Hér svíða hjartasár

Hér svíða hjartasár

Línan sem gefur þessum pistli yfirskrift: „Hér svíða hjartasár“ lýsir kringumstæðum fjölmargra einstaklinga og fjölskyldna nú ári eftir hrun betur en margir langir pistlar um það efni.
fullname - andlitsmynd Kristján Valur Ingólfsson
03. október 2009

Um sálminn Þú Drottinn átt það allt. (Sb. 374)

Fjársöfnunin til stuðnings innanlandsaðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar í kirkjum og söfnuðum landsins fer fram fyrstu tvær helgar októbermánaðar. Söfnunin fer fram í messunni sjálfri sem sjálfstæður messuliður undir sálminum eftir predikun en ekki við kirkjudyr eins og algengast er. Mælst er til þess að á meðan söfnunin fer fram sé sunginn sálmurinn nr. 374, Þú Drottinn átt það allt. Fullyrða má að fáir sálmar sálmabókarinnar séu betur fallnir til þess að syngjast í þessu samhengi. Línan sem gefur þessum pistli yfirskrift: Hér svíða hjartasár lýsir kringumstæðum fjölmargra einstaklinga og fjölskyldna nú ári eftir hrun betur en margir langir pistlar um það efni.

Sigurbjörn Einarsson, biskup, þýddi þennan sálm úr ensku. Á frummálinu heitir hann: We give thee but thine own. Höfundur hans er enski guðfræðingurinn og biskupinn William Walsham How (1823-1897). W.W. How var afkastamikið sálmaskáld en aðeins einn sálmur annar er eftir hann í okkar sálmabók. Það er sálmurinn Fyrir þá alla er fá nú hvíld hjá þér, nr. 204. Lagið sem notað er hér við sálminn nr 374 er eftir William Henry Monk (1823-1889), organista, tónlistarkennara og fræðimann. Sálmurinn er sunginn víða um hinn enskumælandi heim undir öðru lagi, en af einhverri ástæðu er þetta lag fyrst og fremst notað í enskumælandi lúterskum kirkjum. Þar sem þessi sálmur einmitt mest notaður sem sálmur við samskot. W.H. Monk á annað lag í sálmabókinni og er það án efa þekktasta lag hans. Það er lagið við sálminn Abide with me, eða Ver hjá mér Herra, dagur óðum dvín nr. 426.

Hin íslenska gerð sálmsins Þú Drottinn átt það allt, ber skýran vott um snilligáfu Sigurbjörns biskups sem sálmaskálds og sálmaþýðanda. Eitt helsta einkenni sálma Sigurbjörns er einmitt að honum tekst að bera fram mikinn og grípandi boðskap í fáum og auðskiljanlegum orðum sem hver sá sem íslenska tungu skilur getur tileinkað sér.

Í frumgerð sálmsins eru sex vers en fimm í þýðingunni. Vers eitt og tvö dregur Sigurbjörn saman í eitt. Sagt er að W.W.How hafi haft til grundvallar þegar hann samdi sálminn það sem segir í Orðskviðunum. 19.17: Sá lánar Drottni sem líknar fátækum,hann mun endurgjalda honum.

Eins og algengt er um góða sálma byggja þeir á ákveðnum ritningarstöðum. Í þessum sálmi er fyrst og fremst um að ræða eftirtalda ritningarstaði.

En hver er ég og hver er lýður minn, að vér vorum færir um að gefa slíkar gjafir? Því að allt er frá þér og vér höfum fært þér það sem vér höfum þegið úr hendi þér. 1.Kron.29.14

Sérhvert ykkar hefur fengið náðargáfu. Notið þær og þjónið hvert öðru eins og góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs 1.Pét. 4.10

Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín. Þá munu þeir réttlátu segja: Drottinn, hvenær sáum vér þig hungraðan og gáfum þér að eta eða þyrstan og gáfum þér að drekka? Hvenær sáum vér þig gestkominn og hýstum þig, nakinn og klæddum þig? Og hvenær sáum vér þig sjúkan eða í fangelsi og komum til þín? Konungurinn mun þá svara þeim: Sannlega segi ég yður: Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér. (Matt.25.35-40)

Í heimildum um sálminn í frumgerð sinni, er þess líka getið að höfundur hafi haft í huga eftirfarandi texta fimmtu Mósebókar sem vel má gera líka gagnvart þýðingu Sigurbjörns þó að hann vísi ekki beint í frumgróðafórnina eins og How gerir:

And gladly, as thou blessest us, To thee our first-fruits give.

