Hvítasunnupólitík

Hvítasunnupólitík

Getur verið [...] að vanræksla hinna trúarlegu gilda leiði okkur í algjörar ógöngur, ef ekki beina leið í faðm hins vonda, til ísaldar hans, þar sem hjörtun, sem eitt sinn voru heit og fundu til, eru drepin botnfrosinn í dróma og klakabönd? ...

Gleðilega hátíð! Hvítasunnuhátíðin er gengin í garð, þriðja stórhátíð kristninnar og sú eina sem fellur á sumar hér á landi. Á nýárinu er gjarnan sunginn sálmur eftir sr. Matthíasar þar sem segir:

Aftur að sólunni sveigir nú heimskautið kalda, sonurinn týndur í átthagann girnist að halda. (Sb 106)

Og nú rignir í þyrsta jörð svo að ánamaðkurinn kemur úr felum og dansar sinn hæga vals á fortóvum Vesturbæjar og víðar - og gróðurinn tekur við sér eins og í sálmi séra Friðriks:

Gróðurmagnað lífsaflið leysist skjótt, læsir sig um fræin, er sváfu rótt, vakna þau af blundi’ og sér bylta’ í mold, blessa Guð um leið og þau rísa’ úr fold.

Allt er að vakna. Fuglarnir flykkjast til landsins og margæsin sem í gærkvöld flaug í flokkum með fjaðraþyt og söng yfir Seltjarnarnesinu heldur brátt til Grænlands og Kanada eftir að hafa fengið magafylli hér á landi og þar með eldsneyti til fararinnar.

Já, lífið leikur við hvurn sinn fingur þessa dagana.

Hvítasunna, hátíð heilags anda, er hátíð lífsins. Fermingar fóru gjarnan fram um hvítasunnu hér áður fyrr og svo er reyndar enn til sveita. Hún er hátíð lífsins, æskufjörs og grósku. Heilagur andi, þessi þriðja persóna Guðdómsins, er ekki auðveldur til skilnings eða skilgreiningar. Íslendingar hafa hins vegar átt auðvelt með að tengja hann lífinu, sumrinu, náttúrufegurð og útivist. Margir skynja Guð sterkast úti í náttúruinni. En svo er fullyrt í hinni helgu bók að hann geti komið yfir fólk og búið í brjóstum manna. Og þar með er hann ekki bara eitthvað óljóst úti í náttúrunni sem samnefnari fegurðar og sælukenndra hughrifa. Heilagur andi kom yfir lærisveina Jesú á hvítasunnudag og þeir fengu nýjan kraft og hugrekki. Samkvæmt hefðinni varð kirkjan þá til þegar Pétur steig fram og þorði að prédika fagnaðarerindið í áheyrn mannfjöldans í Jerúsalem þar sem mikill mannfjöldi var saman kominn vegna hátíðarinnar, fólk frá mörgum þjóðlöndum, Gyðingar sem bjuggu í löndunum við Miðjarðarhafsbotn og í N-Afríku og á svæðunum þar sem nú er Tyrkland, Íran og Írak svo nokkur lönd sem við nú þekkjum séu nefnd. Og það undarlega gerðist að allir heyrðu og skildu gleðiboðskapinn, allir heyrðu talað á sinni tungu.

Heilagur andi birtist á margan hátt. Hann birtist í fegurðinni, í náttúrunni, í hrifningu og gleði þeirra sem finna Guð tala til sín svo að þeir skilja, eins og gerðist í Jerúsalem, þennan dag fyrir tæpum tveimur árþúsundum. En hann birtist ef til vill skýrast í nærveru Guðs á meðal manna. Og nú ætla ég að segja ykkur sögu.

