andlitsmynd Bára Friðriksdóttir
27. mars 2016
Flokkar

Flutt í Útskála- og Hvalsneskirkjum á páskadag.

Náð sé með yður, og friður frá Guði föður vorum og drottni Jesú Kristi.

Kæri söfnuður! Gleðilega páska.

Hjartað berst ótt og ótt í brjósti mér vængirnir heftir haldið saman hálsinn herptur ég brýst um munda gogg hegg í umvefjandi himin minn

hann brestur inn brýst ljós sem yljar enni ákafar ég hegg

hann hrynur sem fannhvít skæðadrífa ég sé ljósið og öskra hátt ófiðraður ungi þráir frelsi fanginn af lífsþrá. Rósa Ólöf Ólafíudóttir

Ljóð Rósu Ólafíudóttur dregur upp tæra mynd af því þegar við erum á mærum tveggja heima. Það er unginn inn í egginu, verndaður og fanginn af skurninni. Fyrir utan er ný veröld. Eggið heldur aftur af honum, hann verður að brjótast út og takast á við nýja veröld sem í senn er full fyrirheita og ógna. Þetta er einkenni á því að taka út þroska.

Tökum út þroska

Maðurinn er alla ævi að þroskast. Á unglingsárunum verða miklar og kröftugar breytingar. Börnin sleppa smám saman barnaskapnum og taka upp ný viðmið. Á fermingarárinu eru unglingar á þessum landamærum trúarlega. Þau eru við það að leggja barnatrúna í dvala. Þess vegna er fermingarárið á hárréttum tíma því þarna fá unglingarnir tækifæri til að takast á við trúarlegar spurningar, efa og óvissu.

Trú fylgir efi

Efinn er eðlilegur hluti af heilbrigðri trú. Efinn knýr á trúarglímu og afrakstur hennar er ný lífsýn. Það leita djúpar tilvistarspurningar á huga allra einhverntímann. Einkenni þess er að við setjum spurningarmerki við heimsmyndina sem við höfum. Við spyrjum hvort lífið sé örugglega svona og hvort eitthvað meira liggi að baki tilverunni. Í myndinni The Truman Show kynnumst við manni sem ólst upp í risa kvikmyndaveri. Líf hans var sjónvarpsefni milljóna manna en hann vissi ekki af öðru en að líf sitt væri raunveruleiki. En hann fór að efast og lagði af stað út á haf til að kanna veröldina. Skútan rakst loks á eggjaskurn kvikmyndaversins og heimsmynd Trumans hrundi. Þar var hann akkúrat á mærum þess að kveðja fyrri heimsmynd og stíga skref inn í nýjan veruleika. Það var sársaukafullt og olli honum geðshræringu en hann var að stíga til raunverulegra lífs. Þegar páskaundrið lýkst upp fyrir okkur skynjum við nýjan veruleika. Þá fyrst verður elska Guðs raunveruleg fyrir okkur. Eða eins og Páll postuli segir um þann sem tekur við fagnaðarerindinu: „Ef einhver er í Kristi er hann orðinn nýr maður, hið liðna varð að engu, nýtt er orðið til.“ 2. Kor. 5.17 Efahyggjupostulinn Tómas trúði ekki postulunum þegar þeir sögðu að Jesús hafi birst mitt á meðal þeirra eftir upprisuna. Hann varð að fá að þreyfa á svo að hann gæti trúað. Næsta sunnudag birtist Kristur aftur mitt á meðal lærisveinanna og þá var Tómas með þeim. Takið eftir hvernig Jesús brást við honum. Hann kallaði Tómas til sín og sagði honum að koma með fingur sinn og leggja í naglaförin á hendinni. Eins bað hann Tómas að leggja hönd sína í síðusárið. Síðan hvatti Kristur efahyggjumanninn og sagði: „...vertu ekki vantrúaður, vertu trúaður.“ Jóh.20.27 Við þessa lífsreynslu skynjaði Tómas að hér var sannarlega lifandi Guð á ferð og hann sagði: „Drottinn minn og Guð minn.“ Jóh.20.28. Hann tók fagnandi á móti þeim Drottni sem einnig sagði: „Ég dó en nú lifi ég um aldir alda og ég hef lykla dauðans og heljar.“ Opb 1.18b Það er fyrir þeim Drottni sem hvert kné þarf um síðir að beygja sig.

