Móðuharðindin – gróðaharðindin

Móðuharðindin – gróðaharðindin

Það er engin skömm að detta, en það er hneisa að liggja og fara að stympast við þau hin sem drógust með í fallinu eins og við.
fullname - andlitsmynd Hjálmar Jónsson
14. desember 2008
Flokkar

Á fimmtánda stjórnarári Tíberíusar keisara, þegar Pontíus Pílatus var landstjóri í Júdeu en Heródes fjórðungsstjóri í Galíleu, Filippus, bróðir hans, í Ítúreu og Trakónítishéraði og Lýsanías í Abílene, í æðstapreststíð Annasar og Kaífasar, kom orð Guðs til Jóhannesar Sakaríasonar í óbyggðinni. Og hann fór um alla Jórdanbyggð og boðaði mönnum að taka sinnaskiptum og láta skírast til fyrirgefningar synda, eins og ritað er í bók Jesaja spámanns: Rödd hrópanda í eyðimörk:

Greiðið veg Drottins, gerið beinar brautir hans. Öll gil skulu fyllast, öll fell og hálsar jafnast, bugður verða beinar og óvegir sléttar götur. Og allir munu sjá hjálpræði Guðs.

Við mannfjöldann, sem fór út til að láta hann skíra sig, sagði hann: „Þið nöðrukyn, hver kenndi ykkur að flýja komandi reiði? Sýnið í verki að þið hafið tekið sinnaskiptum og farið ekki að segja með sjálfum ykkur: Við eigum Abraham að föður. Ég segi ykkur að Guð getur vakið Abraham börn af steinum þessum. Öxin er þegar lögð að rótum trjánna og hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og því í eld kastað.“

Mannfjöldinn spurði hann: „Hvað eigum við þá að gera?“

En hann svaraði þeim: „Sá sem á tvo kyrtla gefi þeim er engan á og eins geri sá er matföng hefur.“

Þá komu og tollheimtumenn til að skírast. Þeir sögðu við hann: „Meistari, hvað eigum við að gera?“

En hann sagði við þá: „Heimtið ekki meira en fyrir ykkur er lagt.“

Hermenn spurðu hann einnig: „En hvað eigum við að gera?“

Hann sagði við þá: „Hafið ekki fé af neinum, hvorki með ofríki né svikum. Látið ykkur nægja mála ykkar.“

Allir voru nú fullir eftirvæntingar og hugsuðu með sjálfum sér hvort Jóhannes kynni að vera Kristur. En Jóhannes svaraði öllum og sagði: „Ég skíri ykkur með vatni en sá kemur sem mér er máttugri og er ég ekki verður að leysa skóþveng hans. Hann mun skíra ykkur með heilögum anda og eldi. Hann er með varpskófluna í hendi sér til þess að gerhreinsa láfa sinn og safna hveitinu í hlöðu sína en hismið mun hann brenna í óslökkvanda eldi.“

Með mörgu öðru hvatti hann fólk og flutti því fagnaðarboðin. Lúk 3.1–18

Guðspjallið í dag er varla fagnaðarerindi, fljótt á litið. Það er ógnandi tónn í orðum Jóhannesar skírara um hinn komandi dóm. Predikarinn Jóhannes skírari er nýkominn úr eyðimörkinni, rifinn og rykugur með klístrað hárið. Hann talar tæpitungulaust. Lúkas guðspjallamaður staðsetur Jóhannes nákvæmlega í guðspjalli sínu.

Fyrir skömmu var í „Útsvari“ spurt hver hefði verið atvinna Lúkasar guðspjallamanns. Fólkið vissi það reyndar ekki, því miður. Þið vitið það sjálfsagt flest. Hann var raunvísindamaður, hann var læknir.

Þeir sem halda að guðspjöllin séu lítt studd staðreyndum og draga heimildagildi þeirra í efa ættu að skoða vel texta þessa dags. Læknirinn Lúkas staðsetur allt vel, nákvæmlega tímann þegar Jóhannes skírari kemur úr eyðimörkinni. Það eina af upptalningunni á tímasetningunum sem ekki er hægt að staðfesta eftir rituðum heimildum er það að nú fátt er vitað um Lýsanías fjórðungsstjóra í Abilene.

Þegar Lúkas er búinn að greina frá pólitískri stöðu í umheiminum nefnir hann æðsta prestinn. Og það er merkilegt að hann nefnir tvo. Það var alltaf einn æðstiprestur. Síðari tíma gagnrýnendur hafa bent á þetta sem villu hjá Lúkasi. Annas var æðstiprestur árin 7 – 14 en Kaifas var æðstiprestur þegar saga þessi gerðist. Þetta vissi Lúkas læknir eins og allir aðrir. Einnig það, að Kaífas var tengdasonur Annasar gamla, fyrrverandi æðstaprests. Hann réð öllu þótt hann væri ekki lengur í embætti.

Sum ykkar muna eftir útvarpssögunni fyrir um 50 árum og heitir: Læknirinn Lúkas. Og Lúkas skrifar um Jóhannes skírara og boðskap hans. Hann boðar nýtt ríki, nýjan heim, nýtt (Ís)land. Þrennt er sterkast í þeim boðskap – og sem ómar til okkar í dag:

  1. Fólk deili með sér lífsins gæðum, hver sem á tvo kyrtla gefi annan þeim sem engan hefur og sá sem matföng á, geri eins. Guð sætti sig ekki við að sumir hafi of mikið meðan aðrir hafi of lítið.
  2. Að enginn yfirgefi starf sitt.Tollheimtumaðurinn fari að réttum lögum og reglum. Vinni verkin sín betur. Hermaðurinn einnig. Hann haldi uppi lögum og reglu af trúmennsku.
  3. Að ekki sé á meðal manna kynþáttamisrétti. Hann áréttar að engin þjóð sé annarri merkilegri, nokkuð sem var mjög framandi gyðingunum í þann tíð. Þeir töldu sig alveg sérstaklega útvalda þjóð.