Það er saga af tveimur bræðrum sem bjuggu tvíbýli og ræktuðu jörðina saman, skiptu ávexti jarðar til jafns og svo skiptu þeir líka arðinum á mili sín, arðinum af störfum sínum. Annar bróðirinn var einhleypur, hinn átti konu og börn. Og dag einn hugsaði sá einhleypi: Hann bróðir minn hefur nú fyrir fleirum að sjá en ég. Ég ætla að fara að næturlagi með korn úr mínum bingi setja í einn sekk og sturta því í binginn hans. Og þetta gerði hann. Og það undarlega var að það minnkaði ekkert í bingnum. Hinn bróðirinn sem átti konu og börn, hugsaði líka sinn gang og hann sagði við sjálfan sig: Hann bróðir minn er einhleypur og hann á enga til að hugsa um sig þegar hann verður gamall. Ég ætla að taka úr kornbingnum mínum, einn sekk reglulega, og fara með hann og hella úr honum í binginn hans. Og þetta gerði hann og alltaf var bingurinn jafn stór hjá honum. Eina nóttina þegar þeir voru að bisa við þetta þá rekast þeir á hvorn annan og þá kom sannleikurinn í ljós og þeir féllust í faðma. Þá heyrðist rödd af himni sem sagði:

„Loksins! Hér mun ég reisa musteri mitt. Því þar sem bræður mætast í kærleika skal nærvera mín vera.“

Nærvera Guðs! Heilagur andi er nærvera Guðs sem birtist í verkum. Og hvernig er svo þessi nærvera Guðs? Hún er jú eins og í sögunni af bræðrunum tveimur. Og sú saga á sér rætur í hinni gyðing/kristnu hefð sem birtist til að mynda í þessum texta Jesaja frá því á 8. öld f.Kr., orð sem kirkjan hefur um aldir túlkað sem spádóm um komu Krists :

1Af stofni Ísaí mun kvistur fram spretta og sproti vaxa af rótum hans. 2Andi Drottins mun hvíla yfir honum: [. . .] Hann mun ekki dæma eftir því sem augu hans sjá og ekki skera úr málum eftir því sem eyru hans heyra. 4Með réttvísi mun hann dæma hina vanmáttugu og skera með réttlæti úr málum hinna fátæku í landinu. (Jes 11.1-4)

Fyrirmæli um lög og framkvæmd þeirra, um helgisiði, og síðast en ekki síst, um miskunnarverk, mynda flókinn vef sem eigi má rekja upp. Í texta Jesaja eru samofnir þrír þættir: Lög og reglur; trúarleg grunngildi ásamt helgisiðum; og svo elska í formi miskunnsemi. Þetta þrennt má ekki í sundur skilja. Að iðka miskunnsemin felur meðal annars í sér það að afneita, vegna þeirra sem þjást og minna mega sín, sínum eigin þörfum, og þar með hámörkun eigin hags og velsældar. Miskunnsemin er hluti laganna að skilningi Jesaja og hann reiðir sig á hana sem hluta hinnar almennu skyldu og þar með þjóðfélagsins alls, en ekki bara tilfinningu í brjósti einstaklinga sem sýna hana eftir hentugleikum. Miskunnsemin skal vera viðvarandi þáttur í öllu lífi samfélagsins.

Hinir eldri spámenn Gamla testamentisins gera það lýðum ljóst með skrifum sínum að þar sem miskunnina skortir gengisfellur um leið, bæði réttarfarið og hið trúalega líf í víðum skilningi. Þegar Ísrael hættir að hafa fingur á púlsi hinna fátæku og veikburða sín á meðal, fer hann að misnota hið trúarlega og snúa upp á réttinn. Slíkt leiðir til spillingar, hruns og að endingu eyðingar alls þjóðfélagsins. Hins vegar eykst því þjóðfélagi styrkur og máttur á öllum sviðum sem leyfir fátækum og framandi fólki, með aðstoð laganna um miskunnsemi, að fá hlutdeild í öllum gæðum samfélagsins.

Hinir andans fylltu leiðtogar Ísraels gættu þessara hluta fyrir áeggjan innblásinna spámanna. Heyrum til að mynda Ljóðið um hinn líðandi þjón sem Jesaja ritaði og kristnir menn skildu mörgum öldum síðar sem forspá um Krist:

1Sjá þjón minn sem ég styð, minn útvalda sem ég hef velþóknun á. Ég legg anda minn yfir hann, hann mun færa þjóðunum réttlæti. 2Hann kallar ekki og hrópar ekki og lætur ekki heyra rödd sína á strætunum. 3Brákaðan reyrinn brýtur hann ekki sundur og dapran hörkveik slekkur hann ekki. Í trúfesti kemur hann rétti á. (Jes 42.1-3)

Þessi leiðtogi fer óhefðbundnar leiðir til að ná markmiðum sínum. Hann hefur ekki hátt, að hætti margra stjórnmálamanna nútímans hér á landi og ytra, en iðkar réttlæti og miskunnsemi meðal hinna beygðu og veiku.