Páskaegg og málshættir

Nú hafa börnin tekið upp páskaeggin sín. Opnað sykursætt súkkulaðið og allt nammið gleður, sem inn í þeim er. Í náttúrunni er allt að lifna og það hefur um leið sína skírskotun í líf Krists sem lifir, því hann sigraði dauðann. Eitt af því skemmtilega í páskaeggjunum er málshátturinn og hef ég síðari árin aðallega viljað fá lítið páskaegg til að fá málshátt. Upp á síðkastið eru þeir farnir að breytast talsvert og ýmislegt annað en gömlu góðu málshættirnir eru í þeim. Þennan fékk ég fyrir nokkrum árum:

„Oft eru látin hjón lík.“

Hér er skemmtileg tvíræðni á ferð. En við skulum ekki gleyma hinni kristnu von að látin kristin hjón verða ekki bara lík, þau rísa upp, þökk sé sigurverki Krists og þar eiga þau sameiginlegan anda Guðs sem lofar Guð og gleður þau.

Tómhyggja eða kristni

Undanfarin ár hefur tómhyggjan rutt sér til rúms. Tómhyggja, þar sem allt er til einskis og ekkert tekur við. Líf mannsins er án einhvers raunverulegs gildis eða tilgangs. Þar er ekki gert ráð fyrir skapara og sönn siðferðisgildi eru ekki til. Tómhyggjan er andstæða við kristinn mannskilning. Kristin hugsun gengur út frá því að hjarta elskandi skapara sé að baki tilverunni. Hjarta sem lætur bífluguna fljúga þó hún eigi ekki að geta það miðað við þyngd og vænghaf. Sonur Guðs, Jesús breytti veröldinni. Hann ýtti við ríkjandi viðhorfi. Hann hjó í eggjaskurn heimsmyndar samtíma síns. Jesús rauf gat á þá skurn er hann saklaus dó á krossi fyrir syndir okkar og sigraði vald dauða og illsku með upprisu sinni. Hann opnaði okkur glugga inn í himinninn, gaf óhindrað aðgengi að skaparanum sem elskar þig og vill eiga samneyti við þig. Hugleiðum myndina sem Hallgrímur Pétursson gaf af hjarta Jesú sem glugga upp til Guðs.

Gegnum Jesú helgast hjarta í himininn upp ég líta má, Guðs míns ástar birtu bjarta bæði fæ ég að reyna' og sjá, hryggðar myrkrið sorgar svarta sálu minni hverfur þá. Hallgr. Péturss. (Passíus. 48)

Guð er hinumegin við eggjaskurn þína og brosir við þér í stærri heimsmynd. Að ganga meðvitað með Kristi, leggja líf sitt í hans hendur gefur tilverunni tilgang. Í ljóði Einars Ben. Skógarilmur segir svo fallega: „Mig snart einn geisli frá bláloftsins brá; ég brjótast og iða fann lífsins þrá í eggskurns hjúpi míns hjarta.“ Einar Ben. Skógarilmur

Inn í hvaða eggskurn ert þú? Hvernig skilur þú heiminn. Finnurðu lífsþránna í eggskurns hjúpi þíns hjarta? Vilt þú brjóta þá eggskurn og hleypa ljósi Guðs betur inn í líf þitt. Vilt þú skynja til fulls veruleikann sem Guð vill gefa þér þar sem gildismat þitt og lífsviðhorf mótast af elsku Guðs? Þá hrópar trúin á páskum og gleðst: Kristur er upprisinn, Kristur er sannarlega upprisinn.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda...

Markúsarguðspjall 16. 1-8

„Þá er hvíldardagurinn var liðinn keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: „Hver mun velta fyrir okkur steininum frá grafarmunnanum?“ En þegar þær líta upp sjá þær að steininum hafði verið velt frá en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju, og þær skelfdust. En hann sagði við þær: „Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjáið þarna staðinn þar sem þeir lögðu hann. En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann eins og hann sagði yður.“ Þær fóru út og flýðu frá gröfinni því ótti og ofboð var yfir þær komið. Þær sögðu engum frá neinu því þær voru hræddar.“