Boðskapur Jóhannesar skírara hefur ekki fallið í verði.

Við þurfum ekki að fyllast neinu ofdrambi um það, Íslendingar, að við höfum eitthvert ofurhlutverk á vettvangi þjóðanna. Við séum öðrum betri eða klárari, höfum jafnvel fundið upp aðferðir til að komast betur af en annað fólk í heiminum. Þess vegna getum við grætt endalaust á skiptum við aðrar þjóðir.

Hógværð er góð. Dramb er falli næst. Hroki, sjálfsþótti og mikilmennska fær jafnan sín málagjöld. Það er lögmál og það hefur alltaf gerst í sögunni. Það er bara verst að sagan kennir, að mennirnir læra ekkert af sögunni.

Sagan af Babelsturninum er um það þegar mennirnir ætluðu að byggja turn upp í himininn og breyta lögmálunum sem Guð hafði sett. Auðvitað hrundi sá turn. Ótal staðreyndir heimssögunnar síðan styðja þessa arfsögn, þessa mýtu. Ofmetnaður hefnir sín alltaf. Og stundum er það sárt. Stundum þurfa þeir að þjást fyrir það sem síst skyldu. Þeir sem aftur á móti setja allt traust sitt á ytri hagsmuni og auðsöfnun finnst heimurinn hrynja þegar turninn fellur. Jafnvel hefur ástandinu verið líkt við Móðuharðindin. Það er mikil grunnfærni. Þá vita menn ekkert hvað þeir eru að tala um. Það eru engin Móðuharðindi í dag. Þetta eru „gróðaharðindi.“

Vert er að muna, að Guð getur snúið öllu til góðs. Sigurbjörn biskup sagði gjarnan: „Guð getur ofið ljós úr skuggunum.“ Það hefur verið að gerast í samfélaginu. Innstilling fólks, viðhorf og framkoma svo margra hefur sýnt hvað skiptir mestu, hvað fólki er dýrmætast. Ég hef fundið það sterkt nú undanfarið, sterkar og betur en nokkurn tíma fyrr á meira en 30 ára prestsskap. Kærleikur, samúð, velvild, allt er það til staðar.

Ég læt liggja milli hluta hvernig og hvers vegna við erum í erfiðri ytri aðstöðu. Því verður vonandi öllu svarað. Því þarf að svara, svara af þar til bærum aðilum. En við ætlum ekki bíða á meðan. Við ætlum ekki að liggja í keldunni sem við duttum í. Það er engin skömm að detta, en það er hneisa að liggja og fara að stympast við þau hin sem drógust með í fallinu eins og við.

Laxness sagði einu sinni: „Miskunnsemin er það fyrsta sem deyr í hörðu ári.“ Þetta er ekki staðreyndin núna. Breytingin á samfélaginu undanfarið er til gagnstæðrar áttar. Miskunnsemin hefur lifnað í þrengingunum. Þetta finnur fólk úti í samfélaginu, þetta finnum við í kirkjunni þessar vikur og mánuði. Fjölmargir eru tilbúnir með hug, hjartalag og vilja til stuðnings.

Reykjavík er orðin að þorpi aftur, Ísland að lítilli sveit. Sama nálægð og nærvera fólks hvert við annað og maður les um frá því fyrir 100 árum. Það er fólginn mikill kraftur í góðvilja, góðsemi, trú sem starfar í kærleika.Við vitum til hvers við viljum verja lífinu. Hvað sé nógu mikilvægt til þess að nota dagana sína til. Ekkert er meira virði en lifandi fólk. Ástvinir, vinir og samferðafólk gegnum lífið. Einn og sérhver á í huga sínum mikla sjóði í minningunum, sem eru um leið hluti af lífinu. Þar eru allar þessar „hófstilltu hamingjustundir“ sem við fáum að lifa.

Tveir drengir voru skírðir hér í messunni. Við prestarnir gleðjumst með fjölskyldum okkar og vinafjöld og erum sjálfir hluti þessa. Börn eru Guðs gjöf, þau eru hamingjugjafar. Og þau skulu búa við sem best skilyrði. Þegar við sjáum trúnaðinn, sakleysið, tindrandi tærleikann í augum þeirra, vitum við að síst af öllu vildum við bregðast þeim.

Þess vegna má fortiðin ekki verða meginviðfangsefni okkar – heldur það að búa þeim áhugaverða nútíð og framtíð. Hver er sú framtíð sem við viljum móta? Hvaða myndir sjáum við fyrir okkur? Hverjar eru hugsjónir okkar?

Boðskapur jólanna framundan er farinn að berast til okkar. Þar eru skýr grunngildi mannlegs lífs. Þar er birtist í dýrlegri hátíð kjarni kristinnar trúar. Þar birtist ábyrgð okkar gagnvart lífinu og höfundi þess. Með trú og trausti til hans, göngum við bjartsýn og brosandi til komandi hátíðar.

Og síðan eins og segir í nýárssálminum:

Í Jesú nafni áfram enn með ári nýju, kristnir menn