Í 61. kafla Jesaja er þriðja dæmið um heilagan anda sem vinnur réttlætis og miskunnarverk.

1Andi Drottins er yfir mér því að Drottinn hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, til að græða þá sem hafa sundurmarin hjörtu, boða föngum lausn og fjötruðum frelsi, 2til að boða náðarár Drottins (Jes 61.1-2a).

Já, náðarárið! Þá voru allar skuldir gefnar upp!

Og það var þessi texti sem Jesús las upp í samkunduhúsinu í Nasaret er hann hóf starf sitt og sagði textann hafa ræst á því augnabliki er hann mælti hann fram. Og fólkið sem heyrði varð undrandi því það þekkti strákinn hennar Maríu og hans Jósefs og varð í senn undrandi, glatt og reitt, því sumir í það minnst vildu hrekja hann fram af klettum fyrir það að setja sjálfan sig í þetta háleita samhengi sem texti Jesaja boðaði.

Miskunnsemin er ómissandi þáttur í stjórn og rekstri sérhvers samfélags. Og ekki bara miskunnsemi heldur líka önnur grunngildi. „Með lögum skal land byggja“, segir í okkar menningararfi. Þar er ekki bara vísað til ritaðra laga sem Alþingi setur heldur líka hinna siðlegu gilda sem trúin setur fram.

Mikið er rætt um efnahagsmál í fjölmiðlum þessa dagana og sýnist sitt hverjum. Ég vil þó leyfa mér að draga athygli ykkar að hógværum en ákveðnum og markvissum skrifum Ragnars Önundarsonar, sem titlar sig viðskiptafræðing, bankamann og fjármálaráðgjafa og birtist hafa í Morgunblaðinu á undanförnum árum og misserum. Ég gríp niður í grein sem hann ritaði í Morgunblaðið 4. maí s.l.:

„Við lánsfjárkreppuna hefur nú bæst olíukreppa á borð við þær sem við kynntumst 1973 og 1980. Kröpp efnahagslægð fer í hönd. Ekkert er séríslenskt við okkar aðstæður. Við höfum elt tískustrauma í hagstjórn eins og aðrir og bætt gráu ofan á svart. Hin 250 ára gamla hugmynd Adams Smith um hina ósýnilegu hönd hins frjálsa markaðar var gerð að þungamiðju í hagstjórn. Ófrávíkjanlegur áskilnaður gamla mannsins um að markaðir skuli vera í senn frjálsir og háðir góðu siðferði var ekki virtur. Þar liggur vandinn.“ (Ragnar Önundarson í Mbl 4.5.2008 Er frjálshyggjan að bregðast?)

Og hér talar Ragnar í anda spámanna Gamla testamentisins um að miskunnsemi og réttlæti, kærleikur og sannleikur, svo ég nefni nokkur inntaksefni siðferðisins, megi aldrei falla á brott þegar frelsi er nefnt á nafn, hvað þá iðkað.

Hegðun þjóðar hefur áhrif á kjör hennar. Sama gildir um einstaklinga. Hósea spámaður áminnti samtíð sína með eftirfarandi orðum:

Hlýðið á orð Drottins, Ísraelsmenn, því að Drottinn ákærir íbúa landsins þar sem í landinu er engin trúfesti, kærleikur né þekking á Guði. Meinsæri, svik, morð, þjófnaður og hórdómur breiðist út og blóðbað fylgir blóðbaði. Þess vegna skrælnar landið og allir íbúar þess visna ásamt dýrum merkurinnar og fuglum himinsins, meira að segja fiskum hafsins verður svipt burt. (Hós 4.1-4)

Af þessu má leiða þá hugsun að farsæld lands og þjóðar byggist á þremur hugtökum sem öll vísa til framkvæmdar en ekki hugsunar einnar: „þar sem í landinu er engin trúfesti [emet], kærleikur [hesed] né þekking á Guði [da at elohim].“

