Skýrðu mér frá vegum þínum

Skýrðu mér frá vegum þínum

Kristur átti ekki bara svör á reiðum höndum. Nei, Kristur spurði.

Nú á dögunum kom saman góður hópur fólks og ræddi gagn og nauðsynjar þessarar sóknar. Fundurinn var góður. Miklar og líflegar umræður urðu og snörp gagnrýni var borin fram á það hvernig ýmsum störfum hér er háttað.

Rýnt og skimað

Þetta var réttnefnd gagnrýni eins og orðið ber með sér. Bæði rýndi fólk og skimaði, kafaði ofan í einstaka þætti eða horfði yfir sviðið. Enginn vafi er á því að af þessu mun hljótast gagn eins og alltaf er þegar vel þenkjandi fólk ræðir skoðanir sínar og sjónarmið.

Svona gagnlegir rýnifundir eru ómissandi þáttur í starfi kirkju sem vill ekki staðna eða festast í gömlum förum. Nú að lokinni messu verður svo efnt til samkomu sem á enn merkilegri tilgang. Haldinn verður aðalsafnaðarfundur þar sem fólk býður sig fram til þjónustu þessa safnaðar sem á sinnir svo mikilvægu verkefni. Er nokkurt viðfangsefni stærra en að leiða samfélag til þroska á Guðs ríkis braut?

Línudans

Verkefni okkar er brýnt og þjónustan mikilvæg. Við getum líka slegið því föstu að störfin sem sjálfboðaliðar og launaðir þjónar þessa safnaðar vinna eru vandmeðfarinn línudans. Ekki er sjálfgefið að vel takist til með að færa fornan texta inn í nútímabúning. Leið þarf saman kröfur samtímans sem eru oft óútreiknanlegar, ófyrirséðar og duttlungafullar. Og svo hið óbreytanlega, stöðuga og sterka sem okkur er ætlað að miðla áfram.

Það er fagnaðarerindið, sögurnar sem eru í meginefnum þær sömu hvort heldur þær eru lesnar á fyrstu öld eða þeirri tuttugustu og fyrstu. Já, boðskapinn höfum við þegið frá postulum Krists sem sögðu frá og deildu þeim fjársjóði sem Jesús hafði gefið þeim með verkum sínum og orðum. Allt var það svo skráð niður og geymt í guðspjöllunum fjórum.

Fá samfélög hafa viðlíka slíkt verkefni og þetta hér, sem er að flytja samtíma sínum hinn sígilda boðskap. Við tölum stundum um að sögurnar okkar séu tvö þúsund ára gamlar en það á bara við þær sem yngstar eru. Í bakgrunni þeirra eru enn eldri frásagnir.

Skýrðu mér frá vegum þínum

Hér áðan lásu messuþjónar söguna af hinum fyrsta leiðtoga sem greint er frá í heilagri ritningu, sjálfum Móse. Ræða Móse við Drottin talar til okkar nú þegar söfnuður þessi heldur sinn mikilvægasta fund. Hún gæti verið yfirskrift þeirrar vinnu sem er unnin, í hvert skiptið sem leiðtogar safnast hér saman til hugarsmíðar og gagnlegrar rýni. Ákallið er um leið spurningin sem við berum upp enn í dag þótt árþúsundin séu fremur þrjú en tvö frá því hann átti sitt eintal við Drottin:

... skýrðu mér þá frá vegum þínum svo að ég megi þekkja þig og hljóta náð fyrir augum þínum.

Hverjir eru þessir vegir sem kirkjan á að feta? Hinn forni leiðtogi spurði þar sem hann stóð mitt í eyðimörkinni, í vegleysum þeim sem hann leiddi þjóðina út í – á leið til hins fyrirheitna lands.

Er það ekki hlutskipti okkar og viðfangsefni sem störfum í kirkjunni á öllum tímum?

Skýrðu mér frá vegum þínum – hrópaði hinn forni forystusauður til Guðs á sinni eyðimerkurgöngu. Þessi bæn berst úr öllum áttum í kristinni kirkju á okkar dögum einnig og þar er þessi söfnuður síst undanskilinn. Gæfa okkar og blessun er hins vegar sú að við höfum boðskap Jesú frá Nazaret. Hann birtir okkur vilja Guðs og sýnir okkur vegi hans svo að við getum í sífellu leitað endurnæringar, leiðsagnar og styrks á þeim vettvangi.

Já, hann sýnir okkur ekki aðeins veginn, hann veitir okkur vegar-nesti sem við sækjum í þar sem við leitumst eftir því að veita sjálf leiðsögn og vera leiðarljós þeim mörgu sem okkur er ætlað að efla og vísa áfram í lífinu.

Miskunnarbænin

Guðspjall þessa sunnudags sem er annar sunnudagur í föstunni er sannarlega til leiðsagnar á þeirri vegferð. Kristur er á ferð, rétt eins og kirkjan hans. Hann fer frá einum stað til annars, að þessu liggur leiðin frá Jeríkó og til Jerúsalem. Með honum í för eru lærisveinarnir.