Þegar þú kemur inn í landið sem Drottinn, Guð þinn, er í þann veginn að fá þér að erfðahlut og þú hefur tekið það til eignar og ert sestur þar að, skaltu taka nokkuð af frumgróða allra ávaxta jarðar, sem þú flytur heim af landi þínu og Drottinn, Guð þinn, gefur þér, og láta í körfu. Síðan skaltu fara til þess staðar sem Drottinn, Guð þinn, velur til þess að láta nafn sitt búa þar. Þú skalt ganga fyrir prestinn sem þá gegnir embætti og segja við hann: „Nú játa ég fyrir Drottni, Guði þínum, að ég er kominn inn í landið sem Drottinn hét forfeðrum okkar að gefa okkur.“ Þegar presturinn tekur við körfunni úr hendi þér og setur hana niður frammi fyrir altari Drottins, Guðs þíns, skaltu taka til máls og játa frammi fyrir Drottni, Guði þínum: „Faðir minn var umreikandi Aramei og hann fór suður til Egyptalands fáliðaður og hlaut þar hæli sem aðkomumaður og varð þar að mikilli, öflugri og fjölmennri þjóð 5M.26.1-5

Þegar frumgerð sálmsins og og þýðing hans eru bornar saman kemur ekki aðeins í ljós að þýðandinn ákveður að fella saman í eitt vers hugsun tveggja versa í frummálinu heldur einnig að hann í raun endursegir hugsun sálmsins frekar en að þýða hann nákvæmlega. Það er reyndar oftar en ekki einmitt sú aðferð sem Sigurbjörn viðhefur. Fyrir því eru ríkar ástæður.

Í þessu tilviki eins og mörgum öðrum, tekur þýðandinn sálm sem er meira en hálfrar annarrar aldar gamall og færir hann í nýjan búning. Með vissum hætti má segja að hann flytji hann ekki aðeins á milli málsvæða heldur hugmyndaheima. Hinn nýi búningur er því ekki aðeins tungumálið sjálft heldur ný guðfræðileg nálgun þeirra ritningarstaða sem sálmurinn grundvallast á og þeirra trúarlegu og kirkjulegu áherslna og kringumstæðna sem hann er vaxinn upp af og talar inn í.

Með þessu fylgir Sigurbjörn fullkomlega þeirri hugmyndafræði sálmafræðanna sem grundvölluð var í kenningum og aðferð Marteins Luther á sínum tíma. Endurnýjum guðsþjónustunnar á siðbótartímanum einkenndist ekki síst af nýjum söng. Sálmar voru ortir í stað hinna föstu messuliða, en einnig út af hinum föstu ritningartextum kirkjuársins (guðspjallssálmar), út frá Davíðssálmunum og út frá kristinfræðunum (Fræðum Lúthers hinum minni).

Marteinn Luther orti sjálfur og hvatti mjög til þess að nýir sálmar væru sungnir. En hann hafði líka þá sérstöku hugmynd að sálmar væru ortir upp að nýju þegar merking þeirra væri farin að dofna, eða þeir væru orðnir að vanaorðum. Forsendan sem hann gengur út frá þar er að sjálfsögðu forsenda predikunarinnar. Orð Guðs er skapandi orð. Hið lifandi Orð gjörir nýtt í hvert sinn og það er boðað. Það er hið lifandi orð fagnaðarerindisins. Viva vox evangelii.

Sálmur er sendiboði Orðsins. Hann er sendur út við hlið predikunarinnar til að þjóna hinu lifandi Orði, sem er Jesús Kristur. Ábyrgð sálmsins er mikil, eins og annarra sendiboða. Sendiboða ber að túlka erindi sendandans gagnvart viðtakandanum líka þegar viðtakandinn skilur ekki tungumál sendandands. Þetta er það hlutverk sálmsins sem leggst þyngst á herðar þýðandans. Og í því hlutverki var Sigurbjörn Einarsson meistari.

Draga má sama boðskap sálmsins nr 374 í eina setningu: Við eigum ekkert nema það sem við þiggjum, og það færum við fram sem þakkargjörð til Jesú Krists. Þessa merkingu sálmsins dregur Sigurbjörn best saman sjálfur í lokaversi sálmsins, og þar eru þeir alveg samstiga, W.W.How og Sigurbjörn Einarsson .

And we believe thy Word, though dim our faith may be; whate'er for thine we do, O Lord, we do it unto thee.

Vér trúum á þitt orð, þótt efi myrkvi jörð, að miskunn við hinn minnsta sé þér, mannsins sonur, gjörð.

Þegar samskotin hafa verið borin að altarinu og sálmurinn er útsunginn er lesin bæn yfir gjöfunum sem undirstrikar hið sama:

Vér þökkum þér himneski Faðir fyrir gjafirnar sem þú treystir oss fyrir. Vér biðjum þig að blessa þær og gefa oss náð til þess að vér í krafti kærleika þíns þjónum þér og systkinum vorum, fyrir Jesú Krist Drottin vorn. Amen.