Og það er ekki aðeins tekist á um efnahagsmál í samtíðinni heldur líka trúmál. Trúmálin eru ekki síður ofarlega á baugi en efnahgasmál í máli í heimspressunni. Af hverju skyldi það nú vera? Getur verið að það sem hér hefur verið sett fram með tilvísunum í gyðing/kristna hugsun um samhengi hlutanna sé sannleikur, getur verið að þetta sé svo samofið, trú og efnahagur, trú og menning, trú og allt mannlegt líf, að vanræksla hinna trúarlegu gilda leiði okkur í algjörar ógöngur, ef ekki beina leið í faðm hins vonda, til ísaldar hans, þar sem hjörtun, sem eitt sinn voru heit og fundu til, eru drepin botnfrosinn í dróma og klakabönd?

Er heilagur andi á meðal okkar á Íslandi í dag? Er miskunnsemin ríkjandi, réttlætið í hávegum haft? Hefur þjóðþing okkar hin himnesku gildi sem ljós fóta sinna og lampa á vegum sínum? Hefur réttlætis verið gætt og gengi miskunnseminnar hækkað á liðnum árum? Fyrr í ræðunni sagði ég: Að iðka miskunnsemin felur meðal annars í sér það að afneita, vegna þeirra sem þjást og minna mega sín, sínum eigin þörfum, hámörkun eigin hags og velsældar. Sveif þessi hugsun yfir vötnum þegar alþingismenn afgreiddu frumvarp um eigin eftirlaunakjör með sérsniðnum sérhagsmunaklásúlum? Var réttlætið og miskunnsemin þar að verki? Stendur þingið undir því nafni að kallast þjóðþing eða hefur það sjálft verðskuldað að skipt verði um einn staf og eff sett í stað fyrir eð? Á þinginu og í forystu þjóðarinnar er gott fólk með gott hjartalag. Takið eftir því. En stundum villast menn og missa sjónar á hinu rétta. Og gætum þess sjálf að villast ekki, því öll erum við breyskar manneskjur, en breyskar manneskjur eiga von. Vonin er í iðruninni, í því að snúa á hverri tíð frá villu síns vegar, ganga í sig og leiðrétta hið ranga.

Hvað verður um þjóð sem gleymir hinum trúarlegu gildum og gleymir samstöðu allra, ríkra og fátækra? Hún ferst samkvæmt orðum hinnar helgu bókar og lögmáls elskunnar svo mótsagnarkennt sem það nú annars hljómar. Maðurinn kallar nefnilega sjálfur yfir sig dóm með verkum sínum og er þannig smiður bæði sinnar gæfu og ógæfu. En hann lifir fyrir miskunn, náð og fyrirgefningu Guðs, sem sýknar hann á grundvelli iðrunar hans og elsku frelsarans, Jesú Krists.

Er heilagur andi sýnilegur í þessu þjóðfélagi? Já, sem betur fer má víða greina sporin hans og handarför. En við skulum samt ekki gleyma okkur í einhverri sjálfsréttlætingu og verða blind og meðvirk á þann hátt að við hættum að sjá óréttinn og miskunnarleysið, kæruleysið og skeytingarleysið.

Við þörfnumst réttlætis, túar og miskunnar til þess að þjóðfélag okkar þrífist. Þessir þrír þættir mynda það reipi, einingarband, sem við getum öll lagt hönd á og haldið í hvort sem við erum veik eða sterk. Við erum kannski sterk núna, en sú stund kemur, að við kunnum að þurfa á mikilli hjálp og stuðningi að halda. Þá skulum við vona að andi hins lifanda Guðs verði ríkjandi í þjóðfélaginu, andi miskunnar, réttlætis og kærleika.

Jesús sagði: „Sá sem elskar mig varðveitir mitt orð og faðir minn mun elska hann. Til hans munum við koma og gera okkur bústað hjá honum.“

Sagan um bræðurna tvo er gróðurangi af þessum orðum Jesú. Þar sem fólk lifir saman í kærleika og auðsýnir miskunn þar er Guð, þar er musteri hans og nærvera, þar er heilagur andi.

Gleðilega hátíð nærveru Guðs!

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.