Strákarnir okkar

Strákarnir okkar

Að tilheyra einhverjum eða einhverju er manneskjunni mikilvægt. Það er manneskjunni mikilvægt félagslega og andlega. Að tilheyra engu eða engum er nær ómögulegt ef horft er út frá því að við verðum ekki til og lifum ekki í tómarúmi. Við fæðumst inn í þennan heim og þar af leiðandi tilheyrum við þeim sem fæðir okkur og klæðir og elur önn fyrir okkur.

Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes, bróður hans og fer með þá upp á hátt fjall, að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra, ásjóna hans skein sem sól, og klæði hans urðu björt eins og ljós. Og Móse og Elía birtust þeim, og voru þeir á tali við hann. Pétur tók til máls og sagði við Jesú: Herra, gott er, að vér erum hér. Ef þú vilt, skal ég gjöra hér þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.

Meðan hann var enn að tala, skyggði yfir þá bjart ský, og rödd úr skýinu sagði: Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!

Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta, féllu þeir fram á ásjónur sínar og hræddust mjög. Jesús gekk til þeirra, snart þá og mælti: Rísið upp, og óttist ekki. En er þeir hófu upp augu sín, sáu þeir engan nema Jesú einan.

Á leiðinni ofan fjallið bauð Jesús þeim og mælti: Segið engum frá sýninni, fyrr en Mannssonurinn er risinn upp frá dauðum. Matt.17.1-9

Setið á bekknum

Að tilheyra einhverjum eða einhverju er manneskjunni mikilvægt. Það er manneskjunni mikilvægt félagslega og andlega. Að tilheyra engu eða engum er nær ómögulegt ef horft er út frá því að við verðum ekki til og lifum ekki í tómarúmi. Við fæðumst inn í þennan heim og þar af leiðandi tilheyrum við þeim sem fæðir okkur og klæðir og elur önn fyrir okkur. Seinna þróast það í það að við tilheyrum eða réttara er að segja að við verðum hluti af enn stærri heild sem er samfélag fjölskyldu, skóla, vinnustaður og ef við stækkum hringinn getum við tekið inn þjóðernið og klasa af þjóðum. Við erum evrópumenn ekki ameríku eða asíu menn eða þriðja heims fólk. Við tilheyrum ákveðnum kynþætti. Við erum jarðlingar og við hvort sem okkur líkar betur eða ver tilheyrum við þeim hópi. Þ-l. ættum við ekki segja að við séum evrópumenn frekar en eitthvað annað. Við getum líka sagt að við erum kristnir en ekki eitthvað annað á meðan aðrir í samfélagi okkar segjast ekki vera kristnir heldur einhverrar annarar trúar eða alls ekki trúuð. Innan samfélags lifa margir smærri hópar sem tilheyra hverju öðru. Hafa svipaðar lífsskoðanir. Mikilvægt er samt að hafa í huga að hvaða hópi sem hver og einn tilheyrir þá tilheyrum við samfélagi þar sem tilbúnar eru leikreglur til að fara eftir.

Það er hverju og einum mikilvægt að tilheyra hóp til að spegla sig í og samsama sig við. Hópsálin er sterk, aldrei er hún sterkari en á unglingsárunum þar sem það er allt að því lífsnauðsynlegt að tilheyra rétta hópnum eða liðinu. Smátt og smátt rjátlast þetta af okkur og við leitum meira innávið í leit af sjálfinu, en losnum aldrei við viðmiðunarhópin sem auðvitað breytist með árunum. Alltaf skal það vera svo að við mátum okkur við einhvernskonar nærhóp. Að finna fyrir nálægð og styrk sem við könnumst við eða viljum tilheyra er okkur nauðsynlegt frá vöggu til grafar. Þaðan fáum við sjálfsmyndina. Við viljum hvort heldur við viðurkennum það eða ekki – við viljum vera í sigurliðinu að vera hluti af liðinu. Ef ekki líður okkur ílla. Nú kann einhver sem á hlýðir halda að ég sé að tala um “strákana okkar” í handboltanum í Sviss sem hafa gert það gott þannig að allir vilja tengja sig við þann árangur og allt gott um það að segja, en ég er ekki sérstaklega að tala um þá.