Ferðin á sér ákveðin fyrirheit en eins og svo oft þá grípa aðstæðurnar inn í og þar situr við veginn blindur beiningamaður sem hrópar til hans þau orð sem við síðan endurtökum í hverri guðsþjónustu þar sem við biðjum Guð um að miskunna okkur.

Söfnuður á för

Í knappri frásögn verður sagan eins og áætlunargerð safnaðar í hnotskurn. Já, leiðin liggur á ákveðinn stað og hópurinn er samstíga. Margir fylgjast með úr fjarlægð og leggja leið sína til þess að sjá og heyra hvað er á seyði. Svo gerist eitthvað sem veldur því að áætlunin breytist. Mörgum þykir það eiga illa við. Hvað er þessi blindi beiningamaður að trufla herrann, spyrja menn og fólkið hastar á hann.

Af hverju þessi viðbrögð? Ef til vill vegna þess að mannfjöldinn hafði aðra hugmynd um forystu og vald en Kristur sjálfur gerði. Vart væri þessi vesæli maður þess verður að vera sá fyrsti sem Kristur gæfi sig að. Var þetta ekki óþarfa rask á áætlaðri dagskrá? hvaða erindi átti þessi auðnuleysingi við sjálfan meistarann?

Bænir hins blinda þögnuðu ekki. Kristur kallaði hann til sín og áður en hann færði honum sjónina þá spurði hann hvað hann vildi að hann gerði fyrir sig.

„Sýndu mér veginn!“, hrópaði Móse til Drottins. „Sonur Davíðs, Jesús, miskunna þú mér!“ kallaði hinn blindi til Jesú. Við hér í Keflavíkurkirkju gerum ákall þeirra að okkar nú þegar við komum hér saman á vegferð okkar, sem er bæði greið og torsótt eftir því hvernig á hana er litið. Við erum knúin áfram af þeirri skipan sem Jesús flutti lærisveinum sínum er hann bar þeim sína hinstu kveðju: „Farið og gjörið allar þjóðir að lærisveinum!“

Störf okkar hér í kirkjunni eiga öll að miða að því marki. En þar þurfum við að stíga vandmeðfarinn línudans. Freistandi er að dvelja í því liðna, ríghalda í það sem gamalt er og við teljum vera upprunalegt. En svo fárast fólk yfir skilningsleysi og áhugaleysi fólksins þegar orð og verk falla í grýtta jörð. Þótt boðskapurinn sé eilífur og sígildur þarf að laga hann að breyttum aðstæðum.

Fortíð og samtíð

Kristur gerð hlé á för sinni þegar svo bar undir eins og við lesum um í guðspjalli dagsins. Hann æddi ekki beint af augum inn í borgina, eins og til hafði staðið, heldur gaf hann gaum að þeim þörfum sem umhverfið kallaði á og sinnti þeim.

Að sama skapi er freistandi að hverfa inn í samtímann, gleyma okkar upphaflegu köllun og tilgangi og laga okkur algjörlega að því umhverfi sem við störfum í. En hvað stendur þá eftir? Hvað blasir þá við þeim sem leita tilgangs og eilífra sanninda ef við klæðumst þeim felulitum sem gera okkur ósýnileg í umhverfi okkar?

Söfnuðurinn okkar má hvorki staðna í hinu liðna, dvelja eins og hinn markráði og lati í fortíð sem ekki verður breytt né unnið með. Þá glatast öll tenging við umhverfið. Og hann má heldur ekki týnast í litrófi hvers tíma því þá hefur hann ekkert fram að færa.

Skilningsleysið og gagnsleysið eru afleiðingar þess þegar við missum fótanna og endum í þeim öfgum sem standa sitt hvoru megin hins ásættanlega jafnvægis.

Þegar við leggjum eyrun við því sem umhverfið kallar á en mætum óskum þess með því sem við höfum fram að færa þá uppfyllum við tilgang okkar og skyldu.

Kristur átti ekki bara svör á reiðum höndum. Nei, Kristur spurði. Hann var ekki yfir það hafinn að setja sig niður á það svið sem hinn blindi maður sjálfur var á og spyrja hann að því hvað hann ætti að gera. Hvað á ég að gera fyrir þig? var það fyrsta sem hann sagði við manninn sem hrópaði til hans. Hversu dýrmæt er sú fyrirmynd okkur sem störfum í kirkjunni?

Nú komum við saman. Við eigum að vita hvert vegferð okkar liggur. Við höfum aðgang að kærleiksríkum boðskap sem minnir okkur á það að orð okkar ein og sér nægja ekki heldur þurfum við að bæta líðan fólks og rétt hlut þeirra sem eru í vanda staddir. Við höfum svo merkilegt hlutverk og þegar fjölbreyttir kraftar þeirra sem rækja það fyrir hönd þessa safnaðar leggjast á eitt þá verða kraftaverkin að veruleika.

Þetta skulum við hugleiða nú á þessum merkilegu og mikilvægu tímum okkar. Guð blessi þennan söfnuð og samfélagið allt. Amen.