Dagurinn í dag

Dagurinn í dag

Það er ekkert undarlegt þó lífið fari stundum úr skorðum þannig er lífið en þó lífsleiðin sé örðug þá veitir ástríki Guðs okkur styrk. Ekkert getur bugað okkur ef við stöndum þétt saman og treystum Guði. En á stundum getur verið nauðsynlegt að andvarpa þungt og alvarlega yfir lífinu.
fullname - andlitsmynd Elína Hrund Kristjánsdóttir
16. febrúar 2009

Það er ekkert undarlegt þó lífið fari stundum úr skorðum þannig er lífið en þó lífsleiðin sé örðug þá veitir ástríki Guðs okkur styrk. Ekkert getur bugað okkur ef við stöndum þétt saman og treystum Guði. En á stundum getur verið nauðsynlegt að andvarpa þungt og alvarlega yfir lífinu. Bara að við hefðum nú gert það sem við áttum að gera þegar við áttum að gera það. Bara að við hefðum sleppt að gera sumt sem við gerðum og bara að við hefðum gert eitthvað allt annað. En við gerðum það ekki og því er dagurinn í dag eins og dagurinn í dag er núna. Og það er einmitt töfraorðið NÚNA. Við skulum vera til núna. Ekki hugsa um gærdaginn eða morgundaginn heldur daginn í dag. Dagurinn í dag er gjöf frá Guði og nýtum hann vel.

Það er dásamlegt að taka sér smá frí frá argaþrasi lífsins, fá sér góðan kaffibolla og sleppa því að lesa blöðin og að kveikja á útvarpinu, lesa í þess stað orð Guðs og hlusta á tónlist af geilsadiski og treysta Guði, Guð mun vel fyrir sjá.

Ég er ekki að tala um að grafa höfuðið í sandinn til langframa heldur aðeins stutta stunda hvern dag, finna góðan ilminn frá kaffinu umlykja okkur eins og heilagan anda Guðs á meðan við lesum uppörvandi texta úr bókinni bestu. Orð Guðs gefur okkur kjark til að takast á við allar aðstæður, gleði og sorgir. Orðið jafnar huga okkar, setur adrenalínið á sinn stað svo það þeytist ekki út um víðan völl. Orð Guðs huggar okkur og hvílir og gefur okkur kjarkinn til þess að hlusta á útvarpið, lesa blöðin og taka á móti fólkinu sem leitar til okkar í örvæntingu sinni yfir ástandi dagsins í dag.

Það liggur eitthvað í loftinu. Sumt sést annað bara finnst. Tökum t.d. eftir því hvað það er miklu bjartara í dag en í gær. Dagsbirtan eykst frá degi til dags. Látum birtuna sem Guð gefur okkur brjótast inn í dimmar hugsanir okkar, drögum frá hin þungu gluggatjöld vonleysis og svarstýni sem voru sett upp í huga okkar í haust og setjum upp léttar vonargardínur. Hugsum aðeins um dagana sem eru framundan þó við ætlum að einbeita okkur að deginum í dag. Við skulum ákveða að hafa dagana sem munu koma góða. Vöndum okkur við að þeir verði oftar góðir frekar en erfiðir og byrjum á deginum í dag, byrjum núna.