Ég viðurkenni fúslega að ég vill kannast við það að vera hluti af samfélagi sem elur af sér einstaklinga sem þessa dagana skara fram úr í íþrótt sinni og þjóðarstoltið nálgaðist sótthita. Hvert sem litið er í nærsamfélaginu má sjá að það sama er að gerast með aðra. Sótthiti spennu hríslast um líkama og sálu og sófabríkur betri stofa í samfélaginu finna fyrir álaginu sem fylgir því að vera á hliðarlínunni að sitja á bekknum. Er ekki þá betra að vera hluti af liðinu? Að vera í liðinu? Að vera inná vellinum þar sem hlutirnir eru að gerast. Þurfa ekki standa hjá og hafa í raun ekkert til málana að leggja annað en það að vona það besta. Nei, ég er ekki að tala um strákana okkar í Sviss. Ég er að tala um lífið í sinni margbreytilegu myndum. Líf þar sem sigrar og ósigrar koma og fara og við höldum áfram að mæta ósigrum og fagna sigrum sem hluti af stærri liðsheild.

Útvaldir vinir

Það er gott og það er þægilegt að vera í liðinu sem samsinnir manni og hefur svipaðar skoðanir og maður sjálfur. En það gildir um þetta eins og annað að það þarf ekki að fara saman – það sem er gott er ekki endilega hollt. Reyndar á það við um svo margt í lífinu að það er allt að því ósanngjarnt. Það verður að viðurkennast að við sækjum í samfélag eða inní hóp ómeðvitað og eða meðvitað eða eins og máltækið segir- “Sækja sér um líkir” og þar viljum við vera vegna þess að á einhvern óskiljanlegan hátt uppfyllir sú vera það tómarúm sem við finnum okkur stundum í að vera. Hvað er ég og hver er ég í nærsamfélagi manna. Þetta tómarúm er ótti um að vera ekkert, að ekkert liggi eftir. Vera einskis nýtur að fá ekki áheyrn ekki hlustað á.

Í nærsamfélagi heimilisins opinberum við okkar innri manneskju. Hver við erum og það gerum við óhikað innan ramma ákveðins hóps í trausti að vel verði tekið á móti og hugsun og gjörðir ekki dæmdar út frá “annarlegum” sjónarmiðum. M.ö.o. að við getum óhikað opinberað veikleika okkar og styrk án þess að fyrirverða okkur fyrir það. Þessi inngróna eigind manneskjurnar kemur furðulega fljótt fram á lífsskeiðinu. Að vera ofan á og að vera valin af einhverjum þeim sem við horfum upp til og viljum helst af öllu líkjast. Þessi eigind dofnar með árunum en lifir samt í huga og hjarta á meðan hann starfar og hjartað slær.

Ætla má að hjartað hafi slegið fast í brjósti þeirra félaga Péturs, Jakobs og Jóhannesar þegar þeir voru valdir til að fara upp á hátt fjall (eins og segir í ritningunni) með meistara sínum til að vera einir saman. Það var fátt meira skemmtilegra í æsku þegar einhver treysti manni fyrir leyndarmáli – það var reyndar sjaldgæft að svo væri en þegar það gerðist var það stórkostlegt. Maður fann fyrir óumræðanlegri mikilvægleika og sjálfstraustið löðraði af mér. Það var heilt fjall á milli sjálfstraust og þessa að vera niðurbrotin að vera valin síðastur í fótboltaleik-það var kallað – þeir betu á móti “rusli”. Eða “rest” og það tók því varla að vera nefna þá á nafn sem þann hóp skipuðu. Skyldi þeim hafa verið eins innanbrjóst félögunum sem áður eru nefndir á fjallinu? Þeir valdir fram yfir hina lærisveinana. Hver veit? Þ.e.a.s. uppveðraðir yfir þvi að vera valdir en ekki félagar þeirra og vinir. Eitt er vitað að þeir höfðu ekki hugmynd um hvað biði þeirra þarna á fjallinu og örugglega ekki haft hugmyndaflug til að sjá það fyrir.

Jesús ummyndast frammi fyrir ásjónu þeirra og þeirra viðbrögð eru viðbrögð manneskja sem sjá með eigin augum dýrð Guðs. Og hver eru þau viðbrögð? Auðvitað að dveljast í þeirri sýn sem augu þeirra námu. Slá upp tjaldbúð til að dveljast sem lengst við það að vera treyst fyrir því sem engin hafði séð. Fúlt hefur það verið að heyra að þeir máttu engum segja frá-ekki strax. Þannig leyndarmálum lak ég í æsku eins og gatasigti. Þeim sem í barnaskap treystu mér fyrir sínum innstu ástar og búksorgum.

Hversu mjög sem þeir hefðu viljað dveljast þarna á fjallstindinum urðu þeir að snúa við aftur til veruleikans hversu erfið raunveran niðri á sléttunni var.

Samviska

Þeir félagar voru kallaðir til að upplifa umyndun Krists. Við erum kölluð hvert og eitt okkar sem erum hérna megi krossins stöndum, að segja frá. Það er löngu búið að aflétta trúnaðinum það gerðist með upprisu Krists.

En eftir stendur hverju við getum sagt frá? Það er eitthvað sem hvert og eitt okkar glímir við samkvæmt eigin samvisku. Samviska okkar er ekki aðeins okkar heldur og varðar þá sem standa okkur nærri í nærsamfélaginu og þeirra sem standa þar fyrir utan. Eigum við að þegja eða eigum við að hefja upp raust okkar í krafti fullvissunar um að við erum að gera rétt. Þeir komu niður af fjallinu og við vitum hvað varð. Við vitum ekki hvað verður en í trausti að vel verði fyrir séð horfum við fram á vegin hérna megin við krossinn.

Á þeirri göngu verðum við að hlusta, og ræða málin ekki aðeins við þá sem við samsömum okkur við heldur og þær manneskjur sem við teljum okkur ekki endilega eiga samleið með hvað varðar trú og annað það sem gæti skilið okkur að. Það er einusinni svo að mennskan er það sem sameinar manneskjuna-þannig getum við aldrei sagt okkur frá náunganum.

Það er gott og það er nauðsynlegt að tilheyra einhverjum. Að geta samsamað sig í samfélaginu. Einhver/einhverjir eiga auðvelt með það á meðan að annar/önnur eiga erfiðara með það þannig er það og þannig mun það verða. Hverju og einu okkar eru gefnir hæfileikar. Hæfileikar til þess að takast á við og vinna úr ýmsum þeim aðstæðum sem við kunnum að standa frammi fyrir. Á mismunandi hátt leysum við úr eða nálgumst viðfangsefni okkar daglega lífs allt eftir hæfileikum þeim sem okkur eru gefnir af þeim sem gefur. Við könnumst við í okkur sjálfum og eða segjum um einhverja aðra manneskju að hann eða hún hafi þennan eða hinn hæfileikann.

Var það tilviljun að Jesú bauð þeim félögum sem áður eru nefndir upp á fjallið með sér og verða vitni að því sem þeir sáu? Ég efast um það. En hann var ekki á sama tíma að segja að þeir sem ekki voru boðaðir á þennan “fund” hafi verið eitthvað minni í hans augum-alls ekki. En hvað höfðu þeir framyfir þá sem eftir voru. Ekkert! Þeir höfðu ekkert annað en mennsku sína. Þrár og væntingar sem hvert okkar ber. Viðbrögð þeirra eru svo mannleg að vilja dvelja við og eiga með þeim sem þarna voru. Eins og við skulum bara halda þessu fyrir okkur. Við skulum ekkert vera að blanda hinum í þetta. Barnalegt skyldi einhver hugsa. Auðvitað er það svo. Þessi viðbrögð þeirra félaga eru barnaleg. En þetta er alltaf að gerast. Þetta er að gerast núna í okkar lífi. Við sjáum dýrð Guðs í svo mörgu en skildum við tala um það. Ekki endilega og ef svo er afhverju ekki? Hluti af skýringunni gæti verið sú að við gerum okkur ekki grein fyrir því að sýrð guðs blasir við okkur á stundum. Þegar það ljós rennur upp fyrir ásjónu okkar þorum við ekki segja